25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í C-deild Alþingistíðinda. (2299)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., heimilar að veita Kvennaskólanum í Reykjavík rétt til þess að starfrækja menntadeild fyrir stúlkur og rétt til þess að brautskrá stúdenta. Þessu frv. var að lokinni 1. umr. hér í hv. d., sem fór mjög friðsamlega fram, því ég man ekki eftir, að neinn tæki til máls, vísað til menntmn. Menntmn. hefur síðan rætt þetta mál á nokkrum fundum. Hún náði ekki samstöðu um afstöðu til málsins, og klofnaði n. Við, sem skipum meiri. hl. n., höfum skilað sérstöku nál. á þskj. 654, þar sem við lýsum afstöðu okkar til málsins og leggjum til, að frv. verði fellt, og greinum þar frá, hvaða rök við færum fram þeirri skoðun okkar til stuðnings. Í þessu nál. eru talin upp 6 atriði, sem einkum valda því, að við erum andvígir þessu frv., og leggjum til, að það verði fellt, eins og áður segir. Skal ég nú gera þessum atriðum nokkru ýtarlegri skil heldur en í sjálfu nál. er gert.

Það er í fyrsta lagi, að með frv. er vikið til hliðar grundvallarreglu fræðslulöggjafarinnar um aðskilnað gagnfræðaskóla og menntaskóla og hlyti slíkt fordæmi, ef leyft yrði, að draga alvarlegan dilk á eftir sér. Þegar fræðslulöggjöfinni var breytt árið 1946, að mig minnir, þá var gerður reki að því fljótlega þar á eftir að leggja niður gagnfræðadeildir, sem þá voru til við menntaskóla, og menntaskólarnir færðir í það form að vera fjögurra vetra skólar og gagnfræðanám og menntaskólanám algjörlega aðskilið. Ef þetta frv. yrði samþ., mætti því búast við kröfum frá mörgum hinna stærri gagnfræðaskóla í landinu um það, að þeir fengju sama rétt og Kvennaskólinn, sem erfitt yrði þá að standa í gegn. Með því móti væri í raun og veru allt menntaskólakerfið næstum því hrunið til grunna, eða það yrðu þá allt of margir skólar, sem hefðu rétt til þess að brautskrá stúdenta, og það kerfi, sem við búum við, væri þá eiginlega liðið undir lok.

Í annan stað er það skoðun okkar, sem að meiri hl. álitinu stöndum, að menntaskólarnir eigi að vera samskólar ungs fólks af báðum kynjum. Ef þetta frv. yrði samþ., þá væri þar einmitt vikið til hliðar annarri grundvallarreglu skólalöggjafarinnar, sem sé þeirri, að menntaskólarnir eigi að vera samskólar fólks af báðum kynjum. Reyndar eru nú á þessu þingi nýsamþ. l. um menntaskóla, og í 4. gr. þeirra l., sem er ákaflega stutt og laggóð, segir einfaldlega: „Skólarnir eru jafnt fyrir pilta og stúlkur.“ Það verður ekki séð, að það sé nein ástæða nú til þess um einn skóla að fara að víkja frá þessari grundvallarreglu um menntaskólanám, sem Alþ. hefur nýlega samþ. og það samhlj. að ég hygg.

Í þriðja lagi hlyti menntadeild við Kvennaskólann að verða of fámenn, a. m. k. fyrstu árin, til þess að um eðlilegt valfrelsi nemenda yrði að ræða. Eftir því, sem mér er bezt kunnugt, mun fyrirhugað, ef þetta frumvarp yrði samþykkt, að bara væri ein bekkjardeild í hverjum bekk þessarar menntadeildar í Kvennaskólanum, þannig að það yrði, að mér skilst, ekki um neitt valfrelsi að ræða. Nú er það engan veginn víst, að þær stúlkur, sem taka landspróf í Kvennaskólanum og hyggja á stúdentsnám, vildu allar stunda þess konar nám, er hugsanleg menntadeild Kvennaskólans byði upp á. Það er líka talið af skólafróðum mönnum, að menntaskóli þurfi að vera af einhverri tiltekinni lágmarksstærð og með nokkur hundruð nemendum í menntadeild. Þetta skilyrði væri ljóslega ekki hægt að uppfylla, ef Kvennaskólinn fengi að stofnsetja menntadeild hjá sér.

