30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Þórarinn Þórarinsson) :

Herra forseti. Efni þessa frv. er á þá leið, að sú breyt. verði á 53. gr. l. um tekjuskatt og eignarskatt, að það verði ákveðið eða bundið í l., hvernig skattvísitalan skuli fundin. Í núgildandi l. er það ákvæði, að skattvísitalan skuli ákveðin af fjmrh., að fengnum till. ríkisskattstjóra, kauplagsnefndar og hagstofustjóra.

Mér finnst rétt að ræða það nokkuð í stuttu máli, hvernig það fyrirkomulag hefur verið frá öndverðu, sem verið hefur á skattvísitölunni. Ég held, að skattvísitala, ef ætti að nefna hana því nafni, hafi upphaflega komið til sögunnar á þingi 1945, þegar það ákvæði var sett í l. að heimila svokallaðan umreikning á álagningu á allra lægstu launamenn, þannig að hún breyttist í samræmi við þær breytingar, sem höfðu orðið á verðlagi í landinu, ef grunntekjur hefðu ekki aukizt. Næstu árin eftir að þetta ákvæði komst í l., var mikil verðbólga í landinu, og það leiddi til þess, að skattþunginn jókst mjög mikið, án þess að það byggðist á sambærilegri aukningu rauntekna. En umreikningurinn í l. frá 1945 kom að mjög litlu gagni, vegna þess að hann náði aðeins til allra lægstu launa, sem voru á þeim tíma. En þau þekktust að sjálfsögðu ekki lengur í krónutölu, þegar leið á þetta tímabil. Þess vegna var það, að þegar endurskoðun skattalaga fór fram eða kom fyrir Alþ. 1953, beitti þáverandi hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, sér fyrir því, að þessi umreikningsregla næði til allra skatttekna og yrði framkvæmd með þeim hætti, að tekjuframtöl eða tekjutölur í skattal. hækkuðu eða lækkuðu í samræmi við kauplagsvísitölu, en á þeim tíma fylgdust kauplagsvísitalan og framfærsluvísitalan nokkurn veginn að, eins og sézt af því, að þegar tekinn var upp nýr vísitöluútreikningur árið 1959, nam gamla framfærsluvísitalan 210 stigum, en kauplagsvísitalan var þá um 202 stig, svo að þessar vísitölur fylgdust þá nokkurn veginn að.

Það gerist svo næst í þessum málum, að á þingi 1960, þegar svonefnd viðreisnarstjórn kom til valda, að hún gerir víðtækar breytingar á skattal. í samræmi við þá stefnuyfirlýsingu sína, að almennar tekjur skyldu undanþegnar skatti. Skattstigar voru þá nokkuð lækkaðir í samræmi við þessa yfirlýsingu, en hins vegar var fellt niður það ákvæði l., að umreikningurinn héldi áfram, þannig að skattstigar og frádrættir breyttust í samræmi við þá hækkun eða lækkun, sem yrði á kauplagsvísitölunni. Þetta var gert bæði vegna þess, að með öðrum l., sem viðreisnarstjórnin setti, var fellt niður að reikna út kauplagsvísitölu, og þó sennilega fyrst og fremst vegna þess, að hún trúði á það, að henni myndi takast að halda verðlagi og dýrtíð svo í skefjum, að það væri óþarfi að láta slíkt umreikningsákvæði vera áfram í l. Niðurstaðan varð nú samt sú, að það var hér mikil verðbólga næstu árin, og það leiddi til þess, að skattþunginn fór stöðugt vaxandi sökum aukinnar dýrtíðar, án þess að rauntekjur ykjust nokkuð að sama skapi, og sérstaklega var þetta augljóst árið 1964, þegar skattar urðu svo háir, að ríkisstj. fól efnahagsráðgjöfum sínum að athuga sérstaklega, hvernig ætti að gera skattþegnum kleift að rísa undir sköttunum. Þeir báru fram þá till., að skattþegnum yrði veitt lán til tveggja ára til þess að borga skattana.

