27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2523)

28. mál, þingsköp Alþingis

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég er meðmæltur þessu frv. um breytingar á þingsköpunum og hef lýst því yfir áður og þurfti þess vegna ekki að kveðja mér hljóðs til þess að láta það koma fram.

En ég kvaddi mér hljóðs til þess að benda á eitt atriði, sem ég hygg, að sé gott fyrir menn að vita, m. a. allshn. Það var sett hér á laggirnar í fyrra samstarfsnefnd forseta og fulltrúa frá þingflokkunum til þess að íhuga um starfshætti Alþ. Þetta starf er verið að vinna, en er ekki mjög langt komið, sem ekki er heldur við að búast. Nú gætu máske einhverjir ímyndað sér, að það væri ósamræmi í því að afgreiða þetta þingskapafrv. og hinu að efna til slíkrar allsherjarendurskoðunar á starfsháttum Alþ., sem gert var í fyrra. En ég vil láta það koma hér fram, þar sem aðrir hafa ekki gert það enn þá, að í þessu er ekki ósamræmi frá sjónarmiði þessarar n., því hún hefur ákveðið á fundi að mæla með þessu frv. um breytingar á þingsköpunum sem fyrsta skrefi í þessu efni og sér ekki ástæðu til þess að láta þetta mál bíða eftir þeirri vinnu, sem í n. er verið að inna af hendi.