30.10.1969
Neðri deild: 8. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

47. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins lýsa fylgi mínu við meginhugsun þessa frv. Það er hugsanlegt, að þessi mál mætti á annan veg hafa en hér er lagt til í frv., en meginhugsunin er sú, að skattar fylgi nokkurn veginn kaupgetunni. Þær tölur, sem hæstv. fjmrh. fór hér með í lok ræðu sinnar, ætla ég ekki að vefengja. En hann nefndi þar einnig, að fjölskyldubætur hefðu hækkað á þessu tímabili, sem um ræðir. En það mætti nú kannske líka spyrja, hvaða breytingar hafa orðið á óbeinum sköttum til ríkissjóðs á þessu tímabili? Ég hygg, að það séu ekki neinar smáfúlgur, sem þannig nú renna til ríkissjóðs, en gerðu það ekki árið 1953. Það væri rétt að hafa það svona í huga líka.

Ég held, að það hafi verið árið 1960 í sambandi við gengisfellingarráðstafanir og viðreisn og allt slíkt, að þá var skattal. breytt, þannig að tekjuskattur var lækkaður verulega á lágtekjufólki a. m. k., og var mikið um það talað þá, að lágtekjufólk bæri ekki neinn tekjuskatt. Það má segja, að það var svona nærri því. En þetta fór heldur betur á annan veg, þegar frá leið. Ég ætla ekki að rekja þá sögu, en það náði hámarki á árinu 1964, þegar segja má, að nálgazt hafi, að skattþegnar gerðu uppreisn, og rétt er, eins og sagt er í grg. þessa frv., að opinberir aðilar lögðu þá beinlínis til, að mönnum væri hjálpað með lánum til þess að greiða skatta sína. Síðan kemur svo skattvísitalan fyrir árið 1985, en á hinu tímabilinu var engin skattvísitala, og skattarnir urðu þar af leiðandi óbærilegir og hljóta að verða það, þegar verðlagsmál þróast á þann hátt, sem varð á því tímabili og einnig síðan. Eitthvað hefur áreiðanlega skattvísitalan haft jákvæð áhrif, þannig að launþegar hafi ekki farið eins illa út úr því og áður, en ég hygg, að það sé ekki langt frá því, að ef ekki verða verulegar breytingar hér á, muni koma að svipuðum hlutum og gerðust 1964, ef ekki verða verulegar breytingar á. Það er öllum kunnugt, að á síðustu tveimur árum hefur kaupmáttur launafólks farið mjög þverrandi.

Með gengisfellingunum fylgdu þær ráðstafanir, að launafólk átti að taka á sig að öllu leyti þær verðhækkanir, sem óhjákvæmilega voru fylgifiskur gengisfellinganna. Þetta hefur nú að vísu ekki gerzt. Verkalýðssamtökunum hefur tekizt að hamla þarna nokkuð á móti. En engu að síður hefur kaupmáttur rýrnað verulega samt sem áður, mismunandi mikið hjá hinum ýmsu hópum, en þegar til viðbótar kemur svo verulegt atvinnuleysi á þessu tímabili, þá hugsa ég, að það sé ekki langt frá því, að segja megi, að hjá almennu verkafólki hafa kaupmátturinn rýrnað um fimmtung til fjórðung á þessu tímabili. Það hefur hins vegar áreiðanlega ekki verið tekið tillit til þessara hluta í skattaálagningu, þannig að það er ekki aðeins, að kaupmátturinn hafi rýrnað gagnvart vöruverði, heldur og hefur líka verið tekinn stærri hlutur af laununum en áður til skatta. Auðvitað hefði, ef eitthvert vit hefði átt að vera í þessum ráðstöfunum, borið jafnframt að sjá til þess, einmitt með skattaráðstöfunum, að a. m. k. hinir lægra launuðu í hópi launþega fengju verulega bættan hlut sinn. En það öfuga hefur gerzt.

