07.04.1970
Neðri deild: 69. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2492)

8. mál, Seyðisfjarðarkaupstaður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er fjarri því, að ég sé andvígur því, að sveitarfélög séu sameinuð, þegar svo er komið sem hér, að því er varðar Loðmundarfjarðarhrepp. Það er sjálfsagt mál, að það þarf að gera slíka ráðstöfun, en eins og raunar kom fram hjá síðasta hv. alþm., er ég andvígur því, að þetta sé nokkurn tíma gert, án þess að sýslunefnd sé spurð álits um málið. Einnig þó að svona sé komið. Sérstaklega er ég andvígur því, að sveitarfélag sé fært úr einu sýslufélagi í annað, án þess að stjórn sýslufélagsins sé að spurð. Þess vegna tel ég alveg sjálfsagðan hlut, að sýslunefndin eigi þess kost, að láta í ljós álit sitt á málinu. Auk þess kemur líka fram, að Seyðisfjarðarkaupstaður gefur aðeins kost á sameiningunni með þeim skilyrðum, sem ég held að öllu auðveldara væri að framkvæma af N.-Múlasýslu, varðandi fjallskil og annað, en í samstöðu við kaupstaðinn Seyðisfjörð. Ég sem sé fer ekki fram á annað. Það er enginn ágreiningur efnislega um, að þarna þurfi að sameina Loðmundarfjarðarhrepp einhverju sveitarfélagi. Eðlilegast tel ég, að það væri eitthvert sveitarfélag í sömu sýslu, og um það mundi ég vilja sérstaklega fá umsögn sýslunefndar N.-Múlasýslu, áður en málið er afgr. á Alþ. Ég er yfirleitt andvígur því, að slík mál sem þessi séu afgreidd, án þess að fyrir liggi umsögn sýslunefndar.