19.12.1969
Efri deild: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að bíða eftir því, að viðskmrh. komi.

Já, herra forseti. Mér finnst nú hæstv. viðskmrh. vera orðinn einkennilega orðvar og orðspar. Hann kom hér með skrifaða ræðu um þetta mál. Sú ræða var ekki ýkja löng og ekki til fullkominnar skýringar á því máli, sem hér liggur fyrir. En það mál, sem hér er um að tefla, er óneitanlega talsvert stórt og getur haft allverulega þýðingu og afleiðingar í okkar verðlagsþróun og efnahagsstarfsemi. En ég skil það, að hæstv. ráðh. reyni að fara gætilega, eftir að hann hefur orðið að standa í því að undanförnu að taka aftur ýmis sín fyrri ummæli, afneita ýmsum sínum fyrri ummælum og koma fram með skýringar á þeim.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er allmikið að umfangi. Því fylgir að vísu allýtarleg grg., en sá galli er á því, að þetta frv. er alveg nýlega lagt hér fram, og það hefur vitaskuld ekki unnizt tími til þess að lesa það nægilega eða kynna sér það til nokkurrar hlítar. Þess vegna virðist þetta nokkur óþarfi að ætla að knýja það fram hér á síðasta degi þingsins. Þó að það sé að vísu svo, að það fari til n. og verði athugað þar, þá væri ástæða til þess, að það væri athugað betur áður og menn fengju a. m. k. tíma til að lesa það, áður en 1. umr. fer hér fram. Og því meiri ástæða væri til þess, sem ég saknaði ýmissa atriða í framsöguræðu hæstv. ráðh. Ég saknaði þess t. d., að hann gerði grein fyrir afstöðu Alþfl. til verðlagsmála og verðlagseftirlits bæði fyrr og síðar. En ég held, að ég fari rétt með það, að þau málefni hafa löngum verið nokkurt hugðarefni hjá Alþfl. og ef ég man rétt hefur hæstv. viðskmrh. hér á hinu háa Alþ. oftar en einu sinni flutt æði skeleggar ræður um þau mál. Því miður hefur mér ekki unnizt tími til þess nú að leita þær uppi, og mér eru ekki tilvitnanir tiltækar í því sambandi, en þær eru margar til og þess verður freistað á síðari stigum málsins að rifja þær upp. En einn aðalgallinn á þessu máli, sem hér er lagt fram, og það, sem gerir það ógeðfellt, er það, að það siglir í raun og veru undir fölsku flaggi. Það er verið að láta líta svo út, að það eigi að halda hér áfram verðlagseftirliti og verðgæzlu, en meiningin er sú, og raunveruleikinn er sá, að með þessu frv. er verið að afnema verðlagseftirlit, og þess vegna hefði verið skemmtilegra og meiri manndómur að því, að menn hefðu í því efni komið til dyranna eins og þeir eru klæddir, og sagt það hreint út, en ekki verið að klæða málið í það dulargervi, sem hér er gert. En þó að þetta mál sé vafið í talsverðar umbúðir og frv. sjálft sé flókið, óskýrt og teygjanlegt, þá er það þó ekki vafamál, þegar það er skoðað niður í kjölinn, að það, sem vakir fyrir höfundum þessa máls, er það að afnema verðlagseftirlit í raun og veru. En þetta er látið líta svo út, að í stað verðlagseftirlits eigi að taka hér upp varnir gegn samkeppnishömlum, og um þær er sérstakur kafli í frv. En áður en ég kem að þeim kafla, þá vil ég finna þessum orðum mínum stað með því að vitna í 7. gr. þessa frv. En þar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar samkeppni er takmörkuð, eins og nánar er tilgreint í IV. kafla, eða samkeppni er ekki nægilega virk til að tryggja sanngjarnt verðlag, eða horfur eru á ósanngjarnri þróun verðlags og álagningar, getur verðgæzluráð ákveðið“ o. s. frv.

