30.01.1970
Efri deild: 44. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

149. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég verð nú nánast að biðja hv. þd. afsökunar á því, þar sem þetta frv. hefur verið undirbúið í mínu rn., að á því er formgalli. Því er óumflýjanlegt að flytja við það brtt. og vegna nauðsynjar þess að afgreiða málið sem skjótast, — ætlunin var að ljúka afgreiðslu þess í dag, - þá óska ég eftir því við hæstv. forseta, um leið og ég þakka honum fyrir, að hafa orðið við ósk minni, að taka málið þegar til afgreiðslu hér, að það geti verið tekið fyrir í Nd. á eftir. En eins og hv. þm. munu koma auga á, skortir gildistökuákvæði í frv. Ég vil því leyfa mér að flytja brtt., sem ég vonast til, að ekki þurfi að vera neinn ágreiningur um, svo hljóðandi:

„Við 3. gr. Á eftir gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Vil ég leyfa mér, þar sem þessi till. er skrifleg, að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, og vonast til, að hv. þdm. geti allir fallizt á að afgreiða málið með þessum hætti og þessari lagfæringu.