19.12.1969
Efri deild: 32. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Björn Jónsson:

Herra forseti.Það er nú kannske ekki vinsælt að fara að halda langar ræður hérna, enda er óvíst, að það verði mjög langt, sem ég segi um þetta mál. En ég vil taka það fram, ef einhver skyldi halda annað, að það er alveg reiðilaust af minni hálfu, þó að þdm. fari heim til sín af þingi, því að ég tel ekki neina þörf á því, að hér séu svo margir viðstaddir, að hægt sé að afgreiða þetta mál til nefndar. Þannig að ef mönnum skyldi leiðast undir þessum orðum, sem ég segi hér, þá sem sagt taka þeir bara pjönkur sínar.

Ég verð að segja það fyrst, að ég varð eiginlega nokkuð undrandi, þegar ég sá þetta frv. hér á borðinu, og var þó ekki með öllu ókunnugt um það, að eitthvert slíkt frv. væri á döfinni, og hafði reyndar séð aðalinnihald þess fyrir alllöngu síðan. Út af fyrir sig hefði maður ekkert verið undrandi, þó að Sjálfstfl., ef hann hefði verið einn í ríkisstj., hefði borið slíkt frv. fram, vegna þess að hann hefur verið, svo lengi sem ég man a. m. k., fylgjandi frjálsri verzlun, sem hann kallar svo, þ. e. a. s. andvígur öllum hömlum og bönnum í sambandi við verðlag meðal annars og hefur verið prinsípíelt á móti verðlagseftirliti og verðlagsákvæðum, svo lengi sem ég man. En Sjálfstfl. er nú ekki einn í ríkisstj. Þar er einnig annar flokkur, Alþfl., og það hefur verið hans stefnumál, líklega jafnlengi, að verðlagseftirlit geti hætt og verðlagsákvörðun skyldi vera beitt, þegar þörf væri á. En nú ber svo við, að einmitt hæstv. ráðh. þess flokks og sá, sem valdamestur er þar í flokki, flytur þetta mál. Þetta út af fyrir sig er undrunarefni. Einnig það, að svo mikið skuli liggja á þessu máli, sem þó á ekki að taka gildi fyrr en eftir eitt ár, frá staðfestingu að vísu, að það skuli þurfa að halda þingheimi hér gersamlega að ástæðulausu bara til þess að geta komið þessu máli til nefndar nú fyrir jólin, þó að vitað sé, að n. starfi auðvitað ekki fyrr en þing kemur saman aftur. Ég verð að segja, að það ber ekki vott um mikinn samkomulagsvilja um störf þingsins, að ekki skyldi hafa verið orðið við óskum mínum og hv. 1. þm. Norðurl. v., Ólafs Jóhannessonar, um að þetta mál yrði látið liggja í láginni, þangað til þing kæmi saman að nýju. En það eru einhverjir, sem eru órólegir yfir því, að það verði kannske frekar í marz en í febrúar á næsta ári, sem öllum verðlagshömlum verði létt af hér í landi og kaupsýslustéttin getur skammtað sér sinn hlut sjálf.

Það sem ég hef nú nefnt, er þó kannske ekki aðalundrunarefnið fyrir venjulegt fólk, heldur það, að svona frv. skuli vera borið fram í því ástandi, sem nú er í íslenzku þjóðfélagi, og nefni ég þá það fyrst, sem allir vita, að raunlaun, a. m. k. verkamanna og annars láglaunafólks, hafa verið skert um 20–25% á s. l. tveimur árum og laun hafa sjaldan verið lægri um áratugi. Það er vissulega rétt, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, að það er öllum — vil ég segja — orðin óleysanleg ráðgáta, hvernig verkamenn og aðrir, sem hliðstæð laun hafa, fara að því að komast af með sínar tekjur. Og það væri vissulega fróðlegt, ef hæstv. ráðh., sem því miður er nú horfinn af vettvangi — þó að ég telji það algerlega óviðeigandi — að hann gerði einhverja grein fyrir því, hvernig láglaunamenn eiga að þola öllu meiri álögur en þeir nú þurfa að bera, með þeim launum, sem þeir hafa. Og það opinbera, ríkisvaldið, sem nú flytur þetta frv., hefur átt drjúgan þátt í, að laun hafa svo mjög skerzt, að ekki sé meira sagt. Þetta er enn fremur flutt við þau skilyrði, að atvinnuleysi er útbreitt í landinu, 2 þús. atvinnulausir núna eins og sakir standa og þó raunar sennilega fleiri, og það að sjálfsögðu er ekki svo lítil skerðing á kaupmætti alls almennings. Þetta er gert við þau skilyrði, þegar að mínu viti a. m. k. okkur ríður meira á því en jafnvel nokkru sinni áður að hemla verðbólguskriðuna, sem hefur geisað að undanförnu og þó aldrei freklegar .en síðasta áratuginn, þegar að okkur er lífsnauðsyn að treysta gjaldmiðilinn og tryggja sem stöðugast verðlag í landinu, og síðast en ekki sízt, að okkur er á því mikil nauðsyn að tryggja frið á íslenzkum vinnumarkaði. Og þetta er gert við þau skilyrði, að verkalýðssamtökin og launamenn búa við þau samningsákvæði, sem þeir hafa neyðzt til að fallast á, að hver einasta verðhækkun, sem verður í landinu, skerði laun þeirra og afkomumöguleika enn þá meira en orðið er. Það mun vera talið, að núverandi ákvæði um verðlagsbætur á laun svari til þess, að menn fái bætta líklega 7/10–8/10, sennilega nærri 7/10 af þeim verðhækkunum, sem verða, þannig að hver einasta hækkun, hvort sem hún er smá eða stór, heggur enn þá skarð í þá möguleika, sem menn hafa til þess að komast af með sín laun. Og kannske síðast en ekki sízt —þetta er gert við þau skilyrði, að engin stétt á Íslandi, svo að ég muni, engin starfsstétt, ekki a. m. k. það stór, að hún geti nefnzt því nafni, getur skammtað sjálfri sér kjörin, sem hún býr við. Bændur verða að hlíta gerðardómi um sín raunverulegu launakjör. Opinberir starfsmenn eru einnig háðir gerðardómi um sín laun. Útvegsmenn verða að sæta því verði, sem gildandi er á mörkuðum, og það skammtar þeim kjörin. Iðnaðurinn verður að keppa við erlendan iðnað, og þannig má lengi telja. Nú, almennir launamenn, verkafólk, verður svo að semja, oft við hinar erfiðustu aðstæður, við atvinnurekendur um sín kjör og fá sjaldnast fram nema lítið brot af því, sem þeir vilja og þurfa. En nú er sem sagt talinn tími til þess, við þessar aðstæður, sem ég hef stuttlega lýst, að gera eina stéttina að forréttindastétt og heimila henni að skammta sér hlut, taka sinn hlut af þjóðartekjunum, áður en aðrar stéttir fá sitt, með þeim hætti, sem ég nú hef lýst. Verzlunarstéttin á að verða sú nútíma aðalsmannastétt, sem engan þarf að spyrja um það, hvaða hlut hún ætlar sér af þjóðartekjunum, meðan allar aðrar atvinnustéttir og starfsstéttir verða að lúta öðrum lögmálum og ráða ekki nema að mjög takmörkuðu leyti og sumar að engu leyti, hvað þær fá í sinn hlut.

