19.12.1969
Efri deild: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í C-deild Alþingistíðinda. (2244)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er samið af n., sem ríkisstj. ákvað í febrúar 1967 að viðskmrn. skyldi skipa til að semja drög að nýrri löggjöf um eftirlit með einokun, hringamyndun og verðlagi. N. lauk störfum um mánaðamótin október–nóvember s. l., og skilaði þá ýtarlegu áliti, sem prentað er sem fskj. með lagafrv. Í áliti n. er gerð grein fyrir því, hvernig n. var skipuð og hvernig hún hagaði störfum sínum jafnframt því, hvernig skoðanir skiptust í n. Að tilhlutan viðskmrn. var þess farið á leit við dönsk stjórnarvöld, að hingað fengist sérfræðingur á sviði eftirlits með verðlagi, einokun og hringamyndun til að vera n. til ráðuneytis. Urðu dönsk stjórnarvöld við þessari málaleitan, og starfaði Adolf Sonne, skrifstofustjóri í einokunareftirliti danska ríkisins, um skeið með n. Í nál., sem er prentað með frv., er gerð svo ýtarleg grein fyrir efni frv. og málavöxtum öllum í sambandi við það, að ég get hér látið mér nægja að undirstrika nokkur meginatriði í þessu sambandi.

Frv. greinist í tvo þætti. Annars vegar er um að ræða ákvörðun um heimild til handa verðgæzluráði til þess að ákveða hámarksverð og/eða hámarksálagningu, til þess að kveða á um, hvernig verðútreikningar skuli gerðir, til þess að mæla fyrir um verðstöðvun á vissum sviðum í allt að 6 mánuði í senn og til að setja reglur um flokkun um söludreifingu og þess háttar á vörum eftir því, sem nauðsynlegt þykir vegna ákvörðunar verðs og álagningar. Gert er ráð fyrir því, að til slíkra ráðstafana sé því aðeins gripið, að samkeppni sé takmörkuð eða ekki nægilega virk til þess að tryggja sanngjarnt verðlag eða þegar horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og hringamyndunum.

Verðgæzluráð, sem koma á í stað núv. verðlagsnefndar, skal skipuð 9 mönnum. Viðskmrh. skipar formann ráðsins, en Hæstiréttur 2 menn. Enn fremur skipar viðskmrh. sex menn, þrjá eftir sameiginlegri tilnefningu Félags íslenzkra iðnrekenda, Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráðs Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands, og þrjá eftir tilnefningu Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Kvenfélagasambands Íslands. Þeir tveir menn, sem Hæstiréttur skipar, skulu vera óháðir atvinnufyrirtækjum og samtökum þeirra, hafa þekkingu á atvinnu- og viðskiptamálum og kunnáttu í lögfræði og hagfræði. Gert er ráð fyrir starfrækslu verðgæzluskrifstofu, sem annist dagleg störf verðgæzluráðs, og sé henni stjórnað af verðgæzlustjóra, sem viðskmrh. skipar.

Þær heimildir, sem verðgæzluráði eru fengnar í þeim hluta frv., sem um verðákvarðanir fjallar, eru hliðstæðar þeim, sem veittar eru verðlagsnefnd í gildandi verðlagslögum. Þó er þess að geta, að í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því, að heimildum til beinna verðákvarðana sé beitt, nema þegar samkeppni er takmörkuð eða ekki nægilega virk til þess að tryggja sanngjarnt verðlag eða þegar horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar. Hins vegar er hitt aðalatriði frv., ákvæði þess um samkeppnishömlur, algert nýmæli í íslenzkri löggjöf. Í frv. er verðgæzluskrifstofunni gert skylt að hafa eftirlit með einokunarfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum, sem eru mikils ráðandi á markaðinum, og ákvörðunum, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Með þetta eftirlit eiga að fara þrír menn í verðgæzluráði, formaðurinn og þeir tveir fulltrúar, sem skipaðir eru af Hæstarétti. Þessir þremenningar geta krafizt þess, að til verðgæzluskrifstofunnar sé tilkynnt um einokunarfyrirtæki, markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Skal í tilkynningunni greina, hverjir séu eigendur fyrirtækisins, hvaða vörur eða þjónustu fyrirtækið framleiðir eða selur, svo og verðákvarðanir fyrirtækisins, viðskiptaskilmála og ákvarðanir um samkeppnishömlur. Einnig skal tilkynna verðgæzluskrifstofunni, ef þremenningarnir krefjast þess, alla samninga og samþykktir um samkeppnishömlur, er varða verð, framleiðslu, sölu eða flutninga á öllu landinu og í einstökum landshlutum. Í tilkynningunni skal greina samninginn eða samþykktina orðrétt, nöfn og heimilisföng á þeim fyrirtækjum, sem samningurinn eða samþykktin nær til, svo og verðafslátt af viðskiptaskilmálum um samkeppnishömlur, sem ákveðið er í samningnum eða samþykktinni.

