21.10.1969
Efri deild: 4. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það fer að ýmsu leyti vel á því að hafa þetta frv. á dagskrá næst á eftir því máli, sem við ræddum hér á undan, en tilefni þessa frv. er, eins og í aths. þess segir, að sýslun. N.-Múlasýslu ákvað á fundi sínum 3. júlí s. l. að óska eftir því, að þessi sameining færi fram á Loðmundarfjarðarhreppi og Seyðisfjarðarkaupstað, og bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur samþ. þessa ósk hinn 11. ágúst s. l. Með hliðsjón af þessum tveimur samþykktum er frv. þetta flutt, þar sem íbúatala hreppsins er komin niður fyrir það, að gegnt verði þeim lagalegu skyldum, sem hreppar verða að gegna. Ég vænti því þess, að ágreiningur þurfi ekki að verða um þetta mál, og óska eftir því, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr- og félmn.