13.11.1969
Neðri deild: 14. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

63. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Það er nú eðli málsins samkvæmt, að það er skemmtilegra að vera talsmaður þess að minnka skatta en að vera andvígur því, þannig að hlutskipti mitt hér í ræðustólnum verður nú af þeirri ástæðu kannske nokkuð óþægilegra en hv. síðasta ræðumanns, og 1. flm. þessa frv.

En því miður þá er dæmið töluvert flóknara en hv. þm. vildi hér vera láta í ræðu sinni, og fór hann að vísu mjög hófsamlegum orðum um málið, og hef ég ekkert út á málflutning hans að setja að því leyti, en því miður fæ ég ekki séð og hann fær naumast séð það sjálfur, ef hann skoðar það niður í kjölinn, hvernig í ósköpunum á að láta þetta gerast, án þess að það hafi veruleg áhrif á fjárhagsafkomu ríkissjóðs og í rauninni geri annað ókleift með öllu en að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög eða þá að hækka verulega skatta að öðru leyti. Hann sagði að vísu, að úrræðið í þessu efni væri það að hækka meir söluskatt á öðrum vörutegundum. Það er langt síðan horfið var frá þeirri aðferð hér á Íslandi og er raunar ekki fylgt í mörgum löndum, ég held mjög fáum nú orðið, að hafa mismunandi söluskatt, og það byggist m. a. á því, að það gerir allt söluskattseftirlit margfalt erfiðara, og raunar er það svo, að ýmis þau undanþáguákvæði, sem nefnd eru í þessu frv., hvað þá ef ætti að fara lengra í þessum efnum með fleiri vörutegundir, eru þess eðlis, að það væri illgerlegt eða raunar næstum ógerlegt að hafa eftirlit með, hvort söluskattsframtöl væru rétt eða ekki, þar sem um blandaða sölu á vörum væri að ræða. Þetta væri hægt að hugsa sér hjá fyrirtækjum, sem hafa eingöngu eina vörutegund til sölu með ákveðinni söluskattsprósentu, þó að hún væri mismunandi, en þar sem um blandaða sölu er að ræða í flestum tilfellum, þá er þetta ekki framkvæmanlegt.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, sem hefur reyndar komið fram hér á hinu háa Alþ. áður, að miðað við það, hve söluskattur er hár tekjustofn, ber að sjálfsögðu brýna nauðsyn til þess að byggja hann upp á þann hátt, að það sé hægt að innheimta hann svo að segja áfallalaust. Það hygg ég, að allir séu sammála um. Hér er um innheimtufé að ræða, sem verður að leggja áherzlu á, að skili sér. Það er auðvitað ekkert efamál, að einhver vanhöld eru á skilum á söluskatti. Þó hafa þau vanhöld tvímælalaust minnkað mjög verulega á síðustu árum, og þar sem nú getur staðið fyrir dyrum að hækka söluskattinn töluvert, ef kæmi til aðildar okkar að EFTA og tollalækkunum í því sambandi, þá er það nokkurt áhyggjuefni að koma á svo virku söluskattseftirliti, að þessi nýi tekjustofn skili sér sem bezt, því að tilhneigingin til undanskots verður að sjálfsögðu því meiri, sem þessi fjárhæð er hærri. Og mér þykir ekki ólíklegt, að það verði niðurstaðan, þegar söluskatturinn er orðinn töluvert hærri en hann er nú, að það verði a. m. k., eins og ég sagði í fjárlagaræðunni í fullkominni alvöru, að athuga það, hvort ekki verði nauðsynlegt að breyta söluskattinum yfir í virðisaukaskatt, og ég held, að það sé talið óhugsandi með öllu að hafa mismunandi prósentur í sambandi við virðisaukaskatt, það sé ekki framkvæmanlegt.

