11.11.1969
Neðri deild: 13. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

37. mál, fólkvangur á Álftanesi

Flm. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Á þskj. 37 hef ég ásamt nokkrum þm. hv. þd. leyft mér að flytja frv. til l. um fólkvang á Álftanesi. Frv. þetta var flutt á síðasta Alþ., en náði þá ekki fram að ganga. Það var flutt það seint og ekki tekið til umr. Efni þessa frv. er um, að skipulagning byggðar í Bessastaðahreppi í Gullbringusýslu og þeim hluta Garðahrepps, sem næst liggur Bessastaðahreppi, verði hagað þannig, að þar verði svæði fyrir fólkvang til útivistar fyrir almenning.

Nú á síðari árum hefur skipulag sveitarfélaga mjög aukizt í sambandi við byggð, og á þessu svæði, sem hér er átt við, er mesti þéttbýliskjarni landsins, og þess vegna hefur af eðlilegum ástæðum byggðaskipulagið þar verið meira en annars staðar. Þegar byggðin eykst, eins og raun ber vitni hér á þessu svæði, þá verður að hafa í huga, að svæðum sé haldið til haga fyrir það fólk, sem byggir hér í þéttbýlinu, þannig að það hafi tækifæri til útivistar. Það má segja, að með skipulagi Heiðmerkur hafi fyrst verið gert átak í sambandi við útivistarsvæði fyrir fólk hér á þéttbýlissvæðinu. Hins vegar sýnist flm., að hér við sjávarsíðuna séu nú síðustu forvöð til þess að tryggja það, að frá verði tekin svæði,

sem hægt verði að nota til útivistar fyrir almenning. Þetta svæði, sem hér um ræðir í þessu frv., er Álftanesið, er, eins og þar segir, Bessastaðahreppur og hluti af Garðahreppi. Þetta svæði hefur ekki enn verið skipulagt í sambandi við íbúðahverfi, og þess vegna er nú einmitt tækifæri að tryggja, að það verði skipulagt þar byggingarsvæði með þeim hætti, að frá verði tekið útivistarsvæði fyrir almenning. Álftanesið er að mörgu leyti vel til þess fallið, hvað snertir samgöngur fyrir það fólk, sem byggir þéttbýliskjarnann. Í öðru lagi hefur það upp á ýmsa mjög góða kosti að bjóða, sem slíkt svæði þarf að hafa til þess að gera dvöl fólksins, sem þangað mundi vilja sækja, ánægjulega, en það er fagurt útsýni og umhverfi, fagrar og sérstæðar náttúrumyndanir og fjölbreytt jurta- og dýralíf. Það er í 1. gr. frv. einmitt gert ráð fyrir því, að þess verði gætt við skipulag þessa svæðis, að land eða landspildur, sem hafa upp á það að bjóða, sem ég nú gat um, verði einkanlega tekið frá til almenningsafnota.

Um leið og hér er varpað fram þessari hugmynd að gera Álftanesið að útivistarsvæði fyrir þéttbýliskjarnann hér, þá kemur annað meginefni frv. í 2. gr., en þar segir, að óheimilt sé að reisa eða gera í Bessastaðahreppi og þeim hluta Garðahrepps, sem næst liggur Bessastaðahreppi, opinber mannvirki, sem truflað geti skipulagninguna, sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frv. Hér er fyrst og fremst átt við það, að sú hugmynd, sem hefur verið uppi í sambandi við flugvallargerð á Álftanesi, verði ekki að raunveruleika, og er það einmitt annað markmið frv. að fyrirbyggja um leið, að slík mannvirki verði þarna reist. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, að á undanförnum árum hafa átt sér stað umræður og athuganir á flugvallargerð hér í þéttbýlinu, og hafa þá augu manna einkum beinzt að Álftanesi vegna þess, að það er eini landshlutinn hér í þéttbýliskjarnanum, sem enn er óbyggður, og þess vegna fært að staðsetja þar flugvöll. Að vísu er það töluvert mikið landrými, þegar suður fyrir Hafnarfjörð kemur, en ýmsir, sem gerst telja sig þekkja til þessara mála hafa talið, að þægilegri aðstæður séu fyrir hendi á Álftanesi en þar suður frá. Það er skoðun mín, að ef úr þessu yrði, mundum við, þegar fram í sækti, mjög geta séð eftir að hafa ekki í tíma fyrirbyggt, að slík mannvirki yrðu byggð á þessu svæði, og til þess að það eigi sér ekki stað öðru vísi heldur en Alþ. taki um það ákvörðun, þá er frv. þetta flutt.

