29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (228)

123. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Ég vil í sambandi við það, sem frsm. meiri hl. fjhn. gat um varðandi tekjumissi ríkissjóðs af þessum síðustu tölum, sem athugaðar voru af hálfu rn., geta þess, að okkur greinir ofurlítið á um, hvað tölurnar hafa hækkað í meðförunum. Það hefur nú verið talið að tekjutap ríkissjóðs vegna þessara brtt. yrði 30 millj., en hann tilgreindi 50 millj. Ég skal ekkert fullyrða um það, hvor talan er réttari en það hefur verið talað um 30 millj. Tekjutapið vegna niðurfellingar tolla af efnivörum og vélum til iðnaðar var áætlað 85 millj. í öðru tilfellinu og 135—140 millj. kr. í hinu tilfellinu og ég tók það fram, að það hefði verið miðað við upphaflega frv. Það kann að vera að þær hafi breytzt a.m.k. eitthvað þessar tölur. Það kann vel að vera, að þessar tölur séu réttar ég hef ekki neina aðstöðu til þess að dæma um það.

Hv. frsm. hefur rakið þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv. og mun ég þess vegna ekki fara nema lítillega út í þá sálma. Það er rétt, sem kom fram hjá honum í sambandi við það þegar báðar fjhn. störfuðu að þessu máli, að þá vorum við sammála um allflestar þær brtt., sem fram komu, þó við höfum ekki flutt sameiginlegt nál. Við vorum sammála þeim brtt., sem komu fram í Nd., enda þótt þær væru fluttar af form. fjhn. Nd. einum.

Mér finnst rétt í upphafi að vekja athygli á því, að þetta frv. um tollskrá, sem hér liggur nú fyrir, var lagt fram á Alþ. í öndverðum desembermánuði. Hér er um stórmál að ræða og sú breyting á tekjuöflun ríkissjóðs, sem þetta frv. m.a. felur í sér, er bein afleiðing, eins og áður hefur komið fram, af því, að Ísland gerist aðildarríki að EFTA. Í upphafi var ætlunin, að þetta frv. væri afgr. fyrir jól, en svo varð þó ekki, m.a. vegna eindreginna mótmæla af hálfu stjórnarandstöðunnar, sem taldi sig ekki hafa nægar upplýsingar um málið og taldi heldur ekki nægan tíma til að afgreiða svo stórt mál á örfáum dögum fyrir jól, á mesta annatíma þingsins. Fjhn. beggja þd. hafa, eins og ég gat um áðan, yfirfarið frv. sameiginlega og athugað þær beiðnir um breyt. og þær ábendingar, sem fram hafa komið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, mun vera lengsta þskj., sem lagt hefur verið fram á Alþ. og ég hygg að það hafi ekki í annan tíma verið bornar fram fleiri brtt. við nokkurt frv. heldur en hér hefur verið gert. Ég var að telja það saman áðan og mér taldist til, að þær væru 218, sem búið væri að samþykkja, fyrir utan brtt., sem felldar hafa verið. Þetta allt er svo fyrir utan þær breyt. sem gerðar eru á heimildarákvæðum.

Fjhn. beggja deildanna komu saman á all marga fundi við athugun á þessu frv. og er rétt að það komi fram, að góður vilji var af hálfu þeirra, sem leystu þetta starf, um það að ganga til móts við margar óskir, sem fram komu og var það aðallega form. fjhn. Nd., sem þar átti hlut að máli og eðlilega stýrði þeim umr. Mér er skylt að geta þess hér. Starf fjhn. var fyrst og fremst bundið við það, að samræma tollskrána þeim breyt., sem leiðir af EFTA–aðildinni. Hins vegar er þess ábyggilega orðin full þörf, að heildarendurskoðun tollalöggjafarinnar fari fram, því þar eru ýmis ákvæði, sem eru fráleit og óheppileg og þarfnast breytinga og leiðréttinga hið fyrsta.