Ég segi, eins og hér hefur verið sagt, að maður hefur verið svona að reyna að spyrjast fyrir um skattvísitölu á ýmsum tímum. Kannske hef ég sjaldnast eða aldrei farið til þess, ég held eina manns, sem getur gefið svör um skattvísitöluna, og það er hæstv. fjmrh. Ég hef eins og frummælandi þessa máls spurt bæði hagstofustjóra, og það fyrir ekki löngu síðan, ríkisskattstjóra á nefndarfundi um skattamál, og hann færðist algerlega undan að svara nokkru um skattvísitölu, algerlega. Og það er ekki í fyrsta sinn. Það nær náttúrlega engri átt að hafa ekki fyllri reglur um skattvísitölu eða réttara sagt að hafa ekki reglur, því að nú eru í rauninni engar reglur um skattvísitölu, sem á að sjá svona nokkurn veginn fyrir hag skattgreiðendanna í svona verðbólguþróun. Það auðvitað nær engri átt. Það getur verið mikið matsatriði, hvernig þessi vísitala á að vera úr garði gerð og á hvað hún á að verka. Það getur áreiðanlega líka verið matsatriði.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að hann væri ekki þeirrar skoðunar, að skattvísitölur ætti að nota til þess að vega upp minni kaupmátt. Þetta er sjónarmið út af fyrir sig. En hún má þó ekki verða til þess að lækka kaupmáttinn. Það hefur nú gerzt. Hún hefur nú beinlínis gert það. Það getur verið ákaflega þægilegt fyrir stjórnvöld á svona breytilegum tímum, eins og nú eru, að geta sagt það, að fjárlög séu afgreidd með óbreyttum sköttum. En hæstv. fjmrh. játaði það hér áðan, að skattvísitalan var notuð s. l. ár a. m. k. til þess að geta haldið svokölluðum óbreyttum sköttum. Ef skattvísitala hefði verið í gildi, sem hefði tekið tillit til þeirrar verðþróunar, sem orðið hefur í landinu á s. l. ári, þá hefði að hans dómi orðið að hækka skatta og leggja á auknar álögur. Ég álít, að skattvísitala megi ekki verka á þennan hátt, hreint ekki.

Það er náttúrlega ekki nema að mjög litlu gagni, sem þetta mál kæmi, ef það tæki ekki til útsvaranna líka. Það er ekki aðeins tekjuskatturinn, sem það á að taka til, og það er alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. tók fram áðan, að það verður að gera ráð fyrir því, að skattvísitalan verki á útsvörin. Þau eru fyrst og fremst sú byrði, sem launafólk stendur undir. Það er síður tekjuskatturinn, nema þegar í hærri flokka kemur og að þeim, sem þá eiga betra með að standa undir hærri gjöldum. Ég held, að ef á annað borð skattvísitala á að miðast við vísitölu, og það er erfitt að hafa ekki þá viðmiðun, þá sé það vöru- og þjónustuliður vísitölunnar, sem hún á að miðast við. Skattvísitala á fyrst og fremst að koma launafólki og þá alveg í fremstu röð þeim lægst launuðu að gagni. Á slíkum breytingatímum, eins og verið hafa tvö s. l. ár, hafa matvörur og aðrar brýnustu nauðsynjar fólks hækkað meira en annað og það er hækkað fyrst af öllu. Fólk með lágar tekjur nýtir laun sín að mjög stórum hluta til kaupa á nauðþurftum. Einmitt með það í huga verður einnig að nota verðlagið á þessum vörum fyrst og fremst til viðmiðunar við skattvísitölu. Ég held þess vegna, að það eigi að taka mið af henni. Það getur síðan alltaf verið álitamál, hvernig á að byggja þessi mál upp, og ég er ekki alveg kominn til með að segja það.

Ég vil svo að lokum endurtaka það, að ég lýsi fullri samstöðu minni með meginhugsun þessa frv.