Ég skal að vísu játa það, eins og hv. 1. þm. Norðurl. v., að ég hef ekki sett mig eins vel inn í þetta frv. og vera bæri. Ég átti ekki von á því, að það yrði tekið til umræðu fyrr en ég heyrði því hreyft í morgun, og minn undirbúningur undir mína ræðu var þess vegna ekki langur. Ég hafði hálftíma til þess að líta enn þá yfir þetta, og ég felldi því sjálfsagt margt niður, sem ég teldi ástæðu til, að kæmi fram strax við þessa umr. En ég tel það engum vafa undirorpið, og mín niðurstaða er nákvæmlega sú sama og þessa hv. síðasta ræðumanns, að þetta frv. er ekkert annað en miklar og sums staðar nokkuð skrautlegar umbúðir utan um það aðalatriði að fá að fella allt verðlagseftirlit niður í landinu. Það var engin þörf á því, þó að ástæða hefði þótt til þess að setja hér sérstök lög um samkeppnishömlur, að blanda því saman við núverandi lög um verðlagningu — verðlagsmál. Það eru tvö óskyld mál, og ég man ekki betur, en þegar þetta mál var flutt hér fyrst á þingi af einum varaþm. Alþfl., að þá fjallaði það eingöngu um samkeppnishömlur. En nú er sem sagt tækifærið notað, þegar slík lög eru sett. Ég kem að vísu að því síðar, hvaða þýðingu ég tel, að þau hafi. Ég held, að þau séu minna en þýðingarlaus út af fyrir sig, en látum það vera. Það var algerlega ástæðulaust að blanda þessum tveimur málum algerlega saman. Og núverandi verðlagslöggjöf hefði getað staðizt að öllu leyti, þó að slík löggjöf hefði verið sett.

Ég sé ekki betur en strax 7. gr. um verðákvarðanir taki af allan vafa um það, að það er meining l. og tilgangur að hindra með hverjum tiltækilegum hætti, að nokkrar verðlagsákvarðanir verði settar. Og á verðlagseftirlit eða almenna verðgæzlu er ekki minnzt í þessum lögum og virðist alls ekki vera meiningin, að neitt slíkt eftirlit eigi sér stað. Þó að það sé kannske hins vegar ekki bannað, að verðgæzluskrifstofan og verðgæzluráðið hafi eitthvað slíkt með höndum, er það engin skylda samkv. nokkrum bókstaf í þessu lagafrv. Það er sagt, og það er til þess að fela sannleikann í málinu, — að það megi setja hámarksverð eða hámarksálagningu, og í öðru lagi fyrirskipa gerð verðútreikninga eftir nánar ákveðnum reglum og samþykkja verðstöðvun á vissum sviðum, allt að 6 mánuði í senn, og setja reglur um flokkun, sundurgreiningu og því um líkt á vörum, sem nauðsynlegar þykja vegna ákvörðunar verðs eða álagningar. Þetta má gera, en skilyrðin fyrir þessu eru svo mikil og teygjanleg, að það virðist vera alveg augljóst, að það sé meiningin, að þessu sé aðeins beitt í alveg einstæðum tilvikum. Það er sagt, að þessu megi beita, þegar samkeppni er ekki nægilega virk til að tryggja sanngjarnt verðlag. Ja, hver getur nú eiginlega verið dómarinn um þetta, hvenær samkeppni er nægilega virk til þess að tryggja sanngjarnt verðlag? Ég veit ekki einu sinni, hvað væri sanngjarnt verðlag. Og hitt er þó enn þá óljósara, hvað við er átt með því, að samkeppni sé nægilega virk. Það getur að vísu verið augljóst, svo augljóst, að engum blandist hugur um, að samkeppnin geti verið það virk, að ekki sé ástæða til verðlagsákvæða, og það hefur undir núverandi löggjöf verið gefið meira og minna frjálst af verðlagningu, vegna þess að allir voru sannfærðir um, að samkeppnin tryggði slíka hluti. Og það eru mörg dæmi til þess núna á síðustu tveimur árum, eftir að verkalýðshreyfingin fór að hafa nokkur afskipti af þessum málum, að slíkt hefur verið gert heimilt. Og meira að segja við fulltrúar Alþýðusambandsins og B. S. R. B. í verðlagsnefndinni höfum í mjög þýðingarmiklum tilvikum haft frumkvæði að því, að slíkt væri gert. En í langsamlega flestum tilfellum er hér um að ræða hluti, sem er svo erfitt um að segja, að ég tel eiginlega engan fullkomlega dómbæran um það, að segja til um, hvenær samkeppnin er nægilega virk til þess að tryggja sanngjarnt verðlag. Þar kemur svo margt til í okkar smáa þjóðfélagi, sem ég kannske ræði svolítið betur síðar.

Í l. eru síðan alls konar frekari varnaglar við því, að þessum ákvæðum sé beitt. Og að öðru leyti sýnist mér svo kaflinn um verðákvarðanir vera ákaflega lítils virði í þá átt að gefa nokkrar heimildir og náttúrlega ekki undir neinum kringumstæðum neinar fyrirskipanir um það, að verðákvörðun skuli beitt, hvernig sem á stendur, jafnvel þó að samkeppnishömlur séu sannaðar á menn, einokunarstarfsemi og hvers konar þvílíkar athafnir. Þá er það fyrsta boðorðið, að þá á að leita samkomulags, og ef það tekst ekki, á að senda ráðherra skýrslu. Og eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði, segir síðan ekkert, hvað ráðh. eigi að gera með þessa skýrslu. Hann á bara að fá skýrsluna. Það sýnir, að þar er málið stoppað. Ég verð að vísu að játa, að ég hef ekki lesið alla þessa löngu grg. En mér sýnist það vera tilgangur l., þó að hann kunni að vera óljós, með því að lesa sjálft frv. yfir, þá verði hann algerlega ljós, ef menn lesa grg. fyrir frv., því að þar er ekki farið dult með það, hver tilgangurinn er, og hvert stefna skuli í þessum efnum. Og ég held, að það þurfi líka ekkert frekar að athuga í þessu efni en þann ákafa, sem er í kaupsýslustéttinni fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga. Hún stendur vissulega á bak við hæstv. ríkisstj. í þessu, og manni er sagt, að það sé búið að lofa verzlunarstéttinni þessum l. í svo mörgum kokkteilpartíum og í svo mörgum hádegisverðarboðum, að öllu lengur verði ekki undan þessu vikizt. Það er þess vegna, sem við stöndum hér og gerum Alþingi — ja, hlægilegt, vil ég segja, með því að þm. séu látnir bíða eftir því, að þetta mál komi til nefndar, heimfúsa og jafnvel bíðandi eftir . . . . (Gripið fram í.) — ja, maður gæti efazt um það, a. m. k., að það þætti þá ekki nægilega gott með kokkteilum að endurtaka loforðin, sem manni er sagt, að hafi verið gefin og eru í raun og veru eina skynsamlega skýringin á því, að þetta frv. skuli vera hér á ferðinni með þessum hætti, sem það nú er.

