06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessu frv. er hreyft mjög athyglisverðu máli, máli, sem ég hika ekki við að kalla stórmál. Það viðfangsefni, sem fjallað er um í þessu frv., hefur verið til athugunar hjá ríkisstj. nú um nokkurt skeið. Á s. l. sumri hefur menntmrn. látið fram fara mjög rækilega könnun á staðreyndum, sem varða þetta mál, aflað sér mjög víðtækra upplýsinga, sem eiga að geta orðið Alþ. og ríkisstj. æskileg, ég vil segja nauðsynleg leiðbeining, þegar að því kemur, að tekin verður ákvörðun um, með hverjum hætti verður snúizt gegn þeim vanda, sem liggur að baki flutningi þessa frv.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði í framsöguræðu sinni, að þær þjóðfélagsbreytingar, sem átt hafa og eiga sér stað á Íslandi á undanförnum áratugum, en þó alveg sérstaklega á síðasta áratug, gera sérstakar ráðstafanir nauðsynlegar í því skyni að jafna aðstöðumun unglinga úr dreifbýli og þéttbýli til þess að fá að njóta þeirrar menntunar, sem hugur þeirra stendur til. Það mætti einnig orða það þannig, að þjóðfélagsþróunin hafi leitt í ljós nauðsyn þjóðfélagsátaks til þess að auðvelda foreldrum í dreifbýli að koma börnum sínum til þeirra mennta, sem hugur þeirra stendur til til jafns við foreldra í þéttbýli. Hv. þm. tók þannig til orða, að nauðsyn sé á því, að þjóðfélagið jafni að einhverju leyti þann aðstöðumun, sem er milli foreldra í sveitum og kaupstöðum, og hann tók einnig þannig til orða, að æskilegt væri, að þjóðfélagið hjálpi til að bæta úr því misrétti, sem nú ríkti, en tók jafnframt fram, að það ranglæti, svo að ég noti enn hans orð, sem hér sé um að ræða og hér ríki, hafi ríkt mjög lengi.

Vegna þess að hann rakti orsakir þessa vandamáls nokkuð frá sínu sjónarmiði, þá vildi ég leyfa mér að bæta við um það nokkrum örstuttum hugleiðingum. Orsakir þess, að um vaxandi vanda í þessum efnum hefur verið að ræða á undanförnum áratugum og þá sérstaklega á undanförnum áratug, eru að mínu viti fyrst og fremst þrjár, og ég vona, að þær verði allar skiljanlegar og um efni þeirra geti allir verið sammála, að þar sé um rétt mat að ræða, ef menn hugsa málið ofan í kjölinn.

Í fyrsta lagi er um það að ræða, að efnahagur fólks hefur farið mjög batnandi á undanförnum áratugum og þá ekki hvað sízt á undanförnum áratug, ef frá eru talin þau tímabundnu efnahagsvandræði, sem að Íslendingum hafa steðjað nú á tveimur árum. Í kjölfar batnandi efnahags á undanförnum áratugum hefur það auðvitað fylgt hér eins og annars staðar, að foreldrar hafa viljað veita börnum sínum meiri menntun og lengri menntun en áður tíðkaðist, og þegar unglingarnir hafa fundið það, að þeir lifa í þjóðfélagi, sem býður batnandi lífskjör, þá er það eðlilegt og mjög heilbrigt, — það hefur gerzt hér eins og alls staðar annars staðar, — að þá vaknar menntaþrá þeirra alveg sérstaklega. Menn vilja nota batnandi lífskjör, batnandi aðstöðu í þjóðfélaginu til þess að afla sér aukinnar menntunar. Þetta er heilbrigt og gott. Svona er þetta hérna hjá okkur, svona hefur verið annars staðar, og svona á þetta að vera.

