17.03.1970
Neðri deild: 61. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

182. mál, útvarpslög

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá atriði, sem ég ætla að víkja að í sambandi við ræðu hv. 5. þm. Vesturl. Það eru ekki nýmæli fyrir mér, þó að ég heyri það hér úr ræðustóli, þegar talað er um innheimtu á sköttum eða öðru þvílíku, að stofnanirnar þurfi sitt, og það verður þá að mæta þessu á einhvern annan hátt. Út af fyrir sig er mér það fullkomlega ljóst, að ríkisútvarpið þarf sínar tekjur eins og aðrar stofnanir, og spurningin er aðeins um það, hvort þessi eða hin leiðin sé þá réttmætari til innheimtu. Nú hélt ég því ekki fram í minni ræðu hér áðan, að nefskatturinn væri endilega það, sem koma skyldi. Hins vegar fannst mér, eða réttara sagt varð ég fyrir vonbrigðum með það, þegar á að fara að setja nýja löggjöf um útvarpið, að þá skuli fylgt nákvæmlega þeirri reglu, sem nú gildir um útvarpsgjöldin. Ég veit ekki, hvort það er réttmætara en annað, nema síður sé, að láta sama aðilann þurfa að greiða útvarpsgjöld tvisvar, af því að hann þarf að hreyfa sig frá sínu heimili, eins og ég gat um áðan. Ég held, að þeim útvarpsmönnum sé það líka ljóst, að það eru mjög mikil brögð að því í sambandi við bílana, að þeir eru útvarpslausir, þegar þeir koma til skoðunar. Það er orðið afar auðvelt að hafa hreyfanleg tæki í bílum sínum og njóta útvarpsins, þó að það sé ekki þar, þegar farið er með bifreið til skoðunar, eins og nú er. Aðrir eiga ekkert við það að vera að taka útvarpstækin úr sínum bílum og greiða það heldur. Þess vegna er ég ekki sannfærður um það, að þetta sé réttlátara heldur en aðrar leiðir í þessu efni. Ég álít, að það sé óréttlátt, að maður þurfi að greiða oftar en einu sinni fyrir það að njóta þess að hlusta á útvarp og það eigi ekki að breyta því, þó að viðkomandi persóna þurfi að færa sig frá sínu heimili. Og ég álít, að það sé nauðsynlegt, að sú n. hér í hv. Alþ., sem um þetta fjallar, geri sér fullkomlega grein fyrir þessu og sjái almenn viðhorf í málinu, því það er brýn nauðsyn til þess nú í sambandi við endurskoðun á þessum málum.

Ég álít líka, að ríkisútvarpið hafi á síðari árum færzt mjög í aukana með kostnað við innheimtuna, og ég er ekki búinn að fá sannfæringu fyrir því, að þeir hafi valið þá leið, sem heppilegust eða ódýrust er. Ríkisútvarpið notaði áður þá leið að láta pósthúsin innheimta afnotagjöldin sem póstkröfur, en nú er það orðið þannig, að það eru sendar út tilkynningar, sem þeim eru sendar í póstávísunum aftur, og ef ekki er greitt fyrir ákveðinn tíma, þá er það sent til innheimtumanna. Það er mín skoðun, án þess að ég geti leitt að því rök að þessu sinni, að þetta sé dýrara heldur en sú aðferð, sem áður var notuð til innheimtu í gegnum pósthúsin. Ég held því, að kostnaður ríkisútvarpsins sjálfs færist í aukana við þessa innheimtuaðferð, sem þeir nota nú, og þurfi að taka hana mjög til endurskoðunar.

Ég álít, að grundvallarsjónarmiðið í þessu sé það, að ríkisútvarpið telji, að með því að breyta frá því formi, sem nú er, þá verði fjárhagslegt sjálfstæði þess ekki eins mikið og nú er. Þetta er ekkert óeðlileg skoðun frá sjónarmiði þeirra, sem þessum málum stjórna. Svo geta aðrir haft á því aðrar skoðanir og þær líka haft við rök að styðjast, en ég legg áherzlu á það, að einmitt í sambandi við athugun hv. Alþ. og þessarar hv. d. á málinu, verði þessi þáttur, fjármálin og innheimtan, tekinn til mjög gaumgæfilegrar athugunar og tel brýnni nauðsyn bera til þess en ella, vegna þess að frv. er fyrst og fremst samið af þeim útvarpsmönnum, þar sem þeir höfðu meiri hl. í n. þeirri, sem um málið fjallaði. Þess vegna treysti ég hv. d. til þess að athuga það mál mjög gaumgæfilega.