Svo að ég sleppi því í bili a. m. k. að fara nánar út í einstakar greinar frv., þá held ég, að það sé næst lagi að athuga það ofurlítið, hvaða afleiðingar þetta frv. hefur. Og maður skyldi nú ætla að hæstv. ríkisstj. hefði gert sér einhverja grein fyrir því, og vissulega sýnist manni það lýsa svolitlum ótta við afleiðingar málsins, að hún vill hafa ársfrest á, hún vill ekki láta öll ósköpin skella yfir í einu, hækkun á söluskattinum og þá nýju flóðbylgju verðhækkana, sem mun leiða af samþykkt þessa frv. En það tel ég engan vafa á, og ég segi það af nokkurri reynslu, því að ég hef óhjákvæmilega kynnzt þessu máli ofurlítið í þau tvö ár, sem ég hef átt sæti í verðlagsnefnd, að hér er ekki um neinar smáupphæðir að tefla. Hér er um að tefla, ekki tugi heldur hundruð milljóna kr. meira eða minna til verzlunarstéttarinnar á hverju ári, sem eru tekin beint úr vösum launamanna og neytenda, sem hafa engan afgang, eins og nú er. Það veit enginn um það. Þetta frv. er frv. um það, að taka hundruð millj. kr. úr vösum láglaunamanna og neytenda í landinu og stinga þeim í vasa kaupsýslumanna og það mætti rekja afleiðingar af því lengur, því að eftir þessu verður vissulega tekið.

Það má segja, að verðlagseftirlitið og starf verðlagsnefndar núna s. l. 21 ár hafi ekki verið mjög áberandi fyrir allan almenning, og það hafi ekki legið svo ljóst fyrir, hvaða árangur hefur orðið fyrir launamenn og neytendur í landinu af störfum nefndarinnar. En þetta stafar auðvitað af því, að engin verðlagsnefnd og engin verðlagsákvæði geta hindrað verðbólgu og gengisfellingu. Við það ræður engin verðlagsnefnd og ekki heldur þessi, sem nú hefur setið. Þó er enginn vafi á því, að verðlagsnefnd hefur á þessu tímabili eftir að hert var á ákvæðunum með samkomulagi við verkalýðssamtökin seinni hluta ársins 1967, að þó að það hafi ekki skilað sér í lækkuðu vöruverði, þá er jafnvíst, að af þessu hefur orðið stórfelldur árangur og kjör alls almennings væru stórum lakari, ef þessi störf hefðu ekki verið unnin og þessi ákvæði, sem það starf byggðist á, ekki verið til.

Við höfum líka reynsluna af því, á tímabilinu frá 1962–3, þegar farið var verulega að slaka á verðlagsákvæðunum og mikill hluti af vörutegundum var gefinn frjáls, og þangað til breyting varð á með samkomulaginu við verkalýðssamtökin 1967, hvernig það frelsi var notað, hvernig reynslan var af því, og þá getum við fyrst gert okkur grein fyrir því, hvað nú muni gerast, þegar þau verðlagsákvæði verða úr sögunni. Ég hafði því miður ekki tíma til að grafa upp gögn um þetta. Ég mun gera það á síðari stigum málsins, en ég minni aðeins á það nú, að glöggar skýrslur verðlagseftirlitsins sönnuðu það, að heildsöluálagning hafði í mörgum tilfellum hækkað um allt að 300% á þeim vörutegundum, sem gefnar voru frjálsar, og í smásölunni var álagningarkúrvan stöðugt stígandi, myndaði sennilega svona 45 gráðu horn. Það hefur kannske ekki verið farið ákaflega geyst af stað, þegar frelsi var gefið með ákveðna vörutegund, ekki fyrstu mánuðina, jafnvel ekki nokkra fyrstu mánuðina, jafnvel ekki fyrsta hálfa árið, en síðan var jafnt og sígandi bætt við á hverju ári. Það virtist engan veginn vera komið að lokum þeirrar hækkunar, sem kaupmenn höfðu ætlað sér og öll þróunin stefndi að, og þetta var í raun og veru ákaflega eðlilegt. Þegar menn vissu það, að álagningin var frjáls á verulegum hluta vörutegunda, þá þutu verzlanirnar upp í þessum greinum. Með þeim árangri að þær tóku auðvitað markaðinn hver af annarri og þurftu meiri álagningu. Það er ekki þar með sagt, að hver og einn einasti kaupsýslumaður hafi verið í þessum viðskiptum, en hitt er jafn víst, að verðlagsákvæðin höfðu haft það í för með sér, að þeir höfðu haldið útþenslu verzlunarinnar í nokkrum skefjum og haldið verðlaginu niðri, og ég tel hvort tveggja hafa verið af því góða.

Það er svo um verðlagsmálin að segja að á þessum síðustu tveimur árum, sem verkalýðshreyfingin hefur haft afskipti af þessu, hafa þau ekki verið meiri heldur en svo, að hæstv. viðskmrh. raunverulega, þ. e. a. s. fulltrúi hans, sem ég held að hafi aldrei aðhafzt neitt í verðlagsn., sem máli skiptir, öðru vísi en í samráði við hann, bar í raun og veru ábyrgð á öllum verðlagsákvörðunum sem oddamaður. Hann greiddi að vísu oft atkv. með okkur og tók tillit til okkar í neytendahópnum. Fyrir það á hann fullkomna viðurkenningu, en ég held samt, að þarna hafi verið sá hemill, sem hafi átt að tryggja það, auðvitað, að ekki yrði farið of illa með verzlunarstéttina. Ég tel það líka langan veg frá, að þó að álagning væri lækkuð og henni væri haldið niðri á þessu tímabili, þá yrði farið illa með verzlunarstéttina, enda vissulega ekki tilgangur verðlagsnefndar að knésetja hana. Hún þarf vissulega að lifa eins og aðrir í þessu landi og er okkur augljós nauðsyn. En sem dæmi um það, að ekki muni vera afskaplega þrengt að verzlunarstéttinni nefni ég, að stórar verzlanir hér í Reykjavík eins og t. d. Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hafa núna í heilt ár getað gefið 10% afslátt af öllum sínum vörum frá því verði, sem kaupsýslustéttinni er almennt gert að hafa á sínum vörum, og núna fyrir jólin hef ég orðið þess var, að tugir verzlana og það sennilega margir tugir útbýta um borgina þúsundum af kortum, þar sem fólki er boðið upp á 10% afslátt af öllum viðskiptum fram að jólum. Þetta sýnist mér ekki benda til þess, sem hefur verið haldið fram af hálfu kaupsýslustéttarinnar, að hún hafi verið beitt slíkum þrælatökum, að líf hennar, eða jafnvel eðlileg efnahagsþróun í landinu, mundi undir því komin, að verðlagsákvæði séu afnumin einmitt núna, enda held ég, að því fari ákaflega fjarri.