Í öðru lagi, sem bein afleiðing af þessu, er svo það, að æ fleiri hafa æskt þess að geta stundað nám til viðbótar skyldunámi, — ekki aðeins að tölu til vegna vaxandi fjölda þjóðarinnar, heldur æ stærri hlutfallstala af hverjum árgangi ofan við skyldumark, — hafa æskt þess að geta stundað einhvers konar framhaldsnám. Um þetta bera töluskýrslur um góða aðsókn að skólum á undanförnum árum alveg ótvírætt vitni. Þetta tvennt stendur í nánu sambandi hvað við annað, batnandi lífskjör undanfarinna áratuga og ekki sízt áratugs og svo hitt, að æ hækkandi hlutfallstala, — allir stunda skyldunám, skyldunám hefur verið lengt, eins og við allir vitum, — æskir eftir ekki bara eins árs framhaldsnámi, heldur tveggja ára, þriggja ára, menntaskólanámi, háskólanámi.

Í þriðja og síðasta lagi hafa skilyrði til þess að fullnægja menntaþránni farið mjög batnandi á undanförnum tímum. Æ fleiri tegundir skóla hafa risið upp hér eins og alls staðar annars staðar í þjóðfélögum, sem eru í örri framþróun. Það hefur ekki aðeins verið, að æ fleiri hafa óskað að njóta framhaldsskólanáms, heldur hafa æ fleiri getað stundað framhaldsskólanám. Þetta hefur einnig verkað hvað á annað. Hér er ævinlega um gagnkvæmar verkanir að ræða milli þeirra, sem óska að sækja skóla, og skilyrðanna til þess að sækja skólana. Aukin eftirspurn eftir skólamenntun kallar auðvitað á bætt skilyrði af hálfu hins opinbera til þess að láta skólamenntunina í té, og svo hins vegar, þegar aukin skilyrði til skólamenntunar eru látin í té, þá verkar það hvetjandi á unglingana til þess að hagnýta sér þessi nýju skilyrði.

Þessi þrjú atriði tel ég meginástæðu til þess, að æ fleiri unglingar með hverju ári, sem líður, æskja þess að eiga kost á námi til viðbótar skyldunáminu. En þetta hefur það auðvitað í för með sér, að aðstöðumunurinn vex milli unglinganna í kaupstöðunum og unglinganna í dreifbýlinu, vegna þess að það er auðveldara fyrir samfélagið að bæta námsskilyrðin í þéttbýli en í dreifbýli. Það er ódýrara að bæta framhaldsskólaskilyrðin í kaupstöðum, en menn geta einnig orðað það svo, að það sé dýrara að bæta framhaldsskólaskilyrðin í dreifbýlinu. Einnig eru meiri erfiðleikar á því að útvega nægilega kennslu í þéttbýli. Það er auðveldara að útvega nægilega góða kennslu í þéttbýli en í dreifbýli. Annars vegar er hér um hreint fjárhagsmál að ræða, þ. e. a. s. muninn á því, hvað það kostar að veita aðgang að framhaldsnámi í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar, og hins vegar um mannaflamál að ræða. Það, að það er auðveldara að útvega nægilega góða kennslukrafta í þéttbýli en í dreifbýli. En eftir því sem ofar dregur á menntunarstiginu, þeim mun dýrari verður menntunin, og þess vegna er það ákaflega eðlilegt, að vandinn vaxi, eftir því, sem ofar kemur á námsbrautinni, og mestur verður vandinn auðvitað í háskóla, þar sem augljóst er, að á leiðarenda er komið. Í litlu þjóðfélagi eins og á Íslandi getur ekki verið nema um einn háskóla að ræða og þá auðvitað í mesta þéttbýlinu, þ. e. a. s. í höfuðstaðnum. Það má segja, að um eins konar stigþróun eða línurit upp á við sé að ræða. Á neðstu stigum barnaskólastigsins er hægt og á að vera hægt að láta öllum í té aðstöðu, svo að segja heima hjá sér. Hvað sem dreifbýli er mikið, verður að láta þá aðstöðu í té. Með hverju nýju skólastigi upp á við, ef ég mætti þannig taka til orða, stækkar hringurinn, sem nauðsynlegt er að draga í kringum skólastigið. M. ö. o., ef þetta á að vera viðráðanlegt, ekki aðeins peningalega séð, heldur einnig kennslufræðilega séð, þá stækkar hringurinn, þangað til hann á lokastiginu, í háskólanum, er augljóslega þannig, að hann hlýtur að taka til landsins alls.

