13.01.1970
Efri deild: 33. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef borið fram brtt. við þetta frv., sem er prentuð á þskj. 215, og vil ég leyfa mér með fáeinum orðum að gera grein fyrir efni hennar.

Það er vitað mál, að Loðmundarfjörður er orðinn svo fámenn byggð, að þar er ekki með eðlilegum hætti auðið að halda uppi þeirri starfsemi, sem í hverju sveitarfélagi ber að gera, og af þeim ástæðum mun frv. þetta vera fram komið. Hins vegar hefur engin þau atvik borið að á s. l. ári, sem geri það óumflýjanlegt að hraða afgreiðslu þessa máls. Það hefur verið um alllangt skeið að dragast saman byggð í þessu sveitarfélagi, og nú undanfarin ár, hafa þar einungis búið fáir menn.

Eins og lagt er til í þessu frv., er ekki einungis um það að ræða að stækka lögsagnarumdæmi Seyðisfjarðar kaupstaðar, heldur felst í þessu, að færa Loðmundarfjörð eða það sveitarfélag, sem enn er þar til að lögum, milli lögsagnarumdæma, og af þeim ástæðum ber enn ríkari nauðsyn til þess en ella hefði verið, að sýslun. N-Múlasýslu segði álit sitt um málið, eins og minni hl. heilbr.- og félmn. lagði til og gerði grein fyrir við 2. umr. þessa máls. Enn fremur kemur það til, sem bent var á við 2. umr. þessa máls, að verði þetta frv. samþ., þá verður land Seyðisfjarðarkaupstaðar ekki samfelld heild, heldur liggur Seyðisfjarðarhreppur á milli. Þetta mun vera, að ég ætla, alveg einsdæmi um skipan sveitarstjórnarumdæma, að land þeirra sé ekki samfelld heild, heldur eigi þau ítök úti á landsbyggðinni, í fjarlægð frá aðalstöðvum sveitarfélaganna. Þessar ástæður voru því valdandi, að ég greiddi atkv. með rökstuddri dagskrá, sem hér var lögð fram, og var til umr. við 2. umr. þessa máls. En það kom fram við atkvgr. eftir 2. umr:, að meiri hluti hv. þingdeildarmanna, er því meðmæltur að afgreiða þetta mál nú, og má gera ráð fyrir, að lokaafgreiðsla þess fari þá fram hér í deildinni við þá atkvgr., sem fer fram eftir þessa umr.

Það kom fram við 2. umr. um málið, að þó að þetta væri óvenjulegt og óeðlilegt, að landsvæði sveitarfélaga væri ekki samliggjandi, þá mundi sú breyt. verða á innan skamms, að Seyðisfjarðarhreppur sameinaðist Seyðisfjarðarkaupstað og þar með mundi þetta landssvæði, eftir að sú breyting hefði orðið, verða ein heild. Það kemur fram í skýrslu frá framkvæmdan. Sameiningarn. sveitarfélaga, sem ég geri ráð fyrir að hv. heilbr- og félmn. hafi haft með höndum og kynnt sér, að þessum sveitarfélögum, Seyðisfjarðarkaupstað, Seyðisfjarðarhreppi og Loðmundarfjarðarhreppi, er skipað í sérstakt athugunarsvæði í sambandi við framtíðarskipan sveitarfélaganna, og að þegar eru hafnar umræður milli þeirra um sameiningu. Það segir svo í þessari skýrslu, að fundur með stjórnum Seyðisfjarðarkaupstaðar og Seyðisfjarðarhrepps var haldinn 5. ágúst 1968. Fundinn sátu bæjarráð, bæjarstjóri og tveir af þremur hreppsnefndarmönnum hreppsins. Á fundinum var samþ. samhljóða ályktun um athugun á sameiningu sveitarfélaganna. Á fundinum ríkti um það einhugur, að til greina kæmi að leggja Loðmundarfjarðarhrepp til hins nýja sveitarfélags, ef myndað yrði. Þetta er ótvíræð bending um það, að þetta mál er þegar til athugunar heima í héraði, og mér hefði fundizt ástæða til að bíða með afgreiðslu þess, þangað til sú athugun er lengra komin, eða niðurstaða fengin um þær samningaumleitanir, sem fara fram um málið heima fyrir.

