27.10.1969
Efri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2313)

23. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar upplýsingar, því að það var gott að fá þær fram, og þær eru m. a. til þess, að ég skil það betur, að hv. þm. flytur þetta frv., þar sem n. hefur í raun og veru ekkert starfað, því að ég held, að það hefði verið sterkur leikur hjá hv. þm. að koma sínum málefnum og sinni tillögugerð fram í n. og fá samkomulag um þær þar á breiðari grunni, ef slíkt hefði verið til staðar og n. starfað, heldur en að koma með þær í þingið án þess að bera þær undir n. áður. En ég vænti þess, að þessar till. fari til bændasamtakanna og þar gefist kostur á að ræða þær og íhuga þessi mál, því að eins og ég sagði áður, þá er það nauðsynlegt fyrir okkur bændur að íhuga hvert það spor, sem stigið er í verðlagsmálum, frá þeim sjónarhóli, að bændastéttin er tekjulægsta stétt þjóðfélagsins. Því er nauðsynlegt að íhuga það vel og reyna að bæta úr því frá því, sem verið hefur.