02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ég hefði hug á því við þessa síðustu umr. um málið í Nd. Alþ. að beina nokkrum spurningum til hæstv. menntmrh. Þetta mál hefur verið allmikið rætt hér á þessu þingi og í fyrra, en hæstv. ráðh. hefur ekki tekið neinn þátt í þessum umr., og tel ég, að honum sé skylt að gera grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls, áður en meðferð þess lýkur hér í Nd. Alþ. Þetta frv. er, sem kunnugt er, ekki flutt af hæstv. ríkisstj., heldur er það flutt samkvæmt beiðni hæstv. menntmrh. Ástæðan til þess, að það er ekki flutt sem stjórnarfrv., er sú, að um málið er ágreiningur innan hæstv. ríkisstj. Það var ekki samstaða um að flytja málið sem stjórnarfrv. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh., að hann greini frá því í hverju þessi ágreiningur er fólginn því að afstaða þm. getur farið eftir því, hvernig þau mál standa innan ríkisstj. sjálfrar. Ég vil einnig vekja athygli á því atriði, að enda þótt hæstv. ráðh. hafi samið þetta frv. eða látið semja það, og beðið síðan um að frv. væri flutt, þá hefur ekki fylgt því nein efnisleg grg. Það er engan rökstuðning að finna í grg. með frv., hvorki í ár né á síðasta þingi.

Ég tel, að hæstv. ráðh. beri skylda til að gera okkur rökstudda grein fyrir því, af hverju þessi breyting sé nauðsynleg og skynsamleg, eins og hann virðist telja. Þetta frv. er flutt í því formi, að í því er fólgin heimild til hæstv. ráðh. Það er ekki ákvörðun um að taka upp menntadeild í Kvennaskólanum, heldur er hæstv. ráðh. gefin heimild til þess að taka upp þá nýbreytni. Ég vildi spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort og hvenær hann hugsi sér að nota þessa heimild, ef frv. verður samþ. Þetta þurfum við að vita vegna þess, að í ákvörðun eins og þessari er meira fólgið en það eitt að samþykkja þetta frv. og þau ákvæði, sem í því eru.

Það er alkunna, að húsnæði Kvennaskólans er gersamlega óhæft. Þegar 1967 skrifaði skólastjóri Kvennaskólans og formaður skólastjórnar hæstv. menntmrh. bréf, þar sem athygli var vakin á því, að það væri langt frá því, að húsakynni skólans fullnægðu einföldustu skilyrðum til nútíma skólastarfs og heilbrigðishátta. Og þá var farið fram á fjárveitingu til þess að byggja nýtt hús. Þá var um það talað, að slíkt hús mundi kosta um 16 millj., en síðan hafa orðið tvær gengislækkanir, og auk þess hefur síðan komið til þessi hugmynd að stofna sérstaka menntadeild við skólann. Þannig að hús, sem nú þyrfti að reisa á þessum forsendum, mundi vafalaust kosta 30–40 millj. kr.

Nú er það alkunna, að hæstv. menntmrh. hefur oft sagt, að hann hafi skort fé til nytsamlegra framkvæmda í menntamálum, og það er alkunna, að á næstunni þarf að vinna þar mjög mikil verk, m. a. þarf Háskóli Íslands á mjög miklu fé að halda, og það hefur verið rætt um, og raunar ákveðið hér á þingi, að stofna menntaskóla úti um land, á Vestfjörðum og Austurlandi. Ég er anzi hræddur um, að hæstv. ráðh. muni ekki hafa nægilegt fjármagn til allra þeirra verkefna, sem að kalla. En er það þá ætlun hans að verja 30–40 millj. kr. til þess að byggja nýjan menntaskóla í Reykjavík á næstu árum? Það hefur verið greint frá því, að menntadeildin eigi aðeins að rúmast í því húsi, sem skólinn hefur núna, um tveggja ára skeið, og ef slíkur skóli á að vera kominn upp eftir 2 ár, verður að hefjast handa um byggingu hans mjög fljótlega. Og ég spyr aftur: Er það ætlun hæstv, ráðh. að verja 30–40 millj. kr. af því fé, sem ætlað er til skólabygginga í þessu skyni? Og raunar væri fróðlegast, ef hæstv. ráðh. vildi gera almenna grein fyrir viðhorfi sínu til þessara mála.