Afleiðingin af þessu varð sú, að á árinu 1965 voru skattal. tekin til nýrrar endurskoðunar, skattstigum og frádrætti breytt verulega, frá því sem áður var, og jafnframt tekið upp það ákvæði, að skattstigar og frádrættir skyldu hækka og lækka í samræmi við þá skattvísitölu, sem ákveðin var af fjmrh. í fyrsta sinn árið 1966, að fengnum till. kauplagsnefndar, hagstofustjóra og ríkisskattstjóra. Framkvæmd þessa ákvæðis mun hafa orðið á þá leið, að sett var skattvísitala árið 1966, sem var notuð við útreikninga á tekjum ársins 1965, þar sem tekið var, að því að manni sýndist, fullt tillit til þeirra dýrtíðarhækkana, sem orðið höfðu á því ári, sem framtölin voru miðuð við.

Árið 1967, þegar skattar voru lagðir á þá, þá hækkaði þessi skattvísitala verulega eða komst upp í 129 stig, og breyttust frádrættir og skattstigar að sjálfsögðu í samræmi við það, og mér sýnist, að ef borið er saman við þá hækkun, sem þá var á framfærslukostnaðinum, þá hafi skattvísitalan nægt fullkomlega til þess að vega á móti þeirri hækkun.

Þegar skattar eru svo reiknaðir út 1968, er fylgt sömu skattvísitölu, sem fylgt var veturinn 1967, og má segja, að það hafi ekki út af fyrir sig verið óeðlilegt, vegna þess að á árinu 1967 var tiltölulega lítil hækkun á framfærslukostnaði, eða ekki nema 3 stig, og má því segja, að skattvísitalan, sem var notuð við álagningu skattanna 1968, hafi nokkurn veginn hrokkið til þess að mæta þeirri hækkun, sem orðið hafði á framfærslukostnaði.

Þetta breytist svo verulega, þegar skattar eru reiknaðir á s. l. vori, 1969. Þá er skattvísitalan enn þá látin vera óbreytt, eða 129 stig, en þrátt fyrir það, þó að á árinu 1968, sem skattálagningin var miðuð við, hefði orðið breyting, sem var mjög óhagstæð fyrir skattgreiðendur. Ef byggja má á Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar, sem nýlega var dreift hér meðal þm., mun tímakaup verkamanna í krónutölu hafa hækkað um 6% á árinu 1968, og kaup mun þá sennilega almennt hafa hækkað sem því svaraði. Þetta þýðir það, að þar sem skattvísitalan var látin standa óbreytt, komust menn í verulega hærri skatta en ella. En þó er þetta sérstaklega ljóst, hversu óréttmætt þetta var, þegar það er athugað, að samkv. sama Fréttabréfi kjararannsóknarnefndar, sem ég vitnaði í, þá varð rúmlega 8% rýrnun á kaupmætti launanna eða tímakaupsins á árinu 1968, þannig að menn bera verulega hærri skatta vegna óbreyttrar vísitölu, vegna þess að kaupgjald hækkar almennt í krónutölu um 6% á árinu 1968, þó að þróunin í efnahagsmálunum sé sú, að kaupmáttur tímakaupsins eða kaupmáttur launanna lækkar raunverulega um 8%.

Nú bendir margt til þess, að þótt þetta augljósa ranglæti komi í ljós við síðustu álagningu skattanna nú í vor, þá hyggist hæstv. ríkisstj. ekki gera verulega breytingu á þessu. Í því fjárlagafrv., sem liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að tekjuskattur, sem einstaklingar greiði, hækki á næsta ári samanlagt um 824 millj. kr. miðað við það, sem þeir greiða í ár. Og í grg. þeirri, sem fylgir fjárlagafrv., virðist þetta vera byggt á því, að kaupgjald muni hækka almennt í krónutölu á þessu ári um 10.8%, eða um 11%, og það þýðir náttúrlega það, að ef vísitalan stendur að mestu leyti óbreytt, muni verða mjög mikil hækkun skattanna á næsta ári, en þróunin í dýrtíðarmálunum á þessu ári hefur hins vegar verið sú, eftir því sem ég fékk upplýst hjá Hagstofunni í morgun, að meðalframfærslukostnaður muni á þessu ári hækka miðað við síðasta ár um 21%, og þá sést á því, að þótt kaupið hækki í krónutölu almennt um 11% á þessu ári, verður um stórfellda rýrnun kaupmáttarins að ræða, þar sem dýrtíðaraukningin verður um 21%. Af þessu hlýtur það að verða ljóst, að verði ekki veruleg breyting á skattvísitölunni, þá muni skattþunginn stóraukast á næsta ári, þrátt fyrir það að kaupmáttur launanna hafi rýrnað verulega á þessu ári, sem skattarnir verða miðaðir við.

