30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykv. flutti hér mjög hógværa ræðu, og ég tel ástæðulaust að vera að taka upp deilur við hann, en það eru þó nokkur atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni og lýsa frá mínum bæjardyrum séð, sem ég tel bæði rétt og skylt að gera. Ég vil þó fyrst og fremst leggja áherzlu á að leiðrétta það, sem ég býst við, að hann hafi sagt í góðri trú, en er alger misskilningur, að fjmrh. hafi ekki leitað álits þeirra aðila, sem eiga að gefa álit samkv. skattal., um skattvísitölu. Það hefur verið gert. Hitt er annað mál, að þessir aðilar hafa mjög færzt undan að gefa álit, og það er að sjálfsögðu ekki mín sök, þó að þeir vilji ekki mikið tjá sig um málið. Þetta kannske byggist á því, sem hv. þm. vék að, að það er mjög óljóst og raunar engin ákvæði um það í skattal., við hvað skuli miða skattvísitölu, þannig að ég hef fengið aðeins í hendur ákveðin gögn um það til upplýsingar bæði varðandi kauphækkanir, sem orðið hafi, kaupgjaldsvísitölu, framfærsluvísitölu og eitt og annað frá þessum aðilum og þá fyrst og fremst frá ríkisskattstjóra. En ég tek það skýrt fram, að það hefur jafnan verið leitað lögum samkv. álits þessara aðila, en ég hef að sjálfsögðu engin tæki til þess að knýja þá til þess að láta í ljós ákveðið álit, og það hlaut þess vegna að verða endanlega mat fjmrh., hver skattvísitalan yrði, svo sem gert er ráð fyrir í l.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara langt út í þá sálma að skýra, hvað gerzt hefur í þessum efnum, vegna þess að hv. þm. fór þar með rétt mál, enda liggur það ljóst fyrir og er engum blöðum um það að fletta. Hann tók það jafnframt fram, að skattvísitalan mundi hafa verið ákveðin mjög nærri lagi, ef ég skildi orð hans rétt, bæði árin 1966 og 1967. Skattvísitalan er nú 129 stig og það er alveg rétt, að henni var ekki breytt við álagningu tekna ársins 1967 og ekki heldur breytt við álagningu tekna ársins 1968, sem á eru lagðar nú 1969. Hann tók það fram, sem voru einnig rök mín þá fyrir að framkvæma ekki breytingu á skattvísitölunni við álagningu 1968, að verðstöðvun gilti 10 mánuði ársins 1967, og það var ekkert tilefni til þess að breyta skattvísitölunni miðað við þá hugsun, sem ég tel, að liggi að baki hennar og ég skal koma að síðar. Nú á þessu ári hefði verið ástæða til að breyta skattvísitölunni nokkuð, en ekki mikið miðað við þá hugsun, sem ég legg í skattvísitöluna. Það varð launahækkun á þessu ári, eins og menn muna, miðað við kjarasamningana í fyrra, að vísu mjög takmörkuð launahækkun, sem ekki náði til nema ákveðinna launa, þannig að allsherjarlaunahækkun varð ekki með þeim hætti, sem áður hefur gerzt. Orsökin til þess, að ég ákvað ekki hækkun skattvísitölu 1969, byggðist hreinlega á því, og það má segja, að ég sé þar í nokkurri sök, að það var um tvennt að ræða, annaðhvort að ákveða skattvísitöluhækkun, sem hefði þá leitt til rýrnandi tekna ríkissjóðs, sem hefði orðið að mæta með skattaálögum með öðrum hætti, eða þá að hafa skattvísitöluna óbreytta. Þessi síðari leið var farin, og það má vafalaust liggja mér á hálsi fyrir það af einhverjum, en ég vil vekja athygli á því, að hefði skattvísitöluleiðin verið farin, hefði hún fyrst og fremst komið til góða þeim, sem eru með hærri tekjur. Það liggur í augum uppi. Og miðað við ástandið, eins og það er, hygg ég, að það hefði ekki verið skynsamleg þróun að leggja þá á almenna neyzluskatta í staðinn. Skattvísitalan er prósentvís vísitala, sem kemur að sjálfsögðu ekki neitt til góða þeim, sem eru í háum tekjuflokkum. Það liggur í augum uppi. Þetta er ástæðan til þess, að skattvísitöluleiðin var ekki farin í ár, og ég skal taka á mig fúslega sökina á því, en eins og ég segi, þá var hér bara um tvennt að ræða, þessa leið eða hækka skattvísitölu, þ. e. lækka tekjur af beinum sköttum, og hækka þá einhverja neyzluskatta í staðinn. Önnur leið var ekki fær, ef átti að jafn fjárl. og gera þau greiðsluhallalaus, sem raunar hefur ekki verið deilt um hér á hinu háa Alþ. yfirleitt að ætti að gera og var ekki heldur nú.