Ég held, að um þessi meginatriði, sem ég nú hef getið, geti enginn ágreiningur verið meðal hugsandi manna, meðal þeirra manna, sem kynna sér þessi mál og áhuga hafa á þeim og hafa á þeim réttan skilning. Hitt er eflaust líka alveg rétt, sem kom fram í framsöguræðu hv. flm., að um tímabundinn aukavanda er að ræða, einmitt nú um þessar mundir, vegna þess að lífskjör þjóðarinnar í heild hafa farið versnandi, því miður, á undanförnum tveimur árum. Hagur alþýðuheimila er nú því miður þrengri en hann var fyrir 5–10 árum. Á því er enginn efi. Á móti því ber enginn hugsandi maður, og það gerir það enn nauðsynlegra en ella, að það taki ekki of mikinn tíma að átta sig á því, hvað gera beri til þess að greiða úr þessum vanda.

Hv. þm. sagði, að það væri nauðsynlegt að hafa upplýsingar um það, — hann vissi ekki, — hversu margir nemendur væru í heimangönguskólum og heimavistarskólum hins vegar. Um þetta allt saman eru til nákvæmar upplýsingar nú þegar, sem eru liður í þeirri víðtæku athugun, sem gerð hefur verið af menntmrn. í sumar. Ég skal ekki gera neina tilraun til þess hér á þessu stigi að skýra frá þeim niðurstöðum, enda eru þær tiltölulega nýkomnar í ráðun. Ég mun gera það ítarlega í svari við fsp., sem hv. 2. þm. Vestf., Sigurður Bjarnason, hefur borið fram, og ég mun væntanlega svara á miðvikudaginn kemur. Þá mun ég gefa rækilegar upplýsingar um þessi mál öll, enda gefur fsp. tilefni til þess, og ég tel það réttan vettvang til að gefa upplýsingar, en ekki við 1. umr. um frv. eins og það, sem er hér um að ræða. Sú n., sem fær frv. til meðferðar, skal að sjálfsögðu fá til afnota öll þau miklu gögn, sem í menntmrn. eru til um þetta vandamál, en ég býst við því, að það mundi vekja áhuga þm. að heyra, að í heimangönguskólum barna-, unglinga- og gagnfræðastigs eru nú 38116 nemendur, en í heimavistarskólum, sem einkum eru í sveit, eru 3063 nemendur, en í menntaskólunum eru 2235 nemendur.

Vegna þess að ég veit, að það er nokkuð útbreidd skoðun, að ríkisvaldið, hið opinbera, fyrr og nú, hafi verið skilningslítið á þann aðstöðumun, sem óneitanlega er milli fjölskyldna ungmenna í dreifbýli annars vegar og kaupstöðum hins vegar, og gert lítið, jafnvel ekkert, halda sumir, til þess að jafna þann aðstöðumun, þá vildi ég gefa nokkrar byrjunarupplýsingar, sem leiða í ljós, að þessi skoðun er, sem betur fer, á algerum misskilningi byggð. Ríkið hefur gert stórkostlegt átak einmitt til þess að jafna þennan aðstöðumun, þ. e. a. s. ríkið leggur í miklu meiri kostnað nú við það að veita börnum í dreifbýli aðstöðu til menntunar miðað við börn í þéttbýli. Þetta er nokkur hluti af niðurstöðum þeirrar rannsóknar, sem fór fram í sumar. Ég skal nefna aðeins nokkur dæmi til þess að skýra þetta mál.

