02.02.1970
Neðri deild: 51. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (2283)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég skal svara fáeinum fyrirspurnum, sem hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson, beindi til mín í ræðu sinni áðan. Hann spurði, hvers vegna þetta frv. væri ekki stjórnarfrv. Ríkisstj. var á sínum tíma í fyrra, þegar málið var fyrst flutt, á einu máli um, að ekki væri rétt, að frv. um þetta efni yrði stjórnarfrv., vegna þess að málið hafði verið rætt í stjórnarflokkunum báðum, og þar kom í ljós, að um það var ágreiningur í báðum flokkunum. Og raunar ekki aðeins í stjórnarflokkunum báðum, heldur í öllum þingflokkunum. Þetta var að vísu áður en Alþb. klofnaði og kann vel að vera, að sá flokkur, sem nú kallar sig Alþb., standi einhuga gegn því, en hinn nýi flokkur, Samtök frjálslyndra og vinstri manna, sé einhuga með því. Um það veit ég ekki með vissu, en hitt vissi ég í fyrra, að Framsfl., sem var og er hinn sami og þá var — í honum var ágreiningur um málið og innan Alþb., sem þá var, var líka ágreiningur um málið. M. ö. o.: allir þingflokkarnir voru klofnir í afstöðu sinni til málsins, þegar það var fyrst lagt hér fram, og með hliðsjón af þessu voru allir ráðh. á einu máli um, að ekki væri rétt að flytja þetta sem stjórnarfrv.

Þm. spurði, hvenær ráðh. mundi nota heimildina, sem í frv. felst, ef það verður að lögum. Því verður til að svara, að ef Alþ. samþykkir þetta frv., mundi ég nota heimildina strax í sumar, þannig að menntadeildin gæti tekið til starfa næsta haust. En rétt er að taka það fram, að ég mundi setja það skilyrði fyrir því, að heimildina mætti nota, að ekki færri en 15 nemendur yrðu í hinum nýja bekk. Þetta er hliðstætt því, sem gilt hefur í meira en áratug um 1. bekk menntaskóla við Gagnfræðaskólann á Ísafirði. Tel ég í alla staði eðlilegt, að hliðstætt ákvæði verði sett.

Þá vék hv. þm. nokkrum gagnrýnisorðum að því, sem hann kallar hraðann, það má mikið vera, ef hann sagði ekki óðagoti, sem á hefði verið haft við stofnun Menntaskólans við Tjörnina og hinar nýju gagnfræðadeildir á s. l. hausti. Hér er um misskilning að ræða, að um nokkurn óeðlilegan hraða hafi verið að ræða, og er raunar ekki venjulegt, að gagnrýni sé borin fram fyrir of mikinn hraða við framkvæmdir í menntamálum, enda þykist ég vita, að hv. þm. hafi átt við það, að honum hafi fundizt illa að málinu staðið. Það hafi verið það, sem fólst í orðum hans, að um undirbúningsleysi hafi verið að ræða. Í þessu sambandi vildi ég aðeins minna á, að hér sem annars staðar hefur undanfarinn áratug verið við mikinn vanda að etja í skólamálum. Hann hefur verið meiri hér á landi en í öllum öðrum nálægum löndum, einfaldlega vegna þess að hér hefur hvort tveggja gerzt samtímis, að um mjög mikla hlutfallslega stækkun árganga ungs fólks hefur verið að ræða hér á landi og samtímis því hefur farið mjög hækkandi hlutfallstala þeirra unglinga, sem æskt hafa framhaldsnáms. Í öðrum nálægum löndum hefur sú bylgja fjölgunar á unglingsskeiði farið minnkandi, en þar eins og hér hefur verið um það að ræða á undanförnum árum, að hlutfall þess ungs fólks, sem leitað hefur framhaldsmenntunar, hefur farið mjög hækkandi af hverjum árgangi. Vandinn í skólamálum nálægra landa á ekki lengur á síðari árum rót sína að rekja til þess, að árgangar unglinga fari þar stækkandi, eins og hér á sér enn stað, heldur fyrst og fremst hins, sem einnig á sér stað hér, að æ fleiri unglingar hlutfallslega úr hverjum árgangi æskja framhaldsmenntunar. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, og skal ekki ræða það við þetta tækifæri — ég skal með ánægju gera það við annað eðlilegra tækifæri, en þetta frv. er til umr. um þetta mál — að það er mjög hægur vandi að sýna fram á, að hér hefur verið brugðizt mjög myndarlega við þessum vanda. Og ég hika ekki við að segja myndarlegar en í flestum ef ekki öllum nálægum löndum. Kemur þetta fram í því hvoru tveggja, að hér hefur orðið hlutfallslega meiri aukning á framlögum til skólamála, bæði til byggingar skóla og reksturs skóla en í nokkru öðru landi í V-Evrópu, ef tekin eru s.l. 10–15 ár. Og það er líka mjög auðvelt að sýna fram á það, að gagngerðari endurskoðun hefur farið fram bæði á löggjöf og framkvæmd skólarekstrar hér en í flestum ef ekki öllum nálægum löndum. Hvort tveggja þetta ber vott um það, að við hinum mikla vanda, sem hér hefur verið við að etja eins og í nálægum löndum, hefur verið snúizt bæði nógu tímanlega og af fullum myndarskap hér á landi. Það er engin ný bóla nú á þessum tímum, að rætt sé af hita og áhuga um skólamál. Það er eitt af táknum þeirra tíma, sem við nú lifum, að menn hafa gert sér í æ vaxandi mæli grein fyrir mikilvægi skólanna sem þjóðfélagsstofnana, og í kjölfar batnandi efnahags og vaxandi menntunaráhuga hefur hvarvetna farið mikil endurskoðunaralda, sums staðar mjög byltingarkennd, um skólamál nálægra landa. Hér hefur þessa, ég segi sem betur fer, ekki orðið vart, þannig að nokkur trafali hafi af hlotizt. Mjög víða meðal hinna beztu menningarþjóða hefur alvarlegur trafali hlotizt af þeim óróa, sem hefur orðið í skólum og varðandi skólamál. En það er ánægja að geta sagt það, að hér hefur slíkt ekki átt sér stað, og skýringin er auðvitað sú, að hér hefur á undanförnum 10–15 árum á hverju einasta ári verið unnið að endurbótum á einhverjum stigum skólakerfisins, og ár frá ári hafa fjárveitingar til skólamála tekið svo stórum breytingum til hækkunar, að Íslendingar eru nú í hópi þeirra þjóða í V-Evrópu, sem verja hlutfallslega mestum hluta þjóðartekna sinna til skólamála. Þetta er auðsannað með tilvitnun í opinberar skýrslur alþjóðastofnana.