Það hefur starfað n. í flugvallarmálum. Sú n. hefur ekki náð samstöðu. Minni hl. hennar hefur lagt til, að á Álftanesi verði byggður flugvöllur, sem í senn geti þjónað innanlands- og utanlandsflugi. Hins vegar hefur meiri hl. þessarar n. lagt til, að aðeins verði tekið frá svæði á Álftanesi, þannig að hægt yrði að byggja þar flugvöll til innanlandsflugs. Í skipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir því, — ég held, að ég fari með rétt mál — að 1983 verði sá flugvöllur, sem er hér suður í mýrinni, horfinn og þar komið íbúðarhverfi í staðinn, og þess vegna þurfi yfirvöld að tryggja það, að einhvers staðar hér á næstu grösum verði byggður flugvöllur í stað þess, sem þar hyrfi. Við höfum hér suður á Reykjanesi flugvöll, sem í senn að mínum dómi gæti þjónað innanlandsflugi í dag, og með þeim mjög svo góða vegi, sem byggður hefur verið þangað suður eftir, er hér ekki um langa vegalengd að ræða, og eftir því, sem árin líða, verður hún styttri, enda þótt hún sé ævinlega sami kílómetrafjöldi. Byggðin færist suður, og áður en varir verður ekki nema stutt á milli byggðarlaga, þannig að fjarlægðin, sem ýmsir setja fyrir sig í sambandi við Keflavíkurflugvöll sem innanlandsflugvöll, verður hverfandi. Það má og benda á það, að erlendis er víða uppi sú stefna að hverfa með flugvelli frá þéttbýli og koma þeim fjær auk þess, sem í framtíðinni verður tvímælalaust svo ör þróun í tækni flugmála, að til flugvalla þarf ekki nema tiltölulega lítið svæði. Það sýnir sig, að framfarirnar eru svo miklar, að ég held, að hér komi ekki til greina að neitt vandamál rísi.

Enn fremur er gert ráð fyrir því í þessu frv., að sá fólkvangur, sem hér yrði byggður, heyrði undir Náttúruverndarráð. Að sjálfsögðu er hægt að hafa alla framkvæmd á því eftir því, sem rétt væri talið. Hins vegar mundi hann þjóna fleira en einu byggðarlagi, og þess vegna þótti rétt að setja það inn í frv. með tilliti til þeirra ákvæða, sem í náttúruverndarlögunum eru, að þessi fólkvangur yrði undir stjórn Náttúruverndarráðs í stað þess að vera undir stjórn náttúruverndarnefndar einhvers sveitarfélagsins.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um frv. Það var flutt, eins og ég sagði, á síðasta þingi. Í sumar var sú hugmynd, sem hér um ræðir, m. a. tekin upp í borgarstjórn Reykjavíkur og bent þar á önnur svæði. Sjálfsagt er að skoða allar hugmyndir, sem fram koma í sambandi við þessi efni, en ég mundi halda, að jafnvel þó að við höfum falleg og góð svæði, sem eru mjög vel til þess fallin að vera útivistarsvæði fyrir fólk hér í þéttbýlinu, þá hafi Álftanesið upp á svo fjölmarga eiginleika að bjóða, að það megi ekki sleppa því að tryggja það, að það verði notað í framtíðinni til slíkra hluta. Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, vil ég taka það skýrt fram, að það er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að ákveðinn hluti þessa svæðis verði skipulagður í sambandi við húsbyggingar, en séð verði svo um að halda frá mjög góðum og stórum svæðum til útivistar.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.