Eins og kemur greinilega fram í grg. fulltrúa Alþýðusambands Íslands, B. S. R. B. og fleiri, sem er birt sem fylgiskjal með þessu máli, þá er núverandi verðlagslöggjöf þannig háttað, að raunverulega geta stjórnarvöld á hverjum tíma haft þau afskipti, lítil eða mikil af verðlagsmálum, sem þau telja nauðsynleg, enda hafa þau verið með mjög mismunandi hætti, eftir því sem efnahagsástandið hefur sagt til meðal þjóðarinnar. Beiting verðlagsákvæða er ekki skyldug eftir þessum lögum. Ef núverandi hæstv. ríkisstj. og núverandi hæstv. viðskmrh. þykja mál horfa svo, að ekki sé ástæða til þess að beita opinberum afskiptum af verðlagsmynduninni — álagningu kaupsýslustéttarinnar — þá getur hann látið svo vera. Hann hefur úrslitavaldið um það, bæði sem ráðh. og sem hafandi oddaaðstöðu í verðlagsnefnd. Og ég held einmitt, að að þessu leyti sé núverandi löggjöf heppileg, því að vissulega getur efnahagsástand breytzt, margt getur breytzt þannig hjá okkur, að það sé ekki nein ástæða til þess að fylgja alltaf stöðugt einhverri algerlega ósveigjanlegri stefnu í þessum málum. Ég held þvert á móti, að það eigi ekki að gera það, og ég tel líka, að verðlagsnefnd hafi núna síðustu tvö árin alls ekki fylgt slíkri stefnu. Hún hefur líka tekið fullt tillit til þess að undanförnu, þegar einstakar atvinnugreinar hafa átt í sérstökum erfiðleikum. Ég nefni t. d., að meðal þess fyrsta, sem þessi verðlagsn. stóð að, var að gefa frjálsa útselda vinnu í málmiðnaði, sem þá átti mjög í vök að verjast. Við stóðum einnig að því, fulltrúar Alþýðusambandsins og B. S. R. B., að á öllum iðnvarningi, sem framleiddur er í landinu og býr við fulla erlenda samkeppni, þar væri um frjálst verðlag að ræða frá verksmiðjudyrum. Á hinn bóginn höfum við svo haft ákvæði á heildsölunni og smásölunni, en sjálf iðnaðarframleiðslan, sem sannarlega var í fullri keppni við erlendan iðnvarning, hefur verið algerlega frjáls allan þennan tíma. Og mér finnst þetta benda til þeirrar þröngsýni og þess ósveigjanleika, sem í raun og veru gæti verið eina gilda ástæðan fyrir því, að þessum 1. yrði breytt núna og þau afnumin.

Við höfum sem sagt verið í verðlagsnefnd, ekkert síður launþegafulltrúarnir heldur en aðrir, alveg opnir fyrir því, að þar sem raunverulega væri um að ræða virka samkeppni, þá væri ekki ástæða til þess að hafa verðlagsákvæði í gildi. Og ég hef þegar nefnt dæmi um það, og við höfum líka tekið fullt tillit til þess, þegar um það hefur verið að ræða, að einstakar greinar hafa sannanlega átt í erfiðleikum, enda hafa allar ákvarðanir verðlagsnefndar verið, a. m. k. síðan ég fór að hafa þar kynni, byggðar á gögnum frá fyrirtækjunum sjálfum og engu öðru, þ. e. a. s., þegar þau gögn fást, en á því er misbrestur. Mörg fyrirtæki, og þar á meðal stórfyrirtæki í landinu, neita að láta verðlagsstjóra í té nokkur gögn um starfsemi sína, og það bendir óneitanlega til þess, að ekki sé of hart að þeim gengið, því að ef svo væri, væri enginn hlutur auðveldari en að þau fengju endurskoðun sinna mála með því að leggja reikningana á borðið. M. a. hafa sum olíufélögin, ein stærstu fyrirtæki í landinu, þverskallazt frá upphafi við að láta nokkur gögn frá sinni starfsemi koma í ljós. Og þó á um þetta að ríkja fullkomin leynd um hluti, sem leynilega fara í sambandi við það, sem fyrirtæki gefa upp til verðlagsnefndar og verðlagsstjóra.

Ég tel þess vegna, að það geti út af fyrir sig verið rétt stefna og alls ekki ósamrýmanleg núverandi l. um verðlagsmál, að þar sem alveg augljóslega er um virka samkeppni að ræða, þar sé ekki þörf á verðlagsákvæðum. Ég er þeirrar skoðunar, en það þarf ekki neina slíka breytingu að gera á þeim l., eins og hér er verið að gera, til þess að gera það, því að það er í gildi. En við búum hér alveg örugglega við alveg sérstakar aðstæður, sem gera samkeppni á ákaflega mörgum sviðum miklu óvirkari og í mörgum tilfellum algerlega óvirka, þó að samkeppni eigi að kallast, og eigum þess vegna í engu neinn samanburð að þessu leyti við aðrar þjóðir. Það þýðir þess vegna ekkert að koma til okkar með danska þýðingu á einokunarlögunum, sem mönnum ber nú eiginlega saman um í Danmörku, að hafi haft alveg sáralítið gildi, og segja, að þetta sé alveg til fyrirmyndar fyrir okkur. Málið er ekki svoleiðis. Við búum við allt önnur skilyrði en Danir. Það er svo aftur útúrdúr úr málinu og skiptir þó kannske einhverju, að Danir hafa hvað ofan í annað orðið að grípa til alveg sérstakra aðgerða við hliðina á sínum lögum og ýmist beita verðlagshöftum um lengri eða skemmri tíma eða algerri verðstöðvun. Og þetta hafa fleiri lönd orðið að gera, sem ekki hafa neina fasta löggjöf um þessi mál, eins og t. d. V-Þýzkaland alveg núna nýlega. Þar varð að grípa til verðstöðvunar til þess að forðast efnahagslegt öngþveiti.

Það er þess vegna ákaflega langt frá því, sem hæstv. viðskmrh. var að reyna að halda hér fram, að verðlagsákvæði og verðstöðvun og annað slíkt og því um líkt væri bara búin saga í V-Evrópu. Þetta eru hlutir, sem gripið er til á hverju einasta ári af fleiri eða færri ríkjum. Og það er einmitt slík stefna, sem er alveg fullkomlega samrýmanleg okkar núverandi verðlagslöggjöf, þótt sjálfsagt megi ýmislegt að henni finna.

