25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. minni hl. (Ólafur Björnsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur einkum af hálfu andstæðinga þess verið rætt á þeim grundvelli, að það eitt væri um að ræða að koma á fót menntadeild, sem ekki væri frábrugðin þeim, sem starfandi eru við aðra menntaskóla, að öðru leyti en því að vera einvörðungu fyrir konur. Ef ræða á málið á þeim grundvelli, skil ég vel þá gagnrýni, sem fram hefur komið, og þá mundi ég alls ekki vera í hópi stuðningsmanna málsins. En það er alls ekki um þetta að ræða, og á því hef ég fengið fulla staðfestingu í viðræðum við þær konur, sem einkum hafa barizt fyrir þessu máli. Þær hafa sagt, að hlutverk Kvennaskólans ætti framvegis að vera það sama og ávallt hefði verið — að veita undirbúning undir störf, sem æskilegt væri að öðrum fremur væru stunduð af konum innan heimilis og utan. En vaxandi kröfur til undirbúningsmenntunar undir flest þessara starfa leiddu til þess, að menntum sú, sem Kvennaskólinn hefði getað veitt til þessa, væri ófullnægjandi. Ef Kvennaskólinn fær réttindi til þess að útskrifa stúdenta, þá væri um að ræða sérskóla með slíkum réttindum, sem legði áherzlu á undirbúning undir störf, sem telja má, að konur séu hæfari til að gegna en karlar, og væri þá um hliðstæðu að ræða við Verzlunarskólann og Kennaraskólann, sem eru sérskólar, sem þegar hafa öðlazt slík réttindi. Það er því að mínu áliti kjarni málsins, hvort til séu störf í þjóðfélaginu, sem konur séu betur til fallnar að stunda en karlar, og hvort ástæða sé til þess að veita sérstaka undirbúningsmenntun undir þau. Við, sem að minni hl. álitinu stöndum, teljum, að svo sé, þannig að samþykkt þessa frv. sé í fullu samræmi við þá stefnu í menntamálum, sem nú er að ryðja sér til rúms — að opna nýjar námsleiðir og leggja áherzlu á meiri sérhæfingu en verið hefur þegar á menntaskólastigi.

Hv. frsm. meiri hl. vitnaði í lok ræðu sinnar í umsögn frá nokkrum skólastjórum menntaskólanna, þar sem þeir komust þannig að orði, að Kvennaskólinn ætti að leita sér annarra verkefna en þeirra að útskrifa stúdenta. Nú má á það benda, að í flestum löndum hefur þróunin gengið mjög í þá átt, að stúdentum hefur fjölgað. Ég tel mig hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir, að gert er ráð fyrir því, að í Bandaríkjunum verði menntun samsvarandi stúdentsprófi orðin svo almenn eftir fá ár, að hún mundi ná til um 50% af hverjum árgangi, sem taki stúdentspróf í landinu sem heild, en um 75% í hinum stærri borgum. Nú gefur það auðvitað auga leið, að það er ekki þörf fyrir svona margt fólk í langskólanám, en stefnan, sú rétta að mínu áliti, er þá einmitt sú, að opna nýjar námsleiðir, þar sem um styttra nám er að ræða en háskólanám almennt er nú, en gert er þá ráð fyrir því, að til undirbúnings undir slíkt sérnám á hinum ýmsu sviðum þurfi stúdentspróf.

