15.01.1970
Neðri deild: 37. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2487)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Utanrrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Á síðustu árum hefur byggð svo að kalla lagzt niður í Loðmundarfjarðarhreppi, því að þar hefur aðeins dvalizt upp á síðkastið einn maður. Það er þess vegna augljóst, að það er ekki hægt að halda uppi venjulegu starfi hreppsnefndar, þegar svo er komið og jafnvel þó að ekki væri komið eins langt og hér er. Á aukafundi sýslunefndar Norður-Múlasýslu, sem haldinn var 3. júlí 1969, var því samþ. með shlj. atkv. svofelld ályktun:

„Með því að Loðmundarfjarðarhreppur er nú orðinn allt of fámennur til að geta rækt þær skyldur við íbúa sína, sem sveitarfélaginu ber að rækja, mælist sýslunefnd Norður-Múlasýslu til þess við félmrn., að gerðar verði ráðstafanir til að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi.“

Síðan samþykkti bæjarstjórn Seyðisfjarðar hinn 11.ágúst 1969 svohljóðandi ályktun: „Bæjarstjórn Seyðisfjarðar samþykkir fyrir sitt leyti, að Loðmundarfjarðarhreppur og Seyðisfjarðarhreppur verði sameinaðir í eitt sveitarfélag, er beri nafn Seyðisfjarðarkaupstaðar.“

Í 1. gr. frv. er þess vegna lagt til, að Loðmundarfjarðarhreppur verði lagður undir lögsagnarumdæmi og bæjarfélag Seyðisfjarðarkaupstaðar. Efni annarrar gr. í frv. er raunar aðeins tvö atriði, annars vegar um kostnað við fjallskil, sem leiðir af þessari breytingu og hins vegar grenjaleitir í Loðmundarfjarðarhreppi, hvernig þær skuli greiðast og vísast til þessara gr.

Þetta frv. er komið frá Ed. og var þar samþ. Að vísu kom fram í fyrsta lagi till. um rökstudda dagskrá og síðan ein brtt., en rökst. dagskráin, sem þar var borin fram, fól í sér, að þessum breytingum á umdæmismörkum sveitarfélaganna yrði frestað, þar til sýslunefndin í N.- Múlasýslu hefði tjáð sig um efni málsins betur en hún hefur gert áður, og sérstaklega að henni yrði gefinn kostur á að segja til um það, hvort heppilegra væri að Loðmundarfjarðarhreppur yrði sameinaður einhverju sveitarfélagi í sýslunni eða Seyðisfjarðarkaupstað. Hins vegar hafði sýslun., eins og ég sagði hér áðan, tjáð sig um það, að Loðmundarfjarðarhreppur yrði sameinaður öðru sveitarfélagi — það stendur nú sveitarfélagi, en það hefur farið svo, að till. er um sameiningu við Seyðisfjarðarkaupstað. Seyðisfjarðarkaupstaður og Loðmundarfjarðarhreppur eru nú svo nærri hvor öðrum, að það virðist eðlilegt, að sameiningin fari fram, eins og frv. leggur til. Þess vegna hefur þetta frv. verið borið fram af hálfu ríkisstj., eins og það er á þskj. 8. Rökstudda dagskráin var felld í Ed., en brtt. um skiptingu kostnaðar við fjallskil virðist hins vegar hafa verið samþ.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar, herra forseti, en ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.