Varðandi næsta ár taldi hv. þm. ekki líkur til, að gera ætti breytingar á skattvísitölu, vegna þess að gert væri ráð fyrir hækkun tekna af beinum sköttum. Það er misskilningur. Það er gert ráð fyrir því að hækka nokkuð skattvísitölu, og áætlun fjárl. rúmar hækkun skattvísitölu um 8 stig. Það er gert ráð fyrir því í þeirri áætlun, sem liggur til grundvallar tekjuáætlun fjárl. af tekjuskatti. Hvort sú tala reynist í samræmi við það, sem eðlilegt væri eða ekki, skal ég ekkert um segja.

Hv. þm. vék að því, að það hefði verið gerð sú breyting af hálfu fyrirrennara míns í þessu embætti 1953 að umreikna skatta og frádráttarliði eftir kaupgreiðsluvísitölu, sem að sjálfsögðu er oft og tíðum allt önnur vísitala en framfærsluvísitala, og þarf ekki að vera samræmi þar á milli, en þetta er auðvitað miklu nánara og nálægara þeirri hugsun, sem ég legg í orðið skattvísitala en framfærsluvísitalan er. Ég þykist vita, að það geti ekki verið hugsun hv. þm., að skattar hækki ekki yfirleitt eftir því, sem tekjur manna hækka. Spurningin er aðeins sú, hvort skattþunginn á að hækka, þ. e. a. s. hærri prósenttala af tekjum manna gangi til að greiða skattana en áður. Skoðun mín á skattvísitölu hefur frá fyrstu verið sú, og á því hefur framkvæmd mín á vísitölunni byggzt, að kauphækkanir ættu ekki að valda því, að skattþunginn yxi að því marki, að menn þyrftu að greiða hærri hluta launa sinna í skatt en áður. En það var það, sem gerðist, áður en þessi umreikningur átti sér stað. En það væri alls ekki ætlunin og þannig hef ég aldrei litið á skattvísitöluna, að hún ætti að vera uppbót á rýrnun kaupmáttar, því að vitanlega er það svo, að það verður einnig rýrnun á notagildi þess fjár, sem gengur til skattheimtunnar. Þetta er a. m. k. mín grundvallarskoðun. Hún þarf ekki að falla saman við skoðun hv. þm., það er annað mál. Ég sé, að skoðun hans byggist á allt öðru sjónarmiði, sem kemur fram í því, að hann talar um að ákveða skattvísitöluna 176 stig, sem mundi að sjálfsögðu valda ríkissjóði stórkostlegum tekjumissi og leiða til þess, að það yrði að hækka annaðhvort beinu skattana eða þá almenna neyzluskatta mjög verulega, og þetta mundi jafnframt verða til þess, ef farið yrði inn á þessa braut, að létta mjög skattþunga hátekjumanna, vegna þess að slík stórfelld hækkun frádráttarliða mundi fyrst og fremst koma þeim til góða, því að margir í hinum lægri tekjuflokkum greiða sáralitla og jafnvel enga skatta, þannig að þessi frádráttarsjónarmið koma þeim að engu gagni. Ég er þess vegna í miklum vafa um það, að það mundi verða úrbót fyrir almenning í landinu nú að fara inn á þá braut að hækka skattvísitölu svo stórkostlega, sem hér er gert ráð fyrir, sem leiddi af sér mjög verulega aukna skattheimtu, annaðhvort með því að hækka prósentur beinna skatta eða þá með því að hækka neyzluskatta til þess að ná saman endum