25.04.1970
Neðri deild: 82. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2465)

232. mál, námslán og námsstyrkir

Frsm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Frv. þetta felur í sér þá einu breytingu á gildandi l. um námslán og námsstyrki, að nemendur framhaldsdeildar Bændaskólans á Hvanneyri bætist í hóp þeirra, sem geta fengið lán og styrki.

Á árinu 1968 var gerð breyting á þessari gr. og var þá nokkrum aðilum, þ. á m. nemendum Tækniskólans, bætt við. Er það skoðun þeirra, sem stjórna þessum málum, að framhaldsdeild Bændaskólans sé hliðstæð þessum aðilum, og þess vegna er þetta frv. fram komið. Hér getur fyrst um sinn í mesta lagi verið um að ræða 10–15 nemendur. Þar sem lýst hefur verið yfir, að fjárhagur þess sjóðs, sem lánin og styrkina veitir, sé í endurskoðun, má gera ráð fyrir því, að þetta hafi ekki alvarleg áhrif á úthlutun til annarra nemenda. Menntmn. mælir einróma með samþ. frv., nema hvað einn nm. var fjarverandi, þegar n. afgr. málið.