13.01.1970
Efri deild: 33. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2483)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Jón Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég tel, að hv. 2. þm. Austf. hafi gert hér mjög skilmerkilega grein fyrir réttmæti þeirrar brtt., sem hann flytur við frv. við 3. umr. og ég lýsi því yfir, að ég skil þessa brtt.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var hins vegar ekki sú að lýsa afstöðu minni til þessarar till., heldur að leiðrétta ummæli, sem ég sjálfur viðhafði hér við 2. umr. þessa máls,en þá var ég frsm. fyrir meiri hl. heilbr.- og félmn. Við þessa umr. mun ég hafa getið þess, að Seyðisfjörður og Loðmundarfjörður væru aðskilin sveitarfélög, sem nú ættu að renna saman í eitt, ættu ekki landamerki saman og væru þess vegna landfræðilega sundurgreind, og þar væri annað sveitarfélag á milli þeirra. Ég vil nú ekki fullyrða, hvaðan við í n. höfðum þessar upplýsingar. Sjálfur hef ég aldrei komið til Seyðisfjarðar og þekki þar ekki staðhætti, og ég hygg, að aðrir nm. hafi verið staðháttum þarna lítið kunnugir. Nú hef ég hins vegar athugað þetta betur milli umr., því að við 2. umr. málsins bar þetta einmitt sérstaklega á góma, að það væri mjög óvenjulegt, að sveitarfélög væru ekki ein landfræðileg heild. Við þá athugun kom í ljós, að það, sem ég hafði sagt við þessar umr., var ekki rétt, því að Seyðisfjarðarkaupstaður og Loðmundarfjarðarhreppur eiga landamerki saman, þau landamerki liggja að vísu um fjallsbrúnir, þannig að það er ekki um samgöngur á landi milli þessara byggðarlaga að ræða yfir landamærin milli þeirra — samgöngurnar á landi hafa legið yfir Seyðisfjarðarhrepp. En það er staðreynd, að landamerki eiga þessi sveitarfélög saman, þó að þau séu í óbyggðum. En þó að við teldum nú þessi sveitarfélög landfræðilega aðgreind, þá töldum við rökin fyrir því að sameina þau það sterk, að við mæltum með þessu þrátt fyrir það. Nú hefur þessi mótbára að nokkru leyti fallið niður við þessa nánari athugun.

Hins er svo rétt að geta, af því að menn hafa hér minnzt á það sem einsdæmi, ef þetta kæmi fyrir, að eitt sveitarfélag væri ekki ein landfræðileg heild, að það er einmitt þessi umtalaði nágrannahreppur, Seyðisfjarðarhreppur, sem er undir þá sök seldur. Hann er ekki ein landfræðileg heild, heldur er hann algerlega klofinn. Hann liggur bæði norðan og sunnan Seyðisfjarðar, en lögsagnarumdæmi Seyðisfjarðarkaupstaðar og land þess liggur alveg inn í botn fjarðarins og klýfur þennan hrepp algerlega sundur í tvennt. Það virðist því enn þá ríkari ástæða til þess, að þessi Seyðisfjarðarhreppur komist sem fyrst inn í þennan nýja og stækkandi Seyðisfjarðarkaupstað. En þetta vildi ég láta koma fram hér, af því að þessi ummæli mín við 2. umr. málsins voru ekki rétt. Ég vissi ekki betur þá. Ég veit betur núna. Út af þessu spunnust nokkrar umr. og ég tel þess vegna sjálfsagt, að þessi leiðrétting komi hér fram.