20.03.1970
Efri deild: 60. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

135. mál, verðgæsla og samkeppnishömlur

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Af því að ég hef átt nokkurn þátt í undirbúningi þess frv., sem hér liggur fyrir, eins og raunar er getið um í grg. frv. og vart hefur orðið, ekki sízt í þeim framsöguræðum minni hl., sem hér hafa verið fluttar, töluverðs misskilnings á því, hvað í frv. felst, þá tel ég rétt að segja hér nokkur orð.

Það má út af fyrir sig um það deila, hve árangursríkt tæki verðlagseftirlit sé til þess að halda verðlagi í skefjum. En þá hlið málsins mun ég þó ekki ræða hér sérstaklega. Ég er í hópi þeirra, sem hafa á því takmarkaða trú. En hvað sem því líður, geta þær aðstæður verið fyrir hendi, að nauðsynlegt sé að beita verðlagsákvæðum, og sjálfsagt, að til sé á hverjum tíma löggjöf, sem heimili stjórnvöldum að beita þeim, þegar nánar tilgreind skilyrði eru fyrir hendi. Slík löggjöf hefur líka lengst af verið í gildi hér á landi í einni eða annarri mynd allt síðan — á heimsstyrjaldarárunum fyrri.

Hér er um það að ræða að setja ný ákvæði um þessi efni, sem að dómi okkar stuðningsmanna frv. samsvara betur kröfum tímans en núgildandi löggjöf. Verðlagsákvæðum hefur, sem kunnugt er, einkum verið beitt í því skyni að halda dreifingarkostnaði í skefjum, og því einkum tekið til verzlunarinnar, en í minna mæli til framleiðslustarfseminnar í þrengri merkingu þess orðs. Eins og fram kemur í grg. fyrir frv. og hér hefur verið getið í framsöguræðum þeim, sem fluttar hafa verið, er frv. sniðið eftir gildandi löggjöf um þessi efni á hinum Norðurlöndunum, sér í lagi dönsku löggjöfinni. En slík löggjöf hefur á hinum Norðurlöndunum leyst af hólmi eldri löggjöf frá stríðsárunum og fyrstu árunum eftir stríðið, sem var svipuð og núgildandi löggjöf hér á landi. Þessi löggjöf eins og raunar kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., var sett í þessum löndum á valdaárum jafnaðarmanna þar. Og hvað sem um jafnaðarmennina á Norðurlöndunum má að öðru leyti segja, — vafalaust má þeim ýmislegt til foráttu finna eins og öðrum, sem við stjórnmál fást, og ég hef aldrei verið neinn sálufélagi þeirra —, þá held ég, að flestir sanngjarnir menn mundu nú vera sammála um það, að mjög má telja með ólíkindum, að fyrir þeim hafi vakað með slíkri löggjöf að tryggja kaupmönnum sem hæsta álagningu. Sannleikurinn er sá, að hin eldri löggjöf í þessum löndum og sú, sem nú er í gildi hér á landi, var miðuð við það ástand, sem var á tímum vöruskorts og annarra vandamála í sambandi við vörudreifingu á stríðstímum og fyrst eftir stríðið. En með auknu vöruframboði og samkeppni með þeim möguleikum, sem það skapar, þá verður þörf fyrir löggjöf um þessi efni, þar sem ekki er einblínt á þær samkeppnishömlur einar, sem stafa af höftum og vöruskorti, heldur eru einnig sköpuð skilyrði fyrir opinberri íhlutun um þessi efni á breiðum grundvelli í samræmi við hagsmuni neytenda, því að auðvitað eru það hagsmunir neytenda, sem vörudreifingin á að þjóna. Hana ber ekki að skoða sem atvinnubótavinnu fyrir kaupmenn, kaupfélagsstjóra og starfsfólk þeirra. Það sjónarmið hygg ég, að allur þorri fólksins hljóti að fallast á.