Eins og kunnugt er, þá felur þetta frv. í sér þá meginstefnu, að verndartollar lækka um 30% samkv. EFTA–samkomulaginu, enn fremur lækka hráefnistollar um 50% og tollar á vélum úr 25% í 7%. Þó að lækkun á hráefnis– og vélatollum sé aðeins meiri, en á verndartollunum, þá hygg ég að niðurstaðan verði sú, að meiri lækkun verði á hinni innfluttu erlendu vöru, en á innlendu framleiðslunni. Mun þetta gera stöðu iðnaðarins heldur óhagstæðari en áður var. Það er talið af fyrirsvarsmönnum þessa frv., að tollvernd iðnaðarins verði svipuð eftir samþykkt þessa frv. og áður var. Þetta dreg ég þó í efa, enda mun þetta æðimisjafnt eftir iðngreinum. Ég hygg t.d., eins og glögglega kom fram hjá frsm. meiri hl. áðan, að járniðnaðurinn standi ekki lakar og jafnvel heldur skár að vígi eftir en áður, en ýmiss konar timburiðnaður og jafnvel kemískuriðnaður standi lakar að vígi. Þess vegna hefði m.a. átt að lækka hráefnis– og vélatollinn meira eða afnema hann með öllu, eins og lagt hefur verið til. Ég tel það raunar óhjákvæmilegt á næstunni, ef iðnaðurinn á ekki að bíða óbætanlegt tjón. Ýmsar þjóðir, sem framarlega standa í iðnvæðingu, t.d. Bandaríkin, munu á sumum sviðum hafa verndartolla og telja sér það nauðsyn, til að búa svo að iðngreinunum, að lífvænlegt teljist. En okkur, 200 þús. sálum, er ætlað á 10 árum að verða svo mikil iðnaðarþjóð, að við getum keppt við hinar margumtöluðu 100 millj., án þess að þurfa að búa sérstaklega að okkar iðnaði. Ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að næstu 4 árin verði örlagatímabil íslenzks iðnaðar og vonandi er, að takast muni að auka svo samkeppnishæfni hans og styrkja svo stöðu hans, að hann standist hina harðnandi samkeppni, þegar verndartollarnir lækka og verða síðan afnumdir. Ég tel, að ekki veiti af því að afnema véla– og hráefnistolla til að bæta stöðu iðnaðarins. Í samræmi við það flytjum við á sérstöku þskj. brtt. um ákvæði til bráðabirgða um endurskoðun á tollskránni, varðandi atriði, sem snerta hráefni og hjálparefni til iðnaðarins, með það fyrir augum, að tollar á þessum efnum verði felldir niður.

Ég hygg enn fremur, að iðnaðurinn þurfi á enn meiri fyrirgreiðslu að halda, ef hann á að standast hina auknu samkeppni og sú fyrirgreiðsla verði að koma strax, bæði hvað snertir lánamálin og lagfæringar á skattamálum og ýmis önnur atriði, því að iðnaðurinn býr ekki við allt of góð lánakjör. Ég hygg, að það sé rétt með farið, að iðnlánasjóðslánin séu frá 5 ára lánum og allt upp í 10 til 12 ára lán með fasteignaveði. Slíkt telst nú varla nein ofrausn í lánstíma hjá iðnaðarfyrirtækjum. Staða velflestra iðnfyrirtækja er ekki þannig í dag og hefur ekki verið, að þeim veiti nokkuð af hagkvæmari lánum og eftir þær breyt., sem nú eru gerðar, þar sem talið er að tollverndin verði svipuð áfram og hún var, hefur þetta ekki breytzt mikið til hins betra. Við væntanlega aukna og harðnandi samkeppni veitir ekki af að fella niður tolla af hráefni og vélum til iðnaðarins.

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að tekjutap ríkissjóðs vegna tollalækkana verði um 500 millj. kr., og er þá miðað við innflutning fyrstu 10 mánuði ársins 1969, að viðbættri áætlun fyrir nóvember og desember sama árs og tekjuáætlunin gerð sambærileg við áætlun fjárl. fyrir árið 1970, með því að áætla innflutninginn um 6—7% meiri. Þær brtt., sem þegar hafa verið samþykktar, hefur mér skilizt, að mundu hafa í för með sér um 30 millj. kr. tekjutap til viðbótar fyrir ríkissjóð. Annars er mjög erfitt að gera sér grein fyrir, hverju tekjutapið nemur, m.a. af því, að allur innflutningur verndarvaranna er samkv. þessu frv. áætlaður frá EFTA–löndunum, þ.e. með lægri tolltekjum.