M. ö. o. — það á aðeins að koma til aðgerða í sambandi við ákvarðanir á verðlagi, þegar þannig stendur á, sem í þessari gr. segir, að samkeppni sé ekki nægilega virk. Nú verður ekki farið í grafgötur með það, að það er yfirlýst stefna hæstv. ríkisstj., að hér skuli vera það, sem kölluð er frjáls verzlun, þ. e. a. s., hér eigi að vera frjáls samkeppni ráðandi og ríkjandi. Og sú stefna er vissulega í samræmi við þann anda, sem býr að baki þess bandalags, sem ætlunin er að tengjast innan skamms. Það er því alveg augljóst, að hæstv. ríkisstj. hlýtur að gera ráð fyrir því, og hún hlýtur að ætla sér að stefna að því, að hér verði samkeppni, og að hér verði ótakmörkuð samkeppni, og að hér verði ekki settar samkeppnishömlur. Þetta er sú stefna, sem ríkisstj. ætlar að stefna að, og þar af leiðandi hlýtur hún að gera sér það ljóst, að samkv. þeirri stefnu eiga ekki að vera fyrir hendi þau skilyrði, sem hún ætlast til, að þurfi að vera til þess að til raunverulegrar verðgæzlu geti komið. Það er því enginn vafi á því, að ætlunin er að hafa aðeins verðlagseftirlit eða verðgæzlu, eins og þeir kalla, hér framvegis til að sýnast, en ekki til þess, að hennar gæti í reyndinni.

Þegar litið er á IV. kaflann og þau ákvæði, sem hann — hefur að geyma, verður þetta, sem áður var sagt, enn ljósara, — þ. e. þegar litið er á þær reglur, sem eiga að gilda því til varnar, að hér verði settar samkeppnishömlur. Ég verð satt að segja að taka það fram, að mér finnst sá kafli ákaflega einkennilegur og nánast sagt barnalegur, því að hann hefst á því, að þau fyrirtæki, sem kynnu að gera með sér samkomulag um einhverjar sameiginlegar verðákvarðanir, eða, eins og hér segir, samninga eða samþykktir um samkeppnishömlur — þau fyrirtæki eiga að vera svo elskuleg að senda verðgæzluskrifstofunni eftirrit af þessum samningi. Já, það þarf víst ekki að efast um það, að þau eru ekki að fara neitt leynt með það, þó að þau geri svona samkomulag sín í milli. Það þarf ekki að efast um það, að þau sendi verðgæzluskrifstofunni slíka samninga. Það liggur svo sem auðvitað í augum uppi. Ég hef satt að segja sjaldan séð barnalegri lagaákvæði heldur en þetta. (Gripið fram í: Það verður ekkert smáræði, sem þeir fá sent inn.) Nei, það verður ekki mikið. Þetta minnir svona einna helzt á þá hugsjónastefnu, sem einu sinni var ríkjandi í þjóðaréttinum, að það ætti að afnema allt leynilegt diplomatí, en það lifir víst svona dálítið enn þá, þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar.

Nei, ég er hræddur um það, að fyrirtæki kunni nú að gera (Menntmrh.: Hefur þm. lesið greinina rétt?) Ég sagði það nú, hæstv. ráðh., áðan, að mér hefði nú ekki unnizt nægur tími til þess að lesa þetta og ég veit, að hæstv. ráðh. tekur það til greina, þó að mér verði það þá á að fara ekki nægilega rækilega með það. En hins vegar er þetta rétt, sem ég var að segja. Að vísu getur sjálfsagt líka nefndin haft frumkvæði um það að ganga eftir þessum samningum, ef henni þykir ástæða til þess. En ég held, að það sé ákaflega vægilega — svo að ég taki nú vægilega til orða — kveðið á í þessu frv. um skyldur nefndarinnar til þess að hafa eftirlit með og kynna sér, hvort gerðir hafi verið einhverjir samningar eða samtök um samkeppnishömlur.

