24.11.1969
Neðri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (2624)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Án þess að ég ætli að mótmæla neinu, sem fram kom í framsöguræðu hv. 9. landsk. þm., þá tel ég, að rétt sé, að ég gefi nokkrar nánari upplýsingar um þetta mál en fram kom í ræðu hans.

Í sjálfri grg. þessa frv. segir, að sameiningarnefnd sveitarfélaga telji sér ekki fært að beiðast þess, að rn. flytji frv. um sameiningu Flateyjarhrepps og Húsavíkur, af því að ágreiningur sé um málið í héraði. Og frv. það til l., sem nú liggur fyrir Alþ. í Ed., um sameiningu sveitarfélaga, gerir ráð fyrir því, að sameining fari ekki fram, nema því aðeins að um slíkt sé nokkurt samkomulag í héraði og reynt sé í lengstu lög að ná um þau atriði samkomulagi, m. ö. o., að sneitt verði hjá því að beita þvingun í þessu efni. Nú liggur það fyrir á fskj. með þessu frv., að sýslunefndin í Suður-Þingeyjarsýslu hefur lagt á móti því á þessu stigi málsins, að þessi tvö sveitarfélög verði sameinuð. Það liggur því ekki fyrir, að sýslunefndin í Suður-Þingeyjarsýslu hafi beðið um, að þetta frv. yrði flutt, og það sést ekki heldur neins staðar hér í skjölum eða heyrist í framsögu, að bæjarstjórnin í Húsavíkurkaupstað hafi heldur um það beðið og allra sízt Flateyingar sjálfir. Ég er ekki með þessu að segja, að það sé nein fjarstæða að sameina Húsavíkurhrepp og Flateyjarhrepp. Það má vel vera, að það verði niðurstaðan, að það sé skynsamlegt. En það liggur ákaflega lítið fyrir um það, hvað Húsavíkurkaupstaður hugsar sér að gera, ef hann yfirtekur þetta gamla sveitarfélag eða raunar ekki nokkur skapaður hlutur.

En hvernig standa þá þessar sakir heima fyrir? Haustið 1967 fluttust íbúar Flateyjarhrepps til lands og tóku sér vetursetu á Húsavík. Þetta voru fimm fjölskyldur og þar að auki nokkrir einhleypingar. Orsökin til þess, að íbúarnir fluttust í land, var fyrst og fremst sú, að þeir gátu ekki fengið kennara handa börnum sínum úti í eynni, vegna þess, að börnin voru of fá. Það hafði staðið í erfiðleikum nokkur ár, og fræðslumálayfirvöldin hér í Reykjavík höfðu gert undanþágu með það að veita þeim kennara, en nú þótti það ekki lengur fært. Og þegar þannig var komið, töldu íbúarnir sér óumflýjanlegt að fylgja börnunum til lands til þess að sjá um þau í skólagöngu á Húsavík. Og um leið og þeir voru komnir í land, var gerð krafa um það, að þeir flyttu einnig heimilisfangið. Þannig atvikaðist það, að eyjan fór í eyði haustið 1967 og var mannlaus um veturinn fram í marzmánuð. En þá fluttust flestar fjölskyldurnar út aftur, sem þar höfðu búið áður, og héldu áfram við útgerð sina frá eynni, eins og þær höfðu áður gert. Og þannig hefur þetta verið í tvö ár. Fólkið hefur verið úti í ey á sumrin, en í Húsavík á veturna með heimilisfangið á Húsavík, af því að það var gerð krafa um það til þess, að það ætti þar heima. En hins vegar hefur þetta fólk haft og tekið hér um bil allar sínar tekjur eða a. m. k. meginhlutann af þeim með útgerð úti í eyju, og það hafa verið miklar tekjur.

Þetta fólk á íbúðarhús úti í eyju, og það á þar líka verbúðir. Í eyjunni standa á milli 10 og 20 íbúðarhús, sum góð, sum léleg, og allt þetta verðmæti hlýtur að grotna niður og verða að engu, ef byggð leggst niður í eyjunni. Áður en þessi milliflutningur varð, hafði útflutningur á sjávarafurðum úr eyjunni numið um 5–6 millj. árlega, og þar voru lítil áföll, vegna þess að útgerðarkostnaður var svo að segja enginn. Og ég vil álíta, að þessi framleiðsla í Flatey hafi sízt minnkað, síðan þessir tilflutningar urðu.