Eins og ég sagði, tel ég það kjarna málsins, hvort gert er ráð fyrir því, að til séu störf, sem konur séu betur fallnar til að stunda en karlar, og hvort þau þurfi undirbúningsmenntunar, sem hliðstæð sé við stúdentspróf. Þau rök hafa verið borin fram gegn þessu frv., að það skapi misrétti milli kynja, og sé því spor aftur á bak í menningarmálum þjóðarinnar. Allt slíkt er að okkar áliti, sem að minni hl. nál. stöndum, úr lausu lofti gripið, því að eitt er það að skapa konum og körlum jafnréttisaðstöðu til þess að njóta hæfileika sinna, og það held ég, að sé skoðun okkar, sem þetta frv. styðjum, ekki síður en annarra, að það sé sjálfsagt mannréttindamál. En annað er það að halda því fram, að enginn munur sé á hæfni karla og kvenna til að stunda tiltekin störf. Að halda slíku fram, kemur að mínu áliti í bága við áþreifanlegar og augljósar staðreyndir. Það eru annars vegar til störf, svo sem þau er krefjast mikilla líkamskrafta, sem karlar eru betur færir um að stunda en konur, en það eru líka til störf, og það er það, sem hér skiptir máli, sem konur eru að mínu áliti miklu hæfari til að gegna en karlar. Mikilvægust þeirra eru uppeldi og umönnun yngstu kynslóðarinnar innan heimilis og utan, en einnig má nefna hjúkrunarstörf og vafalaust ýmislegt fleira. Mér kæmi það einkennilega fyrir sjónir, ef því væri haldið fram, að karlar væru jafnhæfir konum til barnfóstrunar og barnauppeldis, a. m. k. hinna yngri. Ég man, að ég heyrði kennara minn danskan, prófessor í hagfræði, einu sinni segja, að ef lærðir prófessorar ættu að fara að fóstra ungbörn, þá mundi ungbarnadauðinn vaxa gífurlega, og það jafnvel þó að viðkomandi væru prófessorar í læknisfræði. Þó nokkrir áratugir séu, síðan þessi orð voru viðhöfð, þá held ég, að þau standi óhögguð enn, hvað sem verða kann á næstu öldum. Um það skal ég ekki segja. Og varðandi hjúkrunarstörf, þá eru að vísu til störf á því sviði, svo sem að bera sjúklinga á milli rúma, gæzla óðra manna á geðveikrahælum o. s. frv., sem eru karlmannsstörf, en það held ég, að breyti engu um það, að konur hafi meiri hæfileika til þess að stunda hjúkrunarstörf en karlar.

Við, sem að minni hl. álitinu stöndum, teljum, að hér sé um störf að ræða, sem í senn séu mjög mikilvæg bæði fyrir velferð einstaklinga og þjóðarheildar og geri þær kröfur til undirbúningsmenntunar, að ekki beri að horfa í nokkurn kostnað við það, að til hennar sé vandað. Mundi samþykkt þessa frv. að okkar áliti geta orðið mikilvægt spor í þá átt.

Þess verður mjög vart í áróðrinum gegn þessu máli, að inn í það blandast á óheppilegan hátt annað, nefnilega það, að störf þau, sem hér um ræðir hafa verið og eru enn vanmetin af hálfu þjóðfélagsins, þannig að þau eru ekki launuð, sem vert væri, með tilliti til mikilvægis þeirra. Af því er svo dregin sú ályktun, að hér sé um eins konar óæðri störf í þjóðfélaginu að ræða, sem karlmenn eigi að taka á sig til jafns við konur, og þannig skuli skapa kynjunum jafnréttisaðstöðu. Ég hef nú í fyrsta lagi ekki trú á því, að sú leið mundi vera framkvæmanleg. Að vísu kemur það fyrir, að við karlmennirnir sýnum það endrum og eins í verki, að við viljum vera góðir eiginmenn með því að þvo upp, elda hafragraut, hita kaffi og jafnvel bía ungbarni, en ég held, að erfitt sé að fá okkur flesta til þess að tolla við slíkt, enda er það ekki heppilegasta lausnin, ef störfin eru mikilvæg þjóðfélagslega séð og konur betur hæfar til að stunda þau en karlar. Við hv. 11. þm. Reykv., sem báðir stöndum að þessu nál. og höfum báðir um langt skeið gegnt formennsku í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, þekkjum það manna bezt, að um vanmat á þeim störfum, sem konur einkum stunda, hefur verið að ræða og er enn, og höfum við báðir að því unnið eftir föngum að bæta þar úr, þó segja megi ef til vill, að afrekaskrá okkar í því efni sé ekki eins stór og við hefðum óskað. En það er annarra að dæma þar um. En nokkuð hefur þó áunnizt á þeim vettvangi, og báðir erum við áreiðanlega til viðtals um frekari úrbætur í því efni. Það er líka — að okkar áliti — sú leið, sem fara ber í þessu efni, og samþykkt þessa frv. mundi einmitt fela í sér þá viðurkenningu löggjafarvaldsins á mikilvægi þessara starfa, sem gæti auðveldað mjög að bæta úr því vanmati á störfunum og launamisrétti, sem enn er við lýði.