Og hvernig skyldi nú standa á því, að við höfum þarna allt aðra aðstöðu en aðrar og stærri þjóðir? Ég held að a. m. k. sumar ástæðurnar liggi þar alveg í augum uppi. Það er fyrst og fremst vegna þess — ég nefni sem eina ástæðuna þá — að smæð markaðarins er slík, að ráðandi fyrirtæki um verðlag verða oftast mjög fá, og í sumum tilfellum er þar aðeins um eitt fyrirtæki að ræða, af þeirri einföldu ástæðu, að það er ekki nein skynsemi í því að hafa mörg fyrirtæki, sem starfa í sömu greininni miðað við okkar markað. Það þarf ekki að nefna nein sérstök dæmi um þetta, þau eru svo augljós. Svo er það annað, að landið er strjálbýlt og mörg byggðarlög eru fámenn. Jafnvel það getur skapað einstökum fyrirtækjum algera einokunaraðstöðu. Það er kannske ljótt að segja það, en ég nefni bara ýmis sjávarþorp, þar sem aðeins er ein verzlun starfandi — eitt kaupfélag. Ef ekkert verðlagseftirlit er, hver á þá að hindra það, að íbúar á þessum stöðum búi við annað og hærra verðlag en gerist annars staðar? Meira að segja hér í höfuðborginni eru fjarlægðir orðnar svo miklar, að neytendur, heimilin, sem verða að kaupa daglegar nauðsynjar sínar, hreinlætisvörur og matvæli, þar sem um enga virka samkeppni er að ræða í mörgum hverfum, einfaldlega vegna þess að fólk kemst ekki nema í næstu verzlun. Við skulum segja, að Breiðhyltingar fréttu af einhverri ódýrri verzlun í Vesturbænum, þar sem kaupa mætti eitthvað af ódýrri vöru. Þá mundu þeir einfaldlega ekki geta gert það, og þessi samkeppni yrði þess vegna ekki virk. Það er alveg sérstök ástæða til að minnast á þetta atriði í Reykjavík, vegna þess að hér hefur verið ráðandi stefna hjá borgaryfirvöldum að mismuna alveg stórkostlega í sambandi við úthlutanir lóða í hverju nýju hverfi, sem eru ætlaðar fyrir verzlanir. Og hverjir skyldu hafa fengið þær? Skyldu það vera almannasamtökin, sem eiga KRON? Ég veit ekki, hvort Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefur fengið eina eða enga lóð, frá því að það hóf starfsemi sína. Kaupmennirnir hafa verið látnir sitja að öllum lóðum. Og skyldu þeir svo ekki reka virka samkeppni sín á milli, kaupmennirnir, á matvörunni og hreinlætisvörunni, á þessum vörum, sem fólk þarf að kaupa? Jú, þeir reka svo virka samkeppni, að þeir dreifa út a. m. k. mánaðarlega fjölrituðu plaggi frá Kaupmannasamtökunum, þar sem skráð er, á hvaða verði vörurnar skuli seldar. Að vísu er stimpillinn sjaldnast á því — Kaupmannasamtökin — þó mun það hafa verið til, en þessi sönnunargögn eru fyrir hendi. Og þar eru ekkert frekar þær vörur, sem eru undir verðlagseftirliti, en hinar, sem eru það ekki. Ég segi : þetta er ekki virk samkeppni, en þessi lög, sem hér á að fara að samþykkja, tryggja ekkert í þessu efni. Kaupmannasamtökin hér í Reykjavík geta haldið áfram að koma fram sem einn einokunarhringur gagnvart neytendum eftir sem áður. Þau munu ekki verða fyrst til að tilkynna sig hjá verðgæzlustjóra sem einokunarfyrirtæki, eins og svo hlægilega er komizt að orði hér í 12. gr., að tilkynna skal til verðgæzlustjóra samkvæmt kröfu þriggja manna nefndar, samanber 4. gr., einokunarfyrirtæki, markaðsráðandi fyrirtæki og ákvarðanir, sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Jú, það er sýnilegt, hvernig þetta á að gerast. Þriggja manna nefnd auglýsir, að nú skuli þeir frá ákveðnum tíma tilkynna sig, sem hafa með höndum einokunarstarfsemi, og skyldi Sigurður Magnússon ekki verða fyrsti maðurinn, sem kemur með tilkynningu um, hvernig Kaupmannasamtökin beita sinni aðstöðu og sínum samtökum?

Það er nú út af fyrir sig, og aðeins útúrdúr frá því, sem ég er nú að segja, að prófarkalestur á þessu frv. og fskj. þess er þannig, að það koma algerar meiningarleysur út úr fleiri gr. og enginn getur skilið, hvað um er ræða, eins og þeir geta gengið úr skugga um, sem nenna að leggja það á sig að lesa þetta frá orði til orðs. Það er svo líka auðsætt, svo maður haldi nú áfram að tala um ástæðurnar fyrir því, að við getum ekki búið hér við sams konar ákvæði og aðrar stærri þjóðir, að þar kemur ekki aðeins til smæð markaðarins, heldur það, sem einnig leiðir af því, fæð bæði framleiðenda og innflytjenda í tilteknum greinum. Þetta skapar auðvitað alveg sérstakar aðstæður fyrir einokunarákvörðun á markaðsverðinu. Við höfum svo sem dæmi fyrir okkur um þetta. Hvernig er það með vátryggingarfélögin, þegar hér er leitað tilboða um vátryggingar á ákveðnum hlut? Upp á eyri, sama tilboðið frá öllum fyrirtækjum. Eða olíufélögin, eða verktakafirmu í ýmsum greinum? Við höfum hér líka mörg fyrirtæki, sem eru algerlega einráð á markaðnum þannig að þar sé eina vörutegundin, sem enginn annar framleiðir. Vitanlega er það einokunarfyrirtæki, og það er ekki nein glóra í því, að annar háttur sé á hafður heldur en sá, að með framleiðslu slíks fyrirtækis sé eftirlit og það sé beitt verðlagsákvæðum.