Í frv. eru einnig ákvæði um, að samningar og samþykktir, sem séu tilkynningarskyldar, en hafa ekki verið tilkynntar, séu ógildar og njóti ekki verndar fyrir dómstólum. Þremenningarnir geta ákveðið, að verð og álagning, sem ákveðin hafa verið af einokunarfyrirtækjum eða markaðsráðandi fyrirtækjum eða með samningum eða samþykktum, megi ekki hækka án leyfis verðgæzluráðsins. Í frv. er kveðið svo á, að samkeppnishömlur teljist skaðlegar, þegar þær hafa ósanngjörn áhrif á verðmyndun og atvinnustarfsemi frá þjóðhagslegu sjónarmiði eða koma í veg fyrir beztu hagnýtingu í framleiðslu, vörudreifingu og þjónustu. Skaðleg áhrif geta verið fólgin í ósanngjörnu verði, álagningu eða viðskiptaskilmálum, ósanngjarnri takmörkun á frelsi til atvinnurekstrar eða ósanngjörnum mismun á viðskiptakjörum. Skýr ákvæði eru um, að óheimilt sé að ákveða, samþykkja eða semja um ófrávíkjanlegt lágmarksverð eða álagningu, er gilda skuli við endursölu á næsta sölustað. Þá eru í frv. skýlaus ákvæði um, að þremenningarnir geti skyldað fyrirtæki til að selja nánar tilgreinda vöru eða þjónustu til annars fyrirtækis, ef synjun um sölu telst skaðleg fyrir samkeppnishætti. Sala gegn óvenjulegum skilmálum jafngildir sölusynjun. Slík ákvæði hefur skort í gildandi lög og hefur það haft óheppileg áhrif.

Ákvæði þessa frv. til l. um verðgæzlu og samkeppnishömlur eru sniðin eftir hliðstæðri löggjöf á Norðurlöndum og þá fyrst og fremst í Danmörku. Á árunum eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk var svo að segja hvarvetna í nálægum löndum að því stefnt að afnema þau beinu verðlagsákvæði, sem víðast hvar höfðu verið sett á styrjaldarárunum, samtíða því sem afnumin voru höft á viðskiptum og frjálsræði aukið í utanríkisverzlun og gjaldeyrisviðskiptum. Afnám haftanna var ekki hafið hér fyrr en í byrjun þess áratugs, sem nú er líða. Nú eru þau hins vegar horfin að mestu. Ísland er aftur á móti eina landið, sem haldið hefur beinu verðlagseftirliti í því formi, að opinber n. ákveður hámarks- eða lágmarksverð á flestum vörum, sem á markaði eru. Frá þessu fyrirkomulagi hefur yfirleitt verið horfið í nálægum löndum og megináherzla lögð á það af opinberri hálfu að tryggja sem frjálsasta samkeppni og koma í veg fyrir hvers konar samkeppnishömlur. Ákvæði um slíkt hafa aldrei verið í gildi hér á landi. Hér er því við ýmsa erfiðleika að etja í þessum efnum, auk þess sem íslenzki markaðurinn er óvenju smár og þröngur, svo að auðveldara kann að reynast að koma við samkeppnishömlum, þótt smæð markaðarins og fámennið geri á hinn bóginn auðveldara að komast að slíku og hafa eftirlit með því. Með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum, sem fyrir hendi eru hér á landi, hefur meiri hl. n., sem þetta frv. hefur samið, reynzt þeirrar skoðunar, að rétt sé, að opinber aðili, verðgæzluráð, hafi áfram allar sömu heimildir og nú eru í gildi til ákvörðunar á hámarksverði og hámarksálagningu og til verðstöðvunar á vissum sviðum í vissan tíma, ef samkeppni reynist takmörkuð.

Hins vegar er það skoðun meiri hl., að stefna eigi að því, að engin takmörkun sé á samkeppni, og eigi þá smám saman að afnema þessar reglur, sem nú gilda um hámarksverð og/eða hámarksálagningu, en slíkar reglur gilda yfirleitt ekki í nálægum löndum.