Það hefur undanfarna áratugi jafnvel mikið verið talað um nauðsyn þess að halda í skefjum milliliðagróða, eins og það hefur verið kallað, og vaxandi dreifingarkostnaður í hlutfalli við þjóðartekjur hefur verið talinn vottur um óheilbrigða efnahagsþróun. Nú er það svo, að hinn tiltölulegi vöxtur dreifingarkostnaðarins, sem er staðreynd, sem enginn getur neitað, er afleiðing hinnar almennu þróunar þjóðfélagsins, aukinnar sérhæfingar og betri efnahags, því að það er nú einu sinni þannig, að tækniframfara sem lækka framleiðslukostnaðinn, getur ekki gætt eins mikið í þjónustustarfsemi, eins og í verzluninni, og t. d. í iðnaði, sjávarútvegi og samgöngum, og af þessu leiðir það fyrirbrigði, sem einmitt sérstaklega hefur gætt í hinum háþróuðu löndum, að hlutdeild dreifingarkostnaðarins í verðmæti þjóðarframleiðslunnar fer vaxandi. Þetta dregur auðvitað síður en svo úr nauðsyn þess að halda dreifingarkostnaði í skefjum, heldur þvert á móti eykur hana. En fyrir hinu má ekki loka augunum, að verzlunin á hlutverki að gegna í þjóðarbúskapnum, og einmitt af þeim ástæðum, sem nefndar hafa verið, fer þýðing hennar vaxandi. Það skiptir því miklu máli, að sá stakkur, sem verzluninni er sniðinn með löggjöf og öðrum opinberum aðgerðum, geri henni kleift að gegna þessu hlutverki á sem hagkvæmastan hátt fyrir neytendur, en sé ekki beinlínis fjötur um fót heilbrigðri þróun þessara mála. En löggjöf eins og sú, sem nú er í gildi hér á landi og byggist á forsendum, sem ekki eru lengur fyrir hendi, þjónar ekki því hlutverki. Það verður að byggja upp eitthvað nýtt, og frv. það, sem hér liggur fyrir, ef samþ. verður, verður að mínu áliti spor í rétta átt, þannig að í stað þess að einblína á innflutningshöft sem einu samkeppnishömlurnar, þá er hér samkv. þessu frv. um að ræða miklu viðtækari heimildir til þess að vinna gegn samkeppnishömlum og halda þannig verðlagi í skefjum en felast í þeirri löggjöf, sem nú er í gildi.

Ég hygg einmitt, að þær deilur, sem um þetta mál hafa orðið, stafi að verulegu leyti af því, að sú skoðun virðist vera útbreidd, að samkeppnishömlur og innflutningshöft séu það sama. Og mig grunar, að það hafi legið m. a. að baki afstöðu hv. frsm. 1. minni hl. allshn., hv. 6. þm. Sunnl., að hann leggi þann skilning í frv., að samkeppnishömlur þýði innflutningshöft, þannig að ef innflutningshöft séu ekki lengur við lýði, þá þýði það afnám allra verðlagsákvæða. Á öðrum grundvelli á ég bágt með að skilja þá niðurstöðu hans, að í samþykkt þessa frv. liggi það, að öll verðlagsákvæði verði afnumin. Og e. t. v. er það svo um stuðning og áhuga margra kaupsýslumanna fyrir því, að þetta frv. verði samþ., að þeir telja einnig, að samkeppnishömlur séu innflutningshöft, og þar sem innflutningshöft séu ekki lengur við lýði, þá felist í frv., að öll verðlagsákvæði eigi að afnema. Ég vil þó taka það fram, að þetta á ekki við þá fulltrúa kaupsýslumanna, bæði einkaverzlunar og Sambands ísl. samvinnufélaga, sem sæti áttu í þeirri nefnd, sem undirbjó frv., og mættu m. a. á fundum allshn. Þeir hafa sett sig vel inn í þetta mál og gera sér fyllilega ljóst, hve feitt er á stykkinu. En því miður hygg ég, að eins og þessi misskilningur er útbreiddur í launþegasamtökunum, þá eigi það sama einnig við um marga þeirra atvinnurekenda, sem við verðlagsákvæðin búa.

En einmitt vegna þess, að þetta frv. er sniðið eftir dönsku löggjöfinni í þessum efnum, þá má fullyrða, að þegar talað er þar um samkeppnishömlur, þá sé það alls ekki og jafnvel sízt af öllu innflutningshöft sem höfð eru í huga, því að um langt skeið hefur það verið talinn sjálfsagður hlutur í Danmörku, að hverjir svo sem þar færu með völd, þá yrði alls ekki til innflutningshafta gripið. Það eru því ábyggilega allt aðrar samkeppnishömlur en innflutningshöftin, sem frv. hefur í huga. Og auðvitað eru verðlagsákvæði ekki einhlít til þess að hamla gegn verðbólgu. Þar þurfa að koma til aðrar og áhrifameiri ráðstafanir. Það er alveg rétt í séráliti Þrastar Ólafssonar, hagfræðings, sem birt er sem fskj. með þessu frv., að grundvallarskilyrði þess, að slík löggjöf komi að notum er, að það takist að stöðva verðbólguþróunina. Þetta er ég honum alveg sammála um, og tel það meira að segja hafa mikla þýðingu að gera sér þetta ljóst. Hins vegar er ég honum ósammála um margt annað, en það fer ég ekki út í á þessum vettvangi, enda er þessi stéttarbróðir minn ekki hér til að svara fyrir sig, svo að ég sleppi því. Auðvitað þarf að vera vissum skilyrðum fullnægt í efnahagsmálum almennt til þess að þessi löggjöf eigi við. Ef verðbólgan verður óstöðvandi, verður til lengdar óframkvæmanlegt að halda hér uppi frjálsum innflutningi og frjálsum viðskiptum að öðru leyti, svo að þá verður þessi löggjöf gerð óvirk. Þá mundi sjálfkrafa síga í sama farið og áður. Undir þeim kringumstæðum eru fullar heimildir í þessari löggjöf eins og núgildandi löggjöf til þess að beita þá verðlagsákvæðum, jafnvel ótakmarkað.

