16.10.1969
Neðri deild: 3. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2425)

4. mál, Framkvæmdasjóður Íslands

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. á þessu stigi um þetta frv. Það er ekki mikið að vöxtum eins og það kemur fyrir hér á þskj. Hins vegar hygg ég, að það megi ræða töluvert þetta mál og það geti skapað mjög víðtækt fordæmi að gefa stjórn Framkvæmdasjóðs slíka heimild, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, og þá verður mönnum á að spyrja: Geta ekki ýmsir aðrir stofnlánasjóðir atvinnuveganna óskað eftir að fá svipaða heimild sem þessa, og er þá ekki réttlátt, að þeir fái slíkar heimildir? Vil ég í því sambandi t. d. nefna Fiskveiðasjóð. Við getum nefnt stofnlánadeildina. Við getum jafnvel nefnt í þessu tilfelli Atvinnujöfnunarsjóð. Hann kemur í mörgum tilfellum með stofnlán til fyrirtækja, sem þurfa á endurskipulagningu að halda og eru þjóðþrifafyrirtæki. Ekki er rétt að fara nánar út í þessa sálma.

Mér þætti t. d. mjög vænt um að heyra álit hæstv. fjmrh. á því hvað snertir t. d. Atvinnujöfnunarsjóð, hvort hann teldi ekki eðlilegt, að þessara heimilda væri leitað þar líka í breytingu á 4. um hann sem og aðra stofulánasjóði. Ég vænti þess, að sú hv. n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi þetta mál mjög gaumgæfilega, því að ég tel, að hér geti verið um allvíðtækt fordæmi að ræða.