27.04.1970
Neðri deild: 85. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2390)

37. mál, fólkvangur á Álftanesi

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Frsm. menntmn. hefur nú gert grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem liggja til afgreiðslu n. á frv. til l., sem flutt er hér í hv. d. á þskj. 37 af mér ásamt nokkrum öðrum hv. þdm. Það sjónarmið, sem fyrst og fremst vakir fyrir flm. má greina í þrennt. Það er, að frá verði tekið svæði á Álftanesi, til þess að fólk, sem byggir þéttbýliskjarnann hér, fái tækifæri til útivistar. Í öðru lagi, að á þessu svæði verði sérstaklega vernduð náttúrufegurð, svo og það jurta- og dýralíf, sem þar er, og því verði ekki spillt með einum eða öðrum hætti. Og í þriðja lagi, að byggingar verði ekki leyfðar á þessu svæði til þess að koma í veg fyrir þann skaða, sem gæti af þeim hlotizt, og eins og hv. frsm. réttilega sagði, verður ekki aftur tekið til náttúrunnar það, sem einu sinni hefur verið eyðilagt. Flm. eru þeirrar skoðunar, að það land, sem hér um ræðir, hafi upp á sérstaka og óvenjulega möguleika að bjóða, og vildu þess vegna fyrst og fremst vekja athygli á málinu og koma í veg fyrir ýmsar þær fyrirætlanir, sem ýmsir hagsmunaaðilar hafa á prjónunum.

Hér hefur verið lagt fyrir Alþ. frv. til laga um náttúruvernd. Ég hef að örlitlu leyti kynnt mér það og sé, hvað þar er gert ráð fyrir, að Náttúruverndarráð geti aðhafzt einmitt í þeim tilfellum sem þessum. Ég get fyrir mitt leyti mjög vel fallizt á þá afgreiðslu málsins, sem hér er lögð til, þ. e. a. s. að Náttúruverndarráð taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar og í samráði við þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli, þ. e. a. s. hreppsnefndir Bessastaðahrepps og Garðahrepps, finni lausn á þeim vanda, sem hér er við að glíma, þ. e. a. s. að skapa útivistarsvæði og tryggja það, að náttúra landsins fái þarna að vera í friði, og á meðan þessi athugun fer fram, verði ekki ráðizt í nein meiri háttar mannvirki á Álftanesinu.

Ég undirstrika það, sem kemur fram í nál. frá hv. menntmn., að á meðan þessi athugun fer fram, fari ekki fram eða verði byggð nein meiri háttar mannvirki á þessu ákveðna svæði.