Ég minntist á verzlanirnar í smærri byggðarlögunum, sem oft á tíðum minna frekar á selstöðuverzlanir en nútíma verzlanir og gætu algerlega haft verðlag í viðkomandi byggðarlagi, a. m. k. á mörgum vörum, fullkomlega í hendi sér. Hér er líka á það að líta, að hér höfum við svo léleg neytendasamtök, að engu tali tekur — svo léleg, að þegar neytendur eiga að vera að tilnefna fulltrúa til að gæta hagsmuna sinna, sérstaklega í stjórnsýslukerfinu, þá eru ekki Neytendasamtökin valin. Nei, ekki aldeilis, heldur er það Kvenfélagasamband Íslands, sem ég veit ekki til að hafi neitt með þessi mál að gera. En það hefur kannske þótt auðveldara, að fá formann Kvenfélagasambands Íslands til þess að samþykkja þetta frv. og trúa því, að með því væri tryggt samkeppnishæft verðlag á nauðsynjum, eins og hún gerir ráð fyrir í sínum fyrirvara með frv. og samþykkir það í því trausti, að þetta ágæta system muni tryggja hóflegt verðlag á öllum nauðsynjavörum. Það heldur hún, að sé fengið með ákvörðun 21. og 22. gr., sem fjalla um verðmerkingar og annað slíkt. Það hefði kannske verið ofurlítið erfiðara að telja fulltrúa almennilegra neytendasamtaka trú um það, að þetta væri svona. En þetta er aðeins eitt af því furðulega um þetta frv., að gengið er fram hjá neytendasamtökum og kvenréttindafélag tekið í staðinn.

Nei, ég held, að það sé mála sannast og reynslan hafi kennt okkur það, að það geti engin lög önnur en verðlagsákvæði og hömlur á verðlagi og verðlagseftirlit hindrað óeðlilega aðstöðu til verðlagsmyndunar, þ. e. a. s. verðlagsmyndunar, sem ekki er þá langt fyrir ofan og utan það, sem vel skipulögð og hagkvæmt rekin fyrirtæki þurfa. Ég tel það svo alveg víst, að reynslan verði sú sama núna, þegar verðlagsákvæðin verða afnumin, að það byrjar auðvitað sú hræðsla í verzluninni, sem blómstraði hér meðan verðlagsákvæðin voru frjáls að verulegu leyti. Það verða fleiri og fleiri, sem leita í þá einu starfsgrein í landinu, þar sem menn geta skammtað sér hlutina sjálfir og þurfa ekki að sækja undir neina aðra. En ég held, að það sé ekki það, sem við þurfum fyrst og fremst. Ég held að við hefðum heldur átt að reyna að beina fjármagni okkar og vinnuafli að framleiðslunni, að aukinni gjaldeyrisöflun, að aukinni tekjuöflun fyrir þjóðfélagið heldur en þá þjónustugrein, sem hér er um að ræða. Og þá er ég ekkert að gera lítið úr henni. En ég held, að okkur sé allra sízt þörf á því núna að gera sérstakar ráðstafanir til þess að beina takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar í stórauknum mæli í verzlun. Ég held að vandinn liggi ekki þar.

Það er augljóst af því, sem ég hefi nú sagt, að samþykkt á þessu frv. þýðir stórkostlega verðhækkunaröldu, sem jafnaðist svona á við meðalgengisfellingu. Það þætti mér ekki ólíklegt. Ég hef þá tekið vitlaust eftir flestum hlutum, sem ég hef orðið áskynja í sambandi við afskipti mín af þessum málum, ef svo verður ekki. Hér verður um gerbreytta verðmyndun að ræða í landinu, þegar þessi lög hafa tekið gildi, og ef þeim verður beitt, eins og öll stefnan er og grg. ber enn þá ljósar með sér heldur en sjálf frumvarpsákvæðin.

Þegar þess er gætt, sem ég sagði hér frá áðan, að fyrir hverja einustu verðhækkun, sem verður í landinu, koma ekki bætur til launamanna nema að takmörkuðum hluta og allar hækkanir, smáar sem stórar, skerða stöðugt raunveruleg launakjör, þá má auðvitað kalla fram gagnráðstafanir af hálfu verkalýðssamtakanna. Ég tel ekki sennilegt, þó að ég hafi ekkert umboð til þess að fullyrða það, að verkalýðssamtökin eða Alþýðusambandið hafi neinn áhuga fyrir því að taka þátt í þeim skrípaleik, sem verður leikinn í þessu svokallaða verðgæzluráði, sem lagt er til að verði myndað. Ég hef ekki trú á því, enda held ég, að það fari bezt á því, að þau stjórnvöld, sem að þessu frv. standa og hafa búið til þessa yfirskrift, hafi allan veg og vanda af því, sem á eftir fer. Eða heldur t. d. hæstv. viðskmrh., að það sé líklegt, þegar sú ráðstöfun er gerð fyrir atbeina stjórnarvalda að afhenda verzlunarstéttinni algert sjálfdæmi um sinn hlut — hvaða hlut hún eigi að bera af þjóðartekjunum — að þá muni verkalýðshreyfingin og launamenn sætta sig við það, að þessi ákvörðun skerði kjör þeirra í sífellu, ekki aðeins í eitt skipti fyrir öll, heldur stöðugt, vegna þess, að reynslan hefur orðið sú, að álagningin fer hækkandi ár frá ári, ef ekkert er að gert. Þannig hefur það gerzt hjá okkur, og þannig mun það áfram gerast. Ef þetta verður látið viðgangast, þá sé ég ekki, að það gæti verið nokkur ástæða, hvorki veik eða sterk, fyrir því, að verkalýðshreyfingin gefi eftir eyri af sinni vísitölu, hvorki þeim 7–8 stigum, sem hún er búin að gefa algerlega eftir, né heldur af því, sem eftir á að gerast. En núgildandi ákvæði eru, eins og við höfum komizt að orði, eins konar sjálfvirkt kauplækkunarkerfi, meðan verðlagsmyndunin í landinu er slík, sem hún er, og meðan verðlagið heldur stöðugt áfram að hækka. Þarna er auðvitað ekki til nokkur skapaður hlutur af hugsanlegum aðgerðum ríkisstj. til þess að láta skerast svo í odda, að minnisstætt verði, eins og slíkt mál, sem hér er borið fram.

Ég held, að jafnvel hæstv. ráðh. hljóti að vera það ljóst, að svo erfið sem sambúðin kann að verða á vinnumarkaðinum á næstunni, þá sé hér hreinlega hellt olíu á eldinn, þó að ríkisstj., af ótta við almenningsálitið, hafi kosið að fara hér svolítið hægar í sakirnar heldur en annars er hennar vandi, þegar svona mál ber á góma, — að láta líða eitt ár, frá því að l. verði samþykkt. Það verði sagt á meðan: — auðvitað, þetta er ekki svo hættulegt, þetta breytir ekki svo miklu frá því, sem nú er, það má jú, setja verðlagsákvæði, ef mönnum þykir það henta, o. s. frv. Þetta verður sagt í ár, sagt þetta ár, sem líður, þangað til l. eiga að taka gildi, en ég held að a. m. k. forystu verkalýðssamtakanna sé hér algerlega ljóst, hvað um er að tefla, og það fari ekki hjá því, að hún hljóti að muna eftir því í vor, þegar kemur til samninga í maímánuði, ef þetta frv. er þá orðið að lögum.