Af þessum sökum held ég, hvort sem menn telja það til góðs eða ills, að það sé ekki fær sú leið, sem hv. þm. benti á, að mismuna í álagningu söluskatts hinum ýmsu vöruflokkum, heldur verði að fara þá leið, þar sem það er talið fært, að undanskilja einstaka vöruflokka alveg. Það mundi geta gengið tæknilega séð að vissu leyti með sumt af þessum vörum, sem hér er um að ræða, en í sumum tilfellum alls ekki, vegna þess að það er um blandaða sölu að ræða í hinum ýmsu verzlunum, og slíkt mundi leiða til þess eftirlitsleysis, sem ég gat um áðan, að væri ófært, að ætti sér stað.

Það kann vel að vera og um það skal ég engu spá enn, að það þurfi að kanna enn þá betur, hvort hugsanlegt sé að undanþiggja einhverjar vörutegundir söluskatti, eftir að hann hækkar verulega. Það tel ég ekki tímabært að ræða og vil því ekki fara inn á þá sálma, en aðeins almennt láta koma fram þessar hugleiðingar um þetta mikilvæga atriði. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. hefur fengið þá tölu, að þessar till. þeirra félaga muni minnka tekjur ríkissjóðs á ársgrundvelli um, að mig minnir, 265 millj. kr. Eftir þeim tölum, sem ég hef hér fyrir mér, er talið, að þetta muni minnka tekjurnar á ársgrundvelli um 363 millj. Og þar er lögð til grundvallar neyzlustatistik þjóðhagsreikninga Efnahagsstofnunarinnar og söluskattsstofninn 1968. Að það leiði til einhvers sparnaðar fyrir ríkissjóð, þó að það leiði til vísitölulækkunar, sem nemi á 2.%, þá veit ég, að hv. þm. er það vel ljóst, að það verður um svo lítilfjörlegan sparnað að ræða, að það skiptir sáralitlu máli. Það mundi koma fram í launagreiðslum ríkissjóðs sparnaður upp á milli 30–40 millj. eða eitthvað slíkt, en það stæðu þá eftir tekjutap, — við skulum fara bil beggja milli þess, sem okkar áætlanir segja, — upp á nærri 300 millj. fyrir ríkissjóð.

Ég verð því á þessu stigi málsins að leggjast eindregið gegn þessu frv. af þessum tveimur ástæðum, annars vegar því, að hér er um tekjumissi að ræða, sem er svo mikill, að það er engin leið að missa af þeim tekjum nema afgreiða greiðsluhallafjárlög, og einnig að hinu leytinu til, tel ég ekki þá leið færa, sem hv. þm. benti á, að undanþiggja ýmsar þessar tegundir, af framkvæmdaástæðum og að söluskattur, sem verði mismunandi á einstakar vörutegundir, leiði til þess, að það verði illmögulegt að hafa nokkurt viðhlítandi eftirlit með innheimtu söluskatts, og það veit ég, að hv. þm. er mér algerlega sammála um, að megi ekki gerast. Og það er einmitt þessi hætta, sem við stöndum nú andspænis við verulega hækkun söluskattsins, að tilhneigingin til undanskots verði ríkari og því meiri nauðsyn er, að við höfum framkvæmdina svo einfalda í sniðum, að hún leiði ekki til þess að gera eftirlitið torvelt eða í ýmsum tilfellum óframkvæmanlegt.

Varðandi þörf fólks á því að fá lækkað vöruverð, þá getum við hv. þm. verið alveg sammála um það, og út í þá sálma skal ég ekki fara. Staðreyndin er sú, að ríkið þarf á tekjum sínum að halda, og það þekkir hv. þm., sem verið hefur lengst manna í fjvn. hér, hvaða vanda þar er við að glíma, og ég held, að það sé kannske nokkuð langt gengið hjá hv. þm. og flokksbræðrum hans hér jafnhliða því, sem fæst tækifæri eru látin ónotuð til að deila á ríkisstj. og þá ekki sízt mig fyrir það, að það sé dregið úr framlögum til ýmissa nauðsynjamála, að ætla með tveimur frv. að skerða tekjur ríkissjóðs um 600 millj. kr. á einu ári. Það held ég, að sé nokkuð langt gengið og það verði naumast talið óeðlilegt a. m. k., þó að ég hreyfi nokkrum andmælum við þeirri rausn í þá áttina.