En þá kemur að þeirri spurningu, sem sérstök ástæða er til að svara í tilefni af framsöguræðum hv. minni hl. Það má spyrja sem svo: En getur þá ekki verið þörf verðlagsákvæða, jafnvel þó að um virka samkeppni sé að ræða? Eða hvað felst með öðrum orðum í því, að samkeppni sé virk? Vera má, að um þetta séu mismunandi skoðanir, og hugtök eins og samkeppni, virk samkeppni o. s. frv., má vissulega skilgreina á fleiri en einn veg. En ég svara þessari spurningu neitandi, því að í frjálsri samkeppni, samkv. þeim skilningi, sem ég legg í það hugtak, þá á neytandinn að fá vöruna á kostnaðarverði. Sé um fullkomlega frjálsa samkeppni að ræða, þá þýðir hún það, að framleiðandinn fær kostnaðarverð fyrir vöru sína eða þjónustu, hvorki meira né minna. Í því kostnaðarverði felst auðvitað sanngjörn þóknun til hans sjálfs fyrir sína vinnu, vextir af fjármagni, sem hann hefur lagt í atvinnureksturinn, sanngjörn áhættuþóknun o. s. frv. En ef skilyrði fullkomlega frjálsrar samkeppni eru fyrir hendi, þá á ekki að vera möguleiki á því að taka meira en kostnaðarverð fyrir vöruna. Að slíkt sé hægt, a. m. k. til lengdar, er þá einvörðungu í skjóli þess, að einhver séraðstaða sé fyrir hendi, en þá er samkeppnin ekki frjáls. Þær hömlur, sem samkv. þessari löggjöf eru settar fyrir því, að verðlagsákvæðum megi breyta — nefnilega að svo megi ekki vera, þegar um virka samkeppni sé að ræða — eru því að mínu áliti nákvæmlega sams konar og þær hömlur, sem á þessu eru samkv. gildandi lögum. Þetta er aðeins orðað á annan veg. Í núgildandi l. er það orðað þannig, að verðlagsákvæði verði að vera það rúm, að þau samsvari kostnaðinum hjá vel reknum fyrirtækjum, tæknilega og fjárhagslega, eins og það er orðað. Hér er í rauninni um það sama að ræða, aðeins orðað á annan hátt, þannig að í því efni breytir það í rauninni engu, hvort þessi nýja löggjöf verður samþ. eða sú gamla væri áfram. En gildi nýju löggjafarinnar er að mínu áliti í því fólgið, að verðlagsyfirvöld fá með þessu frv. víðtækari heimildir en þau áður höfðu til þess að vinna gegn samkeppnishömlum og tryggja neytendunum vöruna á kostnaðarverði. Það var að mínu áliti alveg réttilega að orði komizt hjá hæstv. viðskmrh. í framsögu hans fyrir þessu frv. fyrir jólin, að það væri stefnuyfirlýsing, sem fyrst og fremst í frv. felst eða m. ö. o. rammi fyrir starfsemi verðlagsyfirvalda. Og auðvitað er það í sjálfu sér rétt, að það, sem úrslitaþýðingu hefur varðandi það, hvort þessum málum er skynsamlega skipað, er ekki, hvernig þessi rammi er, heldur verður það framkvæmdin. Þar með er ekki sagt, að það sé ekki mikilvægt atriði í þessu sambandi, að þessi lagastakkur sé skynsamlega sniðinn, og ég álít, að samþykkt hinnar nýju löggjafar mundi verða til verulegra bóta í því efni.

Ég hafði nú, herra forseti, ekki hugsað mér að orðlengja meira um þetta, en vil aðeins segja að lokum, að hvað sem öllu öðru líður, þá furðar mig á þeirri afstöðu hv. framsóknarmanna að vilja vísa frv. frá, helzt á þeim grundvelli, að þar sem gert sé ráð fyrir því, að það þurfi ár til þess að undirbúa þessa löggjöf, þá liggi ekkert á að samþykkja. Það virðist svo, sem þeir standi í þeirri meiningu, að það væri hægt að láta þetta koma til framkvæmda tafarlaust. Satt að segja finnst mér, að þetta beri vott um, að þeir mætu og ágætu menn, sem hér eiga hlut að máli, hafi ekki kynnt sér þetta mál, eins og æskilegt hefði verið. Hér er verið að taka upp algerlega nýtt fyrirkomulag, og það fer aldrei hjá því, að það hlýtur að taka töluverðan tíma að þjálfa starfslið til þess að framkvæma það. Er ekki tímabært fyrir alvöru að leggja út í þá þjálfun, fyrr en vitað er, hvort frv. finnur náð fyrir augum Alþ. eða ekki. En um það er allt í óvissu, eins og hér hefur komið fram. Ég hefði betur getað skilið það að vissu leyti, að frv. hefði verið gagnrýnt á þeim grundvelli, að þessi tími væri ekki nógu langur, en sú afstaða að telja, að hægt sé að samþykkja slíka löggjöf sem þessa og láta hana koma til framkvæmda alveg fyrirvaralaust, hún finnst mér fráleit.