06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (2529)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Flm. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Á dagskrá segir, að frv. heiti Fjárhagsaðstoð til barna og unglinga til skólagöngu. Þetta er nokkur stytting á heiti frv., og sé ég því ástæðu til að rifja upp, hvað frv. heitir, svo sem ég gaf því nafn, þ. e. Fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu og menntunar. Í sjálfu sér er þetta mál í eðli sínu þannig, að óþarft er að flytja fyrir því langa framsögu því til túlkunar. Ég held, að þegar athygli hefur verið vakin á efnisatriðum þessa frv., liggi málið augljóslega fyrir sérhverjum þm. Ég skal því ekki halda langa framsöguræðu fyrir málinu, tel það ekki svara tilgangi.

Efni frv. er í raun og veru það, að þjóðfélagið komi og rétti hjálpandi hönd til þess að jafna að einhverju leyti þann reginaðstöðumun foreldra að geta haft börn sín á eigin heimili á allri skólagöngu þeirra, allt frá barnaskóla og upp í menntaskóla, eða þá hins vegar að verða að kosta börnin og unglingana að heiman að meira eða minna leyti á allri skólagöngu þeirra. Það þarf ekki að minna á, hvílíkur reginmunur það er fyrir foreldrana í sveitum landsins t. d., sem verða að kosta börn sín í gegnum allt barnaskólastigið víðs fjarri heimilinu í heimavistarskóla, og verði um framhaldsnám að ræða, þá í gegnum unglinga- og gagnfræðaskólastigið og í ýmsa sérskóla og þá algerlega á menntaskólastiginu einnig. Eða þá t. d. foreldrar og börn, sem uppalast í Akureyrarkaupstað eða í Reykjavík, þar sem heimanganga frá heimilinu byrjar með 1. bekk barnaskóla og endar ekki, fyrr en námi er lokið í menntaskóla og stúdentsprófi er lokið. Vissulega er kostnaður við að koma nemendunum áfram á námsbrautinni í þessum kaupstöðum, sem ég nefndi, og öðrum, sem líka aðstöðu hafa, en það er allt annars eðlis og miklu viðráðanlegra mál heldur en í sveitum landsins, þar sem ráðstafa verður börnunum út af heimili að meira eða minna leyti á allri námsbrautinni. Það er þessi reginmunur, sem frv. fjallar um.

Það er ekki ætlun mín með þessu frv. að bæta þennan aðstöðumun að fullu, en ég tel alveg nauðsynlegt, að þjóðfélagið hjálpi til þess að draga úr þessum stórkostlega aðstöðumun, því að af honum sprettur alvarlegt þjóðfélagsranglæti, sem a. m. k. síðar meir hlýtur að bitna á þjóðfélaginu sjálfu, ef ekki er komið í veg fyrir afleiðingar þessa misréttis. Ég segi það í grg., að þetta ranglæti hafi að vísu lengi ríkt, og vissulega er það rétt, þessi aðstöðumunur er ekki nýtilkominn, en aðstæður hafa nú breytzt svo, að þetta mál er orðið ekki aðeins lítt viðráðanlegt, heldur í mjög mörgum tilfeilum óviðráðanlegt fátækum heimilum i landinu. Það, sem veldur því, að málið hefur nú tekið á sig alvarlegri mynd en áður, er einkum tvennt, og má þó vera, að fleira komi til. Það er í fyrsta lagi, að mjög hafa dregizt saman almennar tekjur fólks i landinu. Á ég þar ekki sízt við launastéttirnar. Í hraðvaxandi dýrtíð hefur kaupmáttur launanna farið síminnkandi. Þetta stóra mál hefur því af þeim sökum orðið illviðráðanlegra mörgum heimilum. Hin orsökin til þess, að málið hefur nú tekið á sig alvarlegri mynd en áður, er sá reginmunur, sem orðinn er á möguleikum ungs fólks til að afla sér tekna í sumarleyfunum og taka þannig þátt að meira eða minna leyti sjálf í að leysa þennan fjárhagsvanda, sem hér er um að ræða. Nú er svo komið víða, að unga fólkið á ekki kost á sumaratvinnu og er í hópi atvinnuleysingja yfir sumartímann og öðlast þannig enga möguleika til þess að vera þátttakandi í að bera þessa byrði sjálf. En í öðrum tilfellum hefur aftur mjög dregið úr sumartekjumöguleikum ungs fólk, og þarf ekki að fjölyrða um þessa staðreynd. Það er því hvort tveggja, að heimilinu og unga fólkinu sjálfu er nú torveldara en áður að leysa þennan vanda, og það er þess vegna, sem málið hefur tekið á sig þá alvarlegu mynd, sem ég reyni að túlka í þessu frv.

Það má kannske um það deila, hvernig þjóðfélaginu beri að koma hér til aðstoðar, en þó hygg ég, að það sé ekkert aðalatriði. Það er í fyrsta lagi hægt að spyrja: Getur þjóðfélagið ekki hummað þetta fram af sér, látið þetta mál sem sér óviðkomandi og aðhafzt ekkert? Ég held, að af þeim rökum, sem ég hef þegar fært fram, sé það ekki fær leið, nema því aðeins að þjóðfélagið vilji þá taka afleiðingum af því, að menntun verði sérréttindi efnafólks á Íslandi. En því trúi ég ekki.

