07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Frsm. meiri hl. (Friðjón Þórðarson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft þetta mál til athugunar, en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl., sem skipaður er 5 mönnum, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og Ed. samþ. það, en minni hl., tveir menn, leggja til, að frv. verði vísað frá með rökstuddri dagskrá. Meginefni þessa frv. er að sameina Loðmundarfjarðarhrepp í N.-Múlasýslu lögsagnarumdæmi og bæjarfélagi Seyðisfjarðarkaupstaðar, og er talin full þörf á því, þar sem Loðmundarfjarðarhreppur getur ekki fámennari orðið. Þar er aðeins einn íbúi, bóndinn að Sævarenda. Því var það, að á aukafundi sýslunefndar N.-Múlasýslu, sem haldinn var 3. júlí 1969, var samþ. svohljóðandi till. eða ályktun:

„Með því að Loðmundarfjarðarhreppur er nú orðinn allt of fámennur til að geta rækt þær skyldur við íbúa sína, sem sveitarfélagi ber að rækja, mælist sýslunefnd N-Múlasýslu til þess við félmrn., að gerðar verði ráðstafanir til að sameina hreppinn öðru sveitarfélagi.“

Þetta er ástæðan fyrir því, að frv. þetta er flutt. Enn fremur liggur fyrir samþykkt frá bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar, þar sem hún lýsir sig reiðubúna að taka við þessu hreppsfélagi.

Í áliti minni hl. kemur fram, að frv. þetta hafi ekki verið sent til umsagnar sýslunefndar N.-Múlasýslu og virðist það vera aðalástæðan fyrir því, að þeir hv. alþm. leggja til, að frv. verði vísað frá. Það mun að vísu rétt vera, að frv. í núverandi mynd hefur ekki verið sent sýslunefnd til umsagnar. Á hitt ber að líta, að frv. þetta er beinlínis borið fram vegna óska umræddrar sýslunefndar, og mér er kunnugt um það, að bæði núverandi oddviti sýslunefndar, bæjarfógeti Seyðisfjarðarkaupstaðar og sýslumaðurinn í N.-Múlasýslu, og fyrrverandi oddviti sýslunefndarinnar, ráðuneytisstjóri félmrn. mæla eindregið með samþykkt þess. Ég hygg því, að litlu hefði breytt, þó að frv. hefði verið sent til umsagnar sýslunefndar. Alkunna er, þegar slík mál berast, sem oddvita sýslun. er fullkunnugt um afstöðu nefndarmanna til, að þá lætur hann nægja að senda eigin umsögn, sem staðfest verður síðan á næsta sýslufundi, í stað þess að kalla saman sýslufund að vetrarlagi, sem oft getur reynzt mjög erfitt. Nú getur komið til álita að sameina þennan hrepp öðrum sveitarfélögum, og ef við athugum, hvaða sveitarfélög koma þá helzt til greina, má nefna Seyðisfjarðarhrepp. Að sögn oddvita hefur hreppsnefnd Seyðisfjarðarhrepps beinlínis lýst því yfir, að hún vildi ekki sinna málinu. Þá gæti e. t. v. komið til athugunar að sameina hreppinn Borgarfjarðarhreppi eða Hjaltastaðahreppi, en mér er ekki kunnugt um, að þeir hreppar hafi neitt látið til sín heyra eða hafi áhuga á þessu.

Eins og ég sagði áðan, þá var frv. í núverandi mynd ekki sent til umsagnar sýslunefndar, en á hinn bóginn er mér kunnugt um það, að oddviti fékk það til umsagnar og gerði á því nokkrar breytingar til bóta, sem teknar voru til greina. Ég sé ekki annað en að full ástæða sé til að afgreiða þetta mál. Hvenær er ástæða til að sameina sveitarfélag öðru, ef ekki, þegar íbúar þess eru komnir í það lágmark, sem orðið getur? Ég vil einnig benda á, að það er ekki víst, að nágrannasveitarfélög séu alltaf reiðubúin eða verði reiðubúin í framtíðinni til þess að taka við sveitarfélögum, sem svona er komið fyrir. Því tel ég fyllstu ástæðu til þess að grípa tækifærið nú og samþykkja frv.