27.01.1970
Efri deild: 41. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

123. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þótt frv. það, sem hér liggur fyrir, sé mikið að vöxtum og gæti gefið tilefni til mikilla umþenkinga og umr., þá mun ég ekki flytja um það langa framsöguræðu, bæði til þess að lengja ekki óþarflega fundartímann, því það er mikilvægt, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað, en þó öllu fremur vegna hins, að þótt málið sé umfangsmikið, hér er líklega um lengsta þskj. að ræða, sem lagt hefur verið fyrir Alþ., – þá er efnislega um alveg ákveðnar meginreglur að ræða, sem þetta frv. er byggt á og því tiltölulega auðvelt að átta sig á, hvað í því felst í meginefnum.

Öllum hv. þdm. er kunnugt um, að frv. þetta er til orðið vegna væntanlegrar aðildar Íslands að EFTA og eru tollabreytingarnar í samræmi við þann samning, sem gerður hefur verið við EFTA og felur í sér, að á 10 ára tímabili skuli allir gildandi verndartollar hér á landi falla niður. Það skal gert í þeim áföngum, að nú þegar falli niður 30% af verndartollunum, síðan verði fjögurra ára aðlögunartími, sem hugsaður er fyrst og fremst sem aðlögunartími fyrir iðnaðinn og eftir það verði 10% lækkun á hverju ári, þar til tollarnir hafa að öllu leyti verið felldir niður. Hins vegar njóta Íslendingar þeirra miklu hlunninda, að tollar á útflutningsvörum okkar til EFTA–landa, sem EFTA–reglurnar ná til, falla niður að fullu nú þegar við inngöngu okkar í EFTA.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er í fyrsta lagi um það, að lækka um 30% alla tolla frá EFTA–löndum, svokallaða EFTA–tolla og þm. til hægðarauka er það tilgreint sérstaklega í frv., hverjir EFTA–tollarnir séu, hverjir tollarnir verði almennt frá öðrum löndum og síðan er sérstakur dálkur, sem sýnir hver núgildandi tollur er, en að sjálfsögðu mun sá dálkur verða felldur niður, þegar frv. hefur endanlega verið samþ. og verður ekki birtur í lögum, er aðeins til hægðarauka, því hann útskýrir mjög rækilega þær breytingar, sem hér er um að ræða. Þetta gildir um hvern einstakan lið frv. og sé ég því ekki ástæðu til þess að ræða þá liði frekar. Frv. fjallar um allar tilbúnar vörur, sem inn eru fluttar og sem verndartollar hvíla á. En greinarmunur er gerður á verndartollum og fjáröflunartollum, þ.e.a.s., það er heimild að halda tollum á öllum þeim vörum, sem ekki eru framleiddar í landinu, því þeir eru á lagðir sem beinir fjáröflunartollar, þannig að það skapast ekkert misræmi á milli framleiðslu frá EFTA–löndum og okkar eigin framleiðslu í því efni. Þess vegna getum við haft áfram tolla á öllum EFTA–vörum, sem ekki eru framleiddar hérlendis, en mundum að sjálfsögðu verða að breyta þeim tollum, ef til kæmi ný framleiðsla á þeim vörutegundum, en það yrði þá gert á sínum tíma.

Til þess að ná fram þeim kostum, sem aðlögunartímanum er ætlað að hafa vegna íslenzks iðnaðar, þá eru gerðar veigamiklar breytingar í frv. iðnaðinum til hagsbóta. Meginbreytingin er sú, að lagt er til, að tollar á vörum til allrar helztu iðnframleiðslu í landinu lækki um 50%, þannig að staða iðnaðarins batnar í mörgum greinum og verður a.m.k. hvergi lakari heldur en hún yrði, ef ekki kæmi til neinnar EFTA–aðildar þessi fyrstu 4 ár. Til viðbótar er lagt til. að lækka allar vélar til iðnaðarins ofan í 7% toll og einnig vélar til allra annarra atvinnuvega. Hér er um að ræða mjög veigamikla aðstoð við iðnaðinn, vegna þess að vélar til landbúnaðar og sjávarútvegs hafa áður verið í mun lægri tollflokki, eða flestar í 10% tolli, en lagt er nú til að lækka toll á þessum vélum niður í 7%, til þess að söluskatturinn hafi ekki áhrif til hækkunar á verð þeirra. Þetta er engin almenn regla og varðandi bæði vélatollana og hráefnatollana er það að segja, að þær lækkanir gilda um innflutning frá öllum löndum, en lækkun tilbúnu varanna gildir almennt ekki, nema á vörum frá EFTA–löndum. Þetta eru meginbreytingarnar, sem gerðar hafa verið.

