17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

38. mál, togarakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Gils Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en nokkuð seint, að þetta mál væri á dagskrá í dag og var þess vegna nokkuð síðbúinn með nál. minni hl., sem mér hafði verið falið að semja, en það er nú í prentun. Þar sem því hefur ekki verið útbýtt og það er stutt, þá ætla ég að leyfa mér að lesa það hér, en þetta nál. er undirritað af Ólafi Jóhannessyni, Bjarna Guðbjörnssyni og mér.

N. hefur ekki orðið sammála um afgr. málsins. Meiri hl. vill vísa því til ríkisstj. með hliðsjón af fram komnu frv. um kaup á sex skuttogurum. Minni hl. n. telur það frv. með öllu ófullnægjandi, þar sem þar er einungis um að ræða heimild til ríkisstj. til að láta smíða 6 skuttogara alla af sömu stærð, 1000–1100 smálestir. Telur minni hl. nauðsynlegt, að hafinn verði undirbúningur að smíði fleiri skuttogara en þar um ræði og af öðrum stærðargráðum. Yrði með því móti komið til móts við óskir og fyrirætlanir útgerðarstaða víðs vegar um land, þar sem áhugi er á togaraútgerð til að bæta úr hráefnisskorti hraðfrystihúsa og treysta atvinnulíf þessara staða. Jafnframt telja undirritaðir rétt, að ráðstafanir verði gerðar af opinberri hálfu að gera innlendum skipasmíðastöðvum kleift að smíða nokkur hinna nýju togskipa. Með hliðsjón af framansögðu leggur minni hl. n. til, að frv. verði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um þetta mál, þar sem togaramálin hafa verið allrækilega rædd hér að undanförnu, en þó get ég ekki látið hjá líða, m. a. með hliðsjón af því, sem fram hefur komið í sambandi við það mál, sem rætt var hér næst á undan, um Togaraútgerð ríkisins, að fara um eitt atriði sérstaklega nokkrum orðum. Það er um það, hvernig afstaða hv. stjórnarsinna, bæði hæstv. sjútvmrh. og þá ekki síður hv. þm. Jóns Ármanns Héðinssonar, frsm. meiri hl., speglast í ræðum þeirra, í sambandi við öll þessi togaramál. Ég gat ekki heyrt annað, en meginhlutinn af ræðu hæstv. sjútvmrh., þegar hann mælti fyrir frv. sínu um 6 skuttogara, væri eins konar afsökun fyrir því að vera nú að koma fram með þetta mál. Hann varði megintíma sinnar ræðu til þess að sýna fram á það, að það hefði raunverulega enginn grundvöllur verið fyrir togaraútgerð á undanförnum árum og væri það tæplega enn, og ég held, að ég fari ekki mjög rangt með, að hin rökrétta ályktun ræðu hans hafi náttúrlega verið sú, að það væri ekkert vit í því að kaupa neina togara.

Það hefur komið fram bæði fyrr og síðar, að því er mér virðist, hjá hv. frsm. meiri hl. í þessum tveimur málum, sem hér hafa verið til umr. nú, að hann er ekki ákaflega hrifinn af þessum hlutum. Ég ætla ekki að vera ókurteis, og þess vegna dettur mér ekki í hug, að hann hafi sett upp hundshaus í sambandi við málið, en hitt vil ég segja, að ólundarsvipur hefur verið á honum, að því er varðar afgreiðslu þessara togaramála, einnig þess að kaupa 6 skuttogara. Þar held ég tvímælalaust, að áhuginn hafi verið ákaflega lítill, og hann er ekki mikill enn. Það er um að ræða einlægar afsakanir fyrir því að hafa nú á endanum orðið við því kvabbi hinna og þessara aðila, að keyptir verði skuttogarar. Það er þetta, sem speglast í öllum þessum ræðum þeirra hv. stjórnarsinna, sem ég nef hér nefnt a. m. k.

Því hefur verið sérstaklega borið við, að því er varðar skuttogara af minni gerðum en þessa 1100 tonna togara, sem nú hefur verið samþ. í þessari d. að heimila ríkisstj. að láta smíða, að það skorti rekstraráætlanir fyrir aðrar stærðir og gerðir togara. Ég verð að segja, að mér finnst þetta nokkuð furðuleg afsökun, þar sem það liggur fyrir, a. m. k. frá sumum þeim aðilum, sem sýnt hafa áhuga á togarakaupum af minni stærðum heldur en hæstv. ríkisstj. hefur nú ákveðið í sambandi við togarakaup, að rekstraráætlanir frá þeim, a. m. k. sumum, hafa legið fyrir lengi, og ég sé ekki, að það sé nein afsökun hjá hæstv. ríkisstj. eða hæstv. sjútvmrh. fyrir því, að hafa látið hjá líða að fela sínum trúnaðarmönnum og sérfræðingum að kanna þær rekstraráætlanir eða gera nýjar fyrir þessar minni gerðir togskipa.

