25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2305)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Frsm. minni hl. (Ólafur Björnsson) :

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hér talaði áðan, komst svo að orði, að þær skoðanir, sem ég hefði haldið fram, væru gamaldags, jafnvel rödd frá fyrri öld. Það er nú ódýru verði keypt að slá slíku fram, og má vera að sumum kunni að þykja slíkt fyndið, en ég átti ákaflega erfitt með að henda reiður á röksemdunum, sem hann færði fram fyrir slíku. Það var þá helzt sú, að hann líkti samþ. þessa frv. við það, þegar negrar og hvítir menn eru aðgreindir í skólum Bandaríkjanna. Þar er þó sá meginmunur á, að þegar maður ber saman negra og hvíta menn, þá er það á hleypidómum einum byggt, að þeir hafi mismunandi hæfileika til þess að stunda mismunandi störf. Ef það væri hins vegar þannig, að það mætti færa rök að því, að það væru viss störf í þjóðfélaginu, sem betur væru stunduð af hvítum mönnum en svörtum og svo öfugt, þá gæti vel komið til greina að hafa sérskóla fyrir menn til undirbúnings þeirra starfa, en svo er auðvitað ekki.

Að öðru leyti finnst mér, að flest af því, sem hv. andstæðingar þessa frv. hafa sagt um þessi mál, sé að því leyti utan við kjarna málsins, að sú skoðun hefur alls ekki komið fram hjá þeim, að þeir neituðu því, að til væru störf í þjóðfélaginu, sem konur væru betur fallnar til að stunda en karlar. Ef engin slík störf eru til, þá er óeðlilegt að hafa nokkrar skólastofnanir, jafnvel að hafa kvennaskóla í sinni núverandi mynd, sem eingöngu væru annars vegar fyrir konur og hins vegar fyrir karla. Mér virtist, að hv. þm. væri raunar þeirrar skoðunar, a. m. k. hvað snertir barngæzlu, þá væru a. m. k. prófessorar ekki vel til þess fallnir að stunda hana. Þeir væru stundum gleymnir. Það er fínn máti að setja það á, sem maður hefur áður heyrt, að prófessorar séu stundum utan við sig, og satt að segja get ég alveg fallizt á það með hv. þm., að ég hef á hvorugum okkar álit sem barnfóstrum og tel það ekki neitt þjóðfélagslegt óréttlæti, þó að ég búist ekki við því, að við yrðum teknir í Fóstruskólann, ef við sæktum um það.

Hv. 3. landsk. þm. sagði, og það var að nokkru leyti rétt, að það, sem fyrir okkur vekti, sem mæltum með þessu frv., væri ekki fyrst og fremst það, að um undirbúning undir háskólamenntun væri að ræða. Það er alveg rétt, a. m. k. eins og sakir standa, að það eru sérskólar, sem ástæða væri til, að konur með þá undirbúningsmenntun,. sem Kvennaskálinn veitir nú og kann að veita síðar, leituðu til, en eins og Háskólinn er núna, hefur hann mjög lítið upp á að bjóða í þeim efnum. Hins vegar tel ég líklegt, að síðar meir, á sama hátt eins og er í amerískum háskólum og víða erlendis, kynni Háskólinn að hafa upp á ýmsar slíkar greinar að bjóða, sem ætla má, að konur væru jafnvel hæfari til að stunda en karlar. Það má nefna t. d. híbýlaskipulag, heimilishagfræði og ýmsar fleiri greinar, sem skotið hafa upp kollinum í seinni tíð.