Það hafa einnig verið framkvæmdar verulegar lækkanir á varahlutum til véla og nokkrar aðrar breytingar hafa verið gerðar á frv., sem koma til af sérstökum ástæðum.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það, að pappírstollar hafa verið lækkaðir, eða réttara sagt afnumdir, vegna innlendrar bókagerðar og einnig vegna umbúðagerðar. Hér er um að ræða allverulegt tekjutap fyrir ríkissjóð, en þetta er gamalt vandamál, sem óumflýjanlegt þótti að horfast í augu við, vegna þess að íslenzk bókagerð nýtur í rauninni öfugrar tollverndar, ef svo má segja og er gert lægra undir höfði heldur en erlendri bókagerð.

Þá hefur einnig verið lækkaður tollur á rafhitunartækjum til húsa, til þess að auðvelda það, að rafmagnskyndingar verði upp teknar í ríkari mæli, eftir því sem raforkuframleiðslan hér leyfir og er það að sjálfsögðu þjóðhagslegur sparnaður.

Í þriðja lagi er sú breyting, sem gildir um meira en EFTA–vörur, að lækkaður er almennt tollur á timbri, einnig frá löndum utan EFTA og einnig til annarra þarfa heldur en hefði þurft að lækka tollinn til, þannig að þetta nær einnig til byggingartimburs. Þetta stafar af því, að það er talið útilokað að greina hér á milli og er þetta að sjálfsögðu til allverulegra hagsbóta.

Þá hafa enn fremur verið gerðar ýmsar minni háttar breytingar, sem ekki skipta meginmáli, en hafa þó sína þýðingu varðandi samræmingu á tollflokkum innbyrðis. Er það upp talið í grg. frv. hvað þar er helzt um að ræða. Það má t.d. nefna í því sambandi að fella niður toll á loðdýrum, en á þeim vettvangi er verið að undirbúa alveg nýja framleiðslugrein í landinu. Af þeim var áður hár tollur. Þá er lagt til, að lagfærðir verði tollar á efni til dráttarbrauta. Áður var í gildi heimild um það, að endurgreiða tolla af dráttarbrautum, sem fluttar eru inn í heilu lagi, en það er mjög einkennilegt ákvæði og hefur reynzt torvelt í framkvæmd. Þá eru einnig gerðar ýmsar breytingar á heimildarákvæðum, sem ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um, en eru allar nauðsynlegar og þýðingarmiklar. Varðandi það atriði, sem sérstaklega snertir iðnaðinn og er til þess að bæta aðstöðu hans enn frekar, þá er leitað heimildar fyrir því, að endurgreiddur verði tollur af hráefnum, sem iðnaðurinn hefur keypt á síðustu þremur mánuðum, ef til EFTA–aðildar kemur, ella gæti það skapað stórvandræði fyrir iðnaðinn og jafnvel stöðvun á iðnframleiðslu um tíma. Jafnframt er leitað heimildar til þess, í sambandi við vélar, sem fluttar voru inn eftir síðustu gengisbreytingu, að mismunurinn á greiddum tollum af þeim vélum og þeim tolli, sem á að gilda samkv. frv., verði einnig endurgreiddur.