Þá hafa heyrzt þær raddir, að við eigum að gefa kost á því að stunda stúdentsnám og taka stúdentspróf með því að stofna fleiri skóla, eða leyfa fleiri skólum að brautskrá stúdenta eins og t. d. Kvennaskólanum í Reykjavík, þá sé unnið að því, að gefa fleirum kost á stúdentsmenntun en áður, og um það er ekki nema gott eitt að segja. Þetta hygg ég að fái ekki staðizt, að því er Kvennaskólann varðar, því ég get naumast hugsað mér það, þó að þetta frv. verði fellt, þá hafi það þær afleiðingar, að einhverjar ungar stúlkur, sem hygðust nema undir stúdentspróf og færu í menntadeild, misstu af þeim sökum af möguleikum á námi, vegna þess að hér eru margir menntaskólar í Reykjavík og einn menntaskóli nýstofnaður á síðasta ári, sem hefði nægjanlegt rúm fyrir þetta unga fólk. Þess vegna geta þau rök ekki legið til þess að styðja þetta frv., að með því sé stuðlað að því, að einhverjar stúlkur öðlist möguleika til menntaskólanáms, sem annars ættu þess ekki kost.

Þá hefur nú nýlega farið fram athugun af hálfu byggingardeildar menntamálaráðuneytisins á þessu skólahúsnæði, sem Kvennaskólinn býr nú við, og samkvæmt þeirri athugun kemur í ljós, að þetta húsnæði er alveg ófullnægjandi til þess, að þar sé hægt að reka menntaskóla. Þessi athugun, sem framkvæmd var af hálfu byggingardeildar menntmrn., hún er undirrituð 15. þ. m. Þetta er stutt grg., og með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa hana, en hún hljóðar þannig:

„Forstöðumaður byggingardeildar menntmrn., Guðmundur Þór Pálsson, arkitekt, hefur að beiðni rn. gert áætlun um húsnæðisþörf Kvennaskólans í Reykjavík, er miði við, að skólinn fái réttindi til að brautskrá stúdenta. Helztu niðurstöður þeirrar áætlunar fara hér á eftir:

Stærð gamla skólahússins er 952 ferm., en nauðsynleg stærð skólahúss þyrfti að vera, samkv. normum, 2048 ferm., og er þá miðað við, að skólinn verði 8 bekkjardeildir eða samtals 200–240 nemendur. Ef gamla húsið verður notað, má reikna með ca. 10% afföllum á brúttórými þess, 952÷92 = 860 ferm., og þyrfti þá að byggja 1188 ferm. Kostnaður samkv. vísitölu yrði 24 millj. 770 þús. Ef að því yrði hins vegar horfið að byggja nýtt skólahús samkv. fyrrgreindum normum, yrði kostnaður samkv. sömu vísitölu kr. 41 millj. og 500 þús. fyrir utan leikfimissal með kennslutækjum og frágang lóðar.

Samkv. upplýsingum skipulagsstjóra Reykjavíkur hefur skipulagsnefnd tekið þá afstöðu, að hugsanlegt sé að leyfa viðbyggingu bak við núverandi skólahús, en þó alls ekki þannig, að skólinn veitti viðtöku fleiri nemendum en nú eru í skólanum. Það er álit byggingardeildar, að betur muni borga sig að selja gamla húsið og lóðina og byggja nýjan skóla annars staðar. Byggingardeild byggir þessa skoðun sína á, að kennslustofur í gamla húsinu séu mjög litlar og af ýmsum óheppilegum stærðum, að snyrtingar í gamla húsinu séu of litlar og mjög illa staðsettar, að lóðin sé alls ekki heppileg, miðað við að nemendum skólans fjölgi, og ekki sízt með tilliti til að á aðalskipulagi Reykjavíkur er gert ráð fyrir, að Fríkirkjuvegurinn verði mikil umferðaræð, sem eðlilega hefur truflandi áhrif á kennslu í húsinu. Þá er og á það að benda, að ekki mun vera hægt að sjá fyrir nægum bílastæðum.“

Þetta var álit forstöðumanns byggingardeildar menntmrn., sem ég las hér. En samkv. því telur hann sýnilegt, að gamla skólahúsið sé of lítið og þyrfti nær að tvöfalda það að stærð, til þess að í skólahúsinu yrði sami nemendafjöldi og verið hefur, þ. e. a. s. 8 bekkjardeildir með samtals 200–240 nemendum. Ef ætti nú að fara að troða inn í þetta skólahús menntadeild og þar með nýjum bekkjum, þá hlyti það óhjákvæmilega að leiða til þess, að það gengi út yfir aðra starfsemi skólans, þannig að þá hlyti að fækka til muna í gagnfræðadeild skólans, og væri þá gagnfræðadeildin jafnvel orðin það fámenn, að það væri spurning, hvort það væri raunverulega eðlilegt að reka þar sjálfstæða gagnfræðadeild. Það er reyndar, eins og þarna kemur fram, alveg ljóst, að miðað við núverandi rekstur skólans og núverandi nemendafjölda er skólahúsið of lítið og þarf á viðbyggingu og endurbótum að halda. Það virðist þess vegna, ef ætti að stofna þarna menntadeild, ekki vera unnt að gera ráð fyrir öðru, ef horft er eitthvað fram í tímann, en það yrði óhjákvæmilega að byggja nýtt skólahús, skólahús, sem kostaði marga tugi millj. kr. Og þess vegna mundi það verða ærið fjárfrekt, þegar fram í sækir, að samþykkja þetta frv. og reka menntadeild við Kvennaskólann í Reykjavík.

