29.01.1970
Efri deild: 42. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

123. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja efnisumr. um þetta mál, enda tilefnislaust að verulegu leyti. Ég vil fyrst og fremst nota tækifærið til þess að þakka fjhn. þessarar hv. d. fyrir þá vinnu, sem hún hefur lagt í athugun frv. með fjhn. Nd. og hversu vasklega hefur þar verið að verki gengið, jafnan með fullum skilningi á eðli þess vanda, sem við er að glíma. Það var engum ljósara en mér, að það mundi koma fram mýgrútur af óskum um breytingar á tollskránni og svo lengi sem nokkrir tollar eru til, þá geri ég ráð fyrir því, að það muni koma fram óskir um það, að lækkaðir verði tollar á þessum eða hinum vörunum, þannig að það var ekki auðvelt mál, að fara hér bil beggja, að sýna sanngirni og ganga til móts við óskir manna, eftir því sem efni stóðu til, án þess þó að valda þeim vandræðum, að ríkið yrði fyrir þeim áföllum tekjulega, sem ekki yrði við ráðið. Það er að vísu svo, að það hafa verið samþ. yfir 200 brtt. við þetta frv. Þær hafa allar verið gerðar í samráði við rn. og ég hef fúslega fallizt á þær og enginn ágreiningur verið milli rn. og fjhn., hvorki þessarar hv. d. eða Nd. um þau efni og það hafa allir lagzt á eitt um að reyna að ná fram bærilegum friði um málið. Mér þykir mjög vænt um það, að ekki skuli aðeins stjórnarliðið í deildunum, heldur einnig stjórnarandstaðan, í meginefnum telja, að hér hafi verið haldið þannig á, að menn geti bærilega við unað. Og það er rétt að vekja athygli á því og leggja áherzlu á það, eins og hv. frsm. fjhn. gerði hér áðan, að meginbreytingar tollskrárinnar voru miðaðar við EFTA–aðildina, þó það séu vitanlega mörg önnur atriði, sem æskilegt væri að endurskoða í tollskránni. Það hefur raunar verið gert á undanförnum árum, síðast fyrir tveimur árum síðan, þegar tollabreytingar voru gerðar og auk þess á síðasta þingi einnig, en þá voru gerðar stórfelldar kerfisbreytingar á tollskránni. Hún er, eins og menn vita, samræmd við hina svokölluðu Brüssel–tollskrá, sem allar hinar vestrænu þjóðir fara eftir, varðandi tollflokkun vara, en það er mjög þýðingarmikið atriði. En það hefði einnig frá bæjardyrum okkar í fjmrn. séð, verið æskilegt að lagfæra aðra tolla, sem ekki varð við ráðið af fjárhagsástæðum. Það var því sinnt þeirri meginlínu, sem hér hefur verið skýrð og ég gat um í framsöguræðu, að tollskrárbreytingin nú yrði fyrst og fremst miðuð við EFTA–aðildina. Vitanlega hefði verið mjög æskilegt að geta farið með alla vélatolla nú þegar niður í 0. Að því hlýtur að verða stefnt, en það er ekki viðráðanlegt vegna þess tekjutaps, sem af því hlýzt. Og fyrir iðnaðinn er það að sjálfsögðu stórt spor, sem hér er stigið honum til hagsbóta með því að færa niður tolla á iðnaðarvélum, en því miður hefur hingað til verið litið á iðnaðinn í mörgum greinum sem annars flokks atvinnugrein, ef svo má segja, því að iðnaðurinn hefur búið við allt aðra tollflokkun á sínum vélum en sjávarútvegur og landbúnaður, en situr nú við sama borð eftir þessa breytingu.

Þá hefur einnig verið gerð sú lækkun á vélatollum almennt, að söluskatturinn á ekki að þyngja aðstöðu atvinnugreinanna, hvorki landbúnaðar né sjávarútvegs, í sambandi við þær breytingar, sem nú eru gerðar, þar sem það getur naumast talizt vera hækkun, þó að söluskatturinn nemi 1/2% umfram tollalækkunina. Ég tel því, því miður, ekki neinn möguleika á þessu stigi málsins til þess að framkvæma þá breytingu, sem hér hefur verið lögð til og var reyndar líka í Nd., að vélatollar yrðu almennt lækkaðir niður í 0%. Það má færa ýmis rök fyrir því, að það hefði átt að veita sömu heimildir varðandi ýmsar vélar sjávarútvegs og veittar voru niðursuðuiðnaðinum. Þó er sannleikurinn nú sá, að þetta er ekki alveg hliðstætt og ástæðan til þess, að þessi heimild var veitt á sínum tíma, byggðist á því, að hér var verið að byggja upp alveg nýja atvinnugrein, úrvinnslu úr sjávarafla, sem kemur sjávarútveginum öllum að sjálfsögðu til gagns, þannig að það var ekki sama nauðsyn að veita hraðfrystiiðnaðinum þessa fyrirgreiðslu, sem átti miklu sterkari undirstöðu heldur en niðursuðuiðnaðurinn í landinu, sem enn berst í bökkum vegna harðrar samkeppni erlendis. Ég held því, þegar málið er skoðað niður í kjölinn, að menn hljóti að geta verið þeirrar skoðunar, að það hafi verið sanngjarnt, sem gert var á sínum tíma, að veita niðursuðuiðnaðinum þessa sérstöðu.