Í grg. frv., á bls. 210, er gerð áætlun um það, hvaða tekjutap þessar breytingar muni leiða af sér og er gert ráð fyrir því, að tekjutapið verði brúttó nálægt 500 millj. kr. á ársgrundvelli. Sé ég ekki ástæðu til þess að sundurliða það frekar. Það er gert í grg., þannig að menn átta sig á því, hvað hér er um að ræða. Vitanlega er aldrei hægt að sundurliða þetta nákvæmlega, en við þessa tölu er því að bæta, að undir meðferð málsins, sem unnið hefur verið að nú síðustu vikurnar, – og raunar allt frá því, að frv. var lagt fyrir hið háa Alþingi fyrir áramót, — hefur verið framkvæmd mjög víðtæk athugun í sambandi við ótal erindi, sem borizt höfðu vegna frv. og hefur þetta leitt til þess, að gerðar hafa verið töluvert víðtækar breytingar á frv., sem að vísu, að meginhluta til, eru byggðar á sömu sjónarmiðum og ég gat um, þ.e., þar er fyrst og fremst um að ræða lækkun á vörum, sem EFTA–aðildina snerta að einhverju leyti, en þó eru einnig nokkrar aðrar vörutegundir teknar, sem ástæða þótti til að lækka til samræmingar við annað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um eða skýra frekar þau atriði, en ég vil þakka það, að hv. fjhn. þessarar d. og fjhn. Nd. hafa fallizt á það, að, að því skyldi stefnt, að reyna að gera þessar lagfæringar þannig úr garði, að ekki þyrftu að koma til, nema þá að sáralitlu leyti, breytingar að nýju í þessari hv. þd. Og ég hygg, að n. hafi tekið til athugunar öll þau erindi, sem ástæða þótti til að sinna, en vitanlega var ekki hægt að sinna mörgu af því, sem fram kom. Vonast ég því til, að ekki komi upp við meðferð málsins hér í þessari hv. d. nein ný vandamál, sem nauðsynlegt reynist að sinna. En um það getur maður að sjálfsögðu ekki fullyrt, fyrr en eftir að meðferð málsins er lokið í hv. n.

Þessar breytingar, sem hér um ræddi, valda einnig töluverðu tekjutapi, því að allar eru þær til lækkunar og má gera ráð fyrir, að nettótekjutap af þessum viðbótarbreytingum geti verið allt að 30 millj. kr. Ég hef hins vegar ekki séð ástæðu til og mun ekki gera neina till. um það að gera sérstakar ráðstafanir til tekjuöflunar vegna þessa tekjutaps, sem hér er um að ræða, því að vitanlega er hér ekki hægt að miða við tölur, sem hægt er að byggja nákvæmlega á. Hvort þessar áætlanir, sem byggt er á, reynast 20 eða 30 millj. kr. hærri eða lægri, er auðvitað gersamlega ómögulegt um að segja og því verður að fela þetta allt forsjóninni í von um það, að þetta skili sér betur, eða endurgreiðslur kunni e.t.v. að vera lægri en gert er ráð fyrir. Ég mun því ekki gera neinar sérstakar till. til þess að mæta þessu tekjutapi. En þar sem ég veit, að hv. n. þessarar d. hefur mjög vandlega fylgzt með allri meðferð málsins í fjhn. Nd. og komið þar að sínum sjónarmiðum, þá hlýt ég að mega leyfa mér að vona það, að hv. n. geti hér afgreitt málið skjótt frá sér. Tel ég það ekki vera neina óvirðingu fyrir hana á neinn hátt, þar sem hún, eins og ég sagði, hefur unnið að athugun málsins um lengri tíma með fjhn. Nd.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, nema sérstakt tilefni gefist til, að orðlengja frekar um málið. Ég hef gert grein fyrir þeim meginsjónarmiðum, sem tollskrárbreytingin byggist á og tel það ekki þjóna neinum tilgangi eða geta vakið áhuga hv. þdm. á nokkurn hátt, þó að ég færi að rekja hér einstök atriði eða gera grein fyrir brtt., sem gerðar voru í hv. Nd. Þær skýra sig sjálfar og til hægðarauka eru þær brtt., sem samþ. voru í Nd., uppfærðar á sama hátt og frv. sjálft, þannig að menn geta borið saman þann toll, sem nú er, samkv. núgildandi lögum, og þann toll, sem ætlað er að gildi, eftir að þessar lagfæringar hafa verið gerðar.

Ég leyfi mér því að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.