Ríkissjóður á Flatey, og þar eru fjórar bújarðir. Á eynni er æðarvarp allmikið og mikið kríuvarp, og þar að auki er margt annarra fugla þar. Æðarvarpið í Flatey hefur hin síðari ár farið vaxandi, þvert á móti því, að annars staðar hefur æðarvarp yfirleitt minnkað, og það stafar af því, að um það hefur verið hirt sérstaklega vel. Ef fólk hættir að vera í eyjunni, a. m. k. yfir sumartímann, mun fara svo, að æðarvarpið hverfi úr sögunni, því að slíkt gerist alls staðar, þar sem mannshöndin er ekki til þess að hlúa að. Ég hygg, að þar hafi verið hin síðari ár í kringum 30 kg af dún, sem gerir um það bil nettó 100 þús. kr. a. m. k., eins og nú hagar verðlagi á þeirri vöru. Hafnargerð er nýlega lokið í eyjunni, eins og við vitum, og er þar nú ágæt höfn. Á vorin og sumrin er þarna margt báta að veiðum frá öðrum stöðum, einkum frá Eyjafirði, til að mynda Hrísey, og leggja þeir upp aflann að sumu leyti í eynni. En aðalframleiðsla eyjarbúa hefur verið hin síðari ár grásleppuhrogn yfir vortímann og annar fiskur á sumrin,og hafa Flateyingar saltað hvort tveggja og gert því full skil til útflutnings sjálfir.

Á meðan Flateyingar héldu heimilisfangi sínu í eynni, voru þeir á meðal tekjuhæstu íbúa Suður-Þingeyjarsýslu að meðaltali, ef ekki tekjuhæstir allra. Þetta sýnir það, að það er mjög gott að bjargast í eyjunni, ekki sízt eins og nú er komið með tilkomu hafnarinnar. Og það er mjög auðvelt fyrir fólk að flytjast út í eyju og setjast þar að við þau skilyrði, sem þar eru fyrir, þar sem eru íbúðarhús, verstöðvar og höfn. Þar með er ég ekki að segja, að þetta verði, en talið hefur verið, að þetta væri ekki útilokað hingað til, og þar af m. a. mótaðist afstaða sýslunefndarinnar í Þingeyjarsýslu á síðasta sýslunefndarfundi.

Til samanburðar má geta þess, að hlutir eru ekki mjög lengi að breytast í þessum efnum, þó að straumurinn virðist að vísu liggja þannig nú um sinn, að fólk vilji ekki búa í úteyjum, þó að þar séu ágæt afkomuskilyrði, þá t. d. hjó ég eftir því í fréttum nýlega, að tvær fjölskyldur hefðu flutzt út í Flatey á Breiðafirði í haust til þess að setjast þar að, vegna þess að þar þóttu svo ákjósanleg skilyrði til að bjargast. En sem sagt, þetta mál er á því stigi, að ég álít, að það sé ekki rétt að ráða því rakleiðis til lykta nema í fullu samráði við héraðsbúa sjálfa, bæði sýslunefndina í Suður-Þingeyjarsýslu og Húsavíkurkaupstað, sem að vísu hefur lýst yfir, að hann taki við eyjunni, en við vitum ekki á þessari stundu, hvað bæjarstjórnin þar hugsar sér að gera með eyjuna, t. d. varðandi varpið. Í þessu á ekki að felast nein tortryggni í garð bæjarstjórnarinnar, en um allt þetta þurfum við þingmenn að hafa einhverja meiri vitneskju, áður en við getum ákveðið það að styðja þetta frv. Og ég sé ekki neitt aðkallandi að ráða þessu endilega til lykta nú án samráðs við héraðsbúa. Rök þau, sem helzt hafa verið fram borin því til stuðnings, eru, að eyjan kunni að verða skálkaskjól fyrir menn, sem vildu dveljast þar og komast undan sköttum annars staðar, en ég held, að það hafi ekki við mikið að styðjast, a. m. k. verkar það ekki sannfærandi á mig miðað við þann kunnugleika, sem ég hef á þessum málum.