Örfá orð vildi ég segja um Menntaskólann við Tjörnina. Það er alger misskilningur, og ég tel, að þeir, sem að þeim undirbúningi unnu, eigi allt annað skilið en að þau vinnubrögð séu kennd við flaustur eða óðagot. Það hafði lengi rækilega verið unnið að endurskipulagningu á hagnýtingu skólahúsnæðis í Reykjavík. Um langt skeið fóru fram vandasamir samningar á milli borgaryfirvalda í Reykjavík og menntmrn. um endurskipulagningu á hagnýtingu á skólahúsnæði í Reykjavík, og ég sé ástæðu enn einu sinni til að láta í ljós þakklæti til Reykjavíkurborgar fyrir þann skilning og fyrir þann að ýmsu leyti stórhug, sem hún sýndi við meðferð þess máls. En samningar um svo vandasamt mál hljóta auðvitað að taka verulegan tíma, og það er rétt, að það var ekki fyrr en á s. l. sumri, sem niðurstaða samninganna lá ljós fyrir — að Reykjavíkurborg gerði menntmrn. kost á því að taka á leigu eitt af beztu og elztu skólahúsum borgarinnar, barnaskólann við Tjörnina, til menntaskólahalds. En húsið var tilbúið á alveg réttum tíma, og það, hvað samningarnir tóku langan tíma, varð að engu leyti til þess að tefja fyrir því, að skólinn gæti hafizt á eðlilegum tíma, og hefur hann starfað með miklum ágætum það, sem af er þessu skólaári.