Útgjöld ríkisins til rekstrar heimangöngubarnaskóla í Reykjavík og kaupstöðum nema nú árlega 9800 kr. á hvern nemanda, þ. e. a. s. ríkið ver 9800 kr. í rekstrarkostnað nemanda á barnaskólastigi í heimangönguskólum í Reykjavík og kaupstöðum. En ef athugað er, hver er rekstrarkostnaður á nemanda í heimavistarskólunum í dreifbýlinu, þá er hann 20100 kr., þ. e. a. s. rúmlega helmingi hærri. M. ö. o., ríkið ver rúmlega helmingi hærri upphæð til rekstrar skóla fyrir börn í dreifbýlinu heldur en í Reykjavík og kaupstöðunum. Ég segi þetta auðvitað ekki, tek það fram strax, í því skyni að telja eftir þetta fé, síður en svo. Og ég segi það heldur ekki til þess að segja, að ég telji hér nóg að gert eða að með þessu móti sé fullkominn jöfnuður skapaður milli foreldra og nemenda í Reykjavík og kaupstöðum annars vegar og dreifbýlinu hins vegar. Ef ég teldi það, þá tæki ég ekki jafnjákvætt undir þá grundvallarhugsun, sem í frv. hv. flm. felst, eins og ég gerði í fyrstu orðunum, sem ég mælti hér. En hitt tel ég nauðsynlegt að leiðrétta, að íslenzka þjóðfélagið hafi ekki gert sér grein fyrir því, að það er miklu dýrara að mennta börn í heimavistarskólum í dreifbýli en í heimangönguskólum í þéttbýli. Það er miklu dýrara, og ríkið hefur tekið afleiðingunum af þessu með því að verja, eins og ég segi, meira en helmingi meiru á barn í heimavistarskólum í dreifbýli en í heimangönguskóla í þéttbýli.

En ef við lítum á gagnfræðaskólana, þá verður niðurstaða hliðstæðrar athugunar þessi: Rekstrarkostnaður á heimangöngugagnfræðaskóla í Reykjavík og kaupstöðum er 14100 kr. En hvert skólastig verður dýrara og dýrara, eftir því sem hærra kemur, eins og eðlilegt er, en rekstrarkostnaður á nemanda í heimavistargagnfræðaskóla í dreifbýli er 33800 kr. Hér vex munurinn enn, eins og eðlilegt er, að hann geri, og á að gera. M. ö. o., hver nemandi í heimavistargagnfræðaskóla í dreifbýli kostar ríkið 139% meira en hver nemandi í heimangöngugagnfræðaskóla í Reykjavík og kaupstöðum.

Ef við lítum á þriðja stigið, þ. e. a. s. menntaskólana, þá er þess að geta, að rekstrarkostnaður Menntaskólans í Reykjavík er 28 þúsund krónur á nemanda. Enn fer kostnaðurinn vaxandi í samræmi við meginregluna, sem ég lýsti í upphafi, eins og eðlilegt er og engan þarf að undra. Hann er 28 þús. kr. á nemanda, en meðalkostnaður á menntaskólanemanda á Laugarvatni, sem er heimavistarskóli, er 36700 kr. á nemanda, eða 31% hærri. Þó er munurinn á heimavistar- og heimangönguskólastiginu miklu minni, eins og þið sjáið, en var á gagnfræðastiginu eða um það bil þriðjungur þess. Með þessu er þó ekki nema hálfsögð sagan, vegna þess, að hér hef ég eingöngu verið að tala um reksturskostnað barnaskólanna, gagnfræðaskólanna og menntaskólanna, eingöngu rekstrarkostnað ríkisins. Hluti sveitarfélaga er þarna ekki meðtalinn, aðeins það, sem ríkið ver til þessara tveggja skólategunda á þessum þremur skólastigum.

Hinn hluti dæmisins er byggingarkostnaðurinn, m. ö. o. hverju ríkið ver til þess að byggja yfir heimangönguskólana í kaupstöðum og kauptúnum annars vegar og svo heimavistarskólana í sveitunum. Þann mun má skýra með því að taka mjög einfalt dæmi. Ef við tökum 80 nemenda skóla, sem er mjög algeng skólastærð um heimavistarskóla í dreifbýli, er 80 manna heimangönguskóli í kaupstað eða kauptúni talinn kosta um 8 millj. kr., eða um 100 þús. kr. á nemanda. 80 manna heimavistarskóli í dreifbýli kostar 33 millj. kr. með núverandi byggingarkostnaði, eða 412 þús. kr. á nemanda. Hann kostar um fjórfalt meira á nemanda en heimangönguskólinn í dreifbýlinu. Mismunurinn er um 25 millj. kr. á þessum 80 manna skóla eða rúmar 300 þús., kr. á nemanda. Samfara þessu, vitandi þetta, hefur engu að síður verið gert stærra átak í byggingu heimavistarskóla í dreifbýli á undanförnum árum en nokkurn tíma áður í sögu íslenzkra skólamála, langtum stærra átak en nokkurn tíma áður. Þetta ber vissulega vitni um það, að stjórnvöld, — ég er ekki að segja, að þeim eigi að þakka það, heldur er þetta sjálfsagt, — hafa sýnt fullan skilning á því, þrátt fyrir þennan gífurlega kostnaðarmun, sem öllum, sem til þekkja, hefur auðvitað verið ljós, að gera það, sem frekast væri unnt einmitt til þess að bæta menntunaraðstöðu unglinga og aðstöðu foreldra í dreifbýlinu til þess að koma unglingum sínum til mennta.

