27.10.1969
Neðri deild: 6. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

41. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Eins og rakið er í grg. frv., eru það margar ástæður, sem valda því, að iðnaðurinn hefur búið við sívaxandi lánsfjárskort á undanförnum árum þrátt fyrir nokkra aukningu Iðnlánasjóðs. Vaxandi vélvæðing og hagræðing krefst síaukins fjármagns. Gengisfellingar hafa rýrt eigið fé fyrirtækja og aukið stórlega rekstrarkostnað og stofnkostnað, og þar af leiðandi þurfa þau aukið rekstrarfé og stofnfé. Fjárbindingin hefur þrengt möguleika viðskiptabankanna til að mæta aukinni rekstrarlánaþörf iðnaðarins.

Með þessu frv. er stefnt að því að auka nokkuð starfsfé Iðnlánasjóðs. Í fyrsta lagi er lagt til, að ríkisframlag til sjóðsins verði jafnhátt og iðnaðurinn greiðir sjálfur til sjóðsins. Þetta hefur lengi verið krafa samtaka iðnaðarmanna, bæði Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands ísl. iðnaðarmanna. Breyting þessi, ef hún yrði samþ., mundi þannig tvöfalda ríkisframlagið, sem nú er um 10 millj. kr. á ári.

Þá er í öðru lagi lagt til að tvöfalda lántökuheimildir sjóðsins, bæði vegna venjulegra lána og hagræðingarlána. Það má segja, að þessi breyting sé óhjákvæmileg m. a. vegna gengisfellinganna, sem í mörgum tilfellum hafa tvöfaldað ýmsan stofnkostnað.

Þá er í þriðja lagi lagt til, að árlega verði birt opinberlega skrá um nýjar lánveitingar sjóðsins og heildarlánveitingar hans til einstakra aðila.

Það er að sjálfsögðu mikið vandaverk að ráðstafa fé sjóðsins. Það þarf að skapa stjórn sjóðsins sem bezt aðhald um, að gætt sé réttmætrar skiptingar milli iðngreina og hlutur einstakra fyrirtækja sé ekki dreginn meir en annarra. En sennilega er ekkert aðhald öruggara en það, að árlega sé birt yfirlit um lánveitingar sjóðsins. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að þær venjur, sem hafa skapazt hjá ýmsum opinberum sjóðum og sem ég tel vera til fyrirmyndar, að birta árlega skýrslur um lán, sem viðkomandi sjóðir veita eða ábyrgðir, sem þeir takast á hendur. Þannig er t. d. árlega birt skýrsla um þær ábyrgðir, sem hvíla á Ríkisábyrgðasjóði, jafnframt því, hvernig skil eru á þeim lánum, sem hann hefur tekið ábyrgð á. Þá hefur sá háttur verið tekinn upp í Atvinnujöfnunarsjóði að birta árlega skrá um útlán sjóðsins, og verður því vafalaust haldið áfram, og fleiri sjóðir, hygg ég, að hafi tekið upp þennan hátt. Ég hygg, að það sé mjög gagnlegt og hafi heppileg áhrif á starf slíkra sjóða, að almenningi sé gefin sem bezt aðstaða til að fylgjast með því, hvernig lánveitingum þeirra er háttað, og það skapi eðlilegt og nauðsynlegt aðhald, sem þarf að vera í þessum efnum. Þess vegna er það lagt til í þessu frv., að þessi háttur verði tekinn upp í sambandi við lánveitingar Iðnlánasjóðs, og að sjálfsögðu ætti slík regla einnig að komast á varðandi aðra sjóði.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en leyfi mér að leggja til, að því verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og iðnn.