Því er það alveg augljóst mál, að það skeður ekki á einum og sama degi, að hætt verði að flytja slíkar vörur inn frá þeim löndum utan EFTA, sem við höfum á undanförnum árum haft skipti við og þess vegna hljóta tolltekjur að verða hærri en gert er ráð fyrir og þar af leiðandi tekjutapið minna. Það tekur langan tíma að flytja viðskipti svo á milli viðskiptalandanna. Það gerist ekki í skyndingu, nema því aðeins að þeir, sem vörunnar eiga að njóta, fari að skoða verðlagið betur, en við höfum gert hingað til hér á landi. Okkur hefur verið ýmislegt annað betur gefið, en að hugsa um það, hvar við fengjum hlutina ódýrasta.

Í sambandi við niðurfellingu á tolli á vélum til iðnaðar, hefur lauslega verið athugað, hvað það mundi kosta ríkissjóð í lækkuðum tekjum. Að vísu er, eins og ég gat um áðan, nokkuð erfitt að átta sig á því til hlítar, en tölvan mun hafa verið spurð og svar hennar mun hafa verið eitthvað nálægt því, að það kostaði röskar 100 millj. kr. og er þá miðað við frv. eins og það er eftir breytingarnar nú. Afnám tolla á efnivörum til iðnaðar mundi á sama hátt kosta um 135 millj. kr., og ef EFTA–tollurinn væri látinn gilda við innflutning frá öllum löndum á verndarvörum, mundi það kosta um 50 millj. kr. Og þó gerir þetta tollskrárfrv. ráð fyrir, að svo verði. Samkv. þessum útreikningi mundi það því kosta rösklega 200 millj. kr., ef tollar af vélum og efnivörum til iðnaðarins yrðu felldir niður. Nú er rétt að taka það fram, að ég get ekki frekar en aðrir fullyrt það, að þessar tölur séu réttar, þó að okkur greini nokkuð á um þetta. Það kom hér fram í umr. í dag, að þótt tollar séu lækkaðir á vissum vörutegundum, þá þýðir það ekki alltaf lækkun á þeim tekjum, sem ríkissjóður fær og nefndi hæstv. fjmrh. tvö glögg dæmi um það, að þrátt fyrir að tollur væri lækkaður minnkuðu tekjur ríkissjóðs af innflutningnum ekki.

Á þskj. 302 höfum við hv. 11. þm. Reykv. lagt fram nokkrar brtt. Það er við 1. gr. frv., tollskrárflokk 84.24.01 til 09, varðandi jarðvinnsluvélar og tæki til landbúnaðar. Gert er ráð fyrir því, að söluskattshækkun um 3 1/2% muni valda því, að þessi tæki hækka nokkuð í verði frá því, sem nú er. Sama máli mun gegna um vélar til sjávarútvegsins. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna fór fram á það í bréfi, dags. 23. jan. s.l. til fjhn. Nd., að felldur yrði niður tollur og söluskattur af flökunarvélum og fleiri vélum til sjávarútvegsins. Segir í bréfi þeirra, með leyfi hæstv. forseta:

„Vér viljum benda á, að tollur af flökunarvélum o.s.frv. (tollskrárflokkur 84.30.05), lækkar samkv. frv. úr 10% í 7%, sem þýðir hækkun gjalda á þessum lið, ef söluskattur hækkar, eins og gert er ráð fyrir. Vér viljum því, jafnframt því að óska eftir niðurfellingu á tolli, koma á framfæri óskum um niðurfellingu á söluskatti á ofangreindum vöruflokkum.“`