Þá vil ég á grundvelli þess, sem sagt hefur verið, víkja nokkuð að rökum þeim, sem fram hafa komið gegn þessu frv. í ræðu hv. frsm. og áliti meiri hl. Það er vitnað þar í fræðslulögin frá 1946, m. a. það sjónarmið í þeim l., að aðgreina beri gagnfræðanám og menntaskólanám, þannig að það sé ekki stundað við sama skólann. Þó að fræðslulögin frá 1946 væru á sínum tíma mikið spor í framfaraátt, þá ber þess þó að gæta, að mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim aldarfjórðungi, sem síðan er liðinn, og stefnan í skólamálum hefur verulega breytzt í mikilvægum atriðum frá því, sem þá var. E. t. v. er það einna mikilvægasta í þessu efni, sem þetta mál snertir, það, að fyrir um það bil aldarfjórðungi virtist stefnan yfirleitt vera sú að samræma stúdentsprófið sem allra mest, þannig að allir nemendur, sem lykju stúdentsprófi, hefðu nokkurn veginn sömu menntun. Sú eina skipting, sem þá var til innan menntaskólanna, var skiptingin í stærðfræðideild og máladeild, sem fyrst mun hafa komið til sögunnar í kringum 1920. Við því var að vísu ekki haggað. En þó man ég, að kringum 1930 var svo komið, að búið var að leggja niður alla stærðfræði í máladeild og hins vegar latínu í stærðfræðideild. Um þetta leyti var aftur horfið að því að taka upp stærðfræði í máladeild, og latínu í stærðfræðideild, sem tvímælalaust var einmitt spor í samræmi við þá stefnu, sem þá var ríkjandi, að stúdentsmenntun ætti að vera almenn menntun, eins og það var kallað, sem væri sú sama fyrir alla. Nú aftur á móti á síðustu árum hefur þróunin gengið í gagnstæða átt, að það hefur verið lögð áherzla á meiri sérhæfingu einmitt á menntaskólastiginu, og er enn mikið um það rætt, og vafalaust kemur það til framkvæmda, áður en langt um líður, og er raunar þegar komið til framkvæmda, að fleiri og meira sérhæfðar deildir innan menntaskólanna verði stofnaðar. Einmitt með tilliti til þessa teljum við, sem að minni hl. álitinu stöndum, að samþykkt frv. sé í fullu samræmi við hina almennu stefnu í þessum málum. Af þessu leiðir, að sú röksemd, sem fram kemur hjá skólastjórunum og í áliti meiri hl., að menntadeild við Kvennaskólann hlyti að verða of fámenn til þess, að um eðlilegt valfrelsi nemenda yrði að ræða, eins og það er orðað, á ekki við. Ef litið er á þetta sem sérskóla, hliðstæðan öðrum sérskólum, sem þegar hafa fengið réttindi til þess að útskrifa stúdenta, þá á þetta auðvitað ekki við. Auk þess má hér bæta því við, að í grg. fyrir fræðslul. var skýrt tekið fram, eftir því sem ég bezt veit, að Kvennaskólinn væri ekki sambærilegur við almenna gagnfræðaskóla. Þess má einnig geta í þessu sambandi, að innan Verzlunarskólans, sem á stríðsárunum fékk réttindi til þess að útskrifa stúdenta, er stundað gagnfræðanám og hefur alltaf verið og ekki verið við því amazt. Það er að vísu með nokkuð sérstæðum hætti. Og Verzlunarskólinn er að því leyti enn frábrugðnari hinu almenna kerfi en Kvennaskólinn mundi nokkurn tíma verða, að það þarf ekki landspróf til að setjast í menntadeild Verzlunarskólans, en ekki hefur verið um annað talað, en að landspróf þyrfti að taka til að setjast í væntanlega menntadeild Kvennaskólans, sem er auðvitað í fullu samræmi við hið almenna skólakerfi.