En þó að þetta mál verði nú afgreitt og Loðmundarfjörður sameinaður Seyðisfjarðarkaupstað, þá haldast eftir sem áður ýmis vandamál, sem snerta þetta landsvæði, sem Loðmundarfirði tilheyrir. Koma þá helzt til fjallskil og refaveiðar. Að þessu er og vikið í þessu frv., en 2. gr. þess segir, að bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar skuli sjá um, að fjallskil verði framkvæmd á eyðilöndum í Loðmundarfirði. Og um grenjaleitir í Loðmundarfirði samkvæmt l. um það efni frá 1957. Nú hagar þannig til, að þeir, sem fjárvon eiga í löndum Loðmundarfjarðar, eru ekki íbúar Seyðisfjarðarkaupstaðar, og ekki heldur íbúar Seyðisfjarðarhrepps, heldur sveitarfélögin, sem eru hinum megin við fjallgarðinn, sérstaklega Borgarfjarðarhreppur, svo og Hjaltastaðahreppur og Eiðahreppur. Þetta vita þeir, sem kunnugir eru á þessu landsvæði, en þetta hefði heilbr.- og félmn. einnig getað kynnt sér með því að lesa skýrslu þá, sem ég var að vitna til áðan, því að í kaflanum um þetta athugunarsvæði í Seyðisfirði og Loðmundarfirði er það tekið fram, að sveitarfélögin séu hvert um sig sérstök afréttarsvæði, Loðmundarfjarðarhreppur er smalaður úr Eiðahreppi, Borgarfjarðarhreppi og Hjaltastaðahreppi. Nú hefur okkur þm. Austurlandskjördæmis borizt sú vitneskja frá oddvitanum í Borgarfjarðarhreppi, að þeir telji ekki vel séð fyrir fjallskilum á þessu svæði, ef þau málefni verða lögð óskorað undir umsjá bæjarstjórnar Seyðisfjarðar. Seyðisfjarðarkaupstaður er að sjálfsögðu ekki landbúnaðarhérað, og er kannske eðlilegt, að áhugi bæjarstjórnarinnar þar beinist meira að þeim atvinnurekstri, sem stundaður er í kaupstaðnum, svo sem útgerð, iðnaði og verzlun. En hagsmunir í sambandi við fjallskil og refaveiðar snerta sérstaklega þá, sem fjár von eiga á þessum löndum í Loðmundarfirði. Nú voru á síðasta þingi sett ný og mjög ítarleg lög um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. En ég lít þannig á, að ef sett eru sérákvæði í sérstökum l. um Loðmundarfjörð, þá eigi og verði framkvæmdin að fara eftir þeim sérákvæðum, sem gilda um þann stað, en hin almennu ákvæði, um afréttarmálin og fjallskil víkja, að því leyti sem þann stað snertir. En í l. um afréttarmálefni og fjallskil segir svo:

„Hver sýsla er fjallskilaumdæmi, er skiptist í fjallskiladeildir eftir hreppum, nema sýslun. hafi fallizt á aðra skiptingu. Kaupstaður telst til fjallskilaumdæmis þeirrar sýslu, sem kaupstaðarlandið hefur áður legið undir, og er sérstök fjallskiladeild innan þess. Sýslun. hefur á hendi yfirstjórn allra afréttar- og fjallskilamála í sínu umdæmi, en hreppsnefnd eða bæjarstjórn annast stjórn og framkvæmd þeirra í hverri fjallskiladeild.“

Brtt. mín, þ. e. a. s. fyrri málsliður hennar er um það, að í stað þess, sem í frv. segir, að bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar skuli sjá um, að fjallskil verði framkvæmd á eyðilöndum í Loðmundarfirði, þá verði ákvæðið þannig, að um fjallskil í Loðmundarfirði skuli gilda ákvæði l. nr. 42 1969 um afréttarmálefni, fjallskil o. fl. Ef ákvæðið yrði lögfest þannig, þá virðist mér, að það opnist möguleiki fyrir sýslunefnd N.-Múlasýslu að leggja Loðmundarfjörð til annarrar fjallskiladeildar en Seyðisfjarðarkaupstaðar, ef farið yrði eftir hinum almennu l. um afréttarmálefni og fjallskil. Þá gæti Loðmundarfjörður verið fjallskiladeild með Borgarfirði eða þeim sveitarfélögum, sem fjárvon eiga á þessu svæði, og þá mundu sveitarstjórnir þeirra hreppa fá meiri íhlutunarrétt um fjallskilin en ella væri.

