27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2389)

37. mál, fólkvangur á Álftanesi

Frsm. (Birgir Kjaran) :

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram á síðasta Alþ., en hlaut þar ekki afgreiðslu. Meginefni frv. er, að skipulagningu byggðar í Bessastaðahreppi og þeim hluta Garðahrepps, sem næst liggur Bessastaðahreppi, skuli þannig hagað, að svæðið verði ætlað fyrir fólkvang til útivistar fyrir almenning og þar vitnað til l. nr. 48 frá 7. apríl 1956, um náttúruvernd.

Samkv. frv. því, sem hér er lagt fram, er Náttúruverndarráði ætlað að hafa umsjón með svæðinu, en kostnað við þessar framkvæmdir er ríkissjóði fyrirhugað að greiða. Engin grein er gerð fyrir hvorki stofnkostnaði við fólkvanginn né áætlun um kostnað af rekstri hans. Í frv. eru að mínu viti færð fram ýmis réttmæt rök fyrir nauðsyn á verndun útivistarsvæða fyrir almenning í þéttbýlinu, og þess er vissulega full nauðsyn, að þau mál séu nú tekin fastari tökum en verið hefur, og mörkuð ákveðnari stefna í þeim efnum til lengri tíma, og markmiðin þar sett hærra heldur en áður hefur verið gert, því að með hverju ári, sem líður, verður þetta meira aðkallandi vandamál eftir því, sem landsmönnum fjölgar, fleiri byggðakjarnar myndast, samgöngunetið þéttist, en að sama skapi fækkar þá svæðum ósnortinnar náttúru og afdrepa fyrir fólk til þess að njóta hollrar útivistar.

Skilningur flm. frv. á þessu vandamáli og hugarþel, sem að baki liggur, eru vissulega góðra gjalda verð og vottur vaxandi áhuga manna innan þings og utan fyrir náttúrufegurð landsins og þeim verðmætum, sem í henni felast. Engu að síður eru á þessu máli sem öðrum fleiri hliðar, og því taldi menntmn. hv. d. sér bera skyldu til þess að leita álits nokkurra aðila, sem hlut eiga að máli, bæði frá náttúruverndar- og hagsmunasjónarmiðum, því að slíkum málum er vænlegastur framgangur, ef hægt er að samræma sem flest sjónarmiðin, svo að ekki þurfi að koma til árekstra milli efnahagssjónarmiða og þeirra, sem miða að verndun náttúru landsins, a. m. k. ekki að óþörfu. Því leitaði menntmn. álits viðkomandi aðila, sem vitað var, að hagsmuna áttu að gæta eða áhuga höfðu fyrir málinu. Umsagnir bárust m. a. frá hreppsnefndum Bessastaða- og Garðahrepps, oddvita og landeigendum Bessastaðahrepps, flugmálastjórn og Náttúruverndarráði, svo að nokkuð sé nefnt. Af umsögnum þeim, sem n. hafa borizt frá þessum aðilum, er greinilegt, að verulegur skoðanamunur er um afstöðu til málsins. Sumir leggja áherzlu á gildi landsins sem útivistarsvæðis og verndun landslagsins, aðrir á notagildi svæðisins til samgöngubóta, flugvallargerðar, enn aðrir á skipulagningu byggðar og yfirráðarétt sinn á löndum og lendum og ónæði af aukinni umferð á landi og í lofti.

Allt eru þetta sjónarmið, sem kunna að hafa meira og minna til síns máls. Menntmn. telur hins vegar fyrir sitt leyti mál þetta ekki nægilega kannað, svæðið ekki skilmerkilega afmarkað frá hendi flm. og þaðan af síður gerð grein fyrirkostnaði þeim, sem af lagasetningu þessari mundi óhjákvæmilega hljótast. Þess vegna er aðeins tekið fram, að ríkissjóði skuli bera að standa straum af þessari greiðslu.

Náttúruverndarmálin eru hér nú sem betur fer ofar á baugi en verið hefur, og er það raunar þróun, sem á sér stað um allan heim, þótt hægara hafi fram undið hér á landi en víðar annars staðar, sem í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt, því að fyrr og meir hefur kreppt að í þéttbýlli og iðnþróaðri löndum. Engu að síður eru vandamál þessi nú snögglega farin að knýja dyra einnig hjá okkur. Sú náttúruvakningaralda, sem nú fer um heiminn vegna náttúruverndarársins 1970, mun heldur ekki fara fram hjá Íslandi, vona ég.

Menntmn. d., eða þeir nm., sem mættir voru við afgreiðslu málsins, og n. í heild, geri ég ráð fyrir, hygg ég að sé almennt fylgjandi aukinni náttúruvernd hér á landi og hefur orðið sammála um að flytja nál., sem hér hefur verið lagt fram á þskj. 656.

Fyrir þetta þing hefur nú verið lagt frv. til náttúruverndar. Það er lagabálkur, sem mikil vinna hefur verið lögð í og okkur, sem það verk unnum, kemur ekki til hugar, að afgreiddur verði á einu þingi, en vildum þó sýna þinginu það, svo að alþm. gæfist tóm til þess að íhuga það til haustsins, svo að ekki yrði að neinu flanað, enda líklegt, að þar megi eitthvað betrumbæta. Þess vegna leggur n. til, að staldrað verði við í bili þarna á nesinu, þar til frv. hefur í einhverju formi verið komið í höfn, því að það verður ekki aftur tekið í ríki náttúrunnar, sem eitt sinn hefur verið spillt, jafnvel ekki, þó að í ærinn kostnað sé lagt. Þess vegna leggur n. samhljóða til, að málinu verði vísað til ríkisstj., svo að henni gefist ráðrúm til, ásamt viðkomandi sveitarstjórnum og kunnáttumönnum, að kanna málið til hlítar, áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þó leyfi ég mér að lokum og ég held, að ég mæli þar fyrir munn nm. allra, að vænta þess, að frá verði tekið sem fyrst af ríkisstj. í samvinnu við heimamenn nokkurt landssvæði, fremur stærra en minna, og því haldið óbyggðu, unz endanleg stofna verður mörkuð í þessu máli.