15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í C-deild Alþingistíðinda. (2444)

140. mál, dómsmálastörf, lögreglustjórn og gjaldheimta o.fl.

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Með örfáum orðum vildi ég benda á atriði, sem ég teldi rétt, að sú hv. n., sem fær frv. þetta til athugunar, athugi, hvort ekki væri unnt að auka við efni þess. Í frv. er gert ráð fyrir, að við embætti lögreglustjóra í Reykjavík taki til starfa rannsóknarstjóri, sem lýtur lögreglustjóra, stýrir lögreglurannsókn brotamála og fer með stjórn þeirra lögreglumanna, sem ætlað er að rannsaka brotamál, að því er þau störf varðar, eins og segir í 2. gr. frv. Meðal þeirra mála, sem undirnefnd fjvn. hafði til meðferðar s. l. sumar í því skyni að koma á meiri hagkvæmni og sparnaði í ríkisrekstrinum, voru lögreglumál og kostnaður við löggæzlu í landinu. N. skilaði ábendingum um þau mál, þar sem m. a. var vakin athygli á þeirri þróun, sem á undanförnum árum hefur átt sér stað í sambandi við rannsóknarlögreglustörf í nágrannabæjum Reykjavíkur. En í Kópavogi og í Hafnarfirði hafa nú í nokkur ár verið að vaxa upp rannsóknarlögregludeildir með sérstöku starfsliði. Það var skoðun undirnefndar fjvn., að þessi þróun væri óheppileg, og hún taldi athugandi, hvort ekki væri hagkvæmara, að öll rannsóknarlögreglustörf á þessu svæði, í Reykjavík og næstu nágrannabæjum, yrðu á einni hendi, þannig að ekki væri verið að sérhæfa starfslið á mörgum stöðum og afla nauðsynlegra og sams konar tækja á hverjum stað. Það fer naumast á milli mála, að unnt hlýtur að vera að nýta betur sérhæft starfslið og fé til tækjakaupa með því móti, að ein og sérstök rannsóknarlögregludeild annist nauðsynleg störf á þessu sviði í Reykjavík og svo stóru svæði í grenndinni, sem unnt er.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að dómsmrh. sé heimilt að fela lögreglustjóranum í Reykjavík og rannsóknarstjóra yfirstjórn og framkvæmd sérstakra þátta löggæzlu og lögreglurannsókna utan Reykjavíkur, ótímabundið eða um stundarsakir, ef um einstök, tiltekin lögreglumálefni er að ræða. Ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún athugi, hvort ekki væri rétt að kveða hér fastar að orði og breyta greininni á þann veg, að beinlínis verði gert ráð fyrir því, að ekki verði haldið áfram þeirri þróun að koma upp sérstökum rannsóknarlögregludeildum í næsta nágrenni Reykjavíkur, heldur skuli ein slík stofnun annast rannsóknarlögreglustörf á öllu svæðinu.

Fyrst ég hef minnzt hér á sérstakan þátt í lögreglumálum Reykjaneskjördæmis, þá vil ég ekki láta hjá líða að árétta þá skoðun mína, að verulegra breytinga sé þörf á skipun lögreglumála og annarra mála, er almennt heyra undir embætti sýslumanns og bæjarfógeta í kjördæminu. Að því er varðar lögreglumálin sérstaklega, taldi undirnefnd fjvn. í grg. sinni, að athuga bæri, hvort ekki væri rétt að gera þær breytingar á l., að allt lögreglulið, sem starfar á svæðinu sunnan Hafnarfjarðar, lyti einni stjórn. Eins og málum er nú háttað, eru lögregluþjónar á þessu svæði undir stjórn þriggja embættismanna. Lögregluliðið á Keflavíkurflugvelli lýtur stjórn lögreglustjórans þar, sem heyrir svo undir utanrrn. Lögregluliðið í Keflavík lýtur stjórn lögreglustjórans í Keflavík, en löggæzlan í öðrum sveitarfélögum á Reykjanesskaga, Vatnsleysustrandarhreppi, Njarðvíkurhreppi, Gerðahreppi, Miðneshreppi, Hafnahreppi og Grindavíkurhreppi lýtur stjórn sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem jafnframt er lögreglustjóri í Hafnarfirði. Á þessu svæði sunnan Hafnarfjarðar starfa líklega um 45 lögregluþjónar undir stjórn þriggja aðila, og löggæzlan á þeim slóðum, sem er fjærst Hafnarfirði, lýtur stjórn lögreglustjórans þar. Þarna þarf að verða breyting á. Að mínum dómi ætti að leggja embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli niður, og sameina alla löggæzlu á þessu svæði sunnan Hafnarfjarðar undir stjórn bæjarfógetaembættisins í Keflavík. Þetta á ekki aðeins við um löggæzlu, heldur þyrfti að stokka þessi mál svo rækilega upp, að undir þetta embætti í Keflavík heyrðu ekki aðeins lögreglumál þessa svæðis sunnan Hafnarfjarðar, heldur önnur þau mál, sem nú falla undir embætti sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar er ekki aðeins um að ræða fjárhagslega hagkvæmni, heldur ekki síður bætta þjónustu við þá íbúa þessa svæðis, sem nú þurfa að fara til Hafnarfjarðar með öll sín mál, sem þetta embætti varðar, þinglesningar, þinggjöld, bifreiðaskráningar, málarekstur, almannatryggingamál o. fl. o. fl. og borga svo vegaskatt að auki fyrir að annast þessi erindi sín. Það er mín skoðun, að lögreglumál á Suðurnesjum ættu að vera undir einni stjórn, og dómsmál og önnur mál, sem heyra sýslumannsembætti til, ættu einnig að vera sameiginleg fyrir öll Suðurnes og heyra til embætti í Keflavík. Þær lagabreytingar, sem gera þyrfti til þess að koma slíkri breytingu á, falla að sjálfsögðu ekki undir ákvæði þessa frv., en ég vildi vekja athygli á þörfinni á því, að slíku máli verði sinnt.

Ég vil, eins og ég áðan sagði, sérstaklega beina því til þeirrar n., sem fær þetta frv. til meðferðar, að hún athugi, hvort ekki sé rétt að gera ákvæði 2. gr. varðandi rannsóknarstjóra og rannsóknarlögreglu víðtækari, þannig að með nauðsynlegum breytingum á frv. verði tryggð sú skipan rannsóknarlögreglumála í Reykjavík og sveitarfélögum í næsta nágrenni, að ein stofnun annist öll slík störf á svæðinu.