Við höfum tekið undir þessa ósk S.H. af þeirri ástæðu, að fiskiðnaðinum er nauðsyn að vélvæðast. Geti fiskiðnaðurinn ekki fengið þessar vélar, minnka afköstin og ekki verður risið undir þeim tilkostnaði, sem verður við reksturinn. Nú er það augljóst mál, að kaup og annar kostnaður, bæði vegna hráefnis og annars, í fiskiðnaði hlýtur að fara hækkandi. Þessu verður ekki mætt á annan hátt en með bættum vélakosti, bættu skipulagi og hagræðingu. Við höfum á þskj. 302 flutt viðauka till. við heimildarákv. 38. tölul. 3. gr., þar sem heimilt er að lækka eða fella niður gjöld af vélum, sem eingöngu eru notaðar til framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings. Ég sé ekki neina sanngirni í að mismuna þessum greinum útflutningsiðnaðarins, nema síður sé. Allar þær vélar, sem ég drap á, þ.e. flökunarvélar, flatningsvélar, síldarsöltunarvélar, roðflettivélar og hausskurðarvélar, eru eingöngu notaðar við vinnslu sjávarafurða til útflutnings og trúi ég því ekki, að hér verði gerður munur á. Fyrir því höfum við flutt brtt. þá, sem ég nefndi, við heimildargreinina.

Í bréfi því frá S.H., sem ég minntist á, er einnig farið fram á lækkun tolla á fleiri vélategundum. Flestar þeirra, eða ýmsar þeirra a.m.k., eru smíðaðar hér heima. Hefði sú lækkun, sem þar er beðið um, verið samþ. leiddi það aftur af sér, að íslenzki iðnaðurinn varð að flytja inn m.a. handverkfæri, til þess að geta smíðað þessi tæki, með nokkrum tolli og einnig tolli af hráefninu. Það er tæplega við því að búast, að unnt sé að smíða hluti hér heima, þegar bæði efnið og tækin til smíðanna eru tolluð, en tækin erlendis frá flutt inn ótolluð. Það náðist ekki samkomulag um þetta atriði og við höfum ekki viljað fara út í að flytja um það brtt., en ég vil geta þess, að ég veit ekki betur en þetta frv. þurfi að fara aftur til Nd. og þess vegna vildi ég minnast á þessar brtt. okkar nú þegar og eins hitt, að það á ekki að tefja málið neitt, þó að þær sanngirnis till., sem hér er farið fram á, yrðu samþykktar. Ég vænti þess hins vegar, að þessar brtt. okkar njóti skilnings, ekki sízt till. um frystiiðnaðinn, án þess að ég ætli að fara að gera nokkuð upp á milli till., vegna þess að heimildin í 38. tölul. gefur beinlínis tilefni til, að þessu sé skotið þar inn í og mér finnst það fullkomið sanngirnismál, að þessar vélar njóti sömu fríðinda og vélar til framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings.

Við höfum enn fremur á þskj. 302 flutt nokkrar brtt. um tæki til skipa, þannig að þau verði ótolluð. Sú er staðreyndin, að kaupi skipin þessi tæki erlendis og komi sjálf með þau heim, eru þau ótolluð og þeir fá þau fyrir lægra verð. Hins vegar er hér um tiltölulega mjög lágar upphæðir að ræða og enn fremur er hér um öryggistæki að ræða og vænti ég þess, að þessar till. fái einnig að njóta fylgis dm. og verði samþykktar.

Þá höfum við flutt brtt. um lækkun á tolli á snjósleðum. Hér er um öryggistæki í vetrarferðum að ræða, þótt komið geti fyrir, að þetta séu kannske tæki, sem notuð eru á annan hátt. En þetta eru öryggistæki úti í dreifbýlinu, þegar allar aðrar samgönguleiðir eru lokaðar og teljum við, að slík tæki, sem bæði læknar og aðrir, sem sinna heilbrigðisþjónustu, þurfa að nota í brýnum erindum, eigi að lækka úr 40% tolli í 15%.