Á undanförnum árum hafa verið miklar umræður annars staðar á Norðurlöndum um skipulag skóla. Þar hefur verið unnið að því að leggja niður sérskóla, sem störfuðu samkvæmt gamalli hefð. Mér er kunnugt, að sósíaldemókratar á Norðurlöndum hafa beitt sér mjög fyrir því, að þessir sérskólar, þar sem nemendur eru valdir eftir kynferði, verði lagðir niður, m. a. hefur forsrh. Svía, Palme, beitt sér mjög í þessu máli. Nú skilst mér, að hæstv. menntmrh. telji sig vera sósíaldemókrata. Og ég hefði haldið, að hann hefði frjálslynda afstöðu til skólamála, þannig að mér þætti mjög forvitnilegt, ef hann vildi einnig greina frá þeim almennu rökum, sem hann hefur fyrir því að beita sér fyrir þessu máli.

Ég minntist áðan á það, hvað menntaskólahús handa Kvennaskólanum mundi kosta. Og ég held, að sú hlið málsins ætti að vera okkur nokkuð ofarlega í huga einmitt vegna þess, sem gera þarf í menntamálum á næstunni. Menntaskólafrv., sem hér liggur fyrir og vonandi verður samþ. á þessu þingi, leiðir til þess, að við verðum að verja stórauknu fé til menntaskólanna almennt, því að samkvæmt hinu nýja kerfi þarf aukið húsnæði og aukinn útbúnað í skólanum. Við getum aldrei unnið þetta verk, ef við gerum ekki einhverja áætlun um framkvæmdir á þessu sviði.

Á síðasta ári kom mjög greinilega í ljós, hvað af því getur hlotizt, ef hæstv. menntmrh. gerir sér ekki grein fyrir þeirri þróun, sem er í skólamálum. Ástandið komst í harðan hnút á mörgum sviðum, eins og menn muna, og hæstv. ráðh. varð að grípa til skyndiráðstafana, sem hann hafði ekki gert sér neina grein fyrir áður, eins og t. d., þegar hann stofnaði nýjan menntaskóla við Tjörnina í einu vetfangi og með svo miklum hraða, að hann hafði ekki ráðrúm til þess að ráða skólastjóra og kennara til þess skóla. Og sami asinn kom fram, þegar ákveðið var á örstuttum tíma að taka upp nýtt nám í gagnfræðaskólum í framhaldi af landsprófi og gagnfræðaprófi, sem er alveg ágæt hugmynd, en hefur goldið þess að ráðizt var í hana með svona miklum asa. M. a. hefur verið greint frá því að ekki hafi verið til nauðsynlegar kennslubækur til þessarar kennslu hér í Reykjavík. Allir vita, hvernig ástatt er í Háskólanum, að þar varð hæstv. ráðh. á síðasta ári að snúast marga hringi vegna vandamála í læknadeildinni, ýmist að samþykkja reglugerð eða biðja um, að reglugerð yrði ekki framkvæmd, o. s. frv.

Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að læra af þessu, og hann ætti ekki að beita sér fyrir því, að teknar séu ákvarðanir út í bláinn, eins og verið er að gera með till. um menntadeild við Kvennaskólann, heldur verður hann að gera einhverja heildaráætlun um það, sem nauðsynlegt er að gera í skólamálum á næstunni. Þetta er þeim mun brýnni nauðsyn, sem við erum eftirbátar annarra á mörgum sviðum skólamála og það er eitt alvarlegasta vandamálið í þjóðfélaginu nú, hvað þar er víða illa skipulagt og illa unnið.

