15.12.1969
Efri deild: 26. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson) :

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hefur heilbr.- og félmn. klofnað í þessu máli. Við hv. 1. þm. Vesturl. höfum skilað sérstöku nál., og ætla ég lítillega að ræða um okkar afstöðu til þessa frv.

Í frv. er lagt til, að Loðmundarfjarðarhreppur verði sameinaður Seyðisfjarðarkaupstað, og vil ég vekja athygli á því, að um leið er m. a. stefnt að því að breyta á þessum slóðum mörkum lögsagnarumdæma. Ástæðan fyrir því, að óskir hafa komið fram um sameiningu þessa hrepps við annað sveitarfélag, er að sjálfsögðu sú, að þetta er mjög fámennt hreppsfélag, og verður því að telja út af fyrir sig eðlilegt, að til sameiningar verði gengið. Um það atriði, hygg ég, að sé ekki ágreiningur eða hafi ekki verið í n., að Loðmundarfjarðarhreppur sé svo fámennur orðinn, að það sé ekki nokkur leið að halda þar uppi sérstöku sveitarfélagi. En ágreiningurinn í n. er um það, hvort þessi hreppur eigi að falla úr tölu innan Norður-Múlasýslu og innlimast Seyðisfjarðarkaupstað án þess, að fyrir liggi umsögn sýslunefndar Norður-Múlasýslu um þessa ráðstöfun.

Í samþykkt sýslunefndarinnar frá 3. júlí 1969, sem lesin var hér upp áðan af frsm. meiri hl. n., er það tekið fram, að sýslunefndin óskar eftir því, að þetta sveitarfélag, Loðmundarfjarðarhreppur, verði sameinað öðru sveitarfélagi. En sýslunefndin hefur hvorki í þessari ályktun né annarri tekið fram, hvort það sé hennar vilji t. d., að Loðmundarfjörður með öllu, sem honum tilheyrir, innlimist í Seyðisfjarðarkaupstað og hverfi brott úr sýslunni. Það er nokkuð mikilvægt atriði, að okkar áliti í minni hl. n. Við teljum það óviðeigandi að ganga framhjá umsögn sýslunefndar um þetta atriði. Það hlýtur að vera viðurhlutamikið að breyta lögsagnarumdæmum, og sú meginröskun, sem verður, er þess eðlis, að það fer ekki hjá því, að það beri að leita álits þeirra aðila, sem við eiga að búa, áður en til slíkra stóraðgerða kemur. Það liggur hins vegar fyrir að bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar hefur samþ. þessa breytingu af sinni hálfu. En eins og ég sagði áðan, vantar sams konar álitsgerð af hálfu sýslunefndar Norður-Múlasýslu, og okkur í minni hl. sýnist ekki liggja svo mikið á afgreiðslu þessa máls, að það sé ekki að skaðlausu hægt að bíða þess, að slíkt álit frá sýslunefnd Norður-Múlasýslu liggi fyrir, áður en kemur til samþykktar á þessu frv. Við teljum, að þegar um sameiningu hreppsfélaga er að ræða. sé rétt og skylt að fara að öllu með gát og veita eðlilegum umsagnaraðilum aðstöðu til að segja sitt álit um þær breytingar, sem á verða og hljóta að skipta verulegu máli. Við teljum enn fremur, að löggjafinn eigi alls ekki að vera að ráðskast með breytingar á umdæmaskipun án þess að kynna sér ítarlega vilja stjórnenda viðkomandi sveitarfélaga eða sýslufélaga. Þetta er í raun og veru meginþráður í áliti okkar í minni hl., og við héldum satt að segja, að það mætti bíða þess, að álits sýslunefndar væri leitað, það lægi ekki svo mikið á og veit ég ekki, hvað undir býr.

Þar sem ekki hefur fengizt fram innan nefndarinnar að verða við okkar ósk um það að leita álits sýslunefndar, þá þætti okkur rétt, að þetta mál, eins og það liggur fyrir og án frekari skýringa, yrði afgreitt héðan úr hv. d. með rökstuddri dagskrá. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hina rökstuddu dagskrá. Hún er á þessa lund:

„Með því að eigi þykir rétt að stofna til þeirra breytinga á umdæmismörkum Norður-Múlasýslu, sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir, án þess að sýslunefndinni sé veittur kostur þess að tjá sig um efni gr., tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“