Nei, aðalreglan er sem sagt sú, að verðgæzluskrifstofan á að vera róleg og verðgæzlunefndin á að bíða eftir því, að þau samtök, sem kynnu að gera með sér samninga eða samkomulag um verðsamkeppnishömlur, sendi það til skrifstofunnar. Og ef nú fyrirtækin skyldu vera svo væn að gera þetta, þá á ekki að fara neitt hart í sakirnar og bið ég þá hæstv. viðskmrh. aftur afsökunar, ef ég hef kannske ekki lesið þetta nægilega vel, en það, sem ég hef komizt að við mjög fljótlegan yfirlestur, er þetta: Ef þetta kemur nú fyrir, þá á verðgæzlan ekki að skerast í það af neinni hörku. Nei, hún á að taka upp samninga við þessi fyrirtæki og reyna að fá þau með góðu til að láta af þessari fyrirætlan sinni að vera að beita svona samkeppnishömlum. Ég held, að ég hafi lesið þetta rétt. Það stendur hérna í 16. gr., hæstv. ráðh.: „Skal hún þá fela verðgæzluskrifstofunni að reyna með samningum að binda enda á þau“. Og ef fyrirtækin vilja nú ekki sinna þessum tilmælum gæzlunefndarinnar um að láta af fyrirætlunum sínum og það tekst ekki að koma á samningum á milli þessara aðila um það efni, hvað á þá að gera? Ja, það veit náttúrlega hæstv. viðskmrh., því að hann hefur lesið frv. vel. Mér sýnist það standa hér, að þá á að senda viðskmrh. skýrslu um málið. Það segir ekkert, hvað hæstv. viðskmrh. á að gera af því tilefni. Mér sýnist þess vegna þetta frv. vera talsvert óljóst og óákveðið og efa ég þó ekki, að í því sé margt annað, sem ég hef ekki komið auga á við fljótlegan yfirlestur, sem athuga þyrfti betur heldur en gert hefur verið.

Það er sem sagt engum blöðum um það að fletta, að mergur þessa máls er sá, að það er stefnt að því með þessu frv. að afnema raunverulegt verðlagseftirlit og halda uppi aðeins skrifstofu svona sem sýndarmennsku, en ekki ætlast til þess, að hún geri neitt verulegt gagn í þessum efnum. Þetta hefði átt að kannast við, og þannig hefði átt að flytja málið. Það hefði út af fyrir sig verið alveg frambærilegt og frambærileg leið vegna þess, að það er ekkert athugavert við það, þó að skoðanir séu skiptar um það, hvort verðlagseftirlit sé heppilegt, og hvort því eigi að halda uppi eða ekki. Það er vitað mál, að um það eru skiptar skoðanir og það má færa rök bæði með því og á móti. Verðlagseftirlit getur haft sína kosti, og það getur haft sína annmarka. (Gripið fram í.) Já, ég veit nú, að ég er kominn út á hálan ís, því að eins og nú háttar til hér á hv. Alþ., þá má ekki tala um mál þannig að færa fram rök með og á móti. Það verður að hafa einstefnuakstur. Það má aldrei viðurkenna neitt hjá andstæðingnum, aldrei viðurkenna neitt í máli, sem hann hefur flutt. Það verður að gæta þess að halda sig á einstefnuaksturslínunni skv. kenningu hæstv. viðskmrh. Ég verð að vísu að segja, að sú kenning kemur úr hörðustu átt vegna þess, að þessi hæstv. ráðh. hefur að undanförnu þótzt vilja beita sér fyrir heiðarlegum málflutningi og hefur hvað eftir annað séð ástæðu til þess, m. a. í útvarpsumr., að sýnast í því efni og telja sig halda uppi eitthvað betri málflutningi heldur en aðrir menn, og hefur þótzt gera sér far um það að vanda málflutning sinn umfram aðra menn. Samt sem áður hefur þessi hæstv. ráðh. séð ástæðu til þess að brigzla mér um stefnuleysi, af því að ég hef í mínum málflutningi haft þennan háttinn á — að segja kost og löst á máli. ,Ég held að hæstv. ráðh. hafi farið óvarlega í því efni. Það er nefnilega svo, að þeir eiga aldrei að byrja grjótkast, sem í glerhúsi búa. En hæstv. ráðh. hefur m. a. verið að reyna að slá sér upp með fyndni á minn kostnað, m. a. í alþjóðaráheyrn og augsýn. Það er nú saklaust, og honum er það ekki of gott. Að vísu var það galli, að fyndnin skyldi vera fengin með láns- og leigukjörum hjá Morgunblaðinu, en til þess ráðs verða menn nú að grípa, ef þeir eru ekki ríkari í andanum en svo, að þeir geti ekki skapað fyndnina sjálfir. Ég viðurkenni það, að mér verður það á, eins og öðrum, að segja ýmislegt, sem út úr má snúa. En sá munur er á mér og hæstv. viðskmrh., að ég stend við allar mínar ræður — ég þori að kannast við þær. Ég stend við öll mín orð — ég stend við öll mín já og nei, og það er meira en hæstv. viðskmrh. getur sagt.