í fjárl. Og miðað við þá hugsun, sem hefur verið ráðandi hjá verkalýðsfélögunum, að það ætti ekki að létta á þeim, sem hærri tekjur hafa í þjóðfélaginu neitt verulega, heldur fyrst og fremst bæta hag þeirra, sem verr væru settir, þá álit ég, að þessi aðferð væri ekki í samræmi við þá hugsun, sem ríkjandi er nú. Ég tel, að ef ætti að hækka skattvísitölu núna, ætti að nota svipaða viðmiðun og ég hef hingað til gert, og það er fyrst og fremst að hafa hliðsjón af kaupbreytingum, tekjuaukningu manna, þannig að þeir kæmust ekki í hærri skattflokk við það, að tekjur þeirra hefðu vaxið, heldur að skattbyrðin yrði prósentvís sú sama. Þetta hefur verið framkvæmt með skattvísitölunni, og þetta tel ég, að eigi að vera hin eðlilega stefna með henni.

Ég held, að ég hafi þá alveg útskýrt, hvað hefur gerzt í þessum efnum, hver sé skilningur minn á skattvísitölu og hvernig þessi mál hafa þróazt og hvaða afleiðingu þetta frv. mundi hafa. Það er að sjálfsögðu hv. Alþ. að meta það, hvort þetta sé rétt stefna eða ekki. Ég get alveg fallizt á það hjá hv. þm., að það væri æskilegt að fastmóta betur hugtakið skattvísitölu. Það kann að vera rétt að gera það, þó að ég sé ekki alveg viss um það. Ég álít, að það geti líka verið ástæða til að meta það eftir atvikum, hvort eigi að nota þessa leið og gefa eftir, þegar aðstæður leyfa það, eða fara út í aðrar eða neyða út í aðra skattheimtu. Það er álitamál, en þetta er auðvitað atriði, sem þingið þarf að taka afstöðu til.

Þá veit ég heldur ekki, hvort það vakir fyrir hv. þm. að breyta útsvarsstigum. Þeir mundu ekki breytast samkv. þessu frv., eins og það er orðað, en það var gerð breyting á tekjustofnum sveitarfélaga, þar sem segir beinlínis, að útsvör skuli breytast samkv. skattvísitölu. Ef það vakir fyrir hv. þm., sem væntanlega vakir nú fyrir honum, að þetta skuli einnig gilda um tekjustofna sveitarfélaga, þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að breyta þeim l., vegna þess að hann gerir hér ekki ráð fyrir í sinni lagabreytingu að nota hugtakið skattvísitölu, þannig að ég er í miklum vafa um það, að sú breyting, sem gerð var á þeim l., mundi verða túlkuð þannig, að þessi breyt. á skattal. mundi heimila eða skylda til breytinga á tekjustofnum sveitarfélaga í samræmi við þetta. Og ég vil jafnframt vekja athygli hv. þm. á því, að ef ætti að fara inn á jafnstórkostlega hækkun skattvísitölu, sem hér er talað um, — ég nota hugtakið skattvísitölu um þessa breytingu einnig, án þess að það sé nefnt í frv., en menn vita, hvað við er átt, þ. e. að miða við framfærsluvísitölu, — þá mundi það hljóta að rýra tekjustofna sveitarfélaga stórkostlega, þannig að það er a. m. k. atriði, sem er rannsóknarefni fyrir hv. n., sem fær þetta til meðferðar, hvort sveitarfélög gætu með nokkru móti risið undir slíkum tekjuskerðingum. Þetta tel ég nauðsynlegt að athuga.