Það er af þessum ástæðum, sem ég og meðflutningsmenn mínir hafa talið nauðsynlegt að leggja fram það frv., sem hér er til umr., því að ekki virðist annað sýnilegt, en skattþunginn muni á næsta ári aukast mjög verulega, ef fylgt er þeirri skattvísitölu áfram, sem hefur verið í gildi tvö undanfarin ár, og virðist vera reiknað með henni í fjárlagafrv. Það, sem kemur til athugunar í þessu sambandi sérstaklega, er það, hvernig á að ákveða skattvísitöluna. Tilgangurinn með umreikningnum á skattvísitölunni er sá, eins og t. d. Jóhann Hafstein orðaði á þingi 1953, að koma í veg fyrir, að aukin dýrtíð valdi vaxandi skattþunga, þ. e. a. s. skattar hækki aðeins vegna aukinna rauntekna. Til þess að tryggja þennan tilgang, þá virðist ekki annað eðlilegra en miðað sé við framfærsluvísitöluna, því að hún sýnir það nokkurn veginn eða réttast af þeim heimildum, sem við höfum, hvað mikið dýrtíðin vex og hvað mikið frádrættir og skattstigar þurfa að breytast, til þess að aukin dýrtíð, eins og Jóhann Hafstein orðaði það, valdi ekki vaxandi skattþunga og skattar hækki aðeins vegna aukinna rauntekna. Eins og þetta er ákveðið í l. nú, liggur ekkert ákveðið fyrir um það, hvernig skattvísitalan skuli ákveðin. Það er aðeins sagt, að hún skuli ákveðin af fjmrh., að fengnum till. ríkisskattstjóra, kauplagsnefndar og hagstofustjóra.

En þó að þetta ákvæði sé í l., mun skattvísitalan 19&6 og öll þessi ár síðan hafa verið ákveðin, án þess að nokkuð hafi verið leitað álits hagstofustjóra eða kauplagsnefndar. Ég hef a. m. k. gert fyrirspurnir til þessara aðila, og þeir muna ekki eftir því, að það hafi verið gert. Ég er ekki að segja, að það hafi gerzt af ásetningi, heldur af einhverjum misgáningi stjórnarvalda, að skattvísitala, sem nú gildir, hafi verið ákveðin, án þess að áður hafi verið fengnar till. frá kauplagsnefnd eða hagstofustjóra, enda virðist fjmrh. hafa ákveðið hana, e. t. v. í samráði við ríkisskattstjóra eða kannske einn, um það þori ég ekki að segja.

Ég reyndi að kynna mér það, áður en við lögðum þetta frv. fram, hvernig núgildandi skattvísitala væri reiknuð út, en hvorki Skattstofan í Reykjavík eða hagstofustjóri gátu gefið mér upplýsingar um það, enda má segja, að það sé ekki í verkahring Skattstofunnar í Reykjavík að gefa upplýsingar um það eða fylgjast með því. Hún á aðeins að reikna skatta út eftir þeirri skattvísitölu, sem hún fær frá fjmrh. Það var reynt að afla upplýsinga um þetta hjá ríkisskattstjóra eða embætti hans, en þannig stóð þá á, að hann var erlendis, og þeir, sem þá voru í fyrirsvari fyrir hann, treystu sér ekki til þess að gefa upplýsingar um það, hvernig núverandi skattvísitala væri reiknuð út, enda virðast reglur um hana vera mjög á reiki, eins og sést á því, að það skyldi engin breyting verða á henni við útreikning skattanna á s. l. vori, þar sem mjög veruleg hækkun hafði orðið á framfærslukostnaðinum á árinu á undan, sem skattframtölin eru miðuð við, en skattvísitalan var þó látin standa óbreytt.