Ef reynt væri að gera sér grein fyrir því, hverju kostnaðarmismunurinn í raun og veru svarar, þá hafa sérfræðingar reiknað það út, að sé miðað við 8% ársvexti af því fé, sem til skólanna fari, svari hann til þess, ef ríkið byggir heimavistarskóla í sveit í stað þess að byggja heimangönguskóla þar sem þéttbýlið er meira, að ríkið leggi fram á hvern nemanda í heimavistarskólanum 25 þús. kr. á ári. Svo undarlega vill til, sem er auðvitað hrein tilviljun, að þetta er einmitt sú upphæð, sem hv. þm. nefnir í frv. sínu. Þetta er auðvitað fullkomin tilviljun, sem ég segi, að ekki eigi neitt skylt við hana. Hann er að hugsa um rekstrarkostnaðinn. Ég er hér að nefna tölu, sem af hreinni tilviljun er svo að segja alveg sama talan, sem sýnir það, að ríkið leggur í raun og veru fram miðað við 8% vexti 25 þús. kr. með hverjum einasta nemanda, sem er í heimavistarskóla í sveit, í því formi, að það byggir yfir hann heimavistarskóla, miðað við það, að um heimangönguskóla hefði getað verið að ræða.

Herra forseti. Ég taldi rétt að láta þessar byrjunarupplýsingar koma fram strax við 1. umr. þessa máls, en skal jafnframt taka það fram, að ég skal gefa fyllri upplýsingar um þetta mál í Sþ., þegar sú fsp., sem þegar er fram komin, mun koma til umr., að því er ég vænti, eftir viku eða svo. Að síðustu vil ég endurtaka þau orð, sem ég hef hér mælt um þetta og hafa haft tvíþættan tilgang: Annars vegar að viðurkenna, að hér er um mikið og brýnt úrlausnarefni að ræða, sem ég tel, að þetta Alþ. þurfi að taka með einhverjum skynsamlegum hætti á. Og hins vegar að leiðrétta þann misskilning, sem því miður hefur orðið vart, að ríkisvaldið hafi á undanförnum árum ekkert gert til þess að bæta úr aðstöðumun, sem auðvitað er og verður aldrei jafnaður að fullu á milli aðila í dreifbýli annars vegar og þéttbýli hins vegar. Það er staðreynd, að það er að mörgu leyti dýrara að lifa, þar á meðal að mennta börn sín, í dreifbýli en þéttbýli. Að fullu verður aðstöðumunur dreifbýlinga annars vegar og þéttbýlinga hins vegar aldrei jafnaður, enda mjög vafasamt, að það sé í sjálfu sér æskilegt. Það má ekki líta á málið eingöngu frá efnahagslegu sjónarmiði. Fleiri atriði, menningarleg, þjóðfélagsleg og siðferðileg, koma hér til skjalanna, þannig að þetta verður aldrei gert upp sem reikningsdæmi einvörðungu. En ég vildi, að þetta frv. færi ekki til 2. umr., án þess að það kæmi fram, að ríkisvaldið hefur þegar sýnt mjög verulegan skilning á þessu máli, og ég lýk orðum mínum með því að taka það fram, að ríkisstj. mun halda áfram, að sjálfsögðu í samvinnu við hið háa Alþ., að kanna þetta mál á þessu þingi, og ég vona, að einhver skynsamleg lausn fáist á málinu, þannig að enn frekari spor verði stigin fram á við til jöfnunar aðstöðumunar fólks í dreifbýli og þéttbýli, vegna þess að þróunin kallar á slík spor.