27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

28. mál, þingsköp Alþingis

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir það, sem hér hefur fram komið í tilmælum frá frsm. eða frummælanda málsins, að n. hraðaði sínum störfum, og mér þykir vænt um að heyra það frá síðasta ræðumanni, hv. 1. þm. Austf., að n., sem hér var kosin til að fjalla um starfshætti Alþ., legði til, að þetta frv. gengi fram, og ég er alveg samþykkur því, að það eigi ekki að láta það bíða eftir öðru. Það eru auðvitað ýmsir starfshættir þingsins, sem geta endurskapazt eftir till. slíkrar n., þó að þetta frv. nái fram að ganga.

Um frumvarpið að öðru leyti skal ég ekki tala, nema aðeins 9. gr., sem hæstv. forseti Sþ. vék að, hv. 5. þm. Vestf., og vil aðeins beina því til n., hvort hún ekki vilji athuga það í alvöru, að fsp.-tími verði alveg sérstaks eðlis, eins og tíðkast í öðrum þingum, en ekki eins og þetta hefur æxlast hjá okkur, og það er engum um að kenna, hvorki einstökum þm. eða flokkum, en t. d., hví á fyrirspyrjandi að mæla fyrir fsp.? Fsp. er lögð fram, og hún er prentuð, og svo er henni svarað. Það þarf ekkert að mæla fyrir fsp. Og ráðh. má að jafnaði ekki tala oftar en tvisvar. Hann á bara að svara fsp. og ekki tala oftar, bara einu sinni, svara fsp., og svo geta þm. náttúrlega ekki talað nema tvisvar. Það þarf að koma þessum fsp.- tíma í það form, að hann sé fsp.-tími, spurt og svarað. Þessu vildi ég koma á framfæri við n.