Það hefði mátt hugsa sér það, að lagaákvæði yrðu sett um, að þjóðfélagið bæri ákveðinn hundraðshluta af kostnaði, sem leiðir af ráðstöfun barna og unglinga af heimilunum til náms, hvort sem væri á barnaskólastigi, framhaldsskólastigi eða menntaskólastigi, og borgaði þannig vissan hluta af þessum kostnaði, en hér væri um mjög erfiða framkvæmd sjálfsagt að ræða, og þess vegna hvarf ég ekki að því ráði að leggja til, þó segja mætti, að það væri kannske réttlátasta lausnin, að þjóðfélagið t. d. taki að sér að borga helming af þessum aukakostnaði eða 75% eða eitthvað slíkt, en ætla ungmennum og heimilunum að bera ákveðinn hundraðshluta á móti. Ég hef því staðnæmzt við þá úrlausn, að þjóðfélagið kæmi hér hjálpandi til með ákveðinni fjárupphæð á nemanda, sem í heimavistarskóla þarf að dveljast, og taki þannig þátt í þessum kostnaði með ákveðinni upphæð, en það er svo byrði, sem leggst á heimilin og ungmennin, sem heimavistarkostnaðurinn er umfram þetta hverju sinni.

Mér hefur ekki unnizt tími til að afla mér upplýsinga um, hve margt það fólk er, sem í heimavistarskólum landsins dvelst, sem þarna þyrfti að njóta fjárhagsaðstoðar, en það ætti að vera auðvelt að fá vitneskju um það, hve mikill hluti af æskulýð landsins gengur í heimangönguskóla og hve mikill hluti í heimavistarskóla, og kanna þetta mál nákvæmar. Það ætti að vera auðvelt verk fyrir fræðslumálastjórnina og því auðvelt fyrir þá n., sem fær málið til meðferðar, að fá upplýsingar um þetta, sem ég tei að vísu alveg nauðsynlegt, að gert sé. En þó að framkvæmd þessa frv. kynni að kosta ríkissjóð 5–10 millj. kr., þá hika ég ekki við að fullyrða, að vandamálið er svo alvarlegs eðlis og snertir þjóðfélagið í svo ríkum mæli, að ég tel, að þeim 5–10 millj. kr. væri vel varið, því að það væri í senn lausn á menningarlegu vandamáli og afstýrði þjóðfélagslegu ranglæti.

Ég vék að því áðan, að það hefði verið menningarleg hefð hér á landi og metnaður Íslendinga að halda svo á menntunar- og menningaraðstöðu í landinu, að það yrðu ekki sérréttindi stórefnafólks og ekki heldur háð því, hvar fólk hefði valið sér búsetu á landinu, að afla sér menntunar. Ég held, að það sé stóra atriðið í þessu máli, að frá þessari góðu menningarhefð megum við ekki víkja og ekki láta hrekjast frá henni heldur. Það á að jafna sem bezt aðstöðu fólks til skólagöngu og menntunar í landinu, en aðstöðumunurinn er nú, við þær aðstæður, sem nú ríkja, meiri en nokkru sinni áður, og þess vegna er málið orðið vandamál.

Það eru til margar frásagnir af því, hvernig það hefur snortið ungmennin að sjá námsbrautina lokast. Það þekkja allir hv. alþm. söguna af Stephan G. Stephansson skáldi, þegar hann sat norður í Skagafirði milli þúfna og horfði á Reykjavikursveinana ríða í fylkingu suður. En efnahagur hans og heimilisaðstæður voru þannig, að hann gat ekki slegizt í förina með þeim. Það er enginn vafi á því, að íslenzkt þjóðfélag hefur á undanförnum áratugum og öldum misst af mörgu góðu mannsefni við það, að honum hefur verið synjað um menningaraðstöðu, menntunaraðstöðu. Það eru fleiri þó en ungmennin sjálf, sem rennur það til rifja, að efnismaður eða efnisstúlka eru stöðvuð á eðlilegri og æskilegri námsbraut. Það snertir foreldrana átakanlega, það er mér kunnugt um. Þetta er oft meginástæðan til þess, að foreldrar rifa sig upp úr heimkynnum sínum og flytjast búferlaflutningi til þeirra staða, sem bezta aðstöðu veita til menntunar börnum og ungmennum, og er það ekki æskilegt, að fólk neyðist til slíkra búferlaflutninga af þeim ástæðum. Eins er það með skólamennina sjálfa, sem fylgjast með ungmennunum. Það kemur oft átakanlega við þá að vita, að þessi eða hinn efnisnemandinn verður að stöðvast á námsbraut sinni af efnahagslegum og landfræðilegum ástæðum.

Ég vænti þess, að útskýringa, frekar en ég hef nú haft uppi um málið, sé ekki þörf. Þegar allra athygli hefur verið vakin á því, þá veit ég, að þetta vandamál er öllum hv. alþm. kunnugt og þeir skilja það til fulls, og ég geta varla trúað því, að afstaða þeirra til málsins sé mikið á annan veg en sú afstaða, sem ég hef hér túlkað.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. menntmn., þegar umr. er lokið.