06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2533)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, vegna þess að ég þarf vegna annarra skyldustarfa að víkja af fundi og vera kominn annað kl. 3.30, en mig langar til að segja örfá orð. Ég skal ekki gera það á þann hátt, að það þurfi að vekja nokkrar deilur, eftir að ég hef orðið að víkja af fundi.

Jónas Árnason, hv. 4, landsk. þm., nefndi nokkur dæmi um þá erfiðleika, sem eru á því, bæði hér á Íslandi og alls staðar að veita börnum og unglingum fullnægjandi menntun í dreifbýli. Það er ekkert sérstakt. Ég efast ekki um, að þær tölur, sem hann nefndi, eru réttar, sú frásögn sé rétt, og þetta vekur enn athygli á nauðsyninni á því að gera hér enn betur en gert hefur verið.

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að hér er að sjálfsögðu um alþjóðlegt vandamál að ræða. Hér er um vandamál að ræða, sem allar þjóðir eiga við að etja, þar sem fólk býr í mjög dreifðum byggðum. Ég hef aflað mér upplýsinga um þetta sama vandamál í tveimur löndum, í Noregi og Kanada, þar sem einnig er um mikið dreifbýli að ræða í vissum landshlutum, og án þess að orðlengja um þetta mál á þessu stigi, það má gera það síðar, ef tilefni gefst til, þá þori ég að fullyrða, að það er ekki lakar búið að börnum og unglingum, hvað menntunaraðstöðu snertir, í dreifbýli á Íslandi en t. d. í hliðstæðu dreifbýli í Noregi og Kanada. Um þetta liggja fyrir óyggjandi upplýsingar, sem enginn vandi er að láta í té. Okkur er jafn ljóst og yfirvöldum í Noregi og Kanada, að hér er um mikinn vanda að ræða, sem þörf er á að bæta úr, og er smám saman reynt að bæta úr eins og kostur er á.

Það er líka misskilningur, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að við munum standa að baki öðrum þjóðum um almennan stuðning við námsmenn. Það er líka unnt að gera samanburð á þessu, og við þolum fullkomlega samanburð, hvað það snertir, varðandi stuðning við námsmenn, við þjóðir í V.-Evrópu yfirhöfuð að tala.

Að síðustu vil ég aðeins segja eina setningu í tilefni af þeim ummælum hv. 4. landsk. þm., að hann þakkaði mér þann skilning, sem fram hefði komið í ræðu minni á því mikla vandamáli, sem hér er um að ræða, en sagði, að sá skilningur væri ekki nægjanlegur, ef svo færi, eins og oft vildi verða, að allt strandaði á andstöðu hæstv. fjmrh. Þessu get ég ekki látið ómótmælt. Án þess að fara út í almennar umr., þá vildi ég aðeins segja, að t. d. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir hv. Alþ., ber síður en svo vitni um það, að um almenna andstöðu af hálfu hæstv. fjmrh. við aukin framlög til fræðslumála sé að ræða. Þeir, sem skoða fjárlagafrv., sjá, að þar er gert ráð fyrir hvorki meira né minna en fjórðungshækkun á framlögum til fræðslumála á næsta ári miðað við árið í ár. Þetta er síður en svo vitnisburður um skilningsleysi hæstv. fjmrh. á því, að nauðsyn sé til stórra átaka í fræðslumálum þjóðarinnar.