Áðan minntist frsm. meiri hl. á eina brtt. og það var í sambandi við endurgreiðslu á viðgerðum á skipum. Eins og hann gat réttilega um, hefur sú endurgreiðsla verið miðuð við 500 þús. kr., þannig að þá fengist endurgreiddur tollur af efni, sem til viðgerðarinnar fór. Nú hefur þessu verið breytt þannig, að þetta hefur verið hækkað upp í 1 millj. og þá þarf að endurskoða þá reikninga, sem um er að ræða. Sé viðgerðin 100 þús. kr. eða meira, allt að 1 millj., þá er ætlunin að búa til einhvern prósentustiga, sem gengur sjálfkrafa fyrir sig, þannig. að ekki þurfi að vera að rífast í þessu og þetta gangi fyrir sig með eðlilegum hætti. Eftir er að sjálfsögðu að útbúa þennan stiga, en ég tel þessa breytingu mjög þarfa og mjög sanngjarna.

Ég hef stuttlega drepið á helztu brtt., sem við flytjum við þetta frv. Ég hef sleppt að minnast á fjölmargar till., sem komu til umr. í n. og ábendingar, sem einnig komu fram. En ég get ekki stillt mig um að lokum að minnast á einn kaflann, sem mér finnst, að hafi orðið nokkuð út undan, enda þótt nokkur leiðrétting fengist á honum við 3. umr. í Nd. Það er 90. kafli tollskrárfrv., en undir þann flokk koma flest eða öll rannsókna– og mælitæki, sérstaklega fyrir iðnaðinn. Það fékkst, eins og ég sagði, nokkur lagfæring á þessu með því, að það voru tekin inn tvö atriði við 3. umr. í Nd., en ég tel, að þar hafi of skammt verið gengið, þó að lengi megi deila um það, hvað langt eigi að fara í þessu efni. En það færist mjög í vöxt hjá iðnfyrirtækjum almennt, að efla rannsóknir á eigin vegum, til að tryggja sem bezta og vandaðasta framleiðslu. Allt of mörg fyrirtæki eiga þess engan kost, að ráða tæknimenntaða menn í þjónustu sína, m.a. vegna þess, að þeim er ofviða að eignast þau tæki, sem til þess þarf. Ég tel, að þessu þurfi að breyta. Sá skilningur verður að vera fyrir hendi, að iðnaðurinn þurfi í síauknum mæli á rannsóknarstarfsemi að halda. Nútímaiðnaður verður ekki rekinn án þess og aðild Íslands að EFTA skapar iðnaðinum aukna samkeppni, sem mæta verður m.a. með aukinni þekkingu og hagnýtingu hennar hér heima. Við viljum ekki, að útlendingar vinni þau rannsóknarstörf fyrir okkur. En úr þessu verður ekki bætt, nema íslenzk iðnfyrirtæki geti átt þess kost, að búa svo að sínum tæknimönnum, eins og keppinautar okkar gera. Á þetta vil ég benda hér, því að mér finnst 90. kaflinn svo þýðingarmikill, að ekki veiti af því, að nú þegar verði ráðandi sá skilningur, að eigin rannsóknarstarfsemi iðnfyrirtækja verði að aukast. En þar þarf ríkisvaldið að koma til móts við fyrirtækin og hafa tolla svo lága sem unnt er í því efni.

Ég hef drepið nokkrum orðum á flest þau atriði, sem snerta þetta tollskrármál. Málið er yfirgripsmikið og af nógu að taka. Ég mun þó ekki lengja þessar orðræður mikið úr þessu, þó að ýmis tilefni séu til frekari umr. um þau. Þegar fjhn. unnu saman, var ég samþykkur flestum brtt., tel raunar ávinning iðnaðarins hafa orðið töluverðan, ekki sízt vegna þess, að betri tími gafst til þess að skoða þetta, heldur en í upphafi var ætlað. Ég mun því greiða frv. atkv. mitt, en ég vænti þess, að þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 302, hljóti velvilja hv. þdm. Frv. mun sennilega, eins og ég gat um áðan, þurfa að fara aftur til Nd., vegna breytinga, sem hér verða gerðar í sambandi við mjólkurfernur, eftir því sem ég veit bezt og tveggja annarra smávægilegra breytinga og þess vegna ætti ekki að verða töf að því, þó okkar brtt. yrðu samþ. í leiðinni.