Ljóst er, að þar eð engin reynsla er hér varðandi eftirlit með samkeppni, einokunarfyrirtækjum og hringamyndun, þá þarf nokkurn tíma til þess að koma þessari nýskipan á. Í n. voru skoðanir skiptar um það, hversu langur þessi undirbúningstími þyrfti að vera. Í frv. segir, að l. öðlist gildi einu ári eftir, að þau eru staðfest, og falla þá gildandi lög um hliðstæð efni úr gildi. Allir nm. voru sammála um, að nokkurn tíma þyrfti til þess að undirbúa framkvæmd þessa lagabálks, einkum að því er varðaði ákvæðin um samkeppnishömlur. Töldu sumir, að l. gætu tekið gildi 6 mánuðum eftir, að þau hlytu staðfestingu — aðrir, að rétt væri, að þau tækju gildi einu ári eftir staðfestingu og enn aðrir, að þau tækju gildi tveimur árum eftir að hafa hlotið samþykki, enda væri þá fullnægt ákveðnum skilyrðum um væntanlega framkvæmd laganna. Ef þetta lagafrv. verður samþ., fælist fyrst um sinn í því fyrst og fremst stefnuyfirlýsing um það, hvernig háttað skuli opinberu eftirliti með verðlagi hér á landi og hvernig reynt skuli að tryggja sem lægst vöruverð með heilbrigðri samkeppni. Valdssvið núverandi verðlagsnefnda helzt óbreytt í eitt ár frá samþykkt frv. eða frá gildistöku laganna. Sá tími yrði notaður til þess að undirbúa nýtt eftirlit með samkeppnishömlum. Þegar l. tækju gildi eftir 1 ár, yrðu engar sjálfkrafa breytingar á þeim verðlagsákvæðum, sem þá giltu. Hins vegar hefði hið nýja verðgæzluráð þá heimild til að gera hverja þá breytingu á gildandi verðlagsákvæðum, sem því sýndist. Í grundvallaratriðum er ekki gerð breyting á skipan verðgæzluráðs frá því, sem nú gildir um skipan verðlagsnefndar. Í henni eiga sæti 7 menn, 3 fulltrúar neytenda og 3 fulltrúar framleiðenda og seljenda auk ráðuneytisstjórans í viðskmrn., sem er hlutlaus oddamaður. Í verðgæzluráði munu eiga sæti 9 menn, 3 fulltrúar neytenda, 3 fulltrúar framleiðenda og seljenda og 3 hlutlausir aðilar, 2 tilnefndir af Hæstarétti og einn af viðskmrh. Sams konar jafnvægi mundi því haldast milli fulltrúa neytenda annars vegar og fulltrúa seljenda og framleiðenda hins vegar og nú á sér stað í verðlagsnefnd og almennt samkomulag varð um á síðasta þingi. En gildandi lagaákvæði um skipun verðlagsnefndar voru samþ. shlj. á Alþ. Ef verðgæzluráð telur, að reglur þær, sem settar yrðu, til að koma í veg fyrir samkeppnishömlur og tryggja heilbrigða samkeppni, séu ekki nægilegar til að tryggja sanngjarnt verðlag, þá getur verðgæzlunefndin haldið þeim verðlagsákvæðum, sem í gildi eru, þegar hún tekur til starfa. Ef hún telur hins vegar reglurnar um samkeppnishömlur og eftirlit með þeim tryggja nægilega heilbrigða samkeppni, getur hún ákveðið að afnema gildandi reglur um hámarksálagningu eða hámarksverð. Geri hún það, má fastlega gera ráð fyrir, að hún geri það smám saman, þannig að reynsla fáist af samkeppninni í reynd og áhrifum hennar á verðmyndunina.

Þannig var farið að í flestum nálægum löndum. Reynslan af því hefur yfirleitt verið talin góð. Samkeppni samfara eftirliti með samkeppnishömlum hefur ekki síður verið talin tryggja neytendum hagstæðara verðlag en reglur um hámarksálagningu eða hámarksverð. Ekkert þeirra landa, sem á sínum tíma hurfu frá hliðstæðu kerfi og því, sem enn er haldið við lýði hér á landi, hefur horfið aftur til þess. Í fjölmörgum löndum hefur um skeið verið kveðið á um verðstöðvun eða settar reglur, sem banna hækkun álagningar. Í engu nálægu landi eru hins vegar enn í gildi hliðstæð lög og hliðstæðar reglur þeim, sem hér gilda enn um verðlagsmál.

Með samþykkt þessa frv. yrði mikilvægu sviði opinberrar stjórnsýslu tvímælalaust þokað í framfaraátt, og skipan mála hér gerð líkari því, sem tíðkast í nálægum löndum, en þau eru yfirleitt í hópi þeirra landa veraldar, þar sem skipan efnahagsmála þykir skynsamlegust og frjálslegust. Hér er hins vegar um vandmeðfarin mál að ræða. Þess vegna hefur niðurstaðan orðið sú, að ætla góðan tíma til undirbúnings réttri skipan og gera ráð fyrir víðtækum heimildum til handa opinberum aðila til verðákvarðana, ef reynslan af nýmælinu um eftirlit með einokunarfyrirtækjum og samkeppnistakmörkum reynist ekki bera nægilegan árangur. En lengur en orðið er geta Íslendingar ekki dregið að koma málum á þessu mikilvæga sviði í svipað horf og nú tíðkast hjá nálægum þjóðum.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr., að lokinni þessari umr., og til hv. allshn.