Þá tel ég heldur ekki eðlilegt á þessu stigi að fastmarka þá stefnu, að það skuli stefnt að því að afnema alla tolla á hráefnum nú eftir 1 ár. Ég efast um, að það verði iðnaðinum til hagsbóta, en það verður auðvitað stefnt að því marki. Það er í fullu samræmi við óskir iðnaðarins, að áfram verði unnið að þessum málum á þann veg, að tollar á hráefnum verði lækkaðir a.m.k. jafnmikið og helzt meira, en á fullunnum vörum. Framvegis munu næstu tollabreytingar miðast við það, að þær lækkanir komist á, áður en frekari rýrnun verður á tollvernd iðnaðarins. En að slá því föstu nú, þar sem vitað er, að tollabreytingar á aðfluttum vörum verða engar í 4 ár, að iðnaðurinn fái algert hráefnatollfrelsi nú á fyrsta ári, það er ég ekki viss um, að yrði iðnaðinum til hagsbóta, enda hafa iðnrekendur sjálfir ekki borið fram um það neina ósk, því að hætta gæti beinlínis orðið á, að í skjóli þessarar nýju tollverndar risi upp iðnaður, sem ekki ætti sér þá framtíð sem skyldi, einmitt í skjóli svona sérréttinda og ennfremur að iðnaðurinn legði ekki það kapp, sem nauðsynlegt er, á að skapa sér nægilega styrka aðstöðu gagnvart innfluttum vörum, ef svona langt yrði gengið.

Hitt er annað mál, að það er rétt, sem hér hefur verið vikið að og ríkisstj. hefur á því fullan skilning, að það þarf að athuga lánamál iðnaðarins. Iðnþróunarsjóðinn fáum við innan tíðar hér til meðferðar, en hann mun stórbæta stofnlánakerfi iðnaðarins. Sannleikurinn er sá, að rannsóknir hafa leitt í ljós, að rekstrarlán iðnaðarins mega teljast mjög viðunandi. Það, sem hefur vantað þar fyrst og fremst, eru stofnlán og rekstrarlánin hafa vegna óviðunandi stofnlána verið notuð meira en skyldi, einmitt til uppbyggingarinnar, þannig að ef það tækist að koma stofnlánunum í eðlilegt horf, þá er ekki hægt að segja, að það sé illa búið að iðnaðinum almennt um rekstrarlán.

Varðandi export–lán hefur ríkisstj. lýst yfir því, að það mál er í athugun og þarf að sjálfsögðu að skapa iðnaðinum þá aðstöðu, ef hann getur flutt út vörur, að hann geti boðið sömu fyrirgreiðslu og innflytjendur gera í sambandi við ýmsar vörur, sem keyptar hafa verið erlendis frá með svokallaðri exportkredit, og síðast, en ekki sízt þarf, að kanna til hlítar, hvort staða iðnaðarins hér, skattalega séð, er erfiðari, en í samkeppnislöndunum, þ.e.a.s. hjá öðrum EFTA–löndum. Sú athugun hefur þegar verið í gangi í alllangan tíma og gert er ráð fyrir því, að nú á þessu þingi verði lagt fram frv., sem tekur til meðferðar veigamesta atriðið í því sambandi.

Aðeins eitt atriði enn vildi ég minnast á, varðandi tölur um tekjutap, þar sem reiknað er með, að öll vörukaup, sem falla undir EFTA–tollinn, færist yfir til EFTA–landanna. Það er alveg rétt, að í áætluninni, sem fylgir frv., er þetta gert á fyrsta stigi, til þess að menn sæju heildarmyndina af þessu, því það mátti í rauninni gera ráð fyrir því, að þetta yrði svo, þegar um 30% mun á tollum yrði að ræða. Hitt er alveg rétt hjá hv. frsm. minni hl., að það eru auðvitað litlar líkur til, að þetta gerist strax að öllu leyti. Enda vil ég vekja athygli á því, að við endanlega afgreiðslu fjárlaga var ekki gert ráð fyrir því, að hér yrði strax um slíka millifærslu að ræða, þannig að gert var ráð fyrir töluverðri fjárhæð sem tekjuauka í fjárl. frá þeirri áætlun, sem tollskrárfrv. miðar við, að muni leiða af sér tekjutap fyrir ríkissjóð miðað við að á þessu ári verði a.m.k. nokkuð af vörum áfram flutt inn eftir hinum gömlu viðskiptasamböndum.

Að öðru leyti held ég, að það sé ekki ástæða til þess að eyða frekari orðum að þessu máli. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri í upplýsingaskyni og taldi rétt að víkja örfáum orðum bæði að brtt. og ástæðunni fyrir því, að ekki er mögulegt að sinna þeim, þó að það sé framtíðin að sjálfsögðu, eins og ég gat um, að því marki verði náð, sem þessar brtt. fjalla um.