24.11.1969
Neðri deild: 17. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, þá stend ég að flutningi þessa frv., vegna þess að þetta mál er auðsjáanlega þá og þegar komið í sjálfheldu. Sameiningarnefnd sveitarfélaga telur sig ekki geta sameinað hreppa, nema samkomulag sé á milli viðkomandi aðila, en að liðnum maímánuði næsta vor verður engin hreppsnefnd, sem getur fjallað um málið fyrir Flateyjarhrepp. Hún flytur ekki og hefur ekki beðið um flutning á þessu frv. af þeim sökum, að Húsavíkurkaupstaður og Flateyjarhreppur eru ekki sammála um málið, en eins og ég segi, þegar kemur fram á vorið, verður ekki við neinn aðila að eiga, hvað Flateyjarhrepp snertir. Það verður ekki hægt að kjósa þar hreppsnefnd á vori komanda, vegna þess að það er enginn maður í Flatey. Þar eru að vísu 5 taldir búsettir, en 4 eru á Kópavogshæli og einn á Kristneshæli, og orðinn svo farinn að heilsu, að hann mun ekki skipta sér af hreppsnefndarmálum í Flatey.

Það kom fram í ræðu hv. 11. landsk. þm., að búseta hefði lagzt niður í Flatey, vegna þess að þar hefði ekki verið hægt að fá kennara til þess að sjá um barnafræðslu, en það er meira en það. Þarna er ekki nægilegt skólarými til þess að annast skyldunám, og ég hygg, að allir, sem þekkja þarna til, viti það, að það mun varla verða komið upp slíkri aðstöðu í Flatey, nema þar verði fjölmennari búseta en verið hefur, áður en þessi flutningur hófst í land.

Hér var áðan verið að geta um það, að Húsavíkurkaupstaður vildi nú að vísu taka að sér framfærsluskuldir Flateyjarhrepps, og það er rétt. Það kemur fram af bréfum eða svari bæjarstjórans á Húsavík við fyrirspurnum sameiningarnefndarinnar. Hins vegar kemur það ekki fram af svari sýslunefndar. Hún segir aðeins, að hún óski eftir því, að sýslumanni Þingeyjarsýslu verði falin umsjón Flateyjarhrepps og meðferð eigna hans um næstu 5 ár. Þess vegna liggur það á borðinu, að ef ekkert er gert í þessu máli af hálfu löggjafans, þá verður Flatey á Skjálfanda utan lögsagnarumdæmis nokkurs sveitarfélags eftir lok maí næsta vor, enginn aðili til að sjá um framfærslu þá, sem hvílir þar á, og enginn heldur löglegur aðili, að manni virðist, til að sjá um eignir hreppsins. Umboð þeirra, sem nú eru sveitarstjórnarmenn í Flatey, rennur út í maílok n. k. Af þessum sökum tók ég að mér að „hengja bjölluna á köttinn“, af því að enginn aðili virtist vilja hafa forgöngu um þetta.