Ríkisstj. þarf heldur ekkert að kvarta um það, að hún hafi ekki fengið sínar aðvaranir um þetta efni. Alþýðusambandið átti fulltrúa í þessari nefnd, sem skipuð var til þess að undirbúa þetta frv., og áður en hann gekk frá afstöðu sinni og undirritaði sinn fyrirvara ásamt öðrum, var málið lagt fyrir Alþýðusambandsstjórn, sem samþykkti einróma að mótmæla þessu frv. og taldi algerlega óhæft, eins og nú stæðu sakir, að það yrði samþykkt. Ríkisstj. var þess vegna fullkunnugt um þetta, áður en hún lagði frv. fram, enda er ekkert um það að villast, að frá afstöðu fulltrúa launþegasamtakanna er greinilega skýrt hér í fylgiskjölum í grg. frv. Það er fulltrúi Alþýðusambandsins, sem er andvígur þessum nýju lögum. Það er fulltrúi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er sá embættismaður, sem bezt er kunnugur þessum málum, og eftir því, sem ég bezt veit, algerlega óumdeildur sem algert autoritet í þessum málum, og frábærlega samvizkusamur embættismaður, og verðlagsstjóri. Hann er algerlega á móti þessu og telur þessi nýju lög einskis virði. Síðan koma fulltrúar stjórnmálaflokkanna — fulltrúi Alþýðubandalagsins, og það sem kannske meira er, fulltrúi Alþýðuflokksins. Hann er einnig andvígur frv. og skrifar undir þá almennu grg., sem minni hl. stóð að.

Og nú kemst ég ekki hjá því að spyrja hæstv. ráðh. Er þetta frv. bara fyrir ríkisstj., eða er það frv. flokkanna, sem að ríkisstj. standa? Hefur verið ákveðið bara í ríkisstj. að henda þessu frv. hér inn og ætla að knýja það fram, eða hefur það verið borið undir flokkana? Ég þykist hafa fullgóðar heimildir fyrir því, að þetta mál hefur aldrei verið borið undir miðstjórn Alþfl. þar sem hæstv. viðskmrh. er þó formaður. Ég veit þess vegna ekki, hvaða stofnun það er í Alþfl., sem hefur gerbreytt um stefnu, a. m. k. frá síðasta þingi, því að þá man ég ekki betur en það væri í stjórnmálaályktun þess þings tekið skýrt fram, að Alþfl. legði á það höfuðáherzlu, að fullkomnu verðlagseftirliti og verðlagsákvæðum yrði haldið áfram. Og það er líka öllum ljóst, að eitt af því, sem Alþfl. hefur gert vel í þessari ríkisstj., það er að hafa í tré við Sjálfstfl. í þessu máli. Það vissu allir, þegar þessir tveir flokkar mynduðu sína ríkisstj., að þeir voru á öndverðum meiði um þetta. Sjálfstfl. fylgjandi algeru afnámi allra verðlagshafta, en Alþýðuflokksmenn hins vegar fylgjandi því, að verðlagseftirlit og verðlagsákvæði væru í gildi. Vissulega er almenningi í landinu það ljóst, að það verðlagseftirlit, sem verið hefur, og þau verðlagsákvæði, sem hafa verið í gildi, það hefur verið Alþfl. að þakka sem stjórnarflokki. Ef stefna Sjálfstfl. hefði ráðið þar, þá hefðu engin verðlagsákvæði eða verðlagshöft verið allan þennan tíma. Þetta er mönnum alveg ljóst. En þess vegna hljóta menn nú að reka upp stór augu, þegar Alþfl. er nú einnig horfinn úr þessu víginu og flytur hér fyrir Sjálfstfl. þetta frv. eftir skipun hans, og mér þykir nærri víst, að hæstv. ráðh. geri þetta án þess að hafa borið það undir sinn flokk, sem hann veit, hvað kostar. Ég veit það a. m. k., að Alþýðuflokksmenn í miðstjórn Alþýðusambandsins voru ekki á neitt annarri skoðun en við hinir um þetta efni. Og ég held, að þeir séu allir miðstjórnarmenn í Alþýðuflokknum líka. Síðan bætist það við, að mjög trúlegt er a. m. k. að fulltrúi Framsfl. í nefndinni, Tómas Árnason, lögfræðingur, hefði einnig verið í andstöðu og skrifað undir minni hluta álit, ef hann hefði ekki verið staddur í annarri heimsálfu, þegar gengið var frá þessum málum. Ég hafði áður heyrt, að það væri talið líklegt, að hans afstaða væri þannig, en ég er algerlega sannfærður um það, eftir að formaður Framsfl. hefur haldið hér ræðu og lýst því yfir, að hann sé algerlega mótfallinn afnámi verðlagsákvæða og verðlagseftirlits, eins og nú standa sakir. Ég fagna vissulega þessari yfirlýsingu, því að ég tel hana mikils virði, og vissulega miklu ánægjulegri stefnubreytingu heldur en þá stefnubreytingu, ef um stefnubreytingu er að ræða, sem hefur átt sér stað hjá Alþfl. í þessu máli.

Mér sýnist þá allt fara að benda til þess, að raunverulega standi Sjálfstfl. einn uppi í þessu máli, ásamt þá ráðh. Alþfl., því að ég trúi því ekki enn þá, fyrr en ég tek á því, að þetta sé orðið stefnumál Alþfl. — að afnema verðlagsákvæðin og verðlagseftirlitið — þess flokks, sem þrátt fyrir allt hefur þó sannarlega staðið á verðinum í þessu máli í heilan áratug í ríkisstj.

Ég vil svo segja það, að fyrir tveimur árum, þegar ríkisstj. féllst á það að gera samning við verkalýðssamtökin um skipun verðlagsmálanna, þá var það að vísu aðeins um skamman tíma, sem síðan hefur verið framlengdur. Þá sýndi ríkisstj. vissulega nokkra dirfsku gagnvart kaupsýslustéttinni — ég vil segja alveg óvænta — og hún hafði áreiðanlega álitsauka af því, þegar mönnum var orðið það ljóst, að sjálfur formaður Sjálfstfl. varð að standa í harðri orrahríð í hádegisverðarboðum og kokkteilum, því að annars staðar gerast ekki orðið hlutirnir — ekki hjá þessari stétt manna, og viðskmrh. veit það sömuleiðis. Þá er ég ekki í nokkrum vafa um það, að út af fyrir sig hafði ríkisstj. sóma af því að geta sýnt það, að hún væri sjálfstæð gagnvart þessari stétt, því að flestir höfðu vænzt þess, að hún yrði í öllum tilfellum hrein undirlægja hennar, og hafði raunar reynzt það um skeið, þegar þarna var komið sögu. Nú virðast þeir vera farnir að halda, eftir allar ræðurnar, sem þeir hafa heyrt í hádegisverðarboðunum, að þetta sé satt hjá verzlunarstéttinni, að það sé hún, sem sé orðin hin kúgaða stétt á Íslandi. Það séu ekki launamennirnir — þeir geti borgað hærri álagningu til verzlunarstéttarinnar. Það séu ekki bændurnir eða fiskimennirnir eða útgerðarmennirnir, sem eigi erfitt. Nei, þeir virðast vera farnir að trúa því og meira að segja ráðh. Alþfl., að það sé verzlunarstéttin, sem við þurfum að kenna í brjósti um. En eins og ég sagði áðan, þá hefur það ekki verið. Þrælatökin hafa ekki verið harðari en það hjá verðlagsn. undanfarin 2 ár, að allur fjöldi kaupsýslumanna, sem reka sín fyrirtæki af skynsemi og ráðdeild, býður viðskiptamönnum upp á 10% afslátt — sumir árlangt, sumir til skemmri tíma. Og nú virðist enginn heildsali þurfa á 300% álagningu að halda, eða 300% hækkun á álagningu að halda eins og átti sér stað áður.