Síðari málsliður brtt. minnar fjallar um það, í hvaða hlutföllum skuli greiða kostnað við fjallskil á þessu landsvæði. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. hafi tekið eftir, að í grg. þessa frv. kemur það fram, að áhugi bæjarstjórnarinnar á Seyðisfirði fyrir þessari stækkun, sem hér er ráðgerð, er ekki meiri en svo, að hún setur fram sérstök skilyrði fyrir því að taka við Loðmundarfirði. Samþykkt bæjarstjórnar Seyðisfjarðar eins og hún er birt í grg. er svohljóðandi :

„Bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkir fyrir sitt leyti, að Loðmundarfjarðarhreppur og Seyðisfjarðarkaupstaður verði sameinaðir í eitt sveitarfélag, er beri nafn Seyðisfjarðarkaupstaðar. Það er skilyrði bæjarstjórnar fyrir sameiningunni, að ríkissjóður greiði kostnað við fjallskil og grenjaleit í Loðmundarfirði a. m. k. næstu 5 ár.“

Þetta tekur bæjarstjórnin fram sem skilyrði fyrir sameiningu.

Í hinum nýju l. um afréttarmálefni og fjallskil eru ákvæði um það, hvernig með skuli fara, þegar heilt sveitarfélag, eða sveitarhluti leggst í eyði. Þar segir svo:

„Nú fellur sveitarfélag, eða verulegur hluti þess úr byggð og skal þá viðkomandi sýslun. sjá um, að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Kostnaður við það skiptist þannig, að eigendur bera helming, hreppar þeir, er fjárvon eiga í löndunum, 1/4 og ríkið 1/4. Búnaðarfélag Íslands úrskurðar kostnaðarreikningana.“

Í þessu frv. um stækkun lögsagnarumdæmis Seyðisfjarðar, er vikið frá þessum almennu ákvæðum um greiðslu kostnaðarins, þó ekki að því, sem til fjallskila tekur, sé ríkinu ætlað að greiða kostnað við þau að öllu leyti a. m. k. næstu 5 ár, eins og bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur óskað eða raunar krafizt, heldur er vikið frá þessum almennu ákvæðum í frv. á þann veg, að hlutur eigenda eyðijarðanna er gerður minni en hin almennu ákvæði mæla fyrir um, en hlutur þeirra, sem fjárvon eiga á landsvæðinu að sama skapi stærri. Það mun hafa verið mat rn., þegar þetta frv. var samið, að eigendum eyðijarðanna í Loðmundarfirði væri ekki kleift að bera þann kostnað, sem af fjallskilum leiddi, að svo miklum hluta, sem ákvæði hinna almennu l. mæla fyrir um. Og ég hygg, að þetta mat sé út af fyrir sig alveg rétt. Það eru, eins og ég gat um, mörg ár síðan byggð fór að dragast saman í Loðmundarfirði, og þeir, sem áttu þar jarðir, eru sumir fyrir löngu burt fluttir, og mér er ekki fyllilega kunnugt um, hvar þeir eru búsettir nærri allir, eða hvernig þeirra högum er háttað. Hitt sýnist mér óeðlilegt, að þegar vikið er frá hinum almennu ákvæðum um kostnaðarhlutföllin, sé það gert á þann hátt að þyngja byrðar þeirra, sem fjárvon eiga á landsvæðinu, umfram það, sem hinar almennu reglur í landinu segja til um. Mér finnst, ef nauðsyn ber til að létta fjárhagsbyrðar þeirra, sem lönd eiga á þessu svæði, þá sé eðlilegt og jafnvel skylt, að ríkið taki á sig þann hluta byrðanna, sem færður er á milli að þessu leyti.

Síðari málsl. brtt. minnar er því um það, að kostnaður við fjallskilin skuli skiptast þannig, að eigendur eyðijarða beri 1/4, sveitarfélög þau, er fjárvon eiga í löndum þessum, sameiginlega 1/4 og ríkið helming. Breytingin er einungis sú, að hlutur ríkisins er stækkaður, en hlutur sveitarfélaganna, sem fjárvon eiga, er gerður sambærilegur við það, sem hin almennu lög segja til um, að eigi að gilda annars staðar á landinu.

Ég skal nú ekki fara fleiri orðum um þessa brtt. Ég veit, að hér er ekki í sjálfu sér um neitt stórt þjóðmál að ræða. Ég tel þessa brtt. mína mjög eðlilega lagfæringu á frv., og vænti þess, að hún verði tekin til greina. Eigi að síður er afstaða mín til málsins í heild sú sama og kom fram við 2. umr. Ég sé ekki neinar ástæður til þess að hraða afgreiðslunni svo mjög, og tel eðlilegast, að þetta mál sé athugað til hlítar heima í héraði, áður en til lokaafgreiðslu kemur.