Þá er í framhaldi af þessu ljóst, að við þetta allt yrði mjög mikill kostnaður, og teljum við, sem að þessu nál. stöndum, að þeim fjármunum yrði betur varið á öðrum vettvangi í þágu menntaskólastigsins. Eins og allir vita, hafa verið stofnaðir nýir menntaskólar í Reykjavík nýlega eða á allra síðustu árum og sá nýjasti getur bætt við sig nemendum, hann er rétt á byrjunarstigi. Auk þess eru svo eðlilegar kröfur frá landsbyggðinni um að fá þar byggða menntaskóla, og telja ýmsir, að fjárveitingar þangað hafá verið af skornum skammti. Það gefur því alveg auga leið, að ef ætti að fara að bæta enn nýjum menntaskóla við í Reykjavík, menntaskóla, sem yrði sennilega mjög dýr í rekstri vegna fámennis og vegna þess, að hann skortir algerlega húsnæði til frambúðar, þá yrði það, eins og áður segir, mjög kostnaðarsamt og þeim fjármunum yrði betur varið annars staðar.

Með nál. um þetta mál, sem er nál. frá minni hl. menntmn. í Nd., er prentað sérstakt fskj. á þskj. 206, sem er umsögn meiri hl. menntaskólanefndar um þetta mál, en í þessari nefnd áttu sæti rektorar og skólameistarar menntaskólanna og háskólarektor. Nokkrum atriðum, sem þar eru talin upp, hef ég reyndar gert grein fyrir hér, þau hafa komið fram í nál. okkar. Þar falla skoðanir okkar í meiri hl. menntmn. saman við þær skoðanir, sem koma fram á þessu skjali, en það er sérstaklega eitt atriði í niðurlagi þess, sem ég vildi gera hér að umtalsefni, en þar segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

„Með tilliti til merkrar sögu Kvennaskólans er eðlilegt, að hann leiti að hlutverki, er sé stærra og betra og í samræmi við kröfur tímans um menntun kvenna en það hlutverk, sem hann nú gegnir sem almennur gagnfræðaskóli. Hins vegar virðist nefndinni, að í þeirri leit hafi forráðamenn skólans bundið sig um of við núverandi tilhögun þeirra menntaskóla, sem fyrir eru í landinu. Það skal skýrt fram tekið, að allir nm. eru sammála um að styrkja beri Kvennaskólann til þess að gegna því hlutverki sem bezt að efla menntun kvenna til munns og handa og vinna á ný brautryðjendastarf í þeim efnum. Í landinu er vaxandi þörf á vel menntuðum konum til margvíslegra starfa, sem háskólamenntun er ekki bezti undirbúningur undir, þótt þau krefjist mikillar almennrar menntunar og verulegrar sérmenntunar.“

Ég vil alveg sérstaklega undirstrika þessi ummæli skólameistaranna, að Kvennaskólinn í Reykjavík getur leitað sér nýrra verkefna á öðrum vettvangi en gert er með þessu frv., og það eru hygg ég allir sammála um það, að Kvennaskólinn í Reykjavík hafi getið sér gott orð, þetta sé merkur skóli. En jafnvel slíkt dugir ekki til þess að veita skólanum rétt til þess að brautskrá stúdenta, því að sömu sögu er um marga aðra skóla að segja, sem ekki fá þeirri kröfu sinnt. En fyrir utan það, að þeir menn, sem bezt til þekkja, og þar á ég sérstaklega við rektora og skólameistara menntaskólanna, hafa fært fram góð og gild rök gegn þessu frv., þá liggur auk þess fyrir samþykkt frá Landssambandi menntaskólanema, sem mótmælir samþykkt þessa frv., og reyndar er mér heldur ekki kunnugt um það, að jafnvel stúlkurnar í Kvennaskólanum hafi mikinn áhuga á brautargengi þessa máls. Ég ítreka svo þá niðurstöðu meiri hl. menntmn., sem ég hef mælt hér fyrir, að við leggjum til, að þetta frv. verði fellt.