25.04.1970
Efri deild: 78. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2306)

70. mál, heimild til handa Kvennaskólanum að brautskrá stúdenta

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en af því að vissir þættir þessara mála, skólamálanna, snerta mitt embætti, tel ég rétt að segja hér aðeins nokkur orð um mína skoðun á þessu máli. Að sjálfsögðu erum við öll sammála um það hér í hv. d. og á Alþ. yfirleitt, að Kvennaskólinn í Reykjavík sé einn hinn merkasti skóli á sínu sviði, ef ekki sá merkasti, og ég hygg, að það, sem hafi ráðið afstöðu ýmissa manna til þess að vilja veita þessum skóla stúdentsréttindi stafi af því, að þeir hafi viljað veita skólanum viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Út af fyrir sig er þetta sjónarmið, sem er hægt að virða, og af þeim sökum er það afsakanlegt, þó að menn hafi viljað taka jákvæða afstöðu með þessum hætti til umsóknar skólans. En ég verð samt að segja það, að mér finnst hér vera um það veigamikið atriði að ræða, að það sé ekki alveg einfalt mál að verðlauna tiltekinn skóla, hvað góður sem hann er, á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, það þurfi að skoða málið á breiðari grundvelli og megi ekki láta of mikla tilfinningasemi ráða í því efni.

Ég skal hér ekki fara út í þá sálma, hvaða sérhæfileika karlar og konur hafa til ýmissa starfa í þjóðfélaginu. Það skiptir ekki öllu máli. Það, sem skiptir máli hér, er það, hvers eðlis skólakerfi okkar er, og í annan stað, hvort með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir að fara inn á, sé verið að þjóna þeim tilgangi að ná betri árangri með því kerfi heldur en nú er eða ekki. Það er ómótmælanleg staðreynd, að menntaskólanám er almennt nám, sem ekki er fólgið í sérhæfingu. Það er að vísu farið að deila menntaskólanámi nú niður í nokkrar valgreinar, þannig að það má segja, að það sé farið að sérhæfast meira en áður var, en það er þá ein grundvallarregla, sem fylgt hefur verið í skólakerfinu til þessa, og það er það, að menntaskólarnir skuli vera samskólar og þeir skuli vera skólar út af fyrir sig, ekki tengdir öðrum skólum. Það eru að vísu til undantekningar í þessu efni, þar sem eru Kennaraskólinn og Verzlunarskólinn. Í þann tíð, þegar þeim skólum voru veitt stúdentsprófsréttindi, voru erfiðleikar að veita aðstöðu öllu námsfólki, sem vildi fara í menntaskóla, að það ætti kost á að njóta þeirrar fræðslu, og því farið inn á þá braut að veita þessum skólum réttindi. Nú er þessu alls ekki þann veg farið. Og það eru mörg ár síðan það voru lögð ákveðin plön eða áætlanir gerðar um það, hvernig ætti að byggja upp menntaskóla í landinu til þess að fullnægja þörf þess fólks, sem vildi stunda menntaskólanám. Það er að vísu svo, að þessir tveir skólar hafa réttindi til þess að útskrifa stúdenta. Það er að vísu stefnt að því nú, að Kennaraskólinn breytist. Það er of snemmt að tala um, með hverjum hætti það verður, en hann verður jafnvel skóli, sem stúdentspróf yrði inntökuskilyrði í, þannig að það er þá eftir aðeins einn skóli, Verzlunarskólinn, sem hefur þessi réttindi. Og sá skóli er almennur skóli. En ég mundi telja engu að síður, að það væri mjög mikið álitamál, hvort það er æskilegt, að menntadeild sé við hann tengd. Það er mál út af fyrir sig, sem ekki er hér til umræðu og ég skal ekki fara inn á. Hitt er alveg ljóst mál, að ef á að fara inn á þá braut að veita gagnfræðaskólum almennt og hér er um gagnfræðaskóla að ræða, Kvennaskólann í Reykjavík, rétt til þess að útskrifa stúdenta, þá er farið inn á nýja braut, sem er auðvitað alveg ófyrirsjáanlegt, hvaða afleiðingar kann að hafa, og það eru margir gagnfræðaskólar í landinu, sem eru vissulega góðir skólar, sem gætu gert kröfu í þessu efni, þannig að ég held, að það yrði erfitt að standa á því, að hér sé um svo sérstætt mál að ræða, að af þeim sökum væri hægt að standa gegn óskum annars staðar frá.