Hv. þm. hefur rætt nokkuð um þær breytingar, sem orðið hafa á sköttum frá 1953, þar sem hafi verið innleitt nýtt kerfi í þessu efni, og vissulega gæti verið fróðlegt að íhuga það, hvort þessi framkvæmd á skattvísitölunni, eins og hún hefur orðið nú upp á síðkastið, hefur rýrt hag manna að því leyti, að þeir borgi meiri hluta af tekjum sínum í skatta og þá fyrst og fremst í skatta til ríkisins, vegna þess að hér er eingöngu um þá að ræða í þessum umr. en þá var, og ég skal aðeins nefna nokkur atriði til fróðleiks. Ég hef látið þar miða við tekjur Dagsbrúnarverkamanns, bæði einhleypings og hjóna með tvö og fjögur börn, og jafnframt hef ég tekið þrjú önnur dæmi miðað við eins og hálffaldar tekjur Dagsbrúnarverkamanns, tvöfaldar og þrefaldar tekjur. Ég er ekki að segja, að þetta hafi stórkostlega málefnalega þýðingu, og segi þetta ekki til að vekja neinar deilur, heldur aðeins til þess að menn átti sig á, hvaða breytingar hafi orðið í þessu efni. Ég vil aðeins geta þess, að ef við tökum tekjur Dagsbrúnarverkamanns miðað við 8 klst. vinnu á dag, þá greiddi einhleypur Dagsbrúnarverkamaður 1953 3.2% af tekjum sínum í skatt til ríkisins, en 1969 greiddi hann 1.9%. Hjón með tvö börn og sömu tekjur greiddu 1953 1.4%, en greiddu 1969 ekkert. Og hjón með fjögur börn greiddu 1953 0.7%, en greiða nú ekkert. Ef við tökum tvöfaldar tekjur Dagsbrúnarverkamanns, sem nú jafngilda 260 þús. kr. og tökum einhleyping, þá greiddi hann 1953 11.8% og 1969 11.9%, þannig að það er mjög hliðstæður skattþungi. Að vísu skal það tekið fram, sem gildir um allstóra hópa manna, að nú er skattfrjáls skyldusparnaður 15%, þannig að það er raunverulega verulega minni skattþungi nú, hvað þessu viðvíkur. Hjón með tvö börn og þessar tvöföldu tekjur Dagsbrúnarverkamanns greiddu 1953 6.6% af tekjum sínum í skatt, en 1969 3.5%. Og ef við tökum þreföldun Dagsbrúnartekna, þ. e. 390 þús. kr. tekjur nú, þá greiddi einhleypur maður 1953 um 20.1%, en 1969 16.9%. Hjón með tvö börn og þessar sömu tekjur greiddu 1953 18.1%, en núna 11.3%, og hjón með fjögur börn greiddu þá 1953 16.8%, en núna 8.4%, og má þá jafnframt hafa í huga í þessum tilfellum, að fjölskyldubætur hafa mjög hækkað. M. a. voru þær 1953 hvorki greiddar með fyrsta né öðru barni, en eru nú greiddar með öllum börnum. Þetta, held ég, að sýni það ljóslega, að skattþungi hefur lækkað mjög verulega, en ekki aukizt miðað við tekjur manna og hliðstæða útreikninga. Þetta er einnig nytsamlegt og gott að hafa í huga. Það breytir engu um nauðsyn þess, að sköttum sé í hóf stillt, en ég bendi á það, að beinir skattar af ríkistekjum þeim, sem ganga til beinna ríkisþarfa, eru ekki nú nema 10% af ríkistekjunum.

Ég held, herra forseti, að það sé ekki tilefni til þess að ræða þetta mál frekar, en vona, að ég hafi gert skil öllum þeim atriðum, sem máli skipta og það liggi a. m. k. ljóst fyrir, hver skilningur minn er varðandi hugtakið skattvísitala og skoðun varðandi þau atriði, sem hv. þm. vék að í sinni frumræðu.