17.04.1970
Efri deild: 73. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

38. mál, togarakaup ríkisins

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykn. er þekktur sem ágætur rithöfundur og útgefandi, og ég hlakka vissulega til þess, þegar hann fer að gefa út þennan pésa, sem hann boðaði hér, þar sem í verða ýmiss konar tilvitnanir í ræður form. Alþfl., og ég vil tilkynna þessum hv. þm., að ég vil gerast áskrifandi að þessum pésa. En ég hefði lagt til, að hann hefði samt þarna nokkurn eftirmála. Hann gæti tekið nokkrar tilvitnanir úr Frjálsri þjóð 1953 og þar á eftir, þegar þessi hv. þm. var mjög framarlega þar í flokki og skrifaði ýmislegt sjálfur, og þar var ýmislegt um hann skrifað, sem væri ástæða til þess að halda á lofti núna. Ég hefði því ráðlagt honum að hafa pésann nokkru þykkari og taka eitthvað með, sem þar stóð. En þó að þessum hv. þm. finnist, að form. Alþfl. sé fullvíðsýnn í ýmsum málum, þá veit ég ekki annað en að það hafi alltaf legið ljóst fyrir hjá þjóðinni, hvar hann hafi verið í flokki, og hvaða flokk hann hafi kosið. En svo er ekki með hv. 5. þm. Reykn. Það fékkst ekki gefið upp fyrir síðustu alþingiskosningar, hvaða lista hann ætlaði að kjósa í Reykjavík. Kannske hann gefi það upp í þessum pésa, sem hann ætlar að fara að gefa út?