13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2368)

74. mál, skattfrelsi heiðursverðlauna

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi voru samþ. lög um skattfrelsi Sonningsverðlauna. Halldór Laxness hafði, sem kunnugt er, fengið verðlaun úr svokölluðum Sonningssjóði, sem tengdur er Kaupmannahafnarháskóla, og mönnum þótti óeðlilegt, að verðlaun, er væru veitt sem viðurkenning fyrir ritstörf hans, yrðu metin eins og venjulegar tekjur. Afleiðingin varð sú, að það var flutt um það frv. hér á þingi, að Sonningsverðlaunin skyldu undanþegin tekjuskatti og útsvari. Þegar það frv. kom til umr. hér í Nd. Alþ., vakti ég athygli á því, að það væri óeðlileg aðferð að binda þetta við Sonningsverðlaunin ein saman. Upp mundu koma fjölmörg hliðstæð dæmi, verðlaunaveitingar til Íslendinga án umsóknar þeirra fyrir unnin afrek í bókmenntum á fleiri sviðum, og um þetta þyrfti að setja almenna reglu, sem tæki til hliðstæðra verðlauna. Þetta sjónarmið hlaut stuðning ýmissa aðila. Mér er kunnugt um það, að Bandalag ísl. listamanna kom þessu sama sjónarmiði á framfæri við þá n., sem um málið fjallaði, og hér í umr. á þingi skýrði frsm. n. frá því, að n. hefði efnislega verið inni á þessu sjónarmiði, en hefði ekki treyst sér til þess að finna skilgreiningu, sem hún teldi, að dygði til þess að afmarka þessar undanþágur. Þetta er ástæðan til þess, að ég flyt hér frv. til l. um almenna reglu í þessu efni — um skattfrelsi heiðursverðlauna, sem menn fá án umsóknar frá stofnunum innlendum og erlendum fyrir afrek á sviði lista og mennta, tækni og vísinda.

Orðalagið á þessu frv. er það sama og ég flutti í fyrra sem brtt. við frv. um Sonningsverðlaun. Nú má vel vera, að mönnum finnist, að annað orðalag væri skýrara eða betra eða afmarkaði málið betur, og ég vil ítreka það, sem ég sagði hér í fyrra, að ég væri fús til samvinnu um það að umorða tillögugreinina. En ég held, að sjálf hugsunin, sem í þessu felst, geri það óhjákvæmilegt, að Alþ. taki tillit til hennar. Með afgreiðslunni á l. um Sonningsverðlaun finnst mér, að Alþ. hafi tekið þessa ákvörðun efnislega og verði að staðfesta hana sem almenna reglu. Í grg. fyrir frv. minnist ég á dæmi, sem varpar ljósi á þetta. Í haust fékk Magnús Már Lárusson prófessor, rektor Háskóla Íslands, heiðursverðlaun frá vestur-þýzkum aðila, heiðursverðlaun fyrir þau fræðistörf, sem hann hefur unnið um langt skeið, og sem eru mjög merk, eins og allir vita. Þessi viðurkenning til háskólarektors er jafnframt viðurkenning til íslenzkra fræða og hlýtur að vera Íslendingum almennt fagnaðarefni. Ég fæ ekki séð nokkur rök fyrir því, að önnur regla eigi að gilda um þessi heiðursverðlaun en heiðursverðlaunin, sem Halldór Laxness fékk svo maklega í fyrra. Dæmi af þessu tagi væri hægt að nefna mörg fleiri, og þau verða áreiðanlega mun fleiri á næstu árum. T. d. má minna á það, að í sambandi við Norðurlandaráð hafa verið stofnaðir miklir sjóðir, sem veita viðurkenningar af þessu tagi, og það er fjarska líklegt, að Íslendingar fái þar stöku sinnum viðurkenningu á sama hátt og aðrir, þannig að um þetta verður óhjákvæmilega að vera regla.

Ég vil minna á það einnig, að í lögum eru ákvæði um undanþágur, ef mönnum áskotnast fjármunir á óvenjulegan hátt. Þar á ég við ákvæði um það, að vinningar í happdrætti eru skattfrjálsir. Þar er það lukkan, sem sker úr um, hver vinninginn hreppir, en í þeim dæmum, sem ég nefni, eru það mjög ótvíræðir og óvenjulegir verðleikar, sem um er að ræða og ætti ekki að meta miður. Ég vil vænta þess, að hæstv. fjmrh., sem ég veit, að er nákvæmur í störfum, og vill hafa eðlilegt samræmi í lagasetningu, stuðli fyrir sitt leyti að því, að löggjöf af þessu tagi verði sett á þessu þingi.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og fjhn.