Hann eyddi miklum ræðutíma hér í gærkvöldi í það að afsaka, afneita og taka aftur orð, sem hann hefur sagt. Hann eyddi miklum tíma í það að ræða um þau fleygu orð, sem hann sagði við eitt hátíðlegt tækifæri uppi í Þjóðminjasafni, að bezta ráðið til þess að tryggja sjálfstæði þjóðar væri að fórna sjálfstæði hennar. (Menntmrh.: Churchill sagði þetta, en ekki ég.) Já, ég kem að því. Hæstv. ráðh. reyndi ýmsar krókaleiðir til þess að afneita þessum ummælum sínum. Hann skaut sér á bak við Churchill. Má vera, að Churchill hafi sagt þetta eða eitthvað þessu líkt. Ég hef ekki kynnt mér það. En eitt er víst. Hæstv. viðskmrh. á alltaf þýðingarréttinn að þessu. Hæstv. viðskmrh. reyndi einnig að afsaka þessi ummæli þannig, að hann hefði ekki meint neitt með þeim eða meint allt annað með þeim en hann sagði. Það er þetta, sem skilur á milli okkar viðskmrh., að hann þorir ekki að standa við þau orð, sem hann hefur sagt. Og það mætti reyndar nefna margt fleira til dæmis um það, að honum hefur verið gjarnt að taka aftur þau orð, sem hann hefur áður sagt, og hann hefur viljað hverfa frá þeim ummælum, sem hann hefur áður sagt. Það hefur einmitt átt sér stað í sambandi við verðlagsmálin, og þess vegna á þessi pistill heima hér. En eins og ég sagði áðan, hefur mér ekki unnizt tími til þess núna að fletta upp á fyrri ræðum hæstv. viðskmrh. um þessi málefni, en það verður tækifæri til þess að gera það síðar.

Nei, það er í mínum augum bara aumingjaskapur að vilja ekki standa við það, sem maður hefur sagt, og eiginlega er ég hissa á hæstv. viðskmrh. að vilja sverja fyrir þessi fleygu orð, því að þetta eru þau orð, sem sennilega munu lengst halda nafni hans á lofti, og þetta eru þau orð hans, sem allir muna eftir.

