24.04.1970
Neðri deild: 81. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2458)

230. mál, olíuhreinsunarstöð á Íslandi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Frv. þetta til 1 um olíuhreinsunarstöð á Íslandi er að efni til þannig, að ríkisstjórnin skuli beita sér fyrir því, að mynda eins konar undirbúningsfélag, sem reki endahnútinn á athugun þess, hvort rétt sé að reisa olíuhreinsunarstöð hér á landi. Það má segja, að á s. l. ári hafi iðnmrn. látið þetta mál til sín taka, en hins vegar hefur verið unnið að því áður bæði af áhugaaðilum og einstaklingum, og stjórnvöld að vissu leyti staðið á bak við það líka. Hér í Alþ. hefur málið nokkrum sinnum borið á góma, og það hefur verið látinn uppi áhugi þm. á því, að þingið fylgist með því, hvað gerist í þessu máli. Af þeim sökum var útbýtt meðal þm. í maímánuði í fyrra grg. frá iðnrn. um framvindu málsins fram til þess tíma. Nú mætti spyrja, hvort ástæða væri til þess að mynda slíkt undirbúningsfélag sem hér er um að ræða, og hvort iðnrn. gæti ekki alveg eins haldið málinu áfram, unz að því kæmi að mynda raunverulegt félag um stofnun og rekstur olíuhreinsunarstöðvar. Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar, að málið væri komið á það stig, að það gæti verið hentugt að mynda slíkt undirbúningsfélag. Það er dálítið erfitt að reka svona mál lengur en nú hefur verið gert af hálfu rn., og ég hef talið, að það væri nauðsynlegt að það kæmist á laggirnar einhver júridískur aðili eins og svona undirbúningsfélag til þess að annast síðustu samningagerð og síðustu athuganir á því, hvort ætti að reisa slíka olíuhreinsunarstöð í landinu. Þetta félag mundi kanna til enda hagkvæmni slíkrar stöðvar og annast samningagerð og þá ekki sízt í sambandi við kaup á jarðolíu og kanna, hvaða verð væri hægt að fá á henni, en það sker náttúrlega úr um, hvort slíkt fyrirtæki er hagkvæmt eða ekki. Það mætti segja, að þetta undirbúningsfélag gæti komizt að tveimur niðurstöðum, annarri neikvæðri um að það væri ekki hagkvæmt, eins og sakir standa, að mynda slíkt félag, hinni jákvæðri, en þá mundi framgangur málsins væntanlega verða sá, að þetta undirbúningsfélag legði drög að stofnun raunverulegs rekstrarfélags og stofnfélags olíuhreinsunarstöðvar og rynni inn í það. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé líklegt, að síðari kosturinn verði ofan á að það verði talið hagkvæmt og rétt að mynda slíkt fyrirtæki hér á landi.

Nú skal ég ekki eyða tíma þingsins, eins og nú er komið, með því að fara að rekja einstaka þætti þessa máls. Það, sem gerzt hefur í málinu, frá því að skýrsla var lögð fram hér í maí í fyrra, kemur fram í grg. frv. og í fylgiskj., sem því fylgja. Það er ekki gert ráð fyrir því af minni hálfu eða ríkisstjórnarinnar, að þetta frv. hljóti afgreiðslu á þessu þingi, heldur er það borið fram til þess að sýna, á hvaða stigi málið er, og hvaða upplýsingar liggja fyrir nú í rn. Ég tel, að það hafi töluverða þýðingu, að það sé gert, m. a. vegna hugsanlegra viðsemjenda erlendra, sem hafa verið við þetta mál tengdir og kunna að verða það, þó við vitum e. t. v. ekki um það í dag.

Hér er um töluverða nýjung að ræða af okkar hálfu, ef slíkt félag kæmist á laggirnar. Það gæti verið tengt öðrum efnaiðnaðarfyrirtækjum hér á landi, eins og ráða má af grg., sem því fylgir, og í heild verður náttúrlega að meta málið frá því sjónarmiði. Í fyrsta lagi, að öruggt sé, að olíuverð verði ekki hærra en það mundi verða, væri keypt annars staðar frá, og í öðru lagi, að olíuhreinsunarstöðin í heild sé þjóðhagslega hagnýtt fyrirtæki.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.