Hv. 3. landsk. þm. minntist á það, að ef ástæða væri til þess að sérmennta konur með tilliti til þeirra starfa, sem æskilegt sé, að þær stundi, þá mætti koma upp alveg sams konar hliðstæðum skóla fyrir karlmenn. Við þetta hef ég aðeins það að athuga, að þau störf — og óneitanlega eru þau til eins og ég nefndi í framsöguræðu minni — þar sem karlmenn hafa yfirburði, eru þau, þar sem þarf sérstaklega líkamskrafta, og ég veit ekki, hvort það er hlutverk skóla að þjálfa undir það. Hitt er svo annað mál, að á lægri skólastigum en á menntaskólastigi gæti vel komið til greina undirbúningsmenntun undir störf, sem maður veit, að fyrst og fremst og jafnvel einvörðungu eru stunduð af körlum. Mér þætti t. d. ekki óeðlilegt, að innan verknámsdeildar gagnfræðastigsins yrði komið á fót deildum, sem væru sérstaklega miðaðar við það að búa menn undir sjómannaskóla, vélskóla o. s. frv. Ég veit ekki um þessa skóla, hvort konum er bannaður aðgangur að þeim. Ég hef aldrei heyrt um það getið, að kona hafi farið í Vélskólann eða Sjómannaskólann og vera má, að ef um þetta væri sótt myndu viðkomandi skólayfirvöld frekar ýta þeim frá slíku á þeim grundvelli, að það kynnu að vera sjómennirnir meira en sjómennskan, sem heillaði þá viðkomandi, sem út af fyrir sig er ekki nema gott eitt um að segja. En a. m. k. í raun er sú menntun, sem hér er um að ræða, eingöngu sótt af karlmönnum. Og ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að um sérstakan undirbúning á einhverjum skólastigum undir það gæti verið að ræða. Það finnst mér mjög í samræmi við þróun tímans. Annars vil ég taka það fram, hafi það ekki nógu skýrt komið fram í framsöguræðu minni, að ég er alveg á sömu skoðun og hv. 11. þm. Reykv. um það, að aðalreglan í okkar skólamálum eigi að vera sú, að um samskóla sé að ræða. Með þorrann af þeim störfum, sem stunduð eru í þjóðfélaginu, er það þannig, að konur og karlar hafa jafna hæfileika til þess að stunda þau, og þá er eðlilegt, að um samskóla sé að ræða.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að konur færu ekki í menntaskóla með það fyrir augum að ganga í Hjúkrunarskólann, Fóstruskólann o. s. frv., heldur til þess að öðlast jafnrétti við karlmenn. Auðvitað verður það þannig, og býst ég við, að það hljóti að vera þannig í framtíðinni, því að æskilegt má telja, að sem flestar konur verði stúdentar, og allur þorrinn af þeim mundi stefna að öðrum störfum en þessum. Hins vegar hefur mér verið tjáð, að að því stefni — ég veit ekki, hvort það er orðið þegar, að bæði Hjúkrunarskólinn og Fóstruskólinn muni gera það að inntökuskilyrði, að viðkomandi hafi stúdentspróf, svo að ef það er rétt, þá finnst mér að þetta sé ekki alveg rétt. En hitt er auðvitað ekki nema eðlilegt, að meginþorrinn af þeim konum, sem tekur stúdentspróf, gerir það í öðrum tilgangi.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði líka, og í því er vissulega sannleikskjarni, að hin hefðbundna verkaskipting milli kvenna og karla hefði leitt til þess, — ég man nú ekki, hvernig hún orðaði það, en ég held, að með meininguna sé rétt farið, — að konur hefðu verið undirokaðar og þeim skipað á eins konar óæðri bekk. Ég veit nú út af fyrir sig ekki, hvort þetta er vegna verkaskiptingar, sem átt hefur sér stað, heldur blátt áfram vegna þess, að karlarnir, sem hinn sterkari aðili, hafa ekki unnað konunum fyllilega réttar síns. Það er ég hræddur um, að hefði átt sér stað alveg óháð verkaskiptingunni. En eins og ég sagði í framsöguræðu minni, þá er aðalspurningin þessi: Er þessi verkaskipting eðlileg eða ekki? Eru til störf, sem æskilegt má telja frá sjónarmiði þjóðfélagsins, að frekar séu stunduð af konum en körlum, af því að þær séu til þess hæfari? Ef þessu er neitað, þá er auðvitað enginn grundvöllur fyrir slíkum sérskólum. Ef því hins vegar er játað — og athyglisvert er, að enginn af andmælendum þessa frv. hefur beinlínis haldið fram þeirri skoðun, að þessi störf væru ekki til — er það álit mitt, að leiðréttingin eigi ekki að vera á þann hátt, að konur hætti að stunda þessi störf og karlmennirnir fari í þau, þótt þeir séu til þess miklu miður hæfari, heldur að þau verði metin svo sem rétt er, þannig að launakjör og annað, sem leiðir af þessum störfum, sé í fullu samræmi við mikilvægi þeirra. Það tel ég hina réttu leið í þessu efni.