En svo að ég haldi mig við þetta mál, sem hér liggur fyrir, þá er spurningin þessi, — hvort það er rétt að afnema verðlagseftirlit eða draga úr því, ef menn vilja heldur hafa það, eins og hér er gert ráð fyrir. Það er að vísu svo, að það má sitthvað segja um verðlagseftirlitið, og ég get ekki sagt það, að ég sé sérstakur talsmaður verðlagseftirlits. Ég hef takmarkaða trú á gildi þess á venjulegum tímum. En það er samt enginn vafi á því, að þegar sérstaklega stendur á, á verðlagseftirlit fullan rétt á sér, og það hefur verið viðurkennt hér á landi. Það hefur verið hér verðlagseftirlit, ja, allar götur a. m. k. frá því í heimsstyrjöldinni síðari og reyndar fyrr, og það hefur verið talið eðlilegt og sjálfsagt. Auðvitað er það eðlilegt og sjálfsagt að halda uppi verðlagseftirliti, þegar takmarkað framboð er á vörunni. Hins vegar má segja það, að þegar nægilegt framboð er af vörum, geti verið minni ástæða til verðlagseftirlits af því, að samkeppnin muni þá halda verðlaginu nokkuð í skefjum og þá muni ekki vera þörf á verðlagseftirliti. Og það má segja það, að það sé stefnt að því nú með þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið og boðuð hefur verið, að hér verði nægilegt framboð af vörum, svo að af þeim ástæðum mætti að vísu orða það, hvort það væru þá ekki skilyrði nú fyrir afnámi á verðlagseftirliti. Að vísu er það rétt, eins og hæstv. viðskmrh. hefur einhvern tíma sagt í einni ágætri ræðu, sem hann flutti, að fólkinu hérna yrði ekki mikið gagn að því að sjá stásslegar vörur í húðargluggum, ef það hefði enga peninga til þess að kaupa þær vörur fyrir. En það er einmitt þannig ástatt nú, að lífskjör fólksins, lífskjör alls almennings hér á landi eru einmitt bág um þessar mundir. Ég býst við því, að það stæði í okkur báðum, hæstv. viðskmrh. og mér að reikna það út, hvernig fjölskylda, sem hefur venjulegar daglaunatekjur, fari að því að láta enda ná saman. Ég treysti mér ekki til þess að reikna það út. Ég veit ekki, hvernig hún fer að því að komast af. Ég segi það alveg hreint, eins og það er. Og það eru æðimargir, sem búa við þau lífskjör nú hér á landi. Kaupgeta almennings er vissulega mjög takmörkuð nú um þessar mundir, og þess vegna er það lífsatriði fyrir almenning, að honum sé tryggt og það séu gerðar allar þær ráðstafanir, sem hægt er að gera til þess, að hann fái lífsnauðsynjar sínar með því lægsta verði, sem hugsanlegt er, og að því á verðlagseftirlit þó að miða. En samtímis því, sem lífskjörin nú eru hér á þessa lund, er verið að breyta um stefnu í tekjuöflunaraðferðum ríkisins. Um leið og felldir eru niður tollar, sem hafa verið misjafnir á ýmsum vörum, hærri á hátollavörum, sem almenningur hefur orðið að neita sér um og hefur ekki haft ráð á að kaupa, þá er verið í staðinn að setja skatt, jafnan á allar vörur, brýnustu lífsnauðsynjar jafnt sem aðrar. Og um leið og þetta á að koma í staðinn fyrir þessar mismunandi tolltekjur, þá er tækifærið notað til þess að bæta í baggann svona hartnær helmingi meiru en svarar til tollalækkunarinnar. Þetta á almenningur að borga. Þetta eigum við öll að borga. Og þegar þannig stendur á, og um leið og þetta er gert, er ég ákveðinn andstæðingur þess, að horfið sé frá verðlagseftirliti. Ég tel það þvert á móti helga siðferðilega skyldu stjórnarvaldanna að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til þess að halda verðlaginu í skefjum. Og það eru fleiri en ég, sem líta þannig á.

Þetta frv. er samið af nefnd og í þeirri nefnd áttu sæti fulltrúar stétta og stjórnmálaflokka. Og það er athyglisvert, að allir fulltrúar launþegasamtakanna í þessari nefnd, fulltrúi frá Alþýðusambandi Íslands, fulltrúi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, eru andvígir þessu frv. Og ég verð að segja það, að þegar þannig stendur á, eins og ég var lítillega að lýsa, þá er ástæða til þess að hlusta á það, hvað launastéttirnar og fulltrúar þeirra segja um mál sem þetta. Og það er ekki stórmannlegt, eftir og um leið og þær ráðstafanir hafa verið gerðar og á að gera varðandi tekjuöflunarleiðirnar, sem ég var að lýsa, að rétta slíkan löðrung að launastéttunum eins og þennan. En það er alveg auðsætt á því, sem þessir fulltrúar þessara launastétta láta fara frá sér í sínu áliti, sem fylgir með þessu frv., að þeir finna þannig til og þeir lita þannig á. Og það eru ekki aðeins fulltrúar þessara launamanna, sem þannig líta á, heldur er sá fulltrúi, sem Alþfl. tilnefndi í þessa n., einnig þeirrar skoðunar. Sá fulltrúi lifir sjálfsagt í gamla tímanum og hefur ekki haft við að snúast með straumnum. Hann er enn á gömlu línu Alþfl. í þessu efni, og hann er alveg andvígur þessu frv.