Hæstv. ríkisstj. ætti að hafa verið það ljóst, að það eru uppi nokkuð mismunandi sjónarmið, að því er það snertir, hvernig á að byggja upp togaraflota landsmanna, og það liggur alveg ljóst fyrir, að það eru a. m. k. tvö sjónarmið, og að mínu viti verður að sinna þeim báðum. Annars vegar er um að ræða nokkuð stóra togara líkt og þá, sem þegar hefur verið lagt fram frv. um af hálfu hæstv. ríkisstj. að kaupa, en það eru hins vegar, eins og allir vita, skip, sem myndu í ýmsum tilfellum hafa tilhneigingu til þess að sigla með ísaðan fisk og selja hann á erlendum markaði. En víðs vegar úti um land er hins vegar uppi, eins og margoft hefur verið tekið fram, mjög verulegur og einlægur áhugi á því að geta keypt skuttogara, sem sérstaklega væru við það miðaðir að bæta úrhráefnisskorti hraðfrystihúsanna, og efla á þann hátt atvinnu á þeim stöðum, þar sem atvinna hefur ekki verið næg a. m. k. á sumum árstímum.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á þau orðaskipti, sem hér fóru fram á milli hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. frsm. meiri hl. í þessum tveimur málum, Alþýðuflokksmannsins og sessunautar míns Jóns Ármanns Héðinssonar. Mér þótti það að vísu ánægjulegt, að hv. frsm. meiri hl. lýsti því yfir, að Alþfl. væri enn hlynntur bæjarútgerðum. Miðað við ýmislegt, sem fram hefur komið, þá er ég raunar nærri því hissa á þeirri yfirlýsingu, en ég tel ágætt, að hann sé a. m. k. þeirrar skoðunar, ég er ekki einu sinni viss um, að hann mæli þar fyrir hönd flokks síns. Hv. 1. þm. Norðurl. v. virtist vera eins og svolítið undrandi á því, ef Alþfl. hefði nú skipt um skoðun, einnig í þessu máli. Ég er fyrir löngu hættur að verða neitt undrandi á þeim hlutum, sem þaðan koma í seinni tíð. Því miður er hæstv. menntmrh., formaður Alþfl., ekki hér staddur, en hér er nú varaformaður flokksins og einn ráðherra a. m. k., og í sambandi við það langar mig til þess að skýra þeim frá því, sem ég hef lengi ætlað að segja hæstv. menntmrh., að það hefur einhvern veginn borizt upp í hendur mér og ég á í fórum mínum drjúgt efni í tilvitnanakver eftir formann Alþfl., sem ég er að hugsa um að ganga frá, jafnvel til útgáfu fyrir næstu kosningar. Ég sé ekki betur, eftir því yfirliti, sem ég hef, en að í þessu tilvitnanakveri mundi vera um að ræða skeleggan og hressilegan rökstuðning, bæði með og móti svo að segja öllum þeim meginmálum, sem hafa skipt mönnum í flokka síðustu tuttugu til þrjátíu árin hér á þessu landi. Ég geri ráð fyrir því, að þetta verði allskemmtilegt kver, ef af verður að koma því á framfæri.

Af því að þessi mál hefur borið á góma, þá datt mér í hug, að ég hef haft hér að gamni mínu í tösku minni í nokkurn tíma álit eins ágæts Alþfl.-manns á sumum þeim stefnuskiptum eða veðrabrigðum, sem orðið hafa þar í flokki nú á hinum síðari tímum, og það sýnir, að það eru kannske ekki allir ánægðir með þá stefnu. Þetta er ágæt, skemmtileg grein, sem birtist í Alþýðublaðinu 11. marz s. l. eftir Njörð Njarðvík. Ég skal ekki sítera þá ágætu grein mjög mikið, en þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Formaður Alþfl. hefur varið stjórnarsamstarfið m. a. með því að segja, að stöðugt stjórnarfar sé mikils virði, en það fer vitanlega eftir því, hvers konar stjórnarfar er um að ræða, og áframhaldandi viðreisnarstjórn er ekkert keppikefli fyrir jafnaðarmenn, öðru nær. Alþfl. hefur í rauninni aðeins eitt mál á stefnuskrá sinni, að koma á lýðræðislegum sósíalisma, og ekkert er slíkum málstað hættulegra en stjórnarsamstarf við íhaldsflokk. Vera má, að hægt sé að hækka almannatryggingar um nokkur hundruð krónur í slíku samstarfi“ — það gengur nú dálítið erfiðlega stundum — „en það er hégómi, sem engan dregur, og engan veginn má kaupa því verði, að flokkurinn teygist æ lengra til hægri, unz hann verður frjálslyndur miðflokkur í stefnulausri afgreiðslu-ríkisstjórn, sem vill stjórna til þess eins að stjórna.“

Ég ætla ekki að lesa lengra úr þessari góðu grein, en vænti þess, að hv. sessunautur minn, Jón Árm. Héðinsson, hugleiði það, sem þar er sagt.