13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

79. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég hef flutt hér á þskj. 88 frv. til l. um breytingar á l. um atvinnuleysistryggingar. Efnislega er frv. á þá leið, að atvinnuleysisstyrkjum verði frekar beint inn á þá braut, að þeir verði notaðir til þess að auka atvinnu og menn geti fengið greidd vinnulaun eftir þeim töxtum, sem gildandi eru, frekar en þurfa að taka styrki beint úr Atvinnuleysistryggingasjóði eftir þeim reglum, sem þar um gilda. Eins og bent er á í grg. með frv., þá hefur stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs vissulega á undanförnum árum notað það fjármagn, sem sjóðurinn hefur, til þess að byggja upp atvinnufyrirtæki bæði sveitarfélaga og einnig einstaklinga og þannig stuðlað að aukinni atvinnu í landinu. Ég tel, að þetta sé mjög eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun á fé sjóðsins, og ber vissulega að viðurkenna þá stefnu. Hitt liggur einnig ljóst fyrir, að á undanförnum árum hefur það mjög aukizt, eftir að nýjar reglur um atvinnuleysisbætur voru settar, að styrkir eða heildargreiðslur í styrki úr sjóðnum hafa mjög hækkað og sennilega margfaldazt. Ég tel, að ef hægt er að finna leið til þess að nota fé sjóðsins í ríkara mæli en nú er þannig, að það verði til atvinnuaukningar frekar en styrkja, þá sé sjálfsagt, að það sé skoðað mjög vandlega.

Mér er það ljóst, að það getur að sjálfsögðu verið um fleiri leiðir að ræða en um er getið í frv., en ég ætlast til þess, að sú n., sem málið fær til meðferðar, skoði það og láti það þá koma fram í sínu nál., ef einhverjar aðrar leiðir eru taldar eðlilegri en þarna er lagt til.

Eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk, munu beinir styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði hafa numið röskum 100 millj., eða um 103 millj. kr. þann 26. september s. l. Á ég þá við tímabilið frá áramótum til 26. september. Þetta er vissulega geysilega mikið fjármagn, og ef það væri hægt að nota það að einhverju leyti til atvinnuaukningar og atvinnuuppbyggingar til hagræðis fyrir hin ýmsu sveitarfélög í landinu, eins og þarna er bent á, þá mundi ég telja það betur farið. Eins og fram er tekið í frv. og að sjálfsögðu undirstrikað í grg., þá er gert ráð fyrir því, að til þeirra framkvæmda, sem þarna er lagt til að gerðar verði með fjármagni úr Atvinnuleysistryggingasjóði, komi ekki, nema um það sé beint samkomulag milli verkalýðsfélaga, atvinnurekenda og sveitarstjórna. Ég tel ekki, og hef ekki látið mér detta í hug, að slíku verði nokkurn tíma á komið, nema um þetta væri fullt samkomulag, því að vissulega eiga þeir aðilar, sem rétt eiga á bótum úr sjóðnum, fullan rétt á þeim samkv. gildandi l., og verður ekki framhjá því gengið, að því verði ráðstafað á annan hátt en l. segja fyrir um, nema samkomulag verði um það að opna einhvers konar heimild, eins og hér er lagt til, til frekari ráðstöfunar á fé sjóðsins heldur en nú gildir.

Ég tel, að efnislega sé málið það einfalt, að um það þurfi ekki frekari framsögu, en vildi leyfa mér að leggja til, að málinu yrði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.