25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2301)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Björn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera mikið að umtalsefni þessa skemmtilegu ræðu hv. frsm. minni hl. menntmn., enda geri ég ráð fyrir, að talsmaður meiri hl. hennar muni gera henni full skil. Einhvern veginn fannst mér, þegar ég hlustaði á þessa ræðu, að þarna væri rödd frá fyrri öld að tala, en ekki frá þeim tíma, sem við nú lifum, og er það vissulega dálítið undrunarefni, að merkur skólamaður og góður mæli svo forneskjulegu máli, sem hann mælti hér að mörgu leyti. Hann sagði m. a., að þetta frv., sem hér er á ferðinni, væri í fullu samræmi við stefnuna í menntamálum okkar, þó að hann viti eins vel og við allir aðrir hv. dm., að það er ekki aðeins gagnstætt öllum lögum, sem um menntunarmál fjalla hér á landi, heldur öllum nútímaskoðunum um menntunarþarfir karla og kvenna, en stefnan er yfirleitt byggð á því og almennar skoðanir manna á því, að menntunarþarfir karla og kvenna séu hinar sömu. Hitt leiðir svo auðvitað af sjálfu sér, að hver og einn velur sér námsbrautir eftir hæfileikum sínum og áhugamálum. Ég held líka, að það sé ekki nein hætta á því, að þó að þetta frv. verði fellt, leiði það til þess, að það verði þrýst á hv. þm. að fara að passa börn eða gerast sjúkraliði. Ég held, að þó að við treystum honum til flestra góðra hluta, þá mundum við ekki gera það, því að af því gæti hlotizt slys, vegna þess að prófessorar eru menn gleymnir og kynnu að vanrækja nauðsynlegustu hluti.

Það er sagt af þessum hv. ræðumanni, að hér sé ekki um að ræða neitt misrétti milli kynja. Alveg með sama hætti mætti halda því fram, að það væri ekkert misrétti á milli kynþáttanna t. d. í Bandaríkjunum, þó að hvítir og svartir menn fengju ekki að ganga í sama skóla, aðeins ef það væri hægt að vísa negrunum á einhvern sérskóla. Málið hefur ekki staðið um það, heldur hefur staðið um það barátta árum og áratugum, jafnvel öldum saman, að þessir menn hefðu jafnrétti til þess að sitja í sömu skólastofunni og njóta sömu kennslunnar. Sýnist mér því þessi röksemd hv. þm. algerlega út í hött, og ósæmandi fyrir hann að bera hana fram.

Annars var það ekki mín meining að fara hér í miklar deilur um þetta mál, en ég hef talið rétt af ýmsum ástæðum að gera í örstuttu máli grein fyrir mínum skoðunum á því og á hverju andstaða mín við þetta frv. byggist. Það er orðið mönnum æði kunnugt, að þetta mál hefur verið bæði sótt og varið af miklu ofurkappi eða var a. m. k. um nokkurt skeið, líkt og hér væri um mál að ræða, sem yrði nánast eitthvert úrslitamál í öllum menntunarmálum þjóðarinnar. Það mun ýmsum finnast fleirum en mér, að allur sá gauragangur, sem viðhafður hefur verið í sambandi við — ég vil segja bæði fylgi og andstöðu við málið — hafi ekki verið í neinu samræmi við stærð þess, þó að ég hins vegar engan veginn vilji gera lítið úr því. En eins og oft vill verða, sem betur fer, hefur fyrirgangurinn nú hjaðnað, og er það vissulega vel, að þessi hv. þd. ætti nú að geta truflunarlaust afgreitt þetta mál, þegar það er á lokastigi. Og frá mínum bæjardyrum séð á að leiða þetta mál til lykta í samræmi við þau augljósu markmið, sem ber að stefna að í skólamálum almennt, og viðurkennda stefnu, að því er áhrærir gerð skólanna.

Er þar þá fyrst til að taka, að hérlendis sem í öðrum menningarlöndum hefur fyrir hálfri öld eða jafnvel enn lengri tíma verið sagt skilið við sérskóla eftir kynjum og samskólar hlotið endanlega og fullkomna viðurkenningu á grundvelli allrar ríkjandi þekkingar á sálrænum og félagslegum áhrifum samskóla og sérskóla. Enda þótt menn hafni vafalaust slíkum öfgum, sem komið hafa fram í sambandi við þetta mál, eins og þeim t. d., að lítill sérskóli kvenna á menntaskólastigi leiði af sér kynferðislegan fasisma, sem er mér að vísu hugtak, sem er nokkuð óskiljanlegt, eða einhvern annan slíkan voða, þá hljóta menn að viðurkenna, að löggjöf um sérskóla eftir kynjum kemur algerlega þvert á alla viðtekna og viðurkennda stefnu í þessum efnum og er andstæð allri vísindalegri grundvallarþekkingu manna í uppeldisfræðum. Um þetta held ég, að verði ekki deilt. Ég held þess vegna, að þegar af þessari ástæðu beri að hafna þessu frv., þar sem m. a. enginn fær fyrir séð fullkomlega, hvert slíkt frávik frá meginstefnunni og viðurkenndum sjónarmiðum kynni að leiða.