Það hefur áður verið vikið að því í blöðum með gagnrýnisorðum, að ég skuli ekki hafa skipað nýjan rektor við þennan skóla þegar á s. l. hausti, heldur falið stjórn hans rektor Menntaskólans í Reykjavík. Ég held, að ég hafi áður gefið opinbera skýringu á því, hvers vegna ég taldi þessa ráðstöfun réttmæta og skynsamlega, en ekki mun ég hafa gert það hér á Alþ., svo það er bezt, að ég fari um það örfáum orðum. Við stofnun nýs menntaskóla í Reykjavík, Menntaskólans við Tjörnina, var um það tvennt að velja varðandi skipun hans að flytja í hann einn bekk t. d. úr öllum bekkjardeildum Menntaskólans í Reykjavík, en það var húsnæði hans, sem var orðið of lítið — m. ö. o. að hafa þegar á fyrsta ári fullskipaðan menntaskóla við Tjörnina alla fjóra bekki menntaskólastigsins. Ef þetta hefði orðið niðurstaðan, hefði ég talið sjálfsagt að skipa skólanum nýjan rektor þegar við upphaf skólaársins. Hins vegar var það skoðun rektora menntaskólanna, sem ég ráðgaðist um þetta við, og ýmissa kennara menntaskólanna tveggja hér í Reykjavík, að á þessu væru mjög mikil vandkvæði. Og þeirra einróma meðmæli voru með því að hefja þetta nýja skólahald eingöngu með því að starfrækja þriðjabekkjardeildir, þ. e. a. s. fyrstabekkjardeildir í menntaskóla, og þannig hefur Menntaskólinn við Tjörnina starfað á þessu fyrsta starfsári. Með hliðsjón af þessu taldi ég rétt, að þar sem hér er í raun og veru um fyrsta fjórða hluta af fullgildum menntaskóla að ræða, að því er námsefni snertir, að fela stjórn þessa nýja skóla reyndum skólamanni, sem ég treysti fullkomlega og allir treysta fullkomlega til þess að fylgja nýjum skóla fyrstu sporin, fyrst þau eru stigin með þessum hætti. Og þess vegna gerði ég það, sem ég gerði og hef raunar ekki orðið var við, að þessi ráðstöfun hafi verið gagnrýnd af nokkrum skólamanni, hvorki af hálfu nokkurs skólastjóra menntaskólanna, né af hálfu nokkurra kennara þeirra, né af hálfu nokkurra foreldra, allra sízt þeirra unglinga, sem í Menntaskólanum við Tjörnina eru. Ég tel fyrstu sporin þar hafa verið stigin með hinum mestu ágætum.

Þá ræddi hv. þm. einnig um gagnfræðanámið nýja og gat þess, að komið hefði fyrir, að ekki hefðu allar kennslubækur verið til fullgerðar, þegar starfsemi skólans var hafin á s. l. hausti. Það mun rétt vera, að ekki hafi tekizt að ljúka fullkomlega öllum þeim gífurlega undirbúningi, sem það hlaut að kosta að hefja alveg nýjar námsleiðir í gagnfræðaskólum í framhaldi af gagnfræðaprófi og landsprófi, eins og hér var gert. En þetta mál hafði verið mjög rækilega og vandlega undirbúið í mörg ár af skólarannsóknum menntmrn. Og nefnd hafði starfað að því að gera till. um þetta nýja nám og aðrir sérfræðingar að því að semja námsskrá. Þessu verki öllu saman var lokið í tæka tíð, þannig að á þessu þurfti ekki að standa. Hins vegar mun það rétt, að sérfræðingarnir, sem falin hafði verið samning nýrra bóka — því geysimargar nýjar bækur hafa verið samdar til notkunar í þessu námi þeir höfðu ekki fullkomlega lokið sínu starfi, þegar þessir skólar hófu nám sitt í haust. Þegar við höfum hliðsjón af því, hversu mikill skortur er á góðum mannafla til þess að vinna vandasöm verk hér í okkar litla þjóðfélagi, þá held ég, að ekki sé ástæða til þess með sanngirni að gagnrýna það, þó að fyrir komi, að ekki geti allir menn, sem falin eru tiltekin verk, lokið þeim nákvæmlega í þeirri viku, sem upphaflega var til ætlazt eða mælzt.

Þá spurði hv. þm., hvers vegna ég í afstöðu minni til þessa máls hafi hafnað rökum þeirra skólamanna, sem skipuðu meiri hl. menntaskólan., en þeir mæltu gegn þessari hugmynd, sem hér er um að ræða, en tveir menn í minni hl. mæltu hins vegar með þessu. Um þetta vildi ég segja, að ég geri mér fulla grein fyrir því, að á þessu máli eins og raunar öllum málum eru tvær hliðar, og ég skil vel rök meiri hl. menntaskólan. gegn því að veita Kvennaskólanum rétt til þess að brautskrá stúdenta. Ég tel hins vegar ekki rétt, að ég standi gegn því, að ný námsleið opnist á menntaskólastiginu. Ég hef ekki, né heldur ríkisstj., beitt mér fyrir þessu máli, en ég greiddi atkv. með því í fyrra og mun greiða atkv. með því aftur núna.