Ég held, að það sé mikil nauðsyn fyrir Alþ. að ákveða það alveg beint í l., hvernig skattvísitalan skuli fundin, en láta það ekki vera á valdi hinna og þessara fjmrh. að ákveða það, hvernig það skuli gert, og hann skuli svo nokkurn veginn geta hagað því að vild sinni, eins og augljóslega hefur átt sér stað á s. l. vori, því að þá var sú skattvísitala, sem hefur gilt á undanförnum árum, ekki látin verka neitt. Og ég held, að ef á að tryggja þann tilgang með umreikningi og skattvísitölu, sem hefur alltaf vakað fyrir Alþ., að vaxandi dýrtíð leiði ekki til aukins skattþunga, eins og Jóhann Hafstein orðaði það, þá verður það ekki gert á annan hátt en þann að miða við framfærsluvísitölu. Hins vegar getur það verið dálítið deiluatriði og er það hjá sérfræðingum, sem ég hef rætt við, hvort heldur eigi að miða við framfærsluvísitöluna sjálfa eða framfærsluvísitölu vöru og þjónustu, og þeir sérfræðingar, sem ég hef talað við, hafa talið eðlilegt, að það væri miðað við vísitölu vöru og þjónustu, þótt það sé hins vegar ekki gert í þessu frv., sem hér liggur fyrir, en ef miðað er við vísitölu vöru og þjónustu, þá myndi breytingin verða enn meiri en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þessir sérfræðingar halda því fram, að það sé eðlilegra að miða við vísitölu vöru og þjónustu, sökum þess að hún sýni enn þá réttari mynd af því, hver dýrtíðarvöxturinn hefur orðið í landinu, því að hún mæli hana alveg rétt, en aftur á móti með sjálfa framfærsluvísitöluna, þá komi húsnæðisliðurinn, sem sé mjög villandi, eins og hann sé þar reiknaður, og einnig skattar og ýmsar tryggingabætur, t. d. fjölskyldubæturnar.

Mér skilst, að sá munur sé núna á framfærsluvísitölunni og vísitölu vöru og þjónustu, að síðan 1964, sem rétt er að miða við í þessu tilfelli, vegna þess að tölurnar í núgildandi skattal. eru miðaðar við það ár, þá hafi framfærsluvísitalan hækkað um 176 stig, en vísitala vöru og þjónustu hafi hækkað um 184 stig. En þetta atriði tel ég vera eitt af þeim, sem sú n., sem fær málið til athugunar, þurfi að íhuga alveg sérstaklega, hvort heldur skuli miðað við framfærsluvísitöluna, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eða þá við framfærsluvísitölu vöru og þjónustu, sem margir telja, að sýni enn þá réttari mynd af dýrtíðarþróuninni, sem taka beri tillit til, þegar stefnt er að því að láta ekki skatta hækka nema að svo miklu leyti sem rauntekjur hafa hækkað.

Ég skal svo ekki hafa þetta mál öllu lengra, en ég hygg, að það hljóti öllum að vera augljóst, að það sé nauðsynlegt, að mjög róttæk breyting verði á skattvísitölunni, þar sem það liggur fyrir, eins og ég áður sagði, að það hefur ekki tillit verið tekið til þeirrar dýrtíðaraukningar, sem varð á árinu 1968, og virðist ekki ætlunin að taka neitt verulegt tillit til þeirrar dýrtíðaraukningar, sem verður á þessu ári, þrátt fyrir það að það blasi við, að kaupgjaldið muni ekki hækka um nema 11%, en dýrtíðin mun a. m. k. vaxa um 21% á þessu ári. Ef ekkert yrði að gert í þeim efnum, mundi það leiða til þess, að skattþunginn yrði alveg óbærilegur á næsta ári, þrátt fyrir það að rauntekjurnar hafi raunverulega farið hækkandi, eins og ég hef bent á.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til fjhn.