En ef viðurkennt er, eins og ég hef sagt, að til séu störf, sem þurfi sérstakrar undirbúningsmenntunar og séu einkum við hæfi kvenna, þá er eðlilegt, að frá báðum þessum meginreglum sé vikið. Hitt er svo annað mál, að þó að þessari menntadeild væri komið á fót, þá mundi það auðvitað ekki þýða það, að allar stúlkur, sem hygðust taka stúdentspróf, þyrftu endilega að stunda nám þar. Það mundu fyrst og fremst verða þær, sem hefðu áhuga fyrir þessum störfum, sem ég hef minnzt á. Ef konur hugsa sér að verða t. d. veðurfræðingar eða verkfræðingar, og vissulega eru konur hlutgengar á því sviði, þá mundu viðkomandi auðvitað fara í stærðfræðideildir menntaskólanna, sem eðli málsins samkvæmt verða sameiginlegar fyrir karla og konur, eins og verið hefur.

Þá vék hv. frsm. meiri hl. að kostnaðarhlið þessa máls. Nú skal ég játa, að hana hef ég ekki kynnt mér ofan í kjölinn. Á því má aðeins vekja athygli, að kostnaður við framkvæmd þessa, verður auðvitað, eins og hvað snertir öll önnur slík heimildarlög, háð ákvörðunum fjárveitingarvaldsins hverju sinni. Í öðru lagi má á það benda, eins og raunar kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl., að það er nauðsyn að byggja yfir Kvennaskólann og starfsemi hans hvort sem er. Það hefur verið nauðsynlegt vegna mikillar aðsóknar að grípa til verulegra aðgangstakmarkana, þannig að ef hugsunin er ekki beinlínis sú að leggja Kvennaskólann niður, heldur að gera honum kleift að fullnægja eftirspurninni, þá þyrfti byggingu hvort sem væri. En hitt verður þá auðvitað sérstakt matsatriði, sem ég treysti mér ekki til að fara út í, hvort verður minni kostnaður við þá byggingu, sem nauðsynleg er undir öllum kringumstæðum, eða þá, sem miðuð er við það hlutverk Kvennaskólanum til handa, sem hér er gert ráð fyrir. En undir öllum kringumstæðum hlyti sú tala að vera til mikilla muna lægri en sú áætlun, sem gerð hefur verið. Annars verður þetta auðvitað á valdi fjárveitingavaldsins hverju sinni. Af því að hv. frsm. minntist á landsbyggðina í þessu sambandi, þá ber að taka það fram, að margar stúlkur utan af landi sækja Kvennaskólann.

Að lokum, þó að það sé e. t. v. of mikil fjarstæða til þess, að rétt sé að minnast á það, þá hefur sú skoðun komið fram, að ef þetta frv. yrði samþykkt, þá væri hætta á of miklu konuríki hér á Íslandi, því að karlmennirnir hefðu kúgað konurnar áður, þá mundi með því að samþykkja þetta frumvarp, þessu verða snúið við. Við, sem að minni hl. nál. stöndum getum ekki séð, að neinar slíkar röksemdir eigi rétt á sér. Við erum líka allir karlmenn, og hver er sjálfum sér næstur, eins og þar stendur, enda sjáum við ekki, að neitt sé tekið frá karlmönnunum með því að stofna til þessa skóla. En ef hann er miðaður við þau störf, sem konur teljast hæfari til að stunda en karlar, þá er eðlilegt að binda aðgang að honum við konur. Hér er ekki um neins konar misrétti að ræða. Það er alveg hliðstætt því, að flugfélögin munu varla taka við fimmtugum mönnum á þjálfunarskóla undir flugmennsku eða jafnrosknum konum á námskeið fyrir flugfreyjur. Það mætti þá alveg eins segja, að það væri verið með slíku að mismuna kynslóðum o. s. frv.

Herra forseti. Samkv. því, sem ég hef sagt, leggur minni hl. menntmn. til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.