Nú er hins vegar rétt að taka það fram, að hver þróunin verður í þessum efnum, er ekki gott að segja um, vegna þess að það er farið að taka upp framhaldsdeildir við gagnfræðaskólana. Og það kann vel að vera, að það mætti taka upp með sama hætti framhaldsdeild við Kvennaskólann í Reykjavík eins og aðra gagnfræðaskóla. Hvernig þessar deildir þróast, er enn þá ekki nægileg reynsla fengin af til þess að segja neitt ákveðið um. Það er nýlega búið að setja þessum deildum verksvið og marka þá stefnu, sem þær eigi að fara, og þau réttindi, sem nemendur úr þeim geti fengið í framhaldsskólum, en engu að síður er þó enn fastmótuð sú stefna að byggja upp menntaskólana sem sérskóla, og sú menntaskólalöggjöf, sem nýlega hefur verið samþykkt hér á Alþ., byggist á þessari grundvallarhugsun. Ég held, að það sé jafnframt alveg ljóst, að það sé uppi sú hugmynd hjá mönnum, að það sé rétt að dreifa þessum skólum um landið. Það hafa þegar komið fram till. um það að byggja skóla á Vestfjörðum og Austurlandi, og má segja, að fullur skilningur hafi verið á því hér á Alþ., að þróunin stefndi í þá átt. Það kann að vera nauðsynlegt og er nauðsynlegt að efna til byggingar fleiri menntaskóla hér í Reykjavík. En ég held, að það eitt sé alveg ljóst, að það er glórulaus fásinna að byggja þrjá menntaskóla hlið við hlið hér við Tjörnina í Reykjavík. Það væri þá nær að byggja menntaskóla hér suður í Reykjaneskjördæmi, í Hafnarfirði eða annars staðar, þannig að skólarnir væru ekki hver ofan í öðrum. Þetta skapar ekki aðeins vandamál að því leyti, að nemendur þurfi úr ótalmörgum áttum að koma hér á einn stað í stað þess að eiga styttra að sækja í skóla, heldur hefur það komið í ljós, að þetta skapar félagslag vandamál innan skólanna, sem hafa mismunandi aðstöðu, og það er á engan hátt heppilegt. Það held ég, að reynslan hafi sannað.

Það hefur í nokkur ár verið unnið, eins og ég sagði, kerfisbundið að því með sérstökum fjárveitingum og áætlanagerð að byggja upp skólana. Hamrahlíðarskólinn hefur hér verið byggður upp á tiltölulega mjög fáum árum með stórátökum. Skólarnir úti á landi, Menntaskólinn á Akureyri og Menntaskólinn á Laugarvatni hafa einnig verið byggðir upp eftir sérstökum áætlunum, sem um það hafa verið gerðar, og nú síðast hefur verið settur á laggirnar nýr menntaskóli hér við Tjörnina í Reykjavík. Sá menntaskóli getur ennþá tekið á móti fjölda nemenda, þó að það verði innan tíðar að hefjast handa um það að skoða, hvar eigi að byggja hér enn nýjan skóla til þess að taka við því fólki, sem kemur á menntaskólastigið á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Þegar þetta kvennaskólamál kom til meðferðar, þótti mönnum það kannske meinlausara mál en það er í fljótu bragði. Út af fyrir sig erum við hér að raska grundvelli menntaskólalöggjafarinnar, og látum það vera. Það er menntamannanna og skólamannanna mál að fjalla um það. En ég kemst ekki hjá að benda á, að málið er undirbúið á þann hátt fyrir Alþ., og þannig leit það út, þegar ég hafði nokkur afskipti af því, áður en það var lagt fyrir þingið, að það væri hægt að koma við menntadeild hér við Kvennaskólann í Reykjavík án þess að þurfa að leggja út í neinar byggingar í því sambandi. Nú liggur það ljóst fyrir og menntmrn. hefur gert á því athugun, að þetta kemur ekki til neinna greina. Við stöndum andspænis því að verða, ef það á að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, að leggja út í byggingar, sem líklegt er, að kosti um 40 millj. kr. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að hafa áhrif á uppbyggingu menntaskóla í landinu almennt og draga þá úr því, að það sé hægt að gera þau átök, sem þarf annars staðar, á þessu sviði. Ég tel alveg nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu, og hv. þdm. íhugi vendilega, að hér er farið inn á að taka á sig, auk þess að raska grundvelli menntaskólakerfisins, stórar fjárhagsskuldbindingar, sem af þessu frv. leiða ag mundu valda því, að einhvers staðar annars staðar yrði að draga saman seglin. Ég tel enga von til þess, að það sé unnt að auka fjármagn til menntaskólabygginga á þann veg, að það verði hægt að fullnægja þeim þörfum, sem rísa við það, að Kvennaskólinn í Reykjavík verði menntaskóli.

Ég læt þessi orð mín nægja, herra forseti, vildi aðeins koma þessu á framfæri, af því að mér finnst það á vissan hátt snerta mitt verksvið einnig og mín skylda sé að benda á það, hvaða afleiðingar það hlyti að hafa fjárhagslega séð varðandi uppbyggingu menntaskóla í landinu almennt, að hér yrði stigið það skref að ákveða að gera umræddan skóla að menntaskóla. Það hlyti að leiða þegar af sér nauðsyn þess að hefja nýbyggingu fyrir skólann og valda því, að það drægi úr því, að það væri hægt að byggja upp menntaskóla bæði hér og annars staðar á landinu, eins og menn hljóta áreiðanlega að bera fyrir brjósti og eðlilegra er, að sé gert, heldur en að reisa þrjá menntaskóla hlið við hlið hér við Tjörnina í Reykjavík.

Ég endurtek það að lokum, að það má enginn skilja orð mín svo, að ég sé með þessu að gera lítið úr hlutverki Kvennaskólans í Reykjavík. Hann hefur sitt sérstæða hlutverk, það merkilega hlutverk, sem hann hefur sinnt um langan aldur með miklum sóma, og það ekki sízt nú á síðustu tíð. En ég held, að það sé ekki endilega hægt að segja, að það sé verið að auka veg skólans, þó að það sé verið að færa hann inn á allt annað svið, eins og hér er verið að gera, og megi heldur segja, að það sé verið að stíga á vissan hátt spor aftur á bak varðandi þennan skóla sem kvennaskóla, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan í sinni ræðu.