21.04.1970
Neðri deild: 79. fundur, 90. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (2632)

93. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Frsm. meiri hl. (Unnar Stefánsson) :

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hv. d. hefur fjallað um frv. þetta um stækkun lögsagnarumdæmis Húsavíkurkaupstaðar. Það var sent til umsagnar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, sem mælir eindregið með samþykkt þess. Efni frv. er í stuttu máli það, að eyjan Flatey á Skjálfanda verði lögð til Húsavíkurkaupstaðar. N. þótti ekki ástæða til að leita umsagnar bæjarstjórnarinnar á Húsavík né sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu, með því að umsagnir beggja þessara aðila lágu þegar fyrir.

Svo er háttað um Flateyjarhrepp fyrrverandi, að allir íbúar hreppsins hafa flutt búferlum úr Flatey, en það var eini byggði hluti hreppsins. Á skrá eru engu að síður 5 íbúar, og munu flestir vera vistmenn á hælum. Framundan eru í vor, svo sem kunnugt er, kosningar sveitarstjórna, og það verður að teljast í hæsta máta óeðlilegt, að fyrir landi eins og Flatey sé engin forsjá, engin sveitarstjórn. Það er því lagt til, að eyjan Flatey leggist til Húsavíkurkaupstaðar. Bæjarstjórnin hefur í umsögn, sem birt er með frv., tjáð sig reiðubúna til þess að taka við framfærslu þeirra þurfamanna, sem nú eiga búsetu í eynni, en lýsir því jafnframt yfir, að hún telur eignir og skuldir Flateyjarhrepps og Flateyjarhafnar sér með öllu óviðkomandi. Sýslunefndin taldi hins vegar í umsögn sinni, að ekki bæri að taka ákvarðanir um framtíðarráðstöfun hreppsins og eyjarinnar, meðan óljóst væri um búsetu í Flatey. Þegar sýslunefndin tók þá afstöðu, höfðu íbúar Flateyjar haft vetursetu einn vetur á Húsavík, og þótti þá ekki ráðið, hvort íbúarnir hyrfu til baka út í eyna til framtíðarbúsetu þar. Nú þykir hins vegar ljóst, að ekki séu á því líkur, að eyjan Flatey byggist á ný, og verður því að telja eðlilegt, að þessu landssvæði sé ráðstafað með þeim hætti, að það lúti einhverri sveitarstjórn. Heilbr.- og félmn. varð ekki sammála um þessa afgreiðslu, en meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ.