03.02.1970
Neðri deild: 53. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (2226)

Þinghlé

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar þdm. þakka hæstv. forseta fyrir hlý orð í okkar garð. Ég vil nota þetta tækifæri, þar sem nú liggur fyrir, að hann hverfi af þingi til þess að taka við nýju starfi, og þakka honum sérstaklega fyrir samstarfið við okkur þm. á undanförnum árum.

Hæstv. forseti hefur setið á Alþ. á 30 þingum, og hann hefur því haft samstarf við marga þm. um langan tíma. Ég þakka honum samstarfið við mig og okkur þm. almennt á þessu tímabili. Hann hefur verið forseti Nd. Alþingis á 14 þingum. Hefur skiljanlega oft reynt á forsetahæfileika hans á þessum tíma. Hann hefur þurft að glíma við þann mikla vanda að halda trúnað sinn við þm. og gæta hagsmuna þeirra, en hafa þó eðlilegt samstarf við ríkisstj. á hverjum tíma. Hæstv. forseti hefur fengið viðurkenningu jafnt af hálfu stjórnmálaandstæðinga sinna sem samherja um það, að hann hafi verið góður forseti. Hann hefur verið sérstaklega röggsamur fundarstjórnandi og réttsýnn í úrskurðum sínum.

Ég þakka hæstv. forseta fyrir samstarfið við okkur þm. á undanförnum árum. Ég árna honum heilla í því starfi, sem hann nú tekur við, og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á komandi árum. Ég bið hv. þm. að taka undir ummæli mín til hæstv. forseta með því að rísa úr sætum. — [Dm. risu úr sætum.]