06.11.1969
Neðri deild: 11. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

35. mál, fjárhagsaðstoð ríkisins til að jafna aðstöðu barna og ungmenna til skólagöngu

Kristján Ingólfsson:

Herra forseti. Það er sannarlega leitt til þess að vita, ef þetta mikilvæga mál, sem hér er á dagskrá, á að verða einhvers konar málfundaæfing. Mér fannst af orðum hæstv. menntmrh. áðan, að hér væri orðinn einhvers konar misskilningur á misskilning ofan, en satt að segja lít ég svo á, að málið sé of aðkallandi til þess, að hv. Alþ. geti verið að leika sér að því, e. t. v. fund eftir fund.

Hvað snertir það frv., sem hér liggur frammi, vildi ég hafa svipuð orð um það og hv. næstsíðasti ræðumaður gerði, að mér þykja e. t. v. vera á því ýmsir skafankar, en hins vegar er meiningin sú sama og ég hygg, að við velflestir mundum vilja gera að okkar. En get þó ekki fengið út, hvers vegna endilega þarna á að vera talan 25 þús., hvort ekki er eitthvert hlutfall, sem eðlilegra væri að miða við á heildarkostnaði. Við vitum það, að íslenzka krónan er nú heldur laus í rásinni, og jafnvel þótt vísitölubætur eigi að koma ofan á, þá gæti svo farið, að með árunum yrði þetta allt of lágt, jafnvel þó að það væri þokkalega gott í dag.

Eins og hv. næstsíðasti ræðumaður tók fram, hefur hér verið um tillöguflutning að ræða þing eftir þing af hálfu framsóknarmanna til þess að reyna að skapa úrbætur í þessum efnum, en hér hefur landsbyggðin verið mjög hlunnfarin. Það á enginn einn flokkur sök á, að þessu máli hefur verið varpað á dreif undanfarna áratugi án þess að sinna því, en hins vegar mega þeir þakkir hafa, sem vakið hafa málið upp á síðustu þingum og á þessu þingi. Mér þykir þetta mál vera of stórt og ég lít það of alvarlegum augum til þess að geta horft upp á það, að það verði gert að einhverju leikspili hér á þingi, og ég satt að segja ætlast ekki til þess af nokkrum þeim, sem hér á sæti innan veggja, að hann taki ekki á þessu með fullri alvöru.

Það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að hagur íslenzkra alþýðuheimila er þrengri núna en hann var fyrir 5–10 árum síðan, og þau eru ófá íslenzku alþýðuheimilin, sem ekki höfðu efni á því að senda börnin sín til áframhaldandi mennta í haust sem leið. Og þeir eru ófáir líka unglingar, sem hleyptu heimdraganum til náms í haust án þess að sjá fram úr því, hversu úr rætist, þegar á veturinn líður. Það er þess vegna, sem þjóðin, unga fólkið í landinu, á kröfu hjá Alþ., hjá þeim forystumönnum þjóðarinnar úr öllum flokkum, sem sýknt og heilagt tala um það, að menntunin sé bezta fjárfestingin, að nú sé hlaupið undir bagga. Ekki einu sinni, heldur að hér verði sett varanleg löggjöf, sem komi í veg fyrir það, að landsbyggðin, eftirleiðis eins og hingað til, sitji við skarðari hlut en þeir, sem í þéttbýlinu eiga heima. Það orkar ekki tvímælis, að hjá tekjurýrum bændum, sem senda börnin sín í myndarlega heimavistarskóla, kennir tómahljóðsins í buddu og þrenginga á viðskiptareikningi, þegar búið er að gera upp skólareksturinn, þó svo að ríkið hlaupi þar samkv. skólakostnaðarl. miklu meir undir bagga heldur en það gerir, þegar komið er upp á hærri skólastig. Mér er kunnugt um það og það er ekkert annað en venjulegt viðskiptalögmál, að þeir bændur, sem hafa átt við heimavistar barna- og unglingaskóla e. t. v. 5–6 börn, hafa lent í lokun á viðskiptareikningi kaupfélagsins, þegar þeir hafa þurft að gera upp fyrir börnin. E. t. v. í ýmsum tilfellum hefur verið bætt úr því, vegna þess að góðir forystumenn hafa átt í hlut, en hins vegar er á þessu sviði um að ræða misrétti, að börn úti á landi, unglingar og nemendur á framhaldsskólastigum, eins og hér hefur komið fram í ræðum allra hv. þm. og hæstv. menntmrh., sitja við skarðan hlut miðað við þéttbýlið.

Ég gat þess hér í upphafi, að það mundu margir nemendur hafa farið í skóla nú í haust án þess að sjá fyrir endann á því, hvernig þeir klyfu veturinn, og það er þess vegna, sem mér finnst, að nú megi ekki draga þetta mál til eilífðarnóns. Það má ekki deila um það fund eftir fund, hvort hæstv. fjmrh. hafi slæm áhrif á hæstv. menntmrh., eða hvernig þeirra félagsskapur sé, heldur verður hv. Alþ. að finna leið út úr þessu máli, því að þetta er þjóðarvandamál.

Það er þjóðarvandamál, þegar ungur og efnilegur nemandi þarf að sitja heima. Það er þjóðarvandamál, þegar unglingurinn flosnar upp á námsbrautinni. Sum mál eru flokksmál, önnur eru mál, sem öll þjóðin kallar á. Þetta er eitt þeirra mála, sem öll þjóðin kallar á, háttv. alþm. og ráðh. mega ekki hafa það að leiksoppi. Hér verður að ráða úr, áður en á veturinn líður, og unga fólkið í skólunum þolir ekki, að úrlausnin komi ekki fyrr en næsta ár.

Ég ætla ekki að gera þetta frv. sem slíkt að umræðuefni, en eins og ég tók fram í upphafi, þá fyndist mér, að það gæti verið á ýmsan hátt betra, og ég held, að það væri rétt að taka það til gaumgæfilegrar athugunar, en meiningin er góð og meiningin er rétt. Hún er sú sama og hefur komið fram hér á undanförnum þingum og í þeim þáltill., sem fluttar hafa verið, og hún á áreiðanlega hljómgrunn í öllum þingflokkum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að segja meira að sinni, en áskil mér rétt til að fara nokkrum orðum um þetta mál síðar, ef ég sé ástæðu til.