Ég er tilbúinn að hætta að tala hvenær sem er, ef menn eru á því, að deildarfundi hér eigi að ljúka. (Gripið fram á.) Fresta? Já, nei, þá er ég ekki alveg eins reiðubúinn til þess, því að ég er yfirleitt ekki fyrir krókaleiðir. (Gripið fram í.) Fullt málfrelsi? Já, já. Það er fullt málfrelsi. En það er alveg bersýnilegt af því, sem ég sagði, að hvað sem öðru líður, eru skoðanir skiptar um þetta mál í Alþfl. Nú hlustaði ég í gærkvöldi með athygli á hæstv. viðskmrh., og í umr., sem þá fóru fram, bar m. a. þjóðaratkv. á góma. Hæstv. viðskmrh. fór að gera þar grein fyrir því, hvers vegna hann hefði verið með þjóðaratkv., m. a. um NATO-samninginn á sínum tíma. Og rök hans voru þau, að hann hefði verið með þjóðaratkv. um þann samning á sínum tíma, af því að það hefði verið vitað, að skoðanir hefðu verið skiptar um hann í flokkunum. Nú liggur það fyrir samkv. þessu plaggi hér og því, sem hæstv. viðskmrh. hefur hér talað, að skoðanir eru skiptar í Alþfl. um þetta mál. Nú er þetta mál, sem ekkert væri úr vegi að bera undir allan almenning. Ég efa það ekki, að ef það kæmi fram till. um það að leita álits almennings á þessu máli og bera það undir þjóðaratkv., þá mundi hæstv. viðskmrh. vera trúr sinni fyrri afstöðu og halda fast við hana. Hann mundi ekki breyta til frá því, sem áður var. Hann mundi vera á sömu línu og áður. Hann mundi vera sjálfum sér samkvæmur og vera með þjóðaratkv. — með till. um að vísa þessu máli til þjóðarinnar sjálfrar.

Eins og ég hef sagt þá er ég, eins og á stendur, persónulega andvígur þessu frv. En jafnframt vil ég taka fram, að það geta bæði verið annmarkar og kostir fylgjandi verðlagseftirliti, og vissulega er það svo, að það eru viss vandkvæði á því og vissir annmarkar að framkvæma verðlagseftirlitið. Og sjálfsagt er það svo, að það má benda á ýmislegt í framkvæmd þessara mála að undanförnu, framkvæmd verðlagseftirlitsins, sem betur hefði mátt fara. Ég er ekki svo kunnugur þeim málum, að ég þori að kveða neinn dóm upp um það. En ég hef þó heyrt það, að þar hefur sitthvað verið að fundið. En úr þeim annmörkum, sem verið hafa á framkvæmdinni, er sjálfsagt hægt að bæta, ef vilji er til. Og það er einmitt það, sem mér sýnist vera þörf á að gera í þessum efnum, eins og nú er. Ástandið er þannig, kaupgeta almennings er það lítil, lífskjörin eru það bág, að það er fyllsta ástæða til þess að beita öllum tiltækum ráðum til þess að halda verðlagi í skefjum. Ég vænti þess, að þeir verði margir Alþýðuflokksmennirnir, sem taka undir þau orð með mér, og ég vil endurtaka það, að það er náttúrlega ekki nóg, þó að einhver fámennur hópur komi sér saman um að gera breytingar hér á, heldur er ástæða til þess að kanna hug þjóðarinnar til máls sem þessa og spyrja að því, hvað þjóðin vill. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef Alþýðuflokksfólkið væri spurt þá mundi það ekki vilja, að verðlagseftirlit væri afnumið, hvorki beinlínis né á þann dulbúna hátt, sem hér er gert. Þetta mál verður að sjálfsögðu tækifæri til að ræða síðar, og ég veit það, að sitthvað í þessu frv. má lagfæra, og það má e. t. v. breyta því á þann veg, að það verði eða geti orðið virk verðgæzla samkv. því. En það er ekki eins og þetta frv. er nú úr garði gert.