Nei, ég sagði hér í upphafi máls míns, sem er nú eiginlega orðið nokkru lengra en ég hafði ætlað, því alveg af ráðnum hug hef ég ekki hugsað mér að dvelja hér í ræðustólnum, þannig að a. m. k. mín eins vegna geti þm. ekki farið í jólaleyfið — en ég sagði það í upphafi, að mér hafi verið þetta frv. nokkurt undrunarefni, þó að ég hafi vitað um undirbúninginn og efni þess að verulegu leyti, áður en það kom hér fram. En það sem vekur þó mesta undrun mína, er afstaða Alþfl. Ég batt við það vonir og trúði því í lengstu lög, að Alþfl. mundi stöðva þetta mál. Og ég trúi því raunar enn, að Alþfl. muni gera það, þrátt fyrir það þó að hæstv. viðskmrh., formaður flokksins hafi hlaupið út undan sér í vafalausri óþökk flokksbræðra sinna og gerzt talsmaður þessa máls hér á hv. Alþ. En ég vil aðeins segja það að lokum, eða undir lok máls míns, að ég held, að þetta mál eigi eftir að verða hæstv. ríkisstj. dýrkeypt, ef það gengur fram. Þetta eru engar hótanir, en ég vísa aðeins til þess, sem ég hef áður sagt um þetta efni. En það er kannske ekki það versta, þó að það verði ríkisstj. dýrkeypt. Ég held, að afleiðingarnar verði háskalegar á margvíslegan hátt, en ekki til bóta á nokkru sviði. Í þessu tilviki sé öllu að tapa, en ekkert að vinna, og ég endurtek það, að eftir því verðum við að muna, þegar næst verður tekið til samninga, ef þetta frv. verður látið ganga fram á þessu þingi, því að við í verkalýðshreyfingunni gerum okkur alveg fulla grein fyrir þýðingu þess, þó að það sé vafið inn í þennan blómvönd, sem reynt er hér að gera.

Það er að lokum aðeins eitt atriði, sem ég kemst ekki hjá að ræða aðeins og spyrja um, áður en ég lýk máli mínu. Þegar við í verkalýðshreyfingunni gerðum samkomulag við ríkisstj. 1967, þá var einnig gefin út yfirlýsing af hæstv. viðskmrh. — því miður hef ég ekki þá yfirlýsingu hér í fórum mínum — um það, að allt skipulag verzlunarinnar yrði endurskoðað. Það yrði sett nefnd manna til þess að endurskoða allt skipulag verzlunarinnar í landinu í þeim tilgangi að gera hana á fjölmarga vegu hagkvæmari, ekki aðeins fyrir neytendur, heldur fyrir þjóðfélagið í heild. Og það var minnzt þar á alveg ákveðna hluti, sem ég hefði talið, að hefðu verið ákaflega mikils virði og hefðu getað létt okkur þróunina frá því verðlagsákvarðanakerfi, sem við höfum búið við. Það var bundið fastmælum, að þessi nefnd ætti að vera fljót að starfa, og maður talar aðeins um nokkra mánuði. En svo mikið er víst, að nokkrir mánuðir hafa liðið og nú hafa þeir orðið alveg full tvö ár, síðan þessi nefnd var skipuð, og mig er satt að segja farið að lengja eftir árangrinum af starfi þessarar nefndar. Ég held a. m. k., að það hefði staðið nær ráðh. að standa við þau loforð, sem hann og ríkisstj. gaf í sambandi við þessa allsherjarendurskoðun á verzlunarmálunum, að þetta álit hefði komið fram á undan þessu frv. — helzt á undan því, en þó a. m. k. ekki seinna en samtímis því. Það má vel vera, að út úr því starfi, ef vel hefði verið unnið, hefðu getað komið þeir hlutir, sem hefðu gert verðlagsákvæði og verðlagseftirlit óþarfara á ýmsum sviðum en það nú er. En af þessu máli hef ég ekki heyrt, a. m. k. ekki í heilt ár, og ég vildi þess vegna vænta þess, að hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, hvað líður störfum þessarar nefndar, og hvaða árangurs er þar að vænta. Á hvaða leiðir er líklegt, að þar verði bent til þess að gera verzlunina þjóðhagslega hagkvæmari og jafnframt hagkvæmari fyrir neytendur? Hér í grg. er svo saga nefndarinnar rakin, og þar segir einhvers staðar, að frá því á síðari hluta árs 1967 og þangað til á þessu ári, hafi orðið hlé á störfum hennar vegna sérstakra aðstæðna í efnahagsmálum, sem skapazt hafi. Nú, við vitum nú ósköp vel — ég ætla ekki að fara að orðlengja það — hverjar þessar sérstöku aðstæður hafa verið. Þessar sérstöku aðstæður hafa verið þeir erfiðleikar, sem fólk hefur átt við að glíma — þessi stórkostlega kjaraskerðing, sem allur almenningur hefur þurft að þola. En hvað hefur breytzt svona skyndilega núna, frá því á árinu 1967? Hafa kjörin hjá fólki batnað þannig, að það eigi nú að geta borið meiri álögur í formi hækkaðrar álagningar en áður, eða hefur hagur ríkissjóðs og hagur þjóðarbúsins batnað það mikið, að nú sé hægt að segja við eina stétt: gjörðu svo vel, taktu það, sem þér sýnist? Hefur þróunin verið í þessa átt að dómi hæstv. ráðh. núna á þessu tímabili? Ég held, að hafi verið sérstakar aðstæður 1967 til þess að setja á verðlagsákvæði og hafa hemil á verðlagi, þá séu þessar ástæður til í miklu ríkari mæli nú, en þær voru þá. En ef svo er ekki, þá vil ég fá það upplýst hjá hæstv. ráðh. hvað það er, sem hefur breytzt á þessu tímabili og gerir það nú sjáanlega tímabært eftir eitt ár að afnema verðlagsákvæði og verðlagseftirlit í landinu.

Svo hef ég óskað eftir því við hæstv. forseta, að hann gefi kaffihlé. Ég hef verið bundinn á fundi, fyrst hér og síðan á Sþ., og ég krefst þess, að farið sé að þinglögum og við fáum hlé til þess að drekka kaffi.