Í orði er viðurkennt markmið, að sem flestir geti á æskualdri valið sér námsleið við hæfi sitt og þarfir þjóðfélagsins og menntun þegnanna verði fullnægt á öllum sviðum, svo að sem fæstir fari á mis við æskilegu og nauðsynlega menntun vegna aðstöðumunar, t. d. fjárhagslega eða vegna þess, hvar þeir eru í sveit settir. Kaldur veruleikinn er hins vegar sá, að við erum víðs fjarri öllum þessum markmiðum, og meira að segja vafamál, að við höfum ekki verið að fjarlægjast þau á allra síðustu tímum, því að segja má, að hvar sem gripið sé niður í skólakerfinu, blasi við margvíslegir þverbrestir, sem brýn þörf er á að bæta. Nú í dag, aldarfjórðungi eftir að gildandi fræðslulög voru mótuð, er lögboðinni skólaskyldu ekki haldið uppi víða úti um byggðir landsins vegna skorts á skólum og skólahúsnæði, fjárskorts og kennaraskorts. Í heilum landsfjórðungi, og þar á ég við Austfirðingafjórðung, eru aðeins starfandi tveir gagnfræðaskólar, sem ekki rúma nema tæplega 1/4 hluta þeirra nemenda, sem eiga rétt á gagnfræðanámi. 3/4 hlutar ungmenna í þessum landsfjórðungi fara þess vegna á mis við óhjákvæmilegustu almenna menntun vegna vanrækslu hins opinbera, og stór hluti þeirra á engan kost á að ljúka skyldunámi barna- og unglingafræðslunnar heldur. Í þessum landsfjórðungi er heldur enginn menntaskóli, eða vísir að honum annar en lítilfjörleg fjárhæð á fjárl. og löggjöf, sem enginn veit, hvenær eða hvort framkvæmd verður.

En það er miklu víðar, sem vanrækslusyndir þeirra, sem haldið hafa um stjórnvöl skólamálanna blasa við. Eða hver hv. þdm. — þ. e. a. s. kannske annarra en Reykvíkinga — þekkir ekki til þess, hve alvarlega skórinn kreppir víða að vegna skorts á skólum og allri aðstöðu til nauðsynlegustu menntunar ungmenna. Við þessi vandkvæði öll bætast svo þeir erfiðleikar, sem stafa af fjárhagslegum aðstöðumun og setja mörgu ungmenni í landinu óyfirstíganlega hindrun yfir þveran veg til náms.

Skólamál höfuðborgarinnar þurfa sjálfsagt sinnar athugunar við og þau má auðvitað ekki vanrækja, en furðu gegnir, að þar skuli þykja mest aðkallandi af ýmsum, að þurfi að löggilda sjötta skólann til þess að útskrifa þaðan stúdenta og hinn þriðja við sömu götuna með nokkurra metra millibili. Enda hef ég ekki heyrt þess getið, að nú orðið a. m. k., þó að áður fyrr hafi það verið, sé ekki greið leið allra reykvískra ungmenna, sem rétt hafa til að fá skólavist á menntaskólastiginu. Hér er þess vegna engin þörf eða rök fyrir þeim tugmilljónakostnaði, sem til yrði stofnað með óhjákvæmilegri stækkun Kvennaskólans og síðan með auknum rekstrarkostnaði, sem hvorugt mundi þó lækka kostnað við aðra stúdentaskóla hér í höfuðborginni, a. m. k. um ófyrirsjáanlega framtíð. En inn á þetta kom frsm. hv. meiri hl. mjög greinilega. Meðan þær staðreyndir blasa við m. a., að ekki er séð fyrir kostnaði, sem mun að lágmarki nema um 140 millj. kr., til þess að koma upp menntaskóla á Austurlandi og hæstv. ráðh. menntamála hefur enn ekki einu sinni tekið á sig þá rögg í því máli að ákveða honum stað, svo að frumundirbúningur geti hafizt að því nauðsynjamáli landsfjórðungsins, og önnur stig skólavistar eru í fullkomnu óefni þar og víða annars staðar, meðan menntaskólamál Vestfirðinga eru á algeru frumstigi, væri það aðeins frá fjárhagssjónarmiði hreint glapræði, og ég vil segja hneyksli, að efna til algerlega óþarfra útgjalda til stúdentadeildar Kvennaskóla að fyrirmynd 19. aldar fyrirkomulags.

Í umr. um þetta nú orðið fræga kvennaskólamál hefur margt verið sagt þeim skóla, sem um er rætt, til lofs og dýrðar, en einnig mörg gagnrýni komið fram. Ég ætla mér ekki að gera mig að neinum dómara í því efni og skortir líka til þess alla þekkingu, enda skiptir lof eða last um skólann og rekstur hans hér engu höfuðmáli. Hin einföldu rök málsins eru þau í fyrsta lagi, að allar hugmyndir um hann sem sérstakan stúdentaskóla eru byggðar á forneskjuhugmyndum um uppeldismál, sem öll menningarsamfélög hafa kastað fyrir borð fyrir löngu síðan. Og í öðru lagi, að lögfesting hans hefur mikinn kostnað sennilega milljónatugi strax í byrjun og síðan áframhaldandi í för með sér — fjárfúlgur, sem betur væru komnar til þess að bæta úr einhverjum þeim fjölmörgu vanrækslusyndum, sem við blasa í skólamálum þjóðarinnar. Af framangreindum ástæðum er ég algerlega andvígur þessu frv. og fagna því, að meiri hl. hv. menntmn. leggur til, að það verði fellt.