Ég vænti þess, að hæstv. viðskmrh. hafi haft gott af þeim orðum, sem ég hef hér sagt, og að hann taki þau til hugleiðingar, með því að ég geri ekki ráð fyrir því, að hann uni sér við þann skemmtilestur, sem hæstv. forsrh. hefur boðað, að við aðrir þm. ættum að hafa við höndina yfir jólin. En hæstv. forsrh. fórust orð á mjög athyglisverðan hátt nýlega í Sþ., og þau ummæli hans þóttu svo athyglisverð, að Morgunblaðið sá ástæðu til þess að birta þau í ramma á öftustu síðu. En hæstv. forsrh. lét þess getið, að ef þm. vildu hafa þann skemmtilestur yfir jólin, sem söluskattsfrv. og tollskrá væri, væri þeim það ekki of gott fyrir sér. Út úr öllu má nú snúa. Og einhverjum gæti dottið í hug að skilja þessi orð á þá lund, að það, sem hæstv. forsrh. væri efst í hug við álagningu milljóna hundraða á allan almenning í landinu, væri það, hvort skjölin, sem um það fjölluðu, væru skemmtilestur eða ekki. En ég býst við því, að fólkið í landinu, sem á að bera byrðarnar, því muni nú verða annað í hug og annað ofar í hug en það, hvort þessi skjöl, sem hér er um að tefla, eru svo mikill skemmtilestur fyrir okkur þm. eða ekki. Nú, ég veit það, að hæstv. ráðh. — hæstv. forsrh. hefur nú ekki meint þetta á þennan veg. En ég nefni nú þetta sem dæmi, að það má oft skilja ummæli á ýmsa vegu og eftir því, hvernig menn vilja leggja út af þeim.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta mál, en vil lýsa þeirri skoðun minni, að hér séu alveg óþörf vinnubrögð höfð við. Það er engin þörf á því að lögfesta þetta mál með skjótum hætti, enda verður það ekki lögfest, þó að það fari nú til nefndar, og ég geri varla ráð fyrir því, að þó að það fari til nefndar, gefist nm. mikill tími aflögu yfir jólin frá þeim skemmtilestri, sem þeim er fyrirhugaður, til þess að fjalla um mál sem þetta. Þess vegna held ég, að það væri enginn skaði skeður, þó að þetta mál biði alveg, og þó að það hefði ekki verið tekið til 1. umr. hér á þessum fundi. Ég fór fram á það við hæstv. forseta og hæstv. viðskmrh., að sá háttur væri á hafður, að þetta mál væri ekki tekið til 1. umr. nú, vegna þess að það var vitað, að tíminn var takmarkaður. Það var vitað, að þm. hafði ekki gefizt kostur á að kynna sér málið og lesa það í gegn. Þessir báðir tveir hæstv. aðilar tóku þessari málaleitan vel. Mér er ánægja að því að viðurkenna það. En það strandaði á hæstv. forsrh., að þessi sjálfsagða málaleitan væri tekin til greina. Þetta var ekki málaleitun mín eins, heldur voru það aðrir þm. úr stjórnarandstöðunni yfirleitt, sem höfðu farið fram á það sama. Það er rétt, að þetta komi fram, og það er rétt, að þingtíðindin geymi þessa sögu, og að sökin sé þess, sem hana ber, en leggist ekki á þá ágætu menn, hæstv. forseta og hæstv. viðskmrh., sem báðir tóku þessu vinsamlega. Og þó að ég hafi nú svona talað sitt af hverju til hæstv. viðskmrh., er það allt af góðu gert og ekki sagt til þess að særa hann á neinn hátt, heldur til þess, að ég vildi gjarnan sjá hann komast í betri félagsskap framvegis en jafnvel hjá Churchill, og ég tala nú ekki um það fóstbræðralag, sem hann nú er í.