Ég vænti þess einnig, að hæstv. ráðh. greini hér frá því, hvers vegna hann snýst gegn áliti færustu og þekktustu skólamanna landsins, því allir menntaskólastjórar á Íslandi, fyrrverandi rektor Háskólans og skólastjóri Kennaraskólans hafa lagzt gegn þessu frv. Mér hefur oft skilizt á þessum hæstv. ráðh., að hann vildi taka mikið tillit til sérfræðinga og að hann teldi, að sérfræðileg rök ættu að hafa mikinn þunga. Því þætti mér forvitnilegt að heyra, hvers vegna hann hafnar rökum þessara reyndu og traustu skólamanna.

Almenn rök fyrir nauðsyn þessarar ráðabreytni hef ég engin heyrt, önnur en þessi sögulegu rök, sem mikið er hampað, að þetta sé svo gamall skóli og góður skóli, að hann eigi þetta skilið af þeim ástæðum. Auðvitað hafa rök af þessu tagi ekkert gildi. Hér á Íslandi eru margir skólar gamlir og góðir, t. d. er ekki ýkja langt þangað til Flensborgarskólinn í Hafnarfirði á aldarafmæli, ekki síður en Kvennaskólinn. Það getur vel komið upp sú hugmynd að Flensborgarskólinn fái heimild til þess að brautskrá stúdenta. En ég mundi aldrei taka afstöðu til þeirrar hugmyndar vegna þess, að skólinn er 100 ára gamall. Ég mundi taka afstöðu til þess út frá því, hvort þörf væri fyrir slíkan skóla í menntunarkerfi okkar, eins og það er núna, hvort það sé nútímaleg nauðsyn, en ekki eitthvert þakklæti fyrir 100 ára störf. Það eru til margir fleiri skólar en Kvennaskólinn, sem hafa á að skipa ágætum kennurum og prýðilegum skólastjórum, en það eru engin rök, að vegna þess að kennarar séu góðir eða skólastjóri sé góður beri að stofna menntaskóla. Slík rök eru algerlega út í bláinn.

Þegar ég varð þess var við 2. umr. um þetta mál, að mikill meiri hl. í þessari hv. þd. virtist fylgjandi frv., og líkur á því, að ætlunin væri að samþykkja það, flutti ég brtt. Brtt. er sú, að Kvennaskólinn fái þessi réttindi, sem um er beðið, en þó á þann hátt, að stofnuð verði menntadeild með sérstöku nafni og hún verði opin fyrir stúlkur og pilta. Þ. e. a. s., að þarna verði gefin heimild til þess að stofna venjulegan menntaskóla, sem fellur að hinu almenna kerfi og fylgir þeirri grundvallarreglu, að ekki sé skipað niður í skólann eftir kynferði, heldur einvörðungu eftir áhuga og hæfileikum. Ef þm. vilja, að þessi skóli haldi áfram á þann hátt, sem þeir tala um, þá væri þetta lausn á þeim vanda. Þá gæti skólinn starfað áfram, en félli hins vegar að hinu almenna kerfi og væri miðaður við það nútímalega sjónarmið, að piltar og stúlkur eigi að stunda nám saman. Ég vil beina því til manna, hvort þessi till. mín gæti ekki verið lausn á þeim deilum, sem spunnizt hafa kringum þetta mál.

Ég skal svo ekki í þessari ræðu endurtaka röksemdir, sem ég hef áður flutt, þar sem ég hef bent á, hve tengt þetta mál er mjög mikilvægum þjóðfélagslegum vandamálum — annars vegar stöðu kvenna og karla í þjóðfélaginu og hins vegar þróuninni í skólamálum. Þessi rök mun ég ekki endurtaka að þessu sinni, en vera má, að ég geri þau atriði að umtalsefni, þegar hæstv. menntmrh